ÞRENNDARTAUGARVERKUR (trigeminal neuralgia)

Þrenndartaugin (nervus trigeminus) er stærsta andlitstaugin, andlitstaug V (fimm). Eldra nafn hennar er þríburataug og það er hún enn kölluð í orðasafni líffræðinga þótt skipt hafi verið um nafn í orðasafni læknisfræði. Hvorum megin um andlitið liggur þrenndartaug. Taugin kemur úr heilastofni, liggur órofa uns hún greinist úr þrenndarhnoða, sem er innan höfuðkúpunnar á móts við mitt eyra.

trenndartaug_skyringarmynd

Efsta greinin, augntaug (nervus ophthalmicus), stjórnar skynjun í höfuðleðri, enni og framhluta höfuðs. Miðgreinin, kinnkjálkataug (nervus maxillaris), stjórnar skynjun í kinn, efri kjálka, efri vör, efri tanngarði og efri gómi, ásamt hálfu nefinu. Neðsta greinin, kjálkataug (nervus mandibularis) stjórnar skynjun í neðri kjálka, neðri tanngarði, neðri gómi og neðri vör. Kjálkataugin stjórnar líka hreyfingu átta andlitsvöðva, þar af er stóri kjálkavöðvinn kannski mikilvægastur.

Þrenndartaugarverkur eða trigeminal neuralgia, hér eftir skammstafað TN, hefur um aldir verið þekktur sjúkdómur. Óstaðfestar sagnir herma að TN (og líka ódæmigerður þrenndartaugarverkur) hafi verið kallaður „sjálfsvígssjúkdómurinn“ fyrir daga lyfja og læknisaðgerða því fólk fyrirfór sér frekar en að lifa við verkina. Yfirleitt fær fólk TN aðeins öðrum megin í andlitinu en í örsjaldgæfum tilvikum getur TN kviknað báðum megin. Þrenndartaugarverkur er einstaka sinnum kallaður mjög misheppnuðu íðorði sem er vangahvot (hk-orð). Kóðinn og lýsandi orð fyrir þrenndartaugarverk í ICD-10, þeim sjúkdómsflokkunarstaðli sem notaður er m.a. á Íslandi, er einmitt G.50 Vangahvot.

HVERNIG LÝSIR TN SÉR?

Dæmigerður þrenndartaugarverkur lýsir sér sem ógurlegur sársaukastingur í andliti, þar sem skaddaður hluti þrenndartaugar eða taugar út frá henni liggur. Sumir lýsa þessu eins og flugbeittur sýll sé rekinn djúpt í andlitið eða ofan í tennur, aðrir tala um mjög sáran verk sem virðist fylgja rafstraumur, enn aðrir um ofboðslega brunatilfinningu. Verkurinn getur orðið svo sár að sjúklingurinn stendur ekki undir sjálfum sér. Og í fræðigreinum um TN er oft nefnt að þetta sé einn sársaukafyllsti úttaugasjúkdómur sem þekkist.

TN_sarsauki_mismunandi_greinar

Þessi ofboðslegi verkur getur varað frá nokkrum sekúndum upp í nokkrar mínútur og svo gefst (mislangt) hlé milli sársaukakastanna. En verkjaköstin geta líka komið hvert á eftir öðru og svo kemur stutt hlé (kannski eftir tvær klukkustundir eða svo), þau geta líka komið nánast stanslaust án þess að sjúklingurinn skynji neitt hlé á milli. Í verstu tilvikum eru sjúklingar rúmliggjandi.

Ýmist áreiti getur framkallað TN-kast. Má nefna sem dæmi: Tal, tygging, tannburstun, rakstur eða kaldur vindgustur í andlit.

Ódæmigerður þrenndartaugarverkur, ATN (atypical trigeminal neuralgia), lýsir sé að mörgu leyti eins og TN en er hins vegar viðvararandi, þ.e.a.s. sjúklingurinn er með þennan verk allan vökutíma sinn. Sagt er að ATN sé yfirleitt ekki eins sárt og TN-köstin. Í verstu tilvikum er ATN sami hryllingurinn og TN, þ.e. ofboðslegur sársauki (brunatilfinning og rafleiðni) allan vökutímann.

ORSAKIR TN

Mismunandi kenningar um orsakir TN hafa verið settar fram. Sú skýring sem nú er vinsælust er að liggi slagæð ofan á þrenndartauginni þar sem hún kemur út úr heilastofni geti æðin, með slætti sínum, smám saman eytt mýlinu (taugaslíðrinu) af tauginni og það sé orsök TN. Ekki eru allir sammála þessari kenningu. Sýnt hefur verið fram á að fólk með svona æðasamslátt er ekki með TN og að fólk með dæmigert TN sé ekki með svona æðasamslátt. En líklega er æðasamslátturinn oft orsök.

Þekkt er að TN getur kviknað eftir ristil-sýkingu. Þá hefur hlaupabóluveiran (herpes zoster), sem blundar í flestum, náð sér á strik og veldur ristlinum. Ristill eru sársaukafullar smáblöðrur sem geta komið fram hvar sem er á líkamanum. Eftirköst ristils geta verið langvinnir taugaverkir og hafi hann komist í andlit er aukin hætta á taugaverkjum.

Þekkt eru tengsl milli MS (heila- og mænusiggs) og TN. Þau tengsl eru ekki sterk en dæmin eru nægilega mörg til að vita af þeim.
Mögulegt er að þrenndartaugin hafi skaðast, t.d. í slysi eða hjá tannlækni. Þegar teknir eru jaxlar, einkum endajaxlar, þarf að vera vel á varðbergi til að skaða ekki óvart þrenndartaugina því þá kann sjúklingurinn að sitja uppi með TN eða ATN það sem eftir er ævinnar.

Og loks getur TN kviknað án þess að vitað sé til nokkurs af því sem ofan var talið.

ALGENGI TN
Oftast er talað um að 5-10 af hverju 100.000 manns þjáist af þrenndartaugarverk. Líklega er þar eingöngu átt við dæmigert TN. Sé tölunum snúið upp á Ísland ættu á að giska 18-35 manns að vera haldin dæmigerðum þrenndartaugarverk. En tölur eru á reiki í fræðigreinum og hæsta hlutfall sem ég hef séð er er úr rannsókn sem sýndi 0,026% algengi þrenndartaugarverks meðal sjúklinga á breskum heilsugæslustöðvum. Umreiknað þýddi þetta 91 Íslendingur. Breska rannsóknin var gagnrýnd fyrir að vinsa ekki nóg úr, t.d. ódæmigerðan þrenndartaugarverk og mæla eingöngu dæmigert TN.
Við þennan tölfræðifróðleik vil ég gera þá athugasemd að TN (og ATN) er talsvert algengara meðal kvenna en karla. Oft hefur verið bent á að læknar taki ekki endilega „konu með verk“ alltof hátíðlega. Að mínu mati getur vel verið að hluti TN (og sérstaklega ATN) sjúklinga sé greindur með geðræn vandamál en ekki vandamál af vefrænum toga sem almennir læknar kunna lítil skil á. Þess vegna gæti algengi TN eða TN+ATN verið hærra en sýnt hefur verið fram á í rannsóknum.

ALGENGI ATN
ATN (ódæmigerður þrenndartaugarverkur) er enn sjaldgæfari en dæmigert TN. Það borgar sig ekki að gera ráð fyrir að heimilislæknir hafi heyrt þetta nefnt. Taugalæknar kunna þó skil á þessu afbrigði. Kóðinn og lýsandi heitið fyrir sjúkdóminn í ICD-10 staðlinum, sem notað er hér á Íslandi, er G50.9 Þrenndartaugarröskun ótilgreind.

GREINING OG LÆKNING TN
Greining TN byggist fyrst og fremst á frásögn sjúklings. En oft er fólk sent í sneiðmyndatöku, segulómskoðun eða aðrar rannsóknir til að útiloka aðra mögulega sjúkdóma sem gætu valdið sömu einkennum.

Ef talið er að sjúklingur sé haldinn dæmigerðu TN þá er ævinlega byrjað á að gefa honum lyfið Tegretol (sem er gamalt flogaveikilyf). Tegretol er eina lyfið sem hefur verið sýnt fram á að gagnist stundum við TN.

Virki Tegretol ekki eru prófuð fleiri flogaveikilyf (þau eru allmörg) og venjulega einnig Lyrica, sem hefur markaðsleyfi sem lyf gegn úttaugarverkjum, stundum gömlum þunglyndislyfjum einnig (þríhringlaga þunglyndislyfjum) því talið er að þau geti dregið úr sársauka.

Oftast endar TN-sjúklingur á einhvers konar kokteil af lyfjum sem virka á miðtaugarkerfið; flogaveikilyfjum og svefnlyfjum til að geta sofnað fyrir verkjum, kannski er einhverju þunglyndislyfi blandað með í kokteilinn. Verkjalyf virka yfirleitt ekki á TN, ekki heldur morfín eða önnur ópíóðalyf. Bandarískir heila- og taugaskurðlæknar segja að sé komið með TN sjúkling, sem berst ekki af, á bráðamóttöku sjúkrahúss, eigi að gefa honum lyfið dilantin/phenytoin í æð uns kastið líður frá. Það er skynsamlegt fyrir sjúklinga með TN að eiga skriflega staðfestingu um þetta, undirritaða af taugalækni.

Ef sjúklingurinn er orðinn svo illa haldinn að jafnvel er tvísýnt um líf hans (vegna hættu á sjálfsvígi) eða ef engin lyf virka er stundum boðið upp á skurðaðgerð. Hérlendis getur heila-og taugaskurðlæknir á samnefndri deild Landspítala-Háskólasjúkrahúss gert svokallaða MVD-aðgerð. Skammstöfunin stendur fyrir Microvascular Decompression. Þetta er flókin skurðaðgerð, höfuðkúpan er opnuð og með hjálp smásjár er sett fóður úr tefloni milli taugarinnar og æðarinnar/æðanna sem liggja ofan á henni í heilastofni. Smám saman mun vaxa nýtt mýli á taugina og sjúkdómseinkenni hverfa. Árangur af þessari meðferð er góður, talið er að um 80% sjúklinga fái einhvern bata eða verða albata í allt að áratug (skv. nýjustu tölum en tölur um árangur fara lækkandi eftir því sem vandaðri aðferðum er beitt við rannsóknir á honum.)

Önnur aðgerð sem stendur Íslendingum til boða PBC-aðgerð, sem sænskur læknir framkvæmir öðru hvoru á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi. Skammstöfunin stendur fyrir Percutaneous Balloon Compression. Aðgerðin felst í því að þræða nál gegnum ýmis göt í höfuðkúpunni í andliti sjúklings upp í svokallað þrenndarhol, sem er á móts við mitt eyra, undir kinnbeini. (Nálinni er stungið gegnum húð rétt við munninn.) Úr þrenndarholinu greinist taugin í þrennt en í holinu sjálfu er hún ógreind, eins og flækja eða hnoða. Þrenndarhnoðað er milliliður milli úttaugakerfis (kvísla þrenndartaugarinnar) og heilans. Þegar nálin er komin á sinn stað er blásin upp blaðra og hún látin liggja við þrenndarhnoðað og skaða það, í smá stund. Aðgerðin er gerð í svæfingu og með hjálp smásjár. Eftir þessa aðgerð er hálft andlitið og upp á höfuð tilfinningalaust og þá verkjalaust einnig. Dofinn lætur undan síga á næstu mánuðum og flestir ættu að vera lausir við hann að mestu innan árs. Sænska sjúkrahúsið sem þessi læknir starfar hjá hefur rannsakað árangurinn og segir að um 60% sjúklinga séu alveg verkjalausir tveimur árum eftir aðgerðina.

LÆKNING VIÐ ATN
Lækningu við ATN er nánast ekki að finna og mjög einstaklingsbundið hvað hentar hverjum sjúklingi. Ólíkt TN virka sterk verkjalyf stundum á ATN, flogaveikilyf sýna ekki sérlega góða virkni og erfitt er að finna út hvað geti dempað verkina.

Í nýjustu læknisfræðilegum greinum er talið að MVD-aðgerð komi sjúklingum með ódæmigerðan þrenndartaugarverk allt eins til góða og sjúklingum með TN en lengstum hafa læknar ekki viljað framkvæma þessa aðgerð nema á sjúklingum með dæmigert TN. Ólíklegt er að aðrar aðgerðir komi ATN sjúklingum til góða nema í örstuttan tíma.
Bótox sprautur á þriggja mánaða fresti geta gagnast sjúklingum með ATN og raunar einnig sjúklingum með TN. (Hér er verið að tala um bótox gefið af taugalækni sem er alls óskylt fegrunaraðgerðum lýtalækna).
———————————————————————————————————-
Hópur fólks sem haldið er TN eða ATN, ásamt aðstandendum, stofnaði Facebook-hóp fyrir um tveimur árum síðan. Þar reynum við að styðja hvert annað. Hópnum stjórnar Guðlaug Grétarsdóttir og hægt er að hafa samband við hana á Facebook eða á netfangi hennar gudlaug.gretars@gmail.com ef einhver lesandi með þennan sjaldgæfa sjúkdóm les þetta og vill slást í hópinn.

Miklu ítarlegri umfjöllun en þessa hér má sjá á mörgum bloggfærslum mínum. Krækt er í þær í réttri tímaröð efst í hverri færslu. Fyrst færslan er hér
http://www.harpahreins.com/blogg/2015/09/13/threnndartaugabolga-eda-vangahvot/Flokkar:Annað, Ýmislegt

Flokkar/Tögg, , , , , , ,

%d