Að hjálpa fólki úr sálarháska með Opnu samtali – 2. grein –

Hér birtist önnur grein af fimm úr viðtali við Auði Axelsdóttur iðjuþjálfa og stofnanda Hugarafls. Finnski sálfræðingurinn  dr. Jaakko Seikkula þróaði ásamt fleirum mjög áhrifamikla meðferð á árunum 1981 til 1998 sem nefnd er Opið samtal. Aðferðin hefur verið í stöðugri þróun í vesturhluta Lapplands í Finnlandi. Dr. Seikkula hefur komið tvisvar til Íslands og miðlað okkur af þekkingu sinni. Hann er prófessor við háskólann í Tromsö í Norgegi og útskýrir geðrof eftirfarandi: ,, Geðrof eru eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum en ekki sjúkdómur“. Aðferðin Opið samtal þróaðist í Finnlandi í kjölfarið á því að vinna meira með fjölskyldunni og tengja fólk þannig samfélaginu.

Opið samtal felst í því að til taks sé teymi fagfólks, sem hægt sé að nálgast á öllum tímum sólarhrings. Þegar upp kemur bráðaástand mæta starfsmenn teymisins á vettvang.  Tveir fagmenn setjast á rökstóla með sjúklingnum og öllu hans tengslaneti, svo er reynt að finna út úr því hvað hafi valdið geðrofinu. Aðilinn sem er í geðrofi er alltaf hafður með, ekki útilokaður. Engin ákvörðun er tekin nema hann sé með. Þá kemur oftast upp að það er eitthvað sem þarf að ræða innan fjölskyldunnar og síðan þarf að átta sig á hvernig er hægt að hjálpa viðkomandi.  Allar ákvarðanir eru teknar saman. Svona meðferð tvisvar á dag í u.þ.b. tvær vikur leiðir oftast í ljós hvað þarf að takast á við innan fjölskyldunnar. Ótrúlegur árangur hefur náðst í Finnlandi með þessari aðferð um 82 % þeirra sem hafa farið í gegnum hana hafa náð bata og farið aftur út í samfélagið.

Finnar veltu fyrir sér hvað væri hægt að gera svo að fólk lokaðist ekki inni á geðsjúkrahúsum, sérstaklega fólk með geðklofa. Þeir reyna að ná til fólks í fyrsta geðrofi til þess að ekki sé búið að setja inn fullt af lyfjum eða eitthvað annað. Það er svo mikilvægt sem gerist fyrstu dagana, þá er svo mikil opnun, manneskjan verður algjörlega varnarlaus og galopin. Margt kemur upp sem búið var að pakka niður. Geðrof er alltaf þess eðlis að það er saga að baki þess og einhver birtingarmynd.

Auður: Ég hef barist fyrir því að þessi aðferð sé tekin upp á Íslandi og við gætum tekið hana upp hér ef vilji væri fyrir því. En svo heyrist frá heilbrigðisráðherra: ,, hvað, við erum með svo fína bráðamóttöku að við getum gert þetta þar“. En ég bendi á að það er erfitt að framkvæma Opið samtal inn á stórri stofnun, það þarf að fara fram heima hjá fólki. Ef þessi aðferð væri tekin upp af heilbrigðiskerfinu hér gæti það sparað gríðarlega mikinn kostnað og fækkað innlögnum. Í Finnlandi hefur plássum á geðdeildum fækkað, sjúkdómsgreiningum hefur fækkað og lyfjanotkun hefur minnkað.

Hefur verið hægt að hjálpa fólki án lyfja ?

Já það er prinsipp aðferðarinnar að byrja alltaf án lyfja. Ef notuð eru lyf þá er það til að róa viðkomandi svo hann geti sofið, en lyf eru notuð eins stutt og hægt er. Ef þarf að nota geðrofslyf eru þau líka notuð eins stutt og hægt er. Manneskjunni er ekki sleppt úr augsýn fyrr en hún er hætt að taka lyfin. Lyfin eru bara notuð sem hjálpartæki stuttan tíma, alls ekki til nota áraum saman.

Framhald af þessu viðtali mun birtast að viku liðinni á http://www.heilsuhringurinn.is undir heitinu: Batameðferð, valdefling og andlegt hjartahnoð gegn sálarháska -3. grein -. Þar fjallar Auður um árangursríkar meðferðir geðlæknisins Daniels Fisser.

Viðmælandinn: Auður Axelsdóttir iðjuþjálfi, stofnandi Hugarafls, forstöðumaður Geðheilsu eftirfylgdar, samfélagsgeðþjónustu innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, hún lauk námi í iðjuþjálfun í Kaupmannahöfn árið 1994. Nú 23 árum seinna hefur margt breyst í meðhöndlun geðsjúkdóma og hefur Auður verið sérstaklega dugleg að kynna sér nýjar leiðir erlendis og nýta þær hér á landi til hjálpar geðsjúkum.

Slóðin á fyrstu greinina Að hjálpa fólki úr sálarháska er:  https://heilsuhringurinn.is/2017/05/25/trueur-sem-laeknar-folk-i-salarhaska-4-grein/ 

Viðmælandi : Auður AxelsdóttirFlokkar:Geðheilbrigði, Hugur og sál

Flokkar/Tögg, , , ,

1 Svar

Trackbacks

  1. Batameðferð, valdefling og andlegt hjartahnoð gegn sálarháska – 3. grein – Heilsuhringurinn
%d bloggers like this: