Trúður sem læknar fólk í sálarháska – 4. grein

Hér heldur áfram viðtal við Auði Axelsdóttur iðjuþjálfa og stofnanda Hugarafls.

Þegar Hugarafl átti tíu ára afmæli árið 2013 kynntist ég hinum mikla mannvini Pat Adams lækni. Þessi önnumkafni maður svaraði sjálfur í símann þegar ég hringdi í hann. Við það varð ég stressuð því að ég átti ekki von á að hann svaraði sjálfur. Eftir að ég hafði kynnt mig, gaf hann mér góðan tíma og spurði: ,,hvaðan ertu? Já, ertu frá Íslandi. Þá vil ég segja þér að ég hef lesið 14 Laxnesbækur. Þegar ég útskýrði starf Hugarafls, svaraði hann:  ,,Ég er heimilislæknir og búin að vera það í 40 ár og ég nota aldrei geðlyf, ég vinn með mörgum með geðraskanir, en ég vil ekki nota geðlyf“. Hann útskýrði það þannig að hann veiktist sjálfur þegar hann var ungur og ætlaði þá að deyja. Það var áður en hann fór í læknanámið. Hann var settur á sjúkrahús og gefin lyf og leið illa af þeim, en hann náði að snúa dæminu við og ákvað að nota kraftana sína í lífinu til að hjálpa öðrum og fór í læknanám.

Í læknanáminu vildi hann fara óhefðbundnar leiðir, t. d. vildi hann vita hvað fólk héti og láta sér þykja vænt um það. Hann byrjaði strax að sprella og var rekinn úr náminu, en náði að láta dæma sig inn aftur vegna þess að hann var með svo háar einkunnir. Um leið og hann kláraði læknanámið stofnaði hann sjúkrahúsið/ samfélagið Gesundheit í Virginíu  í Bandaríkjunum. Þar gátu allir komið og notið læknisaðstoðar hvort sem þeir eru líkamlega- eða andlega veikir, ríkir eða fátækir. þar eru trúðahópar, fræðsla og skipulagning á starfinu. Adams rak sjúkrahúsið í 12 eða 14 ár án þess að fá styrki.  Í Gezundheitfer fer fram mikil fræðsla, þar eru þjálfaðir trúðahópar sem fara með Patchút um allan heim, fræðsla og fjáröflun.

Allir á staðnum eru jafnir, hvort sem það eru læknar, notendur/sjúklingar, hjúkrunarfólk, kokkar eða ræstingafólk. Framlag allra er jafnt metið og allt starfsfólk gefur vinnu sína. Lögð er áhersla á óhefðbundnar lækningar samhliða þeim hefðbundnu og mikið lagt upp úr kærleika og húmor. Fólk nær árangri af því að það fær persónulega nálgun og umhyggju. Patch er málssvari þess að það eigi að nota hjartað, kærleikann og húmorinn til að koma fólki í gegnum veikindi.

Svo hætti Pat Adams að vinna sem læknir og kallar sig  ,,trúð sem er læknir“ ekki lækni sem er trúður. Trúður er aðal hlutverkið og hann er búinn að vera í sérsaumuðum trúðafötum í 50 ár. Hann er alltaf trúður með allavega tæki og tól til að nota, sem að enginn annar myndi láta sér detta í hug. Hann er stór og mikill að vexti með grátt sítt hár sem yfirleitt er litað  blátt öðrumegin. Hann hefur ótrúlega góða nærveru.

Pat Adams hefur haldið magnaða fyrirlesta fyrir okkur og vinnusmiðjur fyrir fagfólk og aðstandendur. Þar sem hann hefur kennt fólki að sýna umhyggju, elska hvert annað og horfast í augu og tala saman. Hann lét fólk dansa, faðmast og gera alls konar til að brjóta niður múra, svo hélt hann fyrirlestur um hvernig við eigum að nýta okkur sjálf í þjónustu við aðra. Hann er alltaf að minna á að við eigum að hugsa vel um hvert annað, ekki dæma og vera með fordæmingu á öllu

Það bunar útúr honum fróðleikurinn, svo svarar hann spurningum á eftir. Eitt sinn hófst umræða um skólamál, sem hann hefur mjög sterkar skoðanir á og það kom spurning  úr sal um ADHD greiningum og rítalíni. Þá hrækti þessi stóri maður á gólfið, það var eins og foss. Það var áhrifaríkt augnablik engum öðrum hefði dottið í hug að gera slíkt. Hann er svo reiður yfir því hvernig við högum okkur við börn í skólakerfinu, erum alltaf setja þau í ómögulegar aðstæður og gefa þeim svo lyf ef þau eru ekki eins og við viljum að þau séu. Kona Adams kom með honum hingað og við fórum með þeim á Barnaspítala Hringsins. Þar spilaði hún á nikku og hann var trúður.

Pat Adams ferðast svona 320 daga á ári að jafnaði, hann er ótrúlegur orkubolti, sefur í flugvélum og gefur sig allan í þetta. Hann fer út um allan heim með trúðahópa og fólk  víðsvegar í heiminum vinnur með honum.  Oft fer hann þangað sem fólk býr við mikla eymd til að reyna að lina þjáningu með því að hlúa að fólki. Á þeim svæðum reynir hann alltaf að leggja eitthvað að mörkum til samfélagsins, sem getur bætt líf fólksins, t.d. í Rússlandi er hann búinn að stofna munaðarleysingjahæli. Hans markmið er að minnka ofbeldi í heiminum og nota til þess kærleika, sjálfan sig og trúðinn. Ég held að hann sé mesti mannvinur sem við eigum núna.

Þegar Pat Adams kom hér í fyrsta skipti stoppaði hann hér á landi í 26 klukkutíma. Hann hélt fyrirlestra og notaði hverja einustu mínútu. Honum fylgdi ofboðsleg orka og jákvæðni og ég fékk svo mikla orku af því að vera í kringum hann að ég sveif bara í nokkrar vikur á eftir. Slíkt hefur aldrei komið fyrir mig áður. Hann er mjög opinn og  einlægur og segir hlutina beint út án þess að vera dónalegur. Þegar ég keyrði hann út á flugvöll og þakkaði honum fyrir það sem hann hefði gefið mér. Sagði hann: ,,ég er ekki búinn að gefa þér neitt þú bara tókst það sem þú vildir“. Hann meinti þú ræður því sjálf/ur hvaða áhrifum þú verður fyrir.

Ég fylgdist með honum meðan hann tékkaði inn á Leifsstöð. Þar náði hann sambandi við alla á augabragði með sinni einlægu framkomu og trúðafötunum. Allir voru spenntir fyrir honum hvort sem það voru börn eða fullornir. Hann eflist við athyglina og tók upp úr vasanum stykki sem stækkaðir munninn og svo eitthvað af dótinu sem hann gengur alltaf með í vösunum.

Í hittifyrra þegar Pat Adams kom hingað var það í fyrstaskipti í 20 ár sem hann fékk sér smá frí. Við skipulögðum 5 daga þar sem þau hjónin gátu hvílt sig aðeins.  Eftir það sagðist hann helst vilja vinna svolítið og fara svo í frí á Íslandi.

Við í Hugarafli höfum nýtt hans gildi og notum svipaða nálgun. Við notum persónulega nálgun, umhyggju og húmor. Við styðjum fólk á þeirra eigin forsendum og trúum því að hægt sé að ná bata af geðröskun.  Við vinnum á jafningjagrunni og náum þannig lengra með fólk. Það treystir okkur og þorir frekar að takast á við veikindin og prófa sig áfram. Við bendum á að  þar er hægt að nota margar aðrar leiðir til bata en stofnanir og lyf. Við getum lært af Pat Adams að manneskjan og ævi hennar skiptir máli ekki aðeins sjúkrasagan.

Framhald af þessu viðtali mun birtast loka greinin að viku liðinni á http://www.heilsuhringurinn.is undir heitinu:  Hugarafl vinnur gegn sálarháska – 5. grein. Þar er fjallað um stofnun, störf og mikinn árangur af stafi Hugarafls.

Áður birtar greinar úr þessu viðtali við Auði Axelsdóttur:

Grein nr: 1 – Að hjálpa fólki úr sálarháska:  https://heilsuhringurinn.is/2017/04/19/ae-hjalpa-folki-ur-salarhaska-1-grein/

Grein nr. 2 – Að hjálpa fólki úr sálarháska með Opnu samtali. https://heilsuhringurinn.is/2017/04/25/ae-hjalpa-folki-ur-salarhaska-mee-opnu-samtali-2-grein/

Grein nr. 3 -Batameðferð, valdefling og andlegt hjartahnoð gegn sálarháska:  https://heilsuhringurinn.is/2017/05/02/batameefere-valdefling-og-andlegt-hjartahnoe-gegn-salarhaska-3-grein/

Viðmælandi: Auður Axelsdóttir



Flokkar:Geðheilbrigði, Hugur og sál

Flokkar/Tögg, , ,

1 Svar

Trackbacks

  1. Hugarafl vinnur gegn sálarháska – 5. grein – Heilsuhringurinn
%d bloggers like this: