Meltingarvandamál – hægðatregða, niðurgangur, gyllinæð

Í nokkuð mörg ár hef ég staldrað við þegar ég hef séð eða heyrt eitthvað um meltingarvandamál. Öðru hverju er ég spurð um ráð gegn hægðatregðu og niðurgangi. Ákvað ég því að safna saman almennum fróðleik sem gæti komið að gagni í slíkum vanda. Öll meltingarvandamál eru einstaklingsbundin og má stundum eins mikið tengja þau andlegri líðan okkar eins og næringu. Um rétta næringu hefur mikið verið skrifað og verður í þessari samantekt bent á ýmislegt lesefni í þá veru. Einnig hef ég leitað til einstaklinga eftir ráðum sem hafa komið þeim að gagni. En gleymdu því aldrei lesandi góður, að viljir þú vera heilbrigður kostar það fyrirhöfn. Það dugar ekki að sitja heima og lesa. Uppskriftir gera lítið gagn upp í skáp sé ekki er farið eftir þeim.

Í bókinni Hjálpaðu sjálfum þér segir höfundur hennar Louise L. Hay að sjúkdómar eigi sér rætur í hugsunum okkar. En hugsun megi breyta og með því að breyta hugsuninni getum við læknað sjúkdóma okkar. Hægðatregðu segir hún stafa af því að við viljum ekki sleppa fortíðinni, það megi kalla fortíðaráráttu, stundum stafi það líka af nánasarhætti. Til þess að lækna hægðatregðu, segir hún að við verðum að sleppa þessum gömlu gildum og þess í stað hugsa: Ég losa  um fortíðina og hleypi inn nýjum og ferskum blæ. Ég leyfi lífinu að flæða í gegn um mig.Hún telur áhrifaríkt að skifa þessar staðhæfingar tuttugu sinnum á hverjum degi þar til breyting hefur átt sér stað. Eitt dæmi veit ég um, mann sem þetta ráð virkaði hjá. Þegar hann sagði mér að hann væri laus við hægðatregðu og gyllinæð sem hafði plagað hann um langa hríð, spurði ég hvernig? Svarið var: Ég sleppti fortíðinni.

Hómópatía kemur að gagni
Ég leitaði til Sigurdísar Hauksdóttur, hómópata. Hún sagði að til væru remedíur sem gögnuðust vel gegn hægðatregðu, sem stafaði af tilfinningabælingu og ótta. Einnig gegn þarmahreyfingum og til að styrkja meltinguna. Oftast væri þörf á breyttu mataræði og aukinni hreyfingu. Hún sagði að stundum stafaði hægðatregða af því að lifrin annaði ekki sínu verkefni, og þá kæmu ýmsar jurtir sé vel ásamt hómópatalyfjum. Sami háttur væri á þegar börn væru meðhöndluð gegn þessum kvilla, oft með frábærum árangri.

Hallgrímur Magnússon, læknir tók því vel þegar ég leitaði til hans og sagði: ,,Það eru nokkur ráð sem hjálpa til að losa um hægðir“. Aðallega eru þrjár ástæður fyrir því að fólk lendir í erfiðleikum með hægðirnar. Í fyrsta lagi of mikið af próteinum (eggjahvítu) í matnum miðað við fitu eða oliur. Í próteinum eru engar trefjar sem draga vatn inn í ristilinn og þar fyrir utan, þá valda protein því að ákveðin tegund af örverum fjölgar sér mjög mikið og dregur það úr sýrustiginu í ristlinum og veldur tregum hægðum. Við það að bæta við matinn einhverri olíu t.d. grænni olífuolíu þá dregur mjög mikið úr þessum áhrifum. Jafnvel er hægt að smyrja magann með olíu kvölds og morgna. Í öðru lagi þá vantar tefjar í matinn, en það eru þær sem draga vatn inn í meltingarveginn og halda hægðunum mjúkum. Einnig eru trefjarnar æti fyrir bakteríur sem halda úrganginum súrum sem leiðir til góðra hægða.

Allar trefjar eru góðar en þær bestu eru samt trefjar frá hörfræjum „psyllium og okru“. Það verður þó að mylja hörfræin í kvörn til þess að við fáum þessi áhrif af því að það þýðir ekki að borða þau heil. Við það að mylja þau fáum við einnig olíu og góð eggjahvítu efni. Aðrar trefjar koma til greina eins og ,,pectins og gums“. Trefjar úr korni t.d. eins og hveitiklíð „cellulosi og lignin“ eru grófari og geta valdi ertingu í meltingarveginum. Í þriðja lagi þá verður að drekka nógu mikið af vatni og það verður að drekka það rétt og eingöngu vatn, því allan annan drykk tekur líkaminn sem mat. Það á að drekka 30 ml pr. kg af líkamsþyngd.

Hundrað kg þungur maður drekkur 3 lítra yfir daginn, 1 lítra fyrst að morgni og helst látin líða ca. ein klst. áður en annar matur er borðaður. Gott er ef hægt er að liggja í rúminu í 5-10 mínútur á hvorri hlið eftir að vatnið er drukkið. Síðan tvisvar sinnum hálfur lítri, 20 mínútum fyrir mat og hálfur lítri um miðjan daginn, þá er eftir hálfur lítri fyrir svefninn. Fyrir hvern lítra af vatni, sem drukkinn er, á að taka inn ca. 1/4 úr teskeið af sjávarsalti, takið eftir, það verður að vera sjávarsalt. Verst er að borða mjólkurmat og hveiti, það gerir hægðir mest tregar og ber því að forðast. (Efnin, með erlendum nöfnum sem eru innan gæsalappa, fást í apótekum). Flestir sjúkdómar eru tilkomnir vegna upphleðslu úrgangsefna í ristlinum.

Hvernig verður þú frískur úr: bókinni Heilbrigði og vellíðan, eftir Dr. Paavo Airola. ( útg. Iðunn,1986). ,,Langvarandi hægðartregða getur stafað af ýmsum líkamlegum og andlegum ástæðum svo sem ónógri hreyfingu, ofvirkni skjaldkirtilsins, þornun líkamsvefja vegna þess að ekki er drukkið nóg af  vatni, vanhæfni lifrar, ofnæmi fyrir sérstökum mat, vanabundnu skeytingarleysi um að gera þarfir sínar þegar manni er mál, venjubundinni notkun hægðarlyfja, stöðugum áhyggjum, taugaóstyrk eða sorg, hreinsuðum matvælum, fjörefna- og steinefnaskorti, sérstaklega á B inósítóli og kalí og of mikilli eggjahvítu úr dýraríkinu í fæðunni, með meðfylgjandi rotnun í innyflum, o.s.frv.“. Höfundur ráðleggur grænmeti, ávexti og heilkorn. Einnig leggur hann áherslu á hreyfingu.

Vata, Pitta, Kaffa.
Í bókinni Fullkomið heilbrigði eftir lækninn Deepak Chopra
er umfjöllun um meltingu og heilbrigði á framandi hátt, en mjög athyglisverð. Þar er fjallað um kenningar yogans Maharishi Mahesh Yogi sem greinir fólk í þrjá megin flokka þ.a.e. vata, pitta og kaffa. Melting ,,vata“ einstaklinga er oftast misgóð og viðkvæm, hjá ,,pitta“ fólki er melting oftast nær sterk og skilvirk, en hjá ,,kaffa“ einstaklingi er meltingin oftast hæg og þung. Í bókinni eru svo gefin ráð sem henta hverjum flokki fyrir sig. Í bókinni kemur fram að slæm melting eigi afgerandi þátt í myndum sjúkdóma og góð melting sé hornsteinn góðrar heilsu. Þar er ráðlagt að forðast hráa fæðu, því að auðveldara sé að melta soðinn mat og ráðlagt að dreypa á volgu vatni með mat, en forðast að borða eða drekka mjög heitt og mjög kalt.

Sagt er að best sé að borða stærstu máltíð dagsins í hádeginu því þá sé meltingin sterkust, en kvöldmatur skuli vera hóflegur, sem hægt sé að melta áður en farið sé að sofa. Talað er um hve árstíðirnar hafi mikil áhrif á líkamann og er árstíðunum skipt niður í vata, sem er kalt; pitta, sem er heitt og kaffa, sem er mitt á milli. Sagt er að misjafnt sé hvernig hver árstíð hefur áhrif á hvern einstakling, eftir því hvort hann er vata, pitta, eða kaffa manngerð. Eitt er sérstaklega tekið fram að samkvæmt kenningum ayurveda sé engin fæða góð eða slæm, hún sé einungis góð eða slæm fyrir þig. Það er hæfileikinn til að vinna lífvænlega þætti úr því sem neytt er sem skiptir höfuð máli. Fólk fæðist ekki með jafna hæfileika að þessu leyti, líkamsgerðirnar þrjár hafa mjög missterka meltingu.

Næring bundin blóðflokkum
Í bókinni Rétt mataræði fyrir þinn blóðflokk,
eftir dr. Peter J. D’Adamo eru greinagóðar ráðleggingar um mataræði fyrir hvern blóðflokk fyrir sig. Þar er tekið fram að mismunandi ástæður séu fyrir hægðatregðu þar á meðal annríki og óreglulegt líferni. Nauðsyn sé að gefa þessum frumþörfum líkamans nægan tíma og tryggja að þarmarnir tæmist fullkomlega. Trefjaríkt fæði, vatnsdrykkja og góð hreyfing eru oftast leið út úr hægðatregðuvanda. Fólki er ráðlagt að hugsa sinn gang ef meltingin fer úr skorðum og kanna hvort magaóþægindin stafi af því að það hafi borðað mat sem er ómeltanlegur fyrir þess blóðflokk.

Fólk í A, B og AB blóðflokkum getur bætt mat sinn með trefjaríku, óunnu klíði. Fólki í O blóðflokki er ráðlagt að borða meira af trefjaríkum ávöxtum og grænmeti. Einnig getur O flokkur tekið vítamín með smjörsýru sem myndar fyrirferð í görnunum á náttúrulegan hátt í staðinn fyrir klíðið sem ekki er ráðlegt fyrir þá sem eru í O flokki. Fólki í öllum blóðflokkum er ráðið frá því að borða hveitiafurðir. O flokki er einnig ráðið frá að borða haframjöl. En öllum flokkum er talið gott að borða speltmjöl og hirsi. Tekið er fram að fólk með hægðatregðu í O, B og AB blóðflokki eigi að varast ,,aloe vera“ safa. En áðurnefnt „butyrate“ er talið gott fyrir alla. ,,Butyrate“ er efni í duftformi sem unnið er úr berki lerkitrjáa.

Makróbíótík
Tue Gertsen sérfræðingur í Makróbíótík sagði í 3 – 4 tbl. Heilsuhringsins1985: Lærum að taka eftir og hlusta eftir aðvörunarmerkjum líkamans. Fyrstu einkenni veikinda eru: Andleg og líkamleg þreyta, einnig slappleiki sem orsakast af lélegri meltingu. Endastöð ristilsins er í öxlunum. Af þeim sökum koma fyrstu einkenni fram sem verkir og eymsli í öxlum og er ábending um veika meltingu. Síðan koma verkir í fótleggi sem stafa frá smáþörmunum.

Á því stigi fara flestir til læknis og fá lyf og svæfa þar með aðvaranir líkamans, þannig að veikindin vefja upp á sig og ofan á bætast blóðsjúkdómar, því að nýrun hætta að anna sínu hreinsunarhlutverki og afleiðingar þess eru húðsjúkdómar. Makróbíótíkst fæði er ríkt af trefjum, mestmegnis úr jurtaríkinu og fellt að þörfum hvers og eins.

Nokkrar greinar og viðtöl við Þuríði Hermannsdóttur húsmæðrakennara, um makróbíótík, birtust í Heilsuhringnum á árunum 1982 til 1988. Hún lagði áherslu á að fólk lifði í samræmi við náttúruna og hagaði mataræði eftir árstíðum.

Hún sagði mikilvægt að ná jafnvægi við veðráttuna. Ekki væri nein glóra í því að borða það sem fólk kallar heilsufæði og samanstendur af innfluttum ávöxtum og hrásalötum úr suðrænu grænmeti, allt árið um kring. Miðað við okkar veðráttu væru það aðeins nokkrir dagar að sumri sem slíkt gerði okkur gott. Hún lagði áherslu á að matreiðslan væri jafn mikilvæg og val á fæðutegundum. Hún réði fólki frá því að borða sykur, súkkulaði, sælgæti, gosdrykki, ískalda drykki, vínanda, suðræna ávexti, ávaxtasafa, krydd og fínunnið mjöl. Þess í stað að velja lífræna fæðu og tyggja vel. Meltingin byrjar í munninum. Gagnstætt því sem hér hefur áður komið fram segja makróbíótísk fræði að fólk eigi ekki að drekka nema það þyrsti. Vond lykt af hægðum kemur, þegar fæðuval hentar ekki meltingu viðkomandi. Makróbíótískur fæðuhringur, allar korntegundir eru notaðar ómalaðar, en soðnar.

Hve oft? Það er nokkur meiningamunur um, hve oft á dag heilbrigð manneskja á að hafa hægðir, flestir fullorðnir telja að einu sinni á dag sé nóg. Í viðtali við Elísabetu Carlde heilsuráðgjafa, í 1-2 tbl. Heilsuhringsins1985 segir hún að veikt fólk t.d. krabbameinssjúklingar, þurfi að hafa hægðir eftir hverja máltíð til að verjast því að eiturefni safnist fyrir í þörmunum og fari út í blóðið. Til þess að framkalla hægðir og hreinsa ristilinn bendir hún á þarmaskolun með til þess gerðu tæki sem sett er á klósettið.

Elísabet sagði að heilbrigðir sem hafi hægðir tvisvar á dag verði ekki veikir, því að þá sé hreinsunin það ör að ekkert setjist fyrir í líkamanum. Þeir sem ekki hafi hægðir á hverjum degi fái gjarnan verki. Starf Elísabetar lá mikið í því að hjálpa fólki með húðvandamál og taldi hún þurfa að örva meltingu og úthreinsun hjá því. Elísabet lagði áherslu á að fólk byrjaði daginn með því að borða 3 matskeiðar af rifnum gulrótum, 15 mínútum áður en annarrar fæðu væri neytt og síðan sama skammt 15 mínútum fyrir hverja máltíð dagsins.

Ilmkjarnaolíur, sveskjusafi og rjómi
Selma Júlíusdóttir ilmkjarnaolíufræðingur gaf mér ráð um notkun olía. Hún sagði að gott væri fyrir fullorðna að nota áburð úr 100 ml af laxerolíu blandaða með 30 dropum af piparmyntuolíu og nudda henni vel á magann (aðeins má nota hreina ilmkjarnaolíu). Einnig bæri það árangur, í sama tilgangi, að nudda olíunni í miðju lófanna og neðan í miðjar iljarnar. Piparmynta er verkjastillandi og væri hægt að kalla náttúrulegt asperín.

Aðeins má bera óblandaða laxerolíu á börn og best að bera vandlega í kring um naflann. Laxerolía er eina olían sem leysir stíflur hvort sem er innan frá eða utan frá. Sveskjusafi er mjög góður hvort heldur er fyrir börn eða fullorðna, einnig sveskju- barnamatur. Svo er hægt að leggja sveskjur í bleyti að kvöldi og geyma í lokuðu íláti yfir nótt, þá eru þær góðar til neyslu að morgni. Áður fyrr var morgunmatur sumra sjúkrahúsa þunnur hafragrautur með útbleyttum sveskjum út í með rjóma út á.

Enda segir Selma að rjómi sé fjarska góður gegn hægðatregðu, hann er eins og krem á sára slímhúð, ekki síðri en olífuolía. Má drekka hann öðru hverju yfir daginn. Þá er átt við 36% rjóma.

  • Samantekin ráð gegn hægðatregðu
    Hægðalosandi te: Timjan, rósmarin, kamilla, piparmynta, te af ristuðu byggi, einiberjum, salvíu. Kona ein sagði að það virkaði vel að taka 2 hylki af hörfræolíu að kvöldi, einnig telur hún gott að borða Nori þang og söl. Önnur sagði að sér gæfist vel gegn tregum hægðum að fara berfætt út á svalir eða annan vel kaldan flöt og standa þar smá stund. Sú þriðja sagði að sér dyggði að borða eitt kívíað morgni. Mörgum reynist vel trefjaefnið ,,Frukt og fibre frá Ortis“. (Hvoru tveggja fæst í apótekum). Eitt glas af gulrótarsafa á fastandi maga, hálftíma fyrir morgunmat og annað glas að kvöldi, er talið örva hreinsunarkerfi líkamans. Í bókinni Chinese System of Food Cures-Prevention &rRemedies eftir Henry C. Lu, eru gefin mörg ráð gegn harðlífi:
    1)  Sjóða 500g af afhýddum sætum kartöflum, salta eða sykra eftir smekk og borðað áður en farið er að sofa.
    2)  Hræra 2 fullar tsk af hunangi út í glas af volgu vatni. Drukkið á fastandi maga.
    3) Pressa safa úr 100 gr af hvítum radísum. Drekka fastandi á morgnana.
    4)  Drekka 1-2 glös af mjólk á fastandi maga á morgnana. Trúlega er átt við ófitusprengda mjólk. Mjólk frá Samsölunni er fitusprengd en búa má til ófitusprengda mjólk með því að blanda saman 1 hluta 26% rjóma og 9 hlutum af undanrennu.

Ristilkrampi

Í Fréttablaði 18.5.13 framan á aukablaðinu Fólk vitnuðu tvær konur um að þeim hafi  batnað ristilkrampi við að taka inn Bio-Kult Candéa sem er sagt vera öflug blanda af vinveittum gerlum, hvítlauk og þrúgukjarnaþykkni (e. grape seed extract), sagt er:  Það virkar öflug vörn gegn candida-sveppasýkingu í meltingarvegi kvenna og karla.    Löng og góð reynsla er einnig af efninu ,,Colon Care“ sem hefur reynst mörgum vel gegn ýmsum ristilkvillum þar á meðal ristilkrampa, hægðatregðu og niðurgangi. Bæði þessi efni fást í apótekum.

Niðurgangur
Af völdum sveppasýkingar. Í 1-2 tbl. Heilsuhringsins 1985 var eftirfarandi frásögn skráð af Ólafi Sveinssyni. Árið 1947 veiktist maður af ofkælingu og fékk penisillín-meðferð við henni. Upp frá því mátti kuldi ekki koma að honum, fékk hann þá niðurgang og einnig ef hann drakk kalda drykki. Jafnframt hafði hann stöðugar eyrnabólgur, rauðir hringlaga blettir komu á fætur og neðri hluta baks, einnig fékk hann exem á bringuna. Á sama tíma varð hann mjög sólginn í sykur og mararlyst jókst mjög, óregla komst á hægðir og á hann sótti óeðlilega mikil þreyta. Þannig gekk til 1983. Þá var honum ráðlagt að taka inn mjólkursýrugerla og ,,Lactobacillus acidophilus“ til að styrkja þarmaflóruna, einnig C, E, og B vitamín ásamt steinefnum í miklu magni. Árangurinn varð sá að hægðir urðu eðlilegar á hálfum mánuði, eyrnabólgur hurfu eftir mánuð en exemið á bringunni og blettirnir fóru eftir ár.

Ýmis ráð gegn niðurgangi
Ráð gegn niðurgangi, úr bókinni Rétt mataræði fyrir þinn blóðflokk: Te úr bláberjum, ylliberjum, hindberjalaufum, einnig er mælt með ,,Lactobacillus acidophilus“ (jógúrt-gerli). Varúð er tekin fyrir því að leggja of mikið traust á hægðalyf, sem geti truflað náttúrulega úrgangslosun og valdið niðurgangi. Það er stemmandi að búa til bakstur úr einu kg af grófu salti og setja í bómullarpoka, t.d. koddaver, leggja síðan á kviðinn í 15-20 mín. Soðnar gulrætur eru taldar stemmandi, einnig hrísgrjón.

Ef um lítil börn er að ræða er gott að sjóða seyði af 1 bolla af hrísgrjónum í 2 lítrum af vatni í 1 klst. Fullorðin kona þjáðist af niðurgangi vikum saman og endaði á spítala. Illa gekk að finna hvað olli niðurganginum, að endingu kom í ljós, að hana vantaði B 1 vítamín og batnaði henni strax þegar úr því var bætt. Í bókinni Chinese System of Food Cures-Prevention &rRemedies eftir Henry C. Lu. Eru ráð gegn niðurgangi: 1)  pressa safa úr nokkrum radísum og drekka 2 á dag. 2) Kínverskt sjúkrahús í Changhai gaf þetta einfalda ráð gegn niðurgangi: Afhýða og rífa niður 2 hvítlauksrif, sjóða í hálfu glasi af vatni með 2 tsk af brúnum sykri. Drukkið heit 2-3 á dag.

Gott ráð gegn uppköstum: Ein umiboshiplóma er soðin í 20 mínútur í 2 gl af vatni. Soðið er síðan þykkt með 2 tsk. af kuzu sem er fyrst leyst upp í örlitlu köldu vatni. Annað ráð sem gefst vel gegn uppköstum er að drekka hrátt egg  sem hefur verið vel hrært með 2 msk af mjólk.

Einnig reynist hrært, hrátt egg ótrúlega vel gegn uppköstum. (Þeyta með gafli hrátt egg og drekka). Ef uppköstin hætta ekki eftir drekka eitt egg þá er drukkið annað.

Gyllinæð
Gyllinæð hrjáir helming þeirra sem eru fimmtugir og eldri, sagði Jóhannes Gunnarsson, skurðlæknir í grein í Heilsuhringnum 1.-2. tbl. 1989. Hann sagði að oft væri um að kenna harðlífi, sem mætti lækna með trefjaríku mataræði og meiri hreyfingu. Þegar vandinn er kominn er oft þyngri þrautin að komast fyrir gyllinæð. Sveinn Ólafsson, skrifaði Heilsuhringnum bréf um sjálfshjálparaðferð gegn gyllinæð sem birt var á bls. 61-62 í haustblaðinu 1994. Þar segir hann frá áburði úr joði og laxerolíu sem hann bar á endaþarminn með mjög góðum árangri gegn gyllinæð. Blandan er 4/5 hlutar laxerolíu á móti 1/5 hluta af joði. Hjá Önnu Olsen í Njarðvík fréttist af áhrifaríkum áburði gegn gyllinæð, sem framleiddur er úr íslenskum jurtum  Í bókinni Chinese System of Food Cures-Prevention & Remedies er ráð gegn gyllinæð: Soðnir 2 bananar með hýði. Borðaðir á hverjum degi.

Loft í görnum
Bókin um manninn, efrir Fritz Kahn gefin út af Helgafelli 1946. Það er kunnugt að loft myndast vegna rotnunar, að sínu leyti eins og kolsýrubólur gera vart við sig í brauði og víni, sem er í gerjun. Í ristlinum safnast fyrir kolsýra og methan-loft, sem myndast úr sykrungum; ammoníak-loft kemur úr amínósýrum (klofningsefnum hvítunnar); en úr öðrum hvítuefnum matarins framleiðast gastegundirnar fenól, kresól, indól, skatól og brennisteinsvatnsefni. Hið síðast talda er daunillt og verður þess vart þegar fólk leysir vind, einkum þegar neytt er matar, sem hefur í sér brennistein svo um munar. Hveitiafurðir og sætindi auka loftmyndum í görnum hjá fólki í O blóðflokk.

Að lokum
Hreyfing er nauðsynleg.
Til eru ýmsar æfingar sem hvetja latan ristil. Ýmsum sem til mín hafa leitað vegna meltingarvandamála hef ég bent á að borða hirsi og allir hafa talið það gera sér gott. Hirsi er hægt að borða sem graut á  morgnana, það fæst í heilsubúðum og sumum verslunum. Uppskriftin er 1 hluti hirsi, 3 hlutar vatn, örlítið salt, soðið í 20 til 30 mínútur. Suðan er látin koma upp, lokið sett á pottinn og það svo látið krauma á lægsta hita. Hirsi er hægt að nota svipað og hrísgrjón.

Til að bragðbæta þau má nota kanil. Oftast nota ég sólblómafræ, eða sesamfræ sem hefur verið ristað á pönnu við mjög lágan hita. Hvoru tveggja er fljótt að brenna ef hiti er of mikill og þarf að hrær oft í.því á pönnunni, Nú svo má auðvita nota mjólk en ég kýs frekar örlítinn 36% rjóma því að gerilsneydd mjólk reynist veikum ristli erfið. Matreiðsla skiptir miklu máli, allt steikt og brasað fer illa í veika meltingu og blessuð verið þið varkár í notkun steikarolía og sleppið því að nota smjörlíki.

Mér reynist best að nota íslenskt smjör til að steikja úr enda er ekki hægt að hafa nema lítinn hita þegar steikt er úr smjöri. Mikill hiti við steikingu getu gert gott hráefni að óhollum mat. Greinargóð umfjöllun er í haustblaði Heilsuhringsins 1993 um hægðatregðu barna, eftir Sólfríði Guðmundsdóttur, hjúkrunarfræðing M.Sc.

Viðauki:

Áhrif taugaboðefna á blöðru- og þarmastarfsemi

Í bókinni: „Från MS-diagnos till bättre hälsa: ett nytt synsätt på multipel skleros“. eftir sænska lækninn Birgittu Brunes og blaðamanninn Adima Bergli er útskýrt hvernig taugaboðefni hafa áhrif á þarma- og blöðrustarfsemi: Kaflinn sem hér birtist er tekin úr styttri þýðingu Heilsuhringsins á bókinni og má finna á http://www.heilsuhringurinn.is undir fyrirsögninni: Frá MS-sjúkdómsgreiningu til betri heilsu.

Það þekkja sjálfsagt allir hversu stuttur tími líður frá því að maður verður hræddur, þar til „hjartað er komið upp í háls“. Hvað lungnapípurnar varðar þá víkka þær vegna þess að noradrenalínið örvar móttakarafrumurnar, en acetylkólínið hefur þau áhrif að þær dragast saman. Við meðhöndlun astma, þar sem lungnapípur eru bólgnar og samandregnar, er gefið lyf sem örva móttakarafrumur noradrenalíns. Árangurinn verður sá að lungnapípurnar víkka og sjúklingurinn á auðveldara með andardrátt. Einnig er annað lyf sem beitt er við vandkvæðum í lungnapípum, bronkítis og astma sem hamlar gegn áhrifum acetylkólíns á lungnapípurnar. Þau lyf koma í veg fyrir að lungnapípurnar dragist saman. Þau hafa sem sagt útvíkkandi  og slakandi áhrif.

Acetylkolínið er hið örvandi taugaboðefni í þörmum sem eykur þarmahreyfingar en dópamínið og noradrenalínið hemja þarmahreyfingar. Það eru til svokölluð kólín lyf sem örva þarmahreyfingar með því að hafa áhrif á acetylkolínið.

Önnur aðferð til þess að örva þarmahreyfingar er að hemja dópamínið í þörmunum. Ef þarmahreyfingar eru of miklar t.d. við niðurgang er hægt að minnka þær með svokölluðu antikólín lyfi.

Einstaklingur sem tekur þunglyndislyf sem fyrst og fremst hafa áhrif á noradrenalínið getur fengið hægðatregðu sem aukaverkun af lyfinu. Stressaður einstaklingur getur líka átt í erfiðleikum með þarmana, vegna þess að magn noradrenalíns er sífellt of mikið og hemur þess vegna þarmahreyfingar.

Acetylikólínið verkar örvandi á þvagblöðruna, þannig að hægt er að tæma hana, en noradrenalín og dópamín getur hamið starfsemi þvagblöðrunnar. Kólín lyf geta örvað tæmingu þvagblöðrunnar vegna þess að þau herma eftir áhrifum acetylkolíns á þvagblöðruna. Önnur lyf minnka tæmingarviðbragð þvagblöðrunnar vegna þess að þau hemja  mótakarafrumur acetylkólíns. Þetta leiðir til þess að fólk á betra með að halda í sér. Mörg lyf sem á einhvern hátt auka áhrif noradrenalíns á taugakerfið, geta haft þá aukaverkun að tæmingaviðbragð þvagblöðrunnar minnki.

Höfundur: Ingibjörg Sigfúsdóttir skrifað árið 2001



Flokkar:Greinar og viðtöl

Flokkar/Tögg, , , , ,

%d bloggers like this: