Lifrin er stærsti kirtill líkamans og vegur um 1,4 kg í meðalmanni. Lifrin er hægra megin í kviðarholinu, undir/neðan við neðstu rifbeinin. Unnt er að finna lifrina með því að setja fingurgómana á neðstu rifbeinin hægra megin og ýta varlega niður og undir rifbeinin. Lifrin er oft aum og ekki má ýta fast. Lifrin gegnir fjölmörgum hlutverkum og er aðalefnaskiptalíffæri líkamans. Hún er efnaverksmiða sem starfar allan sólarhringinn. Allt sem við borðum, drekkum, öndum að okkur eða berum á húðina fer í gegnum lifrina og hún vinnur úr efnunum. Hún er fæðuvinnslustöð, geymsla og miðstöð dreifingar. Hún tengist beint eða óbeint allri líkamsstarfsemi.
Helstu störf lifrar:
Sykurefnaskipti. Lifrin sér um að viðhalda eðlilegu blóðsykurmagni, breytir glúkósa í glýkógen þegar blóðsykur er hár og brýtur glýkógen niður í glúkósa þegar blóðsykur er lágur.
* Fituefnaskipti. Brýtur niður, geymir fitusýrur og breytir kólesteróli í gallsölt. Gallið sér um niðurbrot fitu í smáþörmum.
* Prótínefnaskipti. Myndar flest prótín í blóðvökva, breytir aminósýrum til frekari vinnslu.
* Frumuát. Sér um að eyða rauðkornum, hvítfrumum og tilteknum gerlum.
* Geymsla. Geymir vítamínin A, B12, D, E, K og steinefnin járn og kopar.
* D-vítamín. Sér um ásamt húð og nýrum að virkja D-vítamín.
Afeitrun. Lifrin afeitrar efni eins og alkóhól og lyf og brýtur niður hormóna. Þetta er aðeins hluti af því sem lifrin gerir og sýnir mikilvægi hennar. Allir sjúkdómar í líkamanum auka álagið á lifrina. Sjúkdómar og vanvirkni í lifur valda kvillum annars staðar í líkamanum. Lifrin kemur nær alltaf við sögu hvers konar vanheilsu. Hvernig verðum við vör við að lifrin starfi ekki
rétt? Meðal einkenna eru:
* Óeðlileg efnaskipti fitu: Blóðfita óeðlileg sem leiðir til alvarlegri vandamála eins og hjartasjúkdóma. Fita safnast fyrir í líffærum líkamans. Aukin líkamsþyngd og offita, sem erfitt er að losa sig við vegna óeðlilegrar starfsemi lifrar.
* Meltingarvandamál: Meltingartruflanir, hægðartregða, óþægindi frá ristli, uppþemba og loftmyndun, gallsteinar og vandamál með gallblöðru. Verkur á lifrarsvæði.
* Truflanir á blóðsykri: Of lágur blóðsykur(hypo glycaemia). Sykursýki af gerð II er algeng hjá þeim sem eru með of mikla blóðfitu.
* Einkenni frá taugakerfi: Þunglyndi, skapsveiflur, eins og reiði og pirringur. Sagt er að í lifrinni sitji reiðin. Slök einbeiting, aukin hætta á sjálfsofnæmissjúkdómum, endurtekinn höfuðverkur.
* Ónæmiskerfið: Frjóofnæmi, astmi, þroti og kláði í húð, fæðuóþol og fæðuofnæmi, endurteknar sýkingar, síþreyta og verkir.
* Sýnileg einkenni: Skán á tungu, andremma, útbrot og sýkingar á húð, rósroði (rosacea), brúnir blettir á húð (liver spots), aukin svitamyndun, dökkir baugar undir augum, gulur litur á augnhvítu, rauð og bólgin augu.
* Hormónakerfið: Óþol fyrir hormónainntöku, eins og pillunni. Lifrin vinnur úr flestum utanaðkomandi efnasamböndum, afeitrar þau og brýtur niður svo að líkaminn geti skilað þeim út.
Allt blóð sem fer frá meltingarveginum fer í gegnum lifrina. Hún endurnýjar blóðið og heldur því hreinu og kraftmiklu. Vegna mengunar í lofti, vatni, mat og frá lyfjum sem við tökum inn er gífurlegt álag á lifur. Skoðum nánar uppbyggingu lifrarinnar og hvernig hún starfar. Uppbygging lifrar. Ef lifrin er skoðuð undir smásjá sjáum við aðskildar raðir af lifrarfrumum sem vinna eins og filterar eða síur. Í gegnum þessar síur rennur svo blóðið. Kjarni lifrarfrumu er stór og sérstakar himnur í frumunni, slétt frymisnet, sér um afeitrun. Lifrarfrumurnar hafa vel þroskað kerfi sem er hannað til að fjarlægja úrgang eins og dauðar frumur, eiturefni og lyf.
Lifrarfrumurnar taka til sín og brjóta niður eitruð efnasambönd. Lifrin fjarlægir einnig bakteríur, sveppi og sníkjudýr úr blóðinu. Lifrin er mjög fullkomin sía. Þegar lifrin er búin að hreinsa blóðið losar líkaminn sig við úrgang í þvagi, saur, útöndunarlofti og í gegnum húð. Lifrarfrumurnar eða síurnar eru eins og aðrar síur sem þarf að hreinsa reglulega og best er að gera það á hverjum degi með því að borða mat og jurtir sem stuðla að bættri lifrarstarfsemi.
Ásamt því að styrkja lifur er nauðsynlegt að hjálpa þeim líffærum sem sjá um útskilnað. Nauðsynlegt er að borða trefjaríkan mat, drekka vatn og halda starfsemi ristils í góðu lagi. En ristillinn er aðeins farvegur fyrir úrgang úr líkamanum, en ekki líffæri sem hreinsar blóðið. Það er bara lifrin sem getur hreinsað blóðið og við höfum bara eina lifur. Lítum nánar á það hvað við getum gert til að styrkja lifur og auka heilbrigði okkar. Það er fyrst og fremst mataræðið og svo sérvirkar aðgerðir fyrir lifur, lifrarhreinsun.
Mataræði: Borðum fjölbreytta fæðu úr öllum fæðuflokkum. Lifrin vinnur úr þeirri fæðu sem við neytum og til að létt henni verkið er mikilvægt að velja hreina og lítið unna fæðu sem er laus við aukefni. Borðum próteinríka fæðu eins og fisk, kjöt, kjúkling, egg, hnetur og baunir t.d. sojaafurðir. Fræ eru holl og góð, hörfræ, sólblómafræ og graskersfræ. Veljum „góða“ fitu eins og kaldpressaðar olíur (sesam-, hörfræ-, sólblóma- og ólífuolíu), dýrafitu af villtum dýrum og feitum fiski. Forðumst smjörlíki, unnar olíur og djúpsteiktan mat.
Leggjum áherslu á grænmeti og ávexti. Sérstaklega það litríka. Grænt, gult, appelsínugult og fjólublátt. Eins og gulrætur, rauðrófur (rauðrófusafa), spergilkál, grænt salat, tómata og sítrónur. Borðum ávexti og hrátt grænmeti í hverri máltíð, því hrátt inniheldur lifandi ensím, C-vítamín og andoxunararefni. Forðast unnin kolvetni en leggum áherslu á heilkorn. T.d. hirsi, hrísgrjón, quinoa, hveiti og bygg. Forðast sykur, hvítt hveiti, áfengi og kaffi.
Trefjar eru mikilvægar til að bæta meltinguna. Trefjar binda eiturefni og kólesteról og styrkja þarmaflóruna. Psyllium trefjar eru mjög góðar. Borðið reglulega, smærri skammta en oftar yfir daginn. Forðumst ofát. Betra er að sjóða matinn frekar en steikja. Gott að gufusjóða grænmeti. Súrt og biturt bragð styrkir lifur t.d. sítrónusafi og fíflarót. Drekkum 6-8 glös af vatni á dag.
Hollráð:
Gott er að drekka eitt til tvö glös af volgu vatni á morgnana áður en nokkurs annars er neytt. Gott að bæta sítrónusafa í vatnið. Súra bragðið er gott fyrir lifrina. Vatnið hreinsar þarmana og flýtir fyrir losun. Vatn drukkið strax að morgni leggur einnig grunn að vatnsbúskap líkamans og eykur þar með vellíðan yfir daginn. Dr. Sandra Cabot læknir í Ástralíu höfundur bókarinnar The Liver Cleansing Diet, er með heimasíðu www.liverdoctor.com og þar er að finna mikinn fróðleik um lifrina og hvernig megi vernda hana og styrkja. Hún hefur sett saman hylki undir heitinu Livaton sem í eru ýmis efni sem styrkja lifrina. Meðal þeirra efna eru aminósýrur, psyllium, fíflarót, mjólkurþistill, lesitín, vítamín og steinefni.
Aminósýran Taurin er lifrinni mjög mikilvæg í afeitrunarferlinu. Taurin er nauðsynlegt efni í frumuhimnunum og sér meðal annars um að jafna flæði í frumuhimnum, þannig að lifrin geti afeitrað efni. Taurin gegnir aðalhlutverki í myndun galls og í afeitrunarferlinu. Taurin hjálpa lifrinni við að losa sig við blóðfitu. Taurin er í dýrapróteini eins og kjöti, eggjum, sjávarfangi og mjólkurvörum en ekki í plöntueggjahvítu. Þeir sem þjást af ofnæmi og meltingatruflunum eru oft með of lítið taurin. Fleiri aminósýrur eru í hylkjunum eins og glutamine,glycine, og cystein.
Psyllium trefjar sem seldar eru hér á landi undir heitinu HUSK. Þeir sem eru með hæga lifrarstarfsemi eiga oft í vandræðum með að vinna fitu og eru með of hátt kólesteról. Psyllium getur hjálpað í þeim tilfellum. Rannsóknir sýna að psyllium eru sennilega bestu kólesteróllækkandi trefjarnar. Psyllium inniheldur mikið af uppleysanlegum trefjum en uppleysanlegar trefjar eru þáttur sem stuðlar að lækkun kólesteróls.
Fíflarót. (Dandelion) Túnfillinn hefur um aldir verið notaður við vandamálum tengdum lifur og meltingu. Rótin er notuð við lifrar- og gallblöðrusjúkdómum. Fíflablöðin hafa annars konar verkun, verka t.d. vel á bjúg. Það má blanda saman rót og blöðum í te. Rótin er mjög góð fyrir fólk sem er að styrkja sig eftir langvarandi lyfjatöku eða áfengisneyslu. Fíflarót fæst bæði möluð í hylkjum og eins í lausu til að búa til te/seyði.
Seyði af fíflarót
1-2 tsk af rót soðin í 1 bolla af vatni í 15-20 mín. Drukkin þrisvar á dag. Jurtin er beisk á bragðið en það er einmitt bitra bragð fífilsins sem örvar meltinguna og lifrina. Mjólkurþistill. (Silybum marianum) Jurtakraftur úr fræjum þessarar jurtar örvar efnaskipti lifrarfrumnanna og vernda þær fyrir eituráverkum. Mjólkurþistillinn er sjálfur óeitraður og má nota að staðaldri. Margar rannsóknir hafa verið gerðar á mjólkurþistli sem sýna að hann hjálpar þegar um lifrarsjúkdóma er að ræða. Mjólkurþistill fæst í heilsubúðum í hylkjum undir heitinu Milk Thistle.
Lesitín. Lesitín finnst í frumum allra lífvera og nauðsynlegur hlekkur í eðlilegri starfsemi frumnanna. Lesitín er sagt reynast vel gegn gallsteinum, tauga-og húðskemmdum og lifrarskemmdum sem stafa af áfengisneyslu. Talið er að lesitín stuðli að því að kólesteról og önnur fituefni leysist upp í vatni og skolist þannig úr líkamanum. Mörg fleiri efni eru í Livatone sem Dr. Sandra Cabot leggur áherslu á að hjálpi við hreinsun og styrkja lifur. Hún leggur áherslu á B-fjölvítamín, C og E-vítamín.
Einnig beta-karótín, Zink og grænt te. Í bókinni hennar The Liver Cleanising Diet eru leiðbeiningar um 8 vikna lifrarhreinsunarkúr. Það er ýmislegt sem við getum gert til að hreinsa og styrkja lifur. Við getum gefið gaum að mataræðinu dags daglega. Einnig getum við tekið kúra til að hreinsa lifur. Í heilsubúðum fást lifrarstyrkjandi te og hylki með fíflarót og mjólkurþistli. T.d. eru hylki frá Solaray sem heita Liver-Blend SP- 13. Hylkin innihalda lifrarstyrkjandi jurtir eins og fíflarót, mjólkurþistil, ætiþistil, þari, burdock og piparmintu.
Lifrarhreinsun. Best er að hreinsa lifur með sítrónusafa og grænni ólífuolíu. Drekkið á kvöldin blöndu úr jöfnum hlutum af ferskum sítrónusafa og grænni ólífuolíu, 2 msk olía og 2 msk safi. Ávaxtasafinn hvetur starfsemi lifrar og hún útskilur óhreinindi út í skeifugörn. Þá hjálpar ólífuolían til við að binda þessi óhreinindi og koma þeim úr líkamanum. Á heimsíðunni www.madurlifandi.is en hægt að lesa um lifrahreinsandi kúra og vorhreinsikúr. Í kúrnum er sítrónusafi, græn ólífuolía og Epsom salt.
Sítrónudrykkur-lifrarskolun. Safi úr ½ sítrónu blandað í rúmlega ½ glas af heitu vatni. Setjið 1 tsk af hunangi og hnífsodd af kajennapipar út í drykkinn. Drukkið á fastandi maga að morgni. Þetta er góður vordrykkur.
Lifrarhreinsun með laxerolíu. Flónelsdúkur vættur með volgri laxerolíu þar til dúkurinn er mettaður. Lagt á lifur, plast yfir og svo settur hitapoki yfir. Gert í 3 kvöld í röð 30 mín í senn.
Lifrarnudd. Til að hjálpa lifur er gott að nudda hana fimm mínútur kvölds og morgun, þá daga sem verið er í lifrarhreinsun/afeitrun. Liggið á bakinu og nuddið lifrina með fingurgómunum. Lifrin er staðsett við/undir hægri rifbeinum. Leggið hendurnar á neðstu rifbeinin og ýtið varlega niður og undir rifbeinin. Hreyfið fingurna í hringi um lifrina í fimm mínútur.
Gott er að leggja sig einu sinni til tvisvar yfir daginn. Við það að leggjast niður rennur blóðið til lifrarinnar og hún endurnýjar það.
Húðburstun. Til að auka hreinsigetu húðarinnar er gott að bursta hana. Húðin er eitt af hreinsilíffærum líkamans. Best er að bursta húðina með hringlaga hreyfingum frá fingurgómum að nafla og frá tám að nafla. Húðina á að bursta þurra og þar til hún roðnar. Burstunin fjarlægir dauðar húðfrumur og heldur svitaholum opnum. Eykur blóðrás til innri líffæra og örvar hreinsikerfi líkamans.
Þjálfun og hreyfing. Hreyfing er nauðsynlega fyrir alla líkamsstarfsemi. Hreyfing bætir meltingu, styrkir vöðva og eykur brennslu. Stundið líkamsrækt þrisvar í viku. Veljið hreyfingu sem hentar ykkur. Það skiptir ekki máli hvað þið gerið, aðalatriðið er að hreyfa sig og styrkja.
Lyf auka álagið á lifur og vert er að skoða það magn sem tekið er af lyfjum og eins hvort megi leita annarra leiða til að draga úr lyfjanotkun. Tökum ábyrgð á eigin heilsu, venjum okkur á að borða hollan og góðan mat og temjum okkur heilbrigðan lífsmáta. Mikið af gagnlegum upplýsingum er að finna á veraldarvefnum/netinu um lifrina og starfsemi hennar. Ef farið er í leit/Google og slegið inn liver koma upp margar síður sem tengjast bæði hefðbundnum og óhefðbundnum lækningum.
Heimildir: www.liverdoctor.com, www.vísindavefur.is, www.madurlifandi. is, Lækningamáttur líkamans höf. Andrew Weil, Íslenskar lækningajurtir höf. Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir, You are what you eat höf. Dr Gillian Mckeith, Tímaritið Heilsuhringurinn.
Höfundur: Berglind Guðmundsdóttir skrifað árið 2006.
Flokkar:Líkaminn