Um Heilsuhringinn

Úrdráttur úr 44 ára sögu Heilsuhringsins

Ástæðu þess að Heilsuhringurinn var stofnaður árið 1977 má rekja til þess að tíu árum áður árið 1967 var gefin út reglugerð sem kvað á um að lyfsölum og læknum skyldi einum heimilt að selja vítamín, steinefni og hollustuvörur. Öll nauðsynleg næringarefni átti að gera að sérvöru lyfjasölum til einkaréttar. Hjá frændþjóðum okkar hafði að sjálfsögðu lyfjaeftirlit engin afskipti af innflutningi vítamína eða annarra næringarefna.

Það var einn maður sem tók þessari ranglátu reglugerð ekki þegjandi, hann hét Marteinn Skaftfells. Fyrirtæki hans hafði flutt inn vítamín, steinefni og fæðubótarefni í 15 ár. Marteinn var víðlesinn og búinn að kynna sér í þaula notagildi vítamína og bætiefna en þau var hægt að kaupa hindrunarlaust á hinum Norðurlöndunum. Sama daginn og Marteinn fékk reglugerðina í hendur mótmælti hann henni sem broti á lögum. Nokkru seinna fékk innflutningsfyrirtæki hans sakamálaákærur fyrir sölu á vítamínum og náttúrulegum lyfjum og sagt að þau væru lyf.

Nokkur hópur fólks sem felldi sig ekki við stefnu stjórnvalda í heilsuræktar og manneldismálum stofnuðu Heilsuhringinn. Marteinn var aðal hugmyndafræðingur og fyrsti formaður. Óhætt er að fullyrða að án hans þekkingar hefði Heilsuhringurinn aldrei orðið til. Marteinn var eldhugi sem aldrei þreyttist á að vekja skilning fólks á þeim einfalda sannleika að góð heilsa er dýrmætasta eign hvers manns og sagði: ,, Flestir sjúkdómar eiga rætur í ófullnægjandi mataræði og röngum lifnaðarháttum“. Gott væri ef sú rökhugsun kæmist inn í læknanám að sjúkdómar stafa ekki af skorti lyfja heldur af skorti næringarefna og af efnaskertri, mengaðri ófullnægjandi fæðu sem er orsök slappleika, sjúkdóma og andlegrar- og líkamlegrar hrörnunar.

Fyrsta blað félagsins kom út árið 1978 undir nafninu Hollefni og heilsurækt, það fjallaði mest um hömlur á innflutningi fæðubótarefna. En ári seinna 1979 hófst reglubundin útgáfa. Lögð var áhersla á að kynna ýmsar nýjungar eins og heildrænar lækningar, þýddar greinar úr erlendum heilsutímaritum og tekið á málum líðandi stundar. Þegar árum fjölgaði studdu voru nokkrir læknar okkur með greinaskrifum og fyrirlestrum á fundum félagsins. Allt var og er unnið í sjálfboðavinnu og er enn gert.

Nokkrir læknar ráku horn í síðu okkar og vildu einoka notkun orðsins ,,lækning“. Þeir sögðust einir mega lækna og orðið lækning væri lögvernduð eign þeirra og virtust hafa gleymt því að grasalækningar höfðu verið stundaðar á Íslandi með góðum árangri frá örófi alda. Árið 2018 voru aðeins 258 ár síðan fyrsti háskólalærði læknirinn kom til Íslands. Nærri óbrigðult var ef læknar ræddu óhefðbundnar lækningar í fjölmiðlum nefndu þeir það ,,kukl“ jafnvel þó að fjallað væri um langtum eldri aðferðir en vestrænar lækningar eru. Í því sambandi má benda á að læknar ættu að fara varlega þegar þeir tala um kukl því að (þegar þetta er skrifað árið 2018) það eru aðeins 144 ár síðan læknar lærðu að þvo hendur sínar fyrir skurðagerðir og barnsfæðingar af þeim sökum dó fjöldi fólks.

Flúorfár skall á í kringun árið 1980. Heilbrigðisyfirvöldum datt þá í hug að setja flúor í drykkjarvatn Reykvíkinga. Þar fóru í fararbroddi Yfir-skólatannlæknir Reykjavíkur og Landlæknir. Hollefni og heilsurækt birti greinar um skaðsemi flúors og félagsmenn voru duglegir að skrifa greinar í dagblöðin. Þegar baráttan harðnaði var haldinn opinn borgarafundur um málið. Þá barst okkur ómetanleg hjálp, á fundinn mætti Sigmundur Guðbjarnason sem þá var háskólarektor. Hann lagðist eindregið gegn því að flúor yrði sett í neysluvatn, um sama leyti skrifaði formaður eiturefnanefndar grein í Morgunblaðið og sagði það ekki koma til greina að setja flúor í drykkjarvatn. Það var loka punkturinn.

Efnið Natríumflúorid sem átti að setja í vanið er sterkt eitur. Banvænn skammtur er talinn einhversstaðar á bilinu 2-10 grömm. Langvinnar eiturverkanir af smáum skömmtum eru ekki óalgengar. Ekki þarf meira en 2 mg í lítra drykkjarvatns til þess að skapa hættu á brúnleitum blettum í glerungi tanna.

Ástæður tannskemmda eru ekki af flúorskorti
Árið 1986 birti Heilsuhringurinn frásögn tannholdssérfræðings af rannsókn sem gerð var á hauskúpum í gamla kirkjugarðinum í Reykjavík. Farið var í gegnum nokkur hundruð hauskúpur frá kristnitnitöku til ársins 1985. Þar kom í ljós að fólk sem var uppi fyrir árið 1700 hafði ekki tannskemmdir. En eftir að hreinsaði sykurinn kom hingað til lands á árunum 1700 til 1800 komu í ljós tannskemmdir meira að segja svo miklar að í sumum hauskúpunum var skemmd í hverri tönn.

Árið 1984 háði heilbrigðiskerfið aftur stríð við Heilsuhringinn. Í það skipti um skaðsemi kvikasilfurs í amalgami sem notað er í tannfyllingar. Fyrst árið 1982 var birt grein um sænskar rannsóknir á skaðsemi amalgams, síðan tveimur árum seinna skrifaði Ævar Jóhannesson langa grein um sama efni. Fulltrúar íslenskra heilbrigðisyfirvalda höfðu ekki kynnt sér málið og Yfir-skólatannlæknir Reykjavíkur sem mun hafa starfað á vegum Heilbrigðisráðuneytisins, fékk þann vafasama heiður að birta í flestum fjölmiðlum yfirlýsingu frá Heilbrigðis- og tryggingarráðuneytinu um að allar frásagnir um skaðsemi amalgams væru úr lausu lofti gripnar.

Nokkrum árum seinna birtist í Heilsuhrignum frásögn Íslendings um alvarleg veikindi sem hann varð fyrir sökum kvikasilfurseitrunar frá amalgami í tannfyllingum. Það bjargaði honum að hann komst til tannlæknis í Svíþjóð sem hafði þekkingu til að hreinsa amalgamið úr tönnum hans. En eitrunin tók stóran toll af heilsu hanns í mörg ár.

Og aftur birti Heilsuhringurinn umdeilt efni árið 1984, það var greinin; Ný viðhorf til sveppasýkingar. Heilsuhringurinn fékk harða gagnrýni ýmissa lækna, þó ekki allra. Greinin fjallaði um þann mikla vanda sem ofmikil sýkjalyfjagjöf getur valdið. Ævar Jóhannesson sem skrifaði greinina fékk kaldar kveðjur frá nokkrum læknum, sumar eru ekki eftirhafandi. Áratugir liðu þar til einn íslenskur læknir tjáði sig opinberlega um að minnka þyrfti notkun sýklalyfja, sérstaklega hjá börnum með eyrnabólgur.

Það var stórkoslegt þegar sýklalyf voru fundin upp og hve þau hafa bjargað mörgum mannslífum. Því er sorglegt til þess að vita að nú eru sjúkrahús í miklum vanda vegna þess að sumir sýklar eru orðnir ónæmir fyrir sýklalyfjum vegna ofnotkunar þeirra. Þar er örlæti lækna og vankunnátta við að útdeila þeim um að kenna. Trúlega er fleira fólk en tölu verður á komið með skemmda þarmaflóru eftir ofnotkun sýklalyfja.

Allt frá árinu 1987 skrifaði Ævar Jóhannesson mikið lesinn greinaflokk sem hann nefndi Nýjar leiðir í krabbameinslækningum. Þar kynnti hann vísindagreinar og margt annað sem hjálpað gat krabbameinsveikum.

Marga velsótta fundi hefur Heilsuhringurinn haldið en engan eins fjölmennan og þann sem fjallaði um áhrif rafmagns á lífverur árið 1994. Trúlega var það fyrsti almenni fundurinn á Íslandi um þessi ósýnilegu svið og bylgjur sem svo erfitt er að varast. Heilsuhringurinn svaraði ákalli um meiri fræðslu og hefur birt fjöldan allan af greinum um rafmagn, rafsegurlsvið, rafóþol, GSM síma og myglu. Með fjölgun rafknúinna bíla er vá fyrir dyrum, fólk hefur kvarta undan óþægindum af völdum rafsviðs í nokkrum tegundum rafbíla. Trúlega er það viðfangsefni morgundagsins að finna ráð til að koma í veg fyrir að það valdi veikindum.

Umræða um hjartasjúkdóma hefur verið fyrirferðamikil í Heilsuhringnum og margir um það skrifað. Hér grípum við niður í grein frá árinu 2004 þar fjallaði Ævar um orsakir kransæðastýflu í þýddri grein eftir dr. Wayne Martin úr tímaritinu ,,Townsend Letter for Doctors and Patients”. Í formálanum spyr Ævar: Voru fljótfærnislegar ráðleggingar nokkurra sérfræðinga á öldinni sem leið einhver örlagaríkustu mistök sem gerð hafa verið í manneldismálum? Þar átti Ævar við þá hugmynd sem kom upp í Bandaríkjunum í kringum árið 1955 að mettuð fita, smjör og tólg, væri slæm fita og væri orsök þeirrar gífurlegu fjölgunar dauðsfalla sem orðið höfðu í Bandaríkjunum vegna hjartaáfalla.

Á þeim árum var fullyrt í Bandaríkjunum að hinar nýju fjölómettuðu fitur, sem komu á markað upp úr 1925, væru aftur á móti góðar fitur, sem vernduðu gegn hjartaáföllum. Í greininni segir dr. Martin gallann við fjölómettaðar fitur vera að þær bæli ónæmiskerfið og auki hættu á krabbameini en mettaðar fitur geri það ekki. Svo er vitnað í að þegar fræolíuiðnaður á árunum milli 1920-1930 varð að milljarða dollara stóriðju. Þá fjölgaði dauðsföllum úr kransæðasjúkdómum í beinu hlutfalli við sölu á vörum úr fjölómettuðu olíunum og smjörlíki sem unnið var úr þeim. ,,Góðir eiginleikar jurtaolíu eyðleggjast í vinnslunni þegar þær eru hertar til notkunar í smjörlíki og þá verða þær litlu betri næring en kertavax“.

Dr. Martin lýsti einnig breytingunni þegar hætt var að nota heilkornabrauð og farið að nota bleikt, hvítt hveiti um aldamótin 1900 og segir það hafa valdið mikilli fjölgun dauðsfalla úr kransæðasjúkdómum. Árið 1919 var bannað á Ítalíu að nota bleikt hveiti til að torvelda að erlent hveiti væri flutt til landsins. Þetta bann stóð til 1946 og var ekki annað en heilkornabrauð að fá á Ítalíu í 27 ár. Allan þennan tíma varð engin fjölgun dauðsfalla úr kransæðasjúkdómum á Ítalíu, en á sama tíma varð heilmikil fjölgun þessara sjúkdóma, bæði í Englandi og Bandaríkjunum og ótal öðrum löndum.

Ekkert gagn sé af asperíni
Margt fleira tengt hjartasjúkdómum tíundar dr. Martin í greininni t.d. benti hann á að milljón dollara kannanir á aspiríni hafi sýnt að ekkert gagn sé af asperín til að koma í veg fyrir hjartaáföll. Hinsvegar hafi komið í ljós verkir frá maga, bólgur, magablæðingar og blæðingar frá þörmum. Þrátt fyrir þetta ákváðu hjartasérfræðingar um 1980 að allir yfir 40 ára aldri ættu að taka aspirín daglega til að fá ekki blóðtappa og hjartaáfall.

Því miður er lyfjablekking ekki úr sögunni.
Nú eru það statínlyf sem íslenskir læknar hafa á undanförnum árum deilt út eins og brjóstsykri. Heyrst hefur af læknum sem ekki eru í rónni fyrr en blóðfitan er komin niður í tvo. Þó að sífellt fjölgi skrifum um það erlendis að þessi stefna sé röng. Heilsuhringurinn birti fyrir nokkru grein eftir dr. Dwight Lundell, fyrrum yfirmaður hjartaskurðaðgerða á Banner Heart sjúkrahúsinu í Arizona, sem ráðleggur fólki frá því að taka inn kólesteróllækkandi statínlyf. Dr. Lundell beinlínis rífur niður þann sið lækna að ávísa á statínlyf til að lækka kólesteról og ráðleggingar þeirra um takmörkun á fituneyslu. Hann segir lækna á þessu sviði hafa verið með stöðugar árásir í vísindaritum og í menntun hafi þeir haldið því fram að hjartasjúkdómar séu afleiðingar hækkaðs kólesteróls. ,,Því miður eru of margir-dánir vegna þessara röngu fullyrðinga“ segir dr. Dwight Lundell og heldur áfram.

,,Við vitum að bólga í slagæðavegg er raunveruleg orsök hjartasjúkdóma og það er engin leið að kólesteról geti safnast fyrir í heilbrigðum æðavegg og valdið hjartasjúkdómi og stíflu. Helstu orsakir langvarandi bólgu er neysla á einföldum unnum kolvetnum úr sykri og hveiti, ásamt umfram neyslu á ómega-6 fitusýrum“. Og Lundell bætir við: ,,Magnesíum ætti að vera grundvallar forvarnarlyf til meðhöndlunar á hjartasjúkdómum, sykursýki, og æðakölkun en ekki statínlyf. Magnesíum virkar sem náttúrulegt lyf á móti kalsíum og kemur jafnvægi á blóðþrýsting og óreglulegan hjartslátt. Ónóg magnesíum í líkamanum veldur bólgum og það eru bólgur sem valda því að kólesteról festist í æðum“.

Undanfarin ár hefur  www. heilsuhringurinn.is birt margar greinar um geðheilbrigðismál og ýmsar gagnlega aðferðir til hjálpar sem reynst hafa vel. Nú sýnist okkur álíka óskiljanleg fásinna í gangi í heilbrigðiskerfinu og vítamínbannið árið 1967 (sem nefnt var í byrjun). Þegar Heilbrigðisráðherra ákvað að leggja niður starf Geðheilsu – eftirfylgdar, samfélagsgeðþjónustu innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og vísa Hugarafli á dyr.

Starfið var í umsjá Auðar Axelsdóttur iðjuþjálfa sem hefur náð hvað lengst á Íslandi við að hjálpa geðsjúkum að ná bata. Aðferðir hennar miða að því að þó að fólk þarfnist lyfja í byrjun meðferðar vinni það sig útúr því og nái heilsu og losni undan lyfjaokinu. Þessi starfsemi hefur reynst svo vel að Auði var veitt fálkaorðan fyrir frábæran árangur. Spurningar vakna: skyggir árangur af meðferðum Auðar á lyflækingar Geðdeildarinnar? Nær Auður of miklum árangri miðað við Geðdeildina? Sýnir árangurinn sem Auður hefur náð að taka þurfi upp aðrar aðferðir en lyfjagjöf við geðlækningar á Geðdeildinni?

Nokkrar breytingar urðu á útliti tímarits Heilsuhringsinsins í áranna rás. Eins og komið hefur fram hét það Hollefni og heilsurækt í byrjun og var kápan þá svart-hvít. Árið 1986 var byrjaða að prenta kápuna í lit og nafninu breytt í Heilsuhringurinn. Árið 1987 hafði félaginu vaxið fiskur um hrygg þá var leigt húsnæði og keypt tölva, ráðin stúlka í 3 tíma tvisvar í viku til að vélrita, svara í síma og sjá um áskrifendaskrár.

Árið 2008 urðu þáttaskil hjá Heilsuhringnum þá var ákveðið að hætta útgáfu blaðsins og hefja fría útgáfu á Internetinu. Við unnum í því fyrsta árið að koma flest öllum greinum sem skrifaðar voru í blöðin frá upphafi inn á heimasíðuna. Nú er brotið blað í sögunni þegar búið er að uppfæra síðuna og hægt að nálgast nærri 900 fróðlegar greinar.

Það sem gert hefur starf Heilsuhringsins mögulegt er allt það fórnfúsa fólk sem lagt hefur hönd á plóg og gefið vinnu sína. Þó að í þessari samantekt hafi aðeins nokkrir karlar verið nefndir til sögunnar þá hefur alltaf ríkt mikil eining í félagsstarfinu og fleiri konur en karlar gengt formannsstarfinu.

Ingibjörg Sigfúsdóttir tók saman.

%d bloggers like this: