Skrif Ævars Jóhannessonar

Minningar um Ævar Jóhannesson

Minningar um Ævar Jóhannesson sem lést 3.3.2018 og var jarðsunginn 14.3.2018

Ævar var einn af stofnendum Heilsuhringsins fyrir 40 árum. Allt frá upphafi var hann einn af burðarásum félagsinsins og aðal greinahöfundum blaðsins. Á þeim árum vantaði hér á landi fræðslu um óhefðbundnar og heildrænar lækningar sem orðin var aðgengileg í nágranna löndum okkar og í Ameríku. Ævar var áskrifandi að erlendum bókum og tímaritum um óhefðbundnar lækningar og hóf strax að þýða þennan fróðleik á íslensku þar á meðal flóknar læknisfræðilegar vísindagreinar og birti í blaðinu. Oftsinnis kynnti hann þjóðinni nýjar hugmyndir til heilbrigðisúrlausna löngu áður en þær hlutu almennt viðurkenningu eða höfðu verið ræddar hér á landi. Þannig var hann oft fyrstur til að kynna nýungar sem vonir stóðu til að gætu bætt heilsufar fólks eða hindrað sjúkdóma og vanheilsu. Stundum fékk hann kaldar kveðjur frá þeim sem töldu sig vita allt sem máli skipti. En ekki er vitað um eitt einasta tilfelli að hann hafi haft á röngu að standa þegar upp var staðið. Ævar var að mestu sjálfmenntaður viskubrunnur, sem ánetjaðist aldrei kreddum eða tískustraumum en var ávallt opinn fyrir nýjum hugmyndum hvaðan sem þær komu. Eftir hann liggur fjöldinn allur af greinum sem hægt er að nálgast og lesa á www.heilsuhringurinn.is . Störf Ævars og skrif í þágu félagsins eru ekki aðeins ómetanleg fyrir Heilsuhringinn heldur alla þjóðina svo miklu fékk hann áorkað til góðs í lýðheilsu á Íslandi.

Deyr fé deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

Við kveðjum hugsjónamanninn, fræðimanninn og mannvininn Ævar Jóhannesson með söknuði og þakklæti. Samúðarkveðjur sendum við til barna hans og aðstandenda.

F.h stjórnar og rinefndar Ingibjörg Sigfúsdóttir.


Minningarorð 14.2.2018   –  Sigríður Ævarsdóttir

Í dag var til moldu borinn elskulegur faðir minn, Ævar Jón Forni Jóhannesson frá Steðja á Þelamörk. Hann lést á Dvalarheimilinu Sunnuhlíð 3.mars og var jarðsettur frá Kópavogskirkju í dag.

Pabbi var einstakur maður; séní, kannski ofviti, hugvitsmaður og hugsuður, uppfinningamaður, mannvinur, fræðimaður, frumkvöðull, listamaður – þúsund þjala smiður.

Hann veiktist ungur af berklum og dvaldi um langa hríð á berklahælum landsins í framhaldinu. Sakir heilsuleysis varð lítið úr langskólagöngu, en meðan hann lá veikur las hann allt sem hann komst yfir og menntaði sig sjálfur í tungumálum og tæknimálum ý.k. Áhugi hans á heilsutengdum málum kviknaði einnig á berklaárunum hvar hann mátti horfa á eftir mörgum góðum vininum áður en lækning fannst.

Pabbi var forvitinn um lífið og tilveruna, hugsaði út fyrir kassann og var opinn fyrir hugmyndum sem aðrir ýmist sáu ekki eða þótti of fjarstæðukenndar til að skoða nánar. Hann var áhugamaður um hvers konar vísindi og þá krafta, sem búa til og stjórna lífinu á litlu kúlunni okkar dýrmætu – hvort sem það snéri að eldgosum, efnafræði eða alheimsvitundinni. Hann gerði hluti sem ekki átti að vera hægt að gera samkvæmt fræðunum, – en hann bara vissi það ekki, fann leiðir og gerði þá samt.

Eitt af því sem hann hafði mikinn áhuga á voru andleg málefni; hann var spíritisti, meðlimur í Sálarrannsóknarfélagi Íslands, Guðspekifélaginu, félagi Nýaldsinna ofl. Eftir dulrænum leiðum barst honum uppskrift að jurtaseyði sem hann og móðir mín suðu á eldavélinni heima í um aldarfjórðung og gáfu alvarlega veiku fólki t.d. krabbameinssjúkum.

Pabbi var allgóður penni og um fjölmargra ára skeið var hann ein aðaldriffjöður og ritstjóri Heilsuhringsins, sem var tímarit um óhefðbundnar lækningar. Hélt þar m.a. úti greinaflokki sem kallaðist Nýjar leiðir í krabbameinslækningum og enn er aðgengilegur á netinu. Árið 2007 komu út æviminningar hans er bera nafið Sótt á brattann, þar sem hann rekur viðburðarríkt lífshlaup sitt.

Foreldrar mínir sóttust ekki eftir veraldlegum auðæfum. Áhugi beggja lá í að gera heiminn betri og miðla þekkingu til hagsbóta fyrir aðra. Pabbi var maður jöfnuðar og sanngirni, ljúfur maður sem aldrei traðkaði á öðru fólki til að komast þangað sem hann fór og stóð með sannfæringu sinni, óhemju afkastamikill og duglegur til allra verka.

Pabbi og Kristbjörg Þórarinsdóttir mamma mín hófu búskap árið 1961. Stóð sú sambúð þar til mamma lést árið 2011. Ávöxtur hjónabands þeirra erum við systkynin fjögur, börn okkar og barnarbörn, hópur ákaflega vel gerðra og vandaðra einstaklinga sem öll bera í sér neista afa síns og ömmu með einum eða öðrum hætti.

Eftir að mamma kvaddi var pabbi ekki samur, hann var búinn að gera allt sem hann ætlaði sér og beið þess og vonaði dag hvern að kæmi að honum að kveðja. Og honum varð að ósk sinni og dagurinn var táknrænn – brúðkaupsdaginn þeirra mömmu og afmælisdaginn hans sjálfs. Ólíklegt skv. fræðunum en gerðist samt.

Hvíl í friði kæri pabbi. Knúsaðu mömmu og alla hina. Takk fyrir allt og allt.

 

Áhrifaríkt vörtumeðal

Áttatíu og fimm sjúklingar með vörtur voru valdir tilviljunarkennt til að fá annaðhvort sprautu með mótefnisvaka gegn candida-sveppum inn í rót vörtunnar eða samskonar sprautu með saltvatni sem notað var sem lyfleysa (placebo). Notaður var 0,1 ml af 1:1000 blöndu… Lesa meira ›

UMHVERFI OG SAMFÉLAG

Ævar Jóhannesson fékk heiðursviðurkenningu bæjarstjórnar og umhverfisráðs Kópavogs 2010 fyrir framlag sitt til umhverfis og samfélags. Ævar Jóhannesson fæddist að Fagranesi í Öxnadal 3. mars 1931 en ólst lengst af upp að Steðja á Þelamörk. Strax sem ungur drengur hafði… Lesa meira ›