Númer 2

Flest okkar hugsum töluvert um mat og matarvenjur. Um mat er talað, skrifað og við veltum því upp hvað sé gott og hollt og næringarríkt. Sjaldan ræðum við samt okkar á milli hvað gerist á hinum endanum en erum þó mörg hver ansi upptekin af því. Enda ekkert skrítið. Hægðir, já, hægðirnar okkar segja mikið til um heilsufarsástand okkar og líðan.

jenny-mccarthy-on-toilet
Við erum upptekin af hægðum ungbarna, það þekkja allir foreldrar, lit, magni og tíðni. Sem krakkar og unglingar þá pælum við ekki mikið í þessu en svo aftur á fullorðinsárum þá verður þetta aftur okkur hugleikið, hægðatöflurnar koma til sögunnar en þó er þetta nánast aldrei rætt. Á elliheimilium er fólki tíðrætt um hægðirnar enda getur það skipt sköpum fyrir aldraða einstaklinga að klósettferðir gangi vel frá degi til dags.

Sem heilbrigðisstarfsmaður þá er ein spurning sem nánast alltaf er borin upp í viðtölum við sjúklinga sem leita aðstoðar. Hvernig eru hægðirnar? Oft kemur á fólk og það er ekki alveg tilbúið til að ræða það og svarið er oft „fínar“ og vill helst ekki ræða það frekar. Því er oft gott að staldra við og spyrja nánar, hve oft, hversu mikið, um lit, lykt og áferð og fleira slíkt. Hægðirnar geta nefnilega sagt okkur margt um heilsufarsástand manns.

Nýlega kom Cameron Diaz fram í þætti Dr. Oz og ræddi hægðirnar en hún gaf nýlega út bókina „The Body Book“ þar sem hún fjallar um allt sem viðkemur heilsu og útliti. Í bókinni er kafli um hægðir og hver lykillinn að góðum hægðum sé.

„Tölum um kúk, elskan! Já, þú heyrðir rétt. Allt svo eðlilegt og nauðsynlegur hluti af því að vera manneskja,“ segir hún í bókinni. Hún kemur einnig inn á það að hægðirnar geti sagt mikið til um heilsufarsástand manneskjunnar og að það sé mikilvægt að skoða það sem fer í klósettið.

Cameron Diaz deilir hægðavenjum sínum í bókinni og ráðleggur konum að borða rauðrófur og drekka mikið vatn. Sjálf drekkur hún einn lítra á fastandi maga á morgnana. „Komumst yfir oj partinn og skoðum vel það sem kemur úr okkar fallega rassi“, segir Diaz í bókinni.

Hvernig eru heilbrigðar og eðlilegar hægðir?
Því miður er ekkert eitt eðlilegt þegar kemur að hægðum. Hver manneskja er einstök og það sem eru eðlilegar hægðavenjur hjá einni manneskju getur verið algjörlega óeðlilegt fyrir aðra. Hér að neðan ætla ég að fjalla lauslega um það sem þykir eðlilegt hjá flestum.

Hversu oft – Allt á bilinu þrisvar í viku til þrisvar á dag er eðlilegt þó meðaltalið sé einu sinni til tvisvar á dag. Ef þú kúkar þrisvar til fjórum sinnum í viku og hægðirnar eru ekki harðar og þú þarft ekki að nota hægðaörvandi lyf eða rembast við að losa, þá er það eðlilegt fyrir þig. Ef þú þarft að losa oftar en þrisvar á dag og hægðirnar eru lausar og þér finnst þú þurfa hlaupa á klósettið, þá er það ekki eðlilegt. En óháð tíðni, ef þér finnst þú vera með hægðatregðu þá er líklegt að svo sé.

Á klósettinu – Þvert á það sem margir telja, þá áttu ekki að þurfa taka með þér blað eða ipaddinn á klósettið. Hægðalosun á aðeins að taka sekúndur, ekki mínútur og án rembings. Gott ráð er að seta fæturna upp á koll þegar þú kúkar því það getur flýtt ferlinu þar sem það er manneskjunni eðlilegra að kúka í þeirri stöðu.

Hljóð – Því hljóðara, því betra. Það þýðir að þú ert ekki að losa mikið loft. Þögnin er góð.

Lykt – Ef hægðirnar eru lyktarlausar þá gefur það til kynna heilbrigðar hægðir þó svo að smá lykt sé eðlileg. Ef kúkurinn lyktar mikið og illa þá ættir þú að skoða matarræði þitt. Oft bendir mikil lykt til þess að þú sért að borða of mikið af slæmri fitu.

Stærð – Einhvers staðar á bilinu 10-30 cm á dag.

Þyngd – Kúkurinn ætti að ýtast mjúklega út og renna niður klósettskálina og stöðvast þegar hann kemur í vatnið í skálinni. Ef hann sekkur hratt þá gæti það verið vísbending um að þú sért ekki að borða nægar trefjar. Ef hann aftur á móti flýtur þá er það vísbending um að þú sért að borða of mikla fitu eða að þú meltir fituna ekki rétt.

Lögun – Hinn fullkomni kúkur lítur út eins og s-laga pylsa sem heldur lögun sinni í klósettskálinni. Ólögulegur, molnaður, langur og mjór, kögglar eða litlar kúlur benda allt til óreglu í matarræði þínu eða að eitthvað sé að meltingunni.

Áferð – Hægðir eiga ekki að innihalda neinar sýnilegar og ómeltar fæðutegundir. Þær eiga að sýnast mjúkar og líkjast áferð á hnetusmjöri. Allra best er ef þú þarft bara að skeina þig einu sinni og þá er endaþarmurinn hreinn. Ef það er slím þá bendir það til að það séu bólgur í smáþörmunum vegna fæðuóþols eða iðraólgu.

Litur – Hinn hefðbundni hægðalitur er brúnn en er þó háður matarræði og öðru.
Grænn – Getur gerst ef þú hefur borðað bláber, kál, spínat, hveitigras, spírulínu era verið að taka inn járn. Það getur einnig bent til þess að þú sért að skilja út umfram gall en gall er grænt að lit.
Rauður – Hægðirnar geta orðið rauðar ef þú borðar mikið af rauðrófum. Ef hægðirnar eru rauðar og þú hefur ekki verið að borða rauðrófur þá gæti verið blóð í hægðum þínum.
Gulur – Fólk sem þjáist af slæmu bakflæði fær gulleitan lit á hægðir. Þetta getur einnig gerst ef það er ekki nægilegt gall eða þegar fæðan fer of hratt í gegnum meltingarveginn eins og þegar um niðurgang er að ræða.
Gráar eða litlausar – Ef hægðir þínar eru mjög litlausar eða gráar þá er það einkenni þess að mjög lítið gall sé losað inn í þarmana.
Svartur – Hægðirnar verða svartar ef þú ert að taka inn járn eða magamixtúrur. Svartur litur getur líka gefið til kynna blæðingu ef þú ert ekki að taka neitt inn sem getur skýrt svarta litinn.

Hvenær þú átt að leita til læknis
Þekktu þínar hægðavenjur og skoðaðu vel hvað kemur frá þér svo þú vitir hvað er eðlilegt fyrir þig og hvað ekki. Farðu til læknis ef:
• Það eru skyndilegar breytingar á hægðum þínum.
• Verkir, niðurgangur eða hægðatregða.
• Hægðirnar eru rauðar, svartar, gráar og litlausar og þú veist ekki af hverju.
• Þú ert uppgefin eftir hægðalosun.

Bættu hægðirnar með eftirfarandi ráðum:
• Tyggðu matinn þinn vel (30-50 sinnum hvern bita) sérstaklega ef þú sérð ómeltan mat í hægðunum.
• Borðaðu reglulega. Borðaðu þegar þú ert svöng og stoppaðu þegar þú ert orðin södd. Forðastu ofát.
• Borðaðu meira af trefjum og grænmeti til að auka magn hægðanna. Bættu smá Chia-fræjum og hörfræolíu í matarræðið daglega og það getur gert kraftaverk.
• Drekktu mikið vatn. Ef þú ert t.d. um 68 kg þá ættir þú að drekka um 2,2 l af vatni á dag.
• Minnkaðu koffíninntöku því of mikið koffín getur þurrkað hægðirnar.
• Hreyfðu þig í a.m.k. 30 mín. á dag.
• Til að auka gallflæði þá er gott að drekka t.d. vatnsglas og kreista 1/2 sítrónu út í á morgnana á fastandi maga.
• Góður nætursvefn er nauðsynlegur og forðastu streitu.
• Ef þú þarft að losa, ekki halda í þér. Það getur leitt til hægðatregðu.
Óska þér alls hins besta í komandi klósettferðum!

soffia1-160x160

Þessi grein er birt hér með leyfi höfundar og var áður birt  í Kvennablaðinu þann 18 jan 2014.  Höfundurinn Soffía Steingrímsdóttir er menntaður hjúkrunarfræðingur og situr í ritstjórn Kvennablaðsins.  soffia@kvennabladid.isFlokkar:Annað, Ýmislegt

Flokkar/Tögg, ,

%d bloggers like this: