Batameðferð, valdefling og andlegt hjartahnoð gegn sálarháska – 3. grein

Hér heldur áfram viðtal við Auði Axelsdóttur iðjuþjálfa og stofnanda Hugarafls. Auður fær orðið: Árið 1998 þegar ég vann á Hvítabandinu við að byggja upp nýja dagdeild í iðjuþjálfun kynntist ég ,,Bata meðferð“ geðlæknisins Daniels Fisser frá Boston í Massatuset. Ég hef unnið eftir hans módeli PACE síðan. Rauði þráðurinn í hans meðferð er að fólk geti náð bata, en stofnanaumhverfið hindri það dálítið. Hversu ótrúlegt sem það kann að virðast. Sjálfur veikist Daniel á geði þegar hann var tuttugu og fjögra ára gamall. Hann var þá orðinn lífefnafræðingur og vann við rannsóknir tengdum geðsjúkdómum. Hann var greindur með geðklofa og dvaldi þrisvar sinnum á hersjúkrahúsi, þar sem var mjög sterk verkaskipting starfsfólksins. Veikindi Daniels voru alvarleg hann gat ekki talað og var algjörlega frosinn. Hann var settur í hjólastóð og snúið út í horn, var lítið sinnt og þótti ómögulegur sjúklingur. Svo var það einhver neðst í starfsmannapíramídanum, félagsliði eða einhver sem náði sambandi við hann og náði að kalla hann aftur inn í lífið. Hann fékk Daniel til að nikka og sýna að hann heyrði og náði honum inn í raunveruleikann.

Von er undirstaða bata

Við þessar aðstæður ákvað Daniel að verða geðlæknir af því að hann var ekki ánægður með meðferðina. Hann þorði ekki að segja frá því á sjúkrahúsinu vegna þess að hann var hræddur um að honum yrðu bara gefin lyf við þessari firru. Hann sagði frá þessari ákvörðum sinni þegar hann kom á öðruvísi stofnun. Meðferðaraðilinn þar studdi hann og sagði: ,,já frábært þú getur það, en þú verður nú að bjóða mér í útskriftina“. Það kveikti hjá Daníel von um að hann gæti þetta.

Þegar Daníel var orðinn læknir áttaði hann sig á að hefðbundin meðferð gaf honum ekki nægan tíma fyrir sjúklingana. Hann fór út úr spítalakerfinu og stofnaði ,,Empowerment Centre í Boston“ (Valdeflingar miðstöð)  og varð framkvæmdastjóri. Hann er nýleg hættur, orðinn sjötíu og tveggja ára gamall. Samhliða starfi sínu hefur hann farið út um allan heim til að kynna bata sinn og sýna ,,bata nálgun“.

Nú starfar hann svolítið sem geðlæknir, er með stofu heima hjá sér og beitir samtali og námd. Hann kynnist sjúklingunum og tekur þátt í þeirra tilfinningum, grætur með þeim og gleðst en notar lítið af lyfjum. Hann er ekki alfarið á móti lyfjum en notar þau lítið. Meðferð hans er birtingarmynd þess að það er hægt að ná sér af mjög alvarlegum geðsjúkdómum. ,,Hann minnir alltaf á: ,, ég er ekki einn, það eru ótal margir sem að ná bata“.

Þegar hann byrjaði í læknanáminu var honum ráðlagt að segja ekki frá því að hann hefði verið geðveikur. En hann er einn af fáum læknum sem tala mjög opinskátt um sín veikindi og segist hafa verið mjög alvarlega veikur, fastur í geðrofi. En hann komst út úr veikindunum.

Geðlæknisfræðin er byggð á tilgátum. Það hefur hvergi verið rannsakað eða skrifað í skýin að fólk geti ekki náð bata segir Daliel Fisser.

Ég kynntist aðferðum Daniels árið 1998 eins og kom fram áðan svo hitti ég hann  í Danmörku árið 2005. Þá varð ég fyrir mikilli hugljómun af að hlusta á hann og ég rauk til hans og sagði: ,, þú verður að koma til Íslands“. Hann tók nafnspjaldið mitt og geymdi það í veskinu þangað til að hann þurfti að koma við á Íslandi árið 2008 þá lét hann mig vita og hélt hér tvo fyrirlestra. Síðan hefur hann komið hingað þrisvar. Síðast þegar hann kom fórum við upp á Landspítala og héldum fund með læknum þar og öðru starfsfólki, sem var mjög áhugavert. Síðan hefur íslenskur læknir skrifað um hann í blöðin.

Prinsipp Daniels eru:  Ekki bíða, reyndu að vera virkur um leið og þú getur, lyfin geta hjálpað en þau hjálpa ekki öllum. Fólk þarf að læra á tilfinningar sínar. Tengslanetið er oft nauðsynlegra en fagfólkið. Það getur líka verið gott að heyra um annarra reynslu.

Valdefling:

Lærðu að efla vald þitt,

taka sjálf/ur ákvarðanir,

lærðu að velja sjálf/ur.

Það styrkir sjálfstraust þitt og ákvarðanatöku.

Fyrirmynd að meðferðarlíkani Daniels Fisser var Judy Chamberlain kennari hans í valdeflingarfræðum og samstarfskona, sem lést árið 2010 úr lungnasjúkdómi.  Sjálf hafði Judy verið á geðdeild einhvern tíma og var mjög reið þegar hún kom út. Eftir það barðist hún fyrir réttindum geðsjúkra og var sögð móðir réttindabaráttu geðsjúkra í Bandaríkjunum. Judy Chamberlain var einginlega fyrsti erlendi gestur Hugarafls og kenndi okkur hugtakið valdeflingu. Um 300 manns komu þá á tveggja daga málfund með henni á Hóteli Sögu.

Andlegt hjartahnoð

Undanfarin ár hefur Daniel Fisser kennt okkur í Hugarafli ,,Andlegt hjartahnoð“.  Aðferðin miðar að því að fólki sé mætt með hjartanu ekki með ráðleggingum eins og: ,,Þú verður að fara út að hlaupa, ganga, taka lyf eða leggjast inn“. Heldur á að mæta viðkomandi í sársaukanum eða því sem er að gerast. Ef hlustandinn gerir þetta þá róast viðkomandi og nær sjálfur að finna lausn.

Síðastliðið vor kláraði ég nám í þjálfun í andlegu hjartahnoði. Þjálfunin fer fram fjórum sinnum og tekur töluvert á. Síðustu þjálfunina tók ég í Skotlandi. Atvik sem kom fyrir í síðasta skiptið lýsir nokkuð vel hvernig þessi aðferð leysir andlega sálarkreppu. Í Skotlandi bjó ég hjá eldri hjónum. Alltaf eftir morgunmatinn voru þau fljót að fara frá borðinu þeim fannst ég þurfa frið. Einn morguninn varð breyting á þessu frúin fór ekki frá borðinu heldur stóð hjá mér og fann sér alltaf eitthvað til að gera, hella í bollann o.s.fv. Svo segir hún allt í einu: ,,Hvernig er á þessu námskeiði?“  og ég svara: ,,Það er fínt en maður er viðkvæmur þegar maður er að vinna svona mikið með hjartanu“ . Þá fór hún að hágráta og sagði: ,,Þú hlýtur að hafa stórt hjarta“. Svo grét hún og sagði mér frá áfalli sem hún hafði orðið fyrir tveimur árum áður. Ég fór að gráta með henni og ristabrauðið mitt var orðið rennandi blautt.  Svo sagði ég við hana: ,,Ég finn sársauka þinn“. Þá grét hún meira og fór út. Ég hugsaði bara almáttugur hvað hef ég gert. Ég þurfti að fara frá henni svona.

Þegar ég kom til baka vissi ég ekki neitt. En morguninn eftir sagði hún: ,,Ég ætla að  keyra þig niður í bæ“. Ég mótmælti og sagðist geta gengið. Nei hún var ákveðin og ýtti manninum sínum frá og settist upp í bílinn. Þetta var síðasti dagurinn minn þarna og á leiðinn kláraði hún að segja mér hvað hafði komið fyrir hana og þau hjónin gátu ekki talað um það. Einhvern vegin varð ég til þess að opna þennan vanda sem þau bjuggu við. Konan var strax þarna í bílnum byrjuð að sjá leiðir út úr vandanum. Um það snýst aðferðin að hjálpa fólki að finna sjálft leiðir út úr sínum vanda.

Við erum þrjú frá Hugarafli þau einu í Evrópu sem Daniel Fisser er búinn að þjálfað sem meðferðaraðila í Andlegu hjartahnoði. Áformað er að við förum til að kenna þetta í Evrópu.  Daníel kennir í Bandaríkjunum, Japan og víðar. Hérna heima erum við búin að halda nokkur námskeið og á þeim hefur komið í ljós að það er misjafnt hve fólk á auðvelt með að beita þessu árangursríka andlega hjarthnoði. Ef ég vitna í mann á einu námskeiðinu sem sagði:  ,,Ég skil þetta ekki, þið getið gert þetta, þið þekkist. Ég get ekki labbað að einhverri manneskju og farið að hnoða hana andlegu hjartahnoði“.

Þarna var mikill misskilningur. Það þarft ekki að þekkja manneskjuna, það þarft ekki einu sinni að tala sama tungumál. Það þarf bara að vera, nota nálgun, hlusta, samþykkja og ekki dæma. Þetta er í rauninni mjög einfalt.

Aðferðin Andlegt hjartahnoð er tilvalin til kennslu í skólum og væri frábært að taka upp á þeim vettvangi. Það varða lýðheilsu þjóðarinnar að geta nálgast hvort annað.

Framhald af þessu viðtali mun birtast að viku liðinni á http://www.heilsuhringurinn.is  undir heitinu:  Trúður sem læknar fólk í sálarháska – 4. grein. Þar fjallar Auður um lækninn og mannvininn Pat Adams sem fer óhefðbundnar leiðir í lækningum.

Áður birtar greinar úr viðtali við Auði Axelsdóttur:

Grein nr: 1 – Að hjálpa fólki úr sálarháska:  https://heilsuhringurinn.is/2017/04/19/ae-hjalpa-folki-ur-salarhaska-1-grein/

Grein nr. 2 – Að hjálpa fólki úr sálarháska með Opnu samtali. https://heilsuhringurinn.is/2017/04/25/ae-hjalpa-folki-ur-salarhaska-mee-opnu-samtali-2-grein/

Viðmælandi: Auður Axelsdóttir



Flokkar:Geðheilbrigði, Hugur og sál

Flokkar/Tögg, , , , ,

1 Svar

Trackbacks

  1. Trúður sem læknar fólk í sálarháska – 4. grein – Heilsuhringurinn