Að hjálpa fólki úr sálarháska- 1. grein –

Hér birtist fyrsta grein af fimm úr löngu viðtali við Auði Axelsdóttur iðjuþjálfa og stofnanda Hugarafls. Hún var fyrst spurð um nám og störf, síðan um strauma í geðheilbrigðismálum. Framhalds greinarnar sem munu birtast með viku millibili á http://www.heilsuhringurinn.is  í þeim verður sagt frá aðferðum sem hafa reynst vel erlendis til hjálpar geðsjúkum og samtökin Hugarafl hafa tileinkað sér

Nú fær Auður orðið:

Ég er alin upp á Reykjalundi, þar fékk ég að  skottast um og fylgjast með á öllum sjúkradeildunum þ.á.m. geðdeildinni. Á þeim tíma var staðurinn að breytast úr berklahæli í endurhæfingarstað. Ég lifði og hrærðist með sjúklingum af öllum toga. Á staðnum höfðu allir hlutverk og fólk var byggt upp til að fara aftur út í samfélagið. Læknarnir á Reykjalundi á þessum tíma,  þeir Haukur Þórðarson, fyrsti endurhæfingarlæknir á Íslandi og Oddur  Ólafsson læknir höfðu góða nánd við sjúklingana. Það var engin stéttaskipting og skipti ekki máli hvort það var starfsmaður eða sjúklingur. Á jólunum á Reykjalundi var ekkert athugavert við það að starfsfólk og sjúklingar héldu hátíðina saman.  Allir voru jafnir. Þar kynntist ég þessum jafningjagrunni sem ég nota í dag í mínu starfi og hugsa oft hlýtt til Reykjalundar þegar ég nú nota þessa aðferð sem gefur svo góða raun.

Þegar ég stækkaði byrjaði ég í útivinnu á Reykjalundi og eftir það í aðhlynningu inni. Þar kynntist ég iðjuþjálfun í fyrsta skipti, sem var gríðarlega öflug. Til dæmis var þar ungur maður sem hafði dottið á hjóli og handleggsbrotnað. En eftir aðgerðina varð hann blindur og spastískur. Ég heillaðist svo mikið af lausnum sem iðjuþjálfarnir komu með til að hjálpa honum við að borða og bjarga sér.

Að loknu námi í iðjuþjálfun árið 1994 byrjaði ég að vinna á geðsviði Landspítalans og vann þar til ársins 1998. Þar lærði ég margt þó aðég sæi að sumt væri nauðsyn að laga. Námið í Danmörku var að því leyti gamaldags að það var kennt að halda ákveðinni fjarlægð við sjúklingana og ekki segja eftirnafn sitt. Þetta þvældist dálítið fyrir mér fyrstu mánuðina í starfi. Sem dæmi þá var ég að vinna í eldhúsinu með manni (sjúklingi) sem var heimilislaus. Hann gaf mér bleikan kúlupenna úr plasti sem á stóð Auður. Ég fór alveg í kerfi því að ég mátt ekki taka á móti gjöfum. Ég þurfti að hugsa það í 2 til 3 daga hvað ég ætti að gera við pennann svo tók ég við honum. Það bjó ekkert að baki gjöfinni annað en maðurinn var mér þakklátur því að hann rétti dálítið úr kútnum í meðferðinni og eignaðist annað líf.  Ég hef oft hugsað um það síðan hve svona stofnananálgun getur skemmt samskipti.

Það var maður á deildinni sem var svo upptekinn af litum að hann sagðist borða þá. Ég var alltaf að velta fyrir mér af hverju hann segði þetta. En starfsfólkið á deildinni var sagði við mig: ,, þú  ferð ekki inn í geðrof, maður á ekki að gera það, þetta er bara rugl í manninum“. En skýringin kom til mín seinna, maðurinn var myndlistarmaður. Í iðjuþjálfanáminu var mér líka kennt að ekki ætti að fara inn í geðrof.

Hvað felst í orðinu geðrof?

Geðrof  er notað yfir sturlunarástand, sem einkennist af ofskynjunum, ranghugmyndum og stafar af skertum tengslum við raunveruleikann, manneskjan missir tengsl við umhverfi sitt. Geðrof getur auðvitað  verið á mjög mismunandi nótum. Við getum öll lent í slíku ef við verðum fyrir áfalli. Einn vinur minn útskýrir þetta  þannig: ,,Geðrof  eru viðbrögð sálar og líkama og ver okkur fyrir alvarleika áfallsins / raunveruleikans.“

Framhald á þessu viðtali mun birtast eftir viku á http://www.heilsuhringurinn.is undir fyrirsögninni: Úr sálarháska með Opnu samtali -2. grein –. Þar verður fjallað um áhrifaríka aðferð í meðhöndlun geðrofs sem finnski sálfræðingurinn dr. Jaakko Seikkula þróaði á samt fleirum í Finnlandi.

Viðmælandi: Auður Axelsdóttir

 

 Flokkar:Geðheilbrigði, Hugur og sál

Flokkar/Tögg, , , , , , ,

%d