Mikilvægi sýrustigs í líkamanum fyrir heilsuna

,,Löng ofneysla sýrumyndandi matar getur valdið skorti í steinefnabúskap líkamans og breytt sýrustigi líkamans með alvarlegum afleiðingum fyrir heilsuna.“  Blóðið hefur pH-gildi 7,35-7,45 og gerir líkaminn allt sem hann getur til að halda því stöðugu. Frávik frá þessu gerir okkur veik. Nútímamataræði myndar meira sýru en basa (lúta) í líkamanum sem getur hlaðist upp sem eitur. Þetta er nokkuð sem annars er eytt með bíkarbónati, hraðri útöndun um lungun, með sýrum og hjálp steinefna um þvag frá nýrum og súrum húðsvita. Meðan menn erfiðuðu mikið gekk vel að losna við umframsýru.

Vegna ofeldis, óheppilegs mataræðis og hreyfingarleysis getur fæðið raskað sýrugildi blóðsins og steinefnabúskapnum. Vegna þess að pH-sýrustig (hlutfall milli plúsjóna og neikvæðra jóna í jafnvægi) hærra en 7,0 er basískt eða lútað hafa margir túlkað það sem svo að matarræðið eigi að vera alfarið basískt eins og blóðið og öfgarnar endað í mataræðinu.

Í líkamanum eru það steinefnin og prótínin auk lífrænna og ólífrænna sýra frá starfsemi í frumunum sem eru á jónaformi, þ.e.a.s. rafhlaðin og mynda þessar sýrur og basa. Að 7,4 eigi við allan líkamann er rangt. Normalt hefur húðin sýrustig 5,5, munnvatnið 6,5-6,8, magasafinn 1,2-3, garnirnar 7,0, ristillinn 4,0-7,0, þvagið 6,0- 6,5 á morgnana en 6,5-7,0 á kvöldin (má auðveldlega mæla þvag og munnvatn með sérstökum litarstrimlum) og svo frumurnar 7,0. Þetta heldur ýmsum örverum í skefjum, en þær þrífast best í lútuðu umhverfi. Það eru steinefnin sem klofna í plúshlaðna jóna og gera líkamsvessana lútaða.

Það er eins hér og með margt annað að öllu má ofgera. Vanti steinefnin í mat eins og hvítt hveiti og sykur eða flest unnin matvæli þá raskast jafnvægi líkamans varðandi sýrustigið yfir lengri tíma. Það má sveiflast frá 6,0 til 7,5 í vefjum en verður lífshættulegt fari það út fyrir þau mörk.

Næringarfræðingar hafa lagt til að fæðan sé að staðaldri 40% sýrumyndandi í líkamanum en 60% basamyndandi því þá sé blandað mataræði í sýrustigsjafnvægi og ekki gengið á steinefnin. Til að setja saman slíka fæðu þarf helst sýru-basa matartöflur um rafhleðsluna (PRAL-gildi í meq/100g) eftir niðurbrot í líkamanum. Við virðumst þó hafa erft að geta borðað mikið í einu mat sem myndar frekar sýrur eftir meltinguna og geta komið sýrunum í lóg án þess að blóðið breyti sýrustigi nema í stuttan tíma eftir máltíðir.

Sé kalkið (Ca) skoðað sérstaklega sést að það er líka í blóðinu og rúmur helmingur þess bundinn prótíni en restin sem basajón. Verði líkamsvessarnir lútaðir geta Ca-jónirnar fallið út. Þannig kalka líffæri, slagæðar (bláæðar eru minna lútaðar og sleppa) og svo líka vöðvar og taugar og valda oft gigt og krampa. Frásogist ekki nægt kalk úr fæðunni til að laga sýrustigið kemur Ca frá beinunum og getur valdið beingisnun.

Of mikið prótín í blóðinu þykkir það og eykur blóðþrýstinginn en ediksýruinntaka þynnir það og getur líka leyst upp útfellt kalk. Það er nú einu sinni svo að steinefnin koma aðallega úr jarðar- og sjávargróðri. Vanti steinefni verða frumur og vefir súrir. Tvöfalt meira magn af kartöflum þarf til að jafna sýruáhrif kjöts svo dæmi sé tekið.

En það er fleira sem veldur breytingu á sýrustigi í okkur. Erfiðisvinna, stress, hiti og kuldi hafa sýruáhrif. Þá hefur því verið haldið fram að sýrustig líkamans sé miklu mikilvægara en nokkurt eitt annað til að losna við að verða veikur og besta forvarnarleiðin til heilbrigðis og góð heilsa sé háð því að viðhalda réttu sýrustigi. Heilbrigðinu má síðan viðhalda með rétt völdum mat og rétt samansettum.

Helstu sýrumyndandi matvörur eru: kjöt, fiskur, fuglakjöt, egg, mjólkurvörur, kornvörur og hnetur. Flest annað er basamyndandi, líka lítillega flest það sem við drekkum (vatn, kaffi, te, ávaxtasafar, gosdrykkir, bjór og vín). Það eina sem er alveg hlutlaust er hvíti sykurinn! Coca-cola er vægt súrmyndandi og ljós bjór.

Gagnlegt er að skoða:  www.Basica.de/saeure-basen ausgleich á netinu sem er með töflur og gagnvirkan töflureikni fyrir matvæli sem sýnir sýru- eða basamyndun í PRAL á samsetningu þess sem við veljum að borða.

Höfundur: Pálmi StefánssonFlokkar:Næring

Flokkar/Tögg, , , , , , , ,

%d