Hjartaáfall verður oftast vegna mikilla þrengsla í kransæðum eða/og myndunar blóðtappa. Blóðstreymi verður þá of lítið á vissu svæði og veldur mjög skert blóðstreymi blóðþurrð, súrefnisskorti og hjartadrepi eða skemmd í hjartavöðvanum. Slíkt getur svo leitt til alvarlegra truflana á hjartsláttatíðni og skyndilegs hjartadauða. Efni í jurtaveig úr hvannafræjum geta haft jákvæð áhrif á ýmsa þætti í þessu ferli og styrkt forvarnir gegn kransæðasjúkdómum. Tilsvarandi þrengsli og æðastíflur í heila geta valdið heilaskaða (slagi).
Ætihvönnin hefur náttúruefni sem ein sér eða fleiri saman hafa áhrif á æðakerfið. Mörg þessara efna eru einnig í algengu grænmeti og ávöxtum. Flavonoidar er stærsti flokkur þessara jurtaefna. Faraldsfræðilegar rannsóknir hafa sýnt að neysla á grænmeti og ávöxtum hefur dregið úr tíðni hjartasjúkdóma, heilablóðfalls og háþrýstings. Nýlegar rannsóknir benda til þess að náttúruefni í þessum fæðutegundum geti haft mjög jákvæð áhrif, efnin hafi andoxunarvirkni, hafi jákvæð áhrif á æðaþelið og á blóðflögur o.fl. En fleiri efni eru að verki svo sem fúranókúmarín sem hafa verið vanmetin. Mörg þessara lífvirku efna eru einnig í ýmsu öðrum jurtum, þar á meðal eru: sellerí (blaðselja), gulrætur, parsley (steinselja), epli og eplasafi, bláber, salat, spínat, agúrkur, hafrar, hvítkál o.fl.
Hér er stutt samantekt á nokkrum lífvirkum efnum í hvönn og skyldum jurtum og áhrifum þeirra á hjartað og æðakerfið:
Efni sem slaka á æðaveggjum, víkka æðar og auka blóðstreymið (imperatorin o.fl. fúranókúmarín) (1).
Auka blóðstreymi um kransæðar hjartans. Kransæðasjúkdómar einkennast af skertu blóðstreymi vegna æðaþrengsla af völdum æðakölkunar. Æðakölkun er flókið ferli þar sem nokkrir þættir leika viðamikil hlutverk svo sem þrálátar bólgur í æðaveggjum, hátt blóð-kólesteról (LDL), reykingar og hár blóðþrýstingur.
Ýmis fúranókúmarín efni sem eru í ætihvönn (Angelica archangelica) hafa þau áhrif að draga úr kalsíum flæði (Calcium antagonistic activity) inn í sléttar vöðvafrumur æðaveggja og slaka þannig á samdrætti vöðvafruma í æðaveggjum og víkka út æðarnar, lækka blóðþrýsting og auka blóðstreymi til hjartans. Hemlun á kalsíum streymi í frumum getur einnig dregið úr verkjum og enn fremur veitt róandi áhrif.
Efni sem draga úr samloðun á blóðflögum og minnka hættu á blóðtappamyndun (fúranókúmarín) (2).
Þessi efni draga úr samloðun á blóðflögum og minnka hættu á myndun blóðtappa í hjarta (kransæðastíflu). Önnur náttúruefni sem minnka hættu á blóðtappamyndun eru omega-3 fitusýrur í lýsi og fiski.
Efni sem draga úr bólgum og hættu á æðakölkun (fúranókúmarín) (3).
Draga úr bólgum og æðakölkun. Þrálátar bólgur í æðaveggjum eru m.a. taldar eiga þátt í æðakölkun og hjarta- og æðasjúkdómum. Sýnt hefur verið fram á að imperatorin o.fl. fúranókúmarín í hvönn hindra prostaglandin E2 framleiðsluna úr arachidon sýru. Imperatorin dregur einnig úr bólgum með því að hindra virkni ensíma, COX-1 og Cox-2 og 5-lipoxygenasa og prostaglandin synthasa. Önnur bólgueyðandi efni eru xanthotoxin og osthole. Imperatorin hindrar jafnframt T-frumu fjölgun en þessar frumur eru virkar í bólgumyndun. Margir flavonoidar í jurtunum hafa svipuð bólguhemjandi áhrif og kúmarín efnin.
Efni sem draga úr kvíða og streitu (fúranókúmarín)(4).
Eru kvíðastillandi og draga úr áhrifum streitu. Imperatorin og isoimperatorin eru fúranókúmarín sem hafa kvíðastillandi áhrif. Efni sem draga úr ofstækkun hjartans eða cardiac hypertrophy sem oft er samfara hjartabilun (fúranókúmarín) (5,6).
Áhersluatriði:
Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsök á Íslandi.
Áhættuþættir:
Ofneysla sykurs og fitu, hreyfingaleysi, hár blóðþrýstingur, reykingar, streita og öldrun eru algengustu áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma.
Forvarnir:
Heilnæm fæða, aukin hreyfing og lífsstíll sem dregur úr áhættu styrkir forvarnir. Jurtaveigar með náttúruefnum sem styrkja forvarnir gegn hjarta- og æðasjúkdómum er unnt að framleiða úr ýmsum jurtum, m.a. úr ætihvönn.
Áhrifin eru: lækkun á blóðfitu, slökun á æðaveggjum, víkkun á æðum og aukið blóðstreymi, lækkun á blóðþrýstingi. Draga úr hættu á myndun blóðtappa og úr bólgum í æðum sem geta aukið æðakölkun. Draga úr kvíða og streitu.
Heimildir:
1. Imperatorin is responsible for the vasodilatation activity of Angelica Dahuria var. Formosana regulated by nitric oxide in an endothelium dependent manner. Nie H, Meng LZ, Zhou JY, Fan XF, Luo Y, Zhang GW. Chin. J. Integr. Med. 2009; 15(6): 442-447.
2. Coumarins and antiplatelet aggregation constituents from Formosan Peucidanum japonicum. Chen IS. et al. Phytochemistry 1996; 41: 525-530.
3. Isolation, Identification and Screening for COX-1 and 5-LO-Inhibition of Coumarins from Angelica archangelica. Roos G, Waiblinger J, Zschocke S, Liu JH, Klaiber I, Kraus W, Bauer R. Pharm. Pharmacol. Lett. 1997; 4: 157-160.
4. Furanocoumarins with affinity to brain benzodiazepine receptors in vitro. Bergendorf O. et al. Phytochemistry 44: 1121-1124, 1997.
5. Furanocoumarins-imperatorin inhibits myocardial hypertrophy both in vitro and in vivo. Zhang Y, Cao Y,Zhan Y, Duan H, He L. Fitoterapia 2010: 81(8); 1188-1195.
6. Fúranókúmarín geta hindrað ofstækkun hjartans (myocardial hypertrophy) sem er oft samfara hjartabilun.
Sigmundur Guðbjarnason Prófessor emeritus
Flokkar:Næring