Vítt og breitt um geðheilbrigðismál. Pistill nr. 6

Áfram með valdeflinguna.
Þegar einstaklingur fer í gegnum alvarlega tilfinningalega erfiðleika hefur það áhrif á marga þætti hins daglega lífs. Viðkomandi getur upplifað stjórnleysi, hræðslu, upplifir sig minnimáttar og ræður jafnvel ekki við tilfinningr sínar. Viðkomandi getur einangrast í vanlíðan sinni, tapað áttum og átt erfitt með að vera innan um annað fólk og sinna sínum hlutverkum. Þrátt fyrir þessa þætti sem ég nefni hér sem dæmi hef ég margsinnis heyrt einstaklinga sem hafa upplifað geðræna erfiðleika segja að þeir hefðu ekki viljað vera án þessarar reynslu. Hún skilji eftir víðsýni, ómetanlegan fróðleik um margbreytileika sálarinnar og kenni manni að virða sjálfan sig og aðra á annan hátt en áður. Lífið sjálft verður dýrmætara og samskipti við annað gefandi fólk öðlast merkari þýðingu. Þörfin fyrir að hjálpa öðrum sem lenda í svipaðri stöðu gerir vart við sig og kærleikur og umhyggja fyrir náunganum verður sjálfsögð. Í bataferli er að mörgu að hyggja og ég kom lítilega inná valdeflingu í síðasta pistli mínum sem ég vil halda áfram að ræða um í dag.

Skilgreining Judiar Chamberlin er áfram leiðarljósið. Hún gerði skilgreiningu á hugtakinu og setti fram 15 atriði sem þurfa að vera til staðar til að virðing og réttindi séu höfð að leiðarljósi í bataferli. Við skulum umfram allt hafa það í huga að fólk getur náð fullum bata þrátt fyrir geðræna erfiðleika ef rétt er haldið á málum. Í Geðfræðslu Hugarafls sem byggir á fræðslu í grunn- og framhaldsskólum, kemur sláandi oft fram hjá ungu fólki að það lítur á geðröskun sem eitthvað endanlegt sem ekki sé hægt að breyta. Það er því ómetanlegt að einstaklingar sem hafa náð bata séu tilbúnir stíga á stokk og segja frá sinni leið í batanum. Gefi jafnframt innsýn inní baráttuna sem þurfti að heyja til að gefast ekki upp, vonina, mikilvægi vina og vandamanna og að þrátt fyrir geðröskun hafi maður drauma og stefni hátt. Og viti menn viðhorfin hjá hinum elskulegu ungmennum breytast samstundis! Hræðslan hverfur og þeir sem mögulega þekkja vanlíðan gera sér grein fyrir mikilvægi þess að ræða við sína nánustu, hætta öllum feluleik og vinna í að leysa vandann.

Bataferlið er eins misjafnt og mennirnir eru margir en valdefling er hugmyndafræði sem ég tel að við eigum að nota í öllum okkar kerfum. Lykilatriði valdeflingar eru mannréttindi og virðing fyrir hverjum einstaklingi. Hlustun, samstarf fagfólks og notenda á jafningjagrunni verður að eiga sér stað og samvinna sem byggist á gagnkvæmri virðingu. Valdefling felur í sér að manneskjan vinnur í því að öðlast á ný vald yfir sjálfum sér og lífi sínu, sem um stund virtist vera óhugsandi. Sá vendipunktur sem verður í lífi einstaklings þegar hann uppgötvar að hann geti náð stjórn á ný er ómetanlegur. Það að horfast í augu  við eiginleika sína á ný, styrk til að taka ákvarðanir, réttinn til að ráða ferð í eigin meðferð og lífshlaupi er lykilatriði og  gerist smátt og smátt í samspili við annað fólk. Valdeflingin felur í sér mikla sjálfsvinnu, kjarkinn til að skilja og höndla tilfinningar er mikilvægur þáttur og síðast en ekki síst þarf að fara fram endurskoðun á eigin sögu sem hefur í veikinda felinu breyst í sjúkrasögu.

Lífsagan kemur til baka og mikilvægir þættir í persónuleikanum sem áður voru styrkleikar en týndust, á meðan sjálfstraustið beið hnekki í U-beygunni sem tók stjórnina. Stimpillinn sem við notum á geðræna erfiðleika getur truflað hlutverk okkar í samfélaginu og gert það að verkum að við förum að „haga okkur“ samvkæmt því. Það er til dæmis algeng myta að það að fá geðröskun taki frá manneskjunni getu til að framkvæma innihaldsríka hluti og þannig verði það um ókomna tíð. Þetta viðhorf þarf auðvitað að hrekja því geðrænir erfiðleikar fela ekki sjálfkrafa í sér brotthvarf hæfileika og getu. Hins vegar er það algengt að einstaklingur sem gengur í gegnum ferlið missir sjálfstraustið og trú á eigin hæfileikum. Sumir meðferðaraðilar geta einnig speglað þeirri vantrú sem er að mínu mati mjög miður og hættan er að það sé tekin dýrmæt von frá einstaklingi um að hann geti náð bata.

Batahvetjandi meðferðaraðilar sýna hins vegar þann kjark að geta farið út fyrir hefðbundin ramma og „brotið reglurnar“. Látið sér þykja vænt um einstaklinginn, sjái eittuvað sérstakt við hann og hafa áhuga á öllu sem honum viðkemur. Þessi nálgun er betur til þess fallin að styðja einstaklinga í bataferli, ýta undir trú á lífið á ný og til að virkja þann kraft sem óneitanlega þarf til endurheimta sjálfið.  Umhverfið veit á stundum ekki hvernig skal bregðast við og speglar einnig þeirri trú að viðkomandi geti ekki lengur haft réttar skoðanir eða séð hlutina í réttu ljósi. Það geta sannarlega komið tímabil þar sem ákvarðanataka er óhugsandi og þörf er á dyggum stuðningi til að halda út, en sjálfsákvörðunarréttur er ómissandi í bataferli og umhverfið allt verður að styrkja þá trú að sjálfsvinnan skili árangri. Meðferð og lífskjör geta haft neikvæð áhrif á möguleikana á bata og slæmt upplýsingaflæði getur hindrað val og ákvarðanatöku.

Kári Halldórsson Hugaraflsmaður lýsir í grein sinni „Valdefling í framkvæmd“ hvernig hann lítur á málið:
„Það er grundvallaratriði í hugmyndafræði valdeflingar að hafa vald til að taka ákvarðanir um eigið líf. Við megum ekki láta annað fólk eins og til dæmis lækna, vini eða fjölskyldumeðlimi taka stjórnina af okkur. Það er sjálfsagt að þiggja hjálp og fá ráðleggingar frá öðru fólki en við megum ekki detta í þá gryfju að láta annaða fólk stjórna lífi okkar. Það getur verið auðvelt og stundum þægilegt þegar manni líður illa að láta annað fólk taka stjórnina en það er skammgóður vermir og til lengri tíma litið þá er það ófarsælt og eyðileggjandi. Þegar við gefum frá okkur stjórnina þá töpum við áhrifamesta vopninu sem við höfum í baráttu okkar við geðsjúkdóma og það er að taka virkan þátt í bataferli okkar“.

Hann segir ennfremur þetta: Að endurskilgreina sjálfan sig.
Það fyrsta sem við þurfum að gera er að endurskilgreina okkur sem persónur frekar en sem sjúklinga. Við erum persónur sem erum að takast á við geðsjúkdóma og við verðum að gera þá kröfu að komið sé fram við okkur eins og allt annað fólk. Við erum sem sagt ekki okkar sjúkdómur. Við þurfum að læra að endurskilgreina hver við erum og hvað við getum gert. Hver og einn verður að finna sína eigin rödd og finna kjark til að nota hana á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Rödd okkar á fullan rétt á sér, þó að við séum að takast á við geðræna erfiðleika. Við höfum margt til málanna að leggja og eigum að vera stolt af því að vera það sem við erum. Það að hafa geðsjúkdóm þýðir sem sagt ekki að við séum annars flokks persónur. Við erum fólk eins og allt annað fólk þó svo að við eigum við veikindi að stríða.

Það að ,,Koma út úr skápnum“ er hugtak sem við þekkjum öll en það er tekið að láni í skilgreiningu Judiar á Valdeflingu. Það felur jú í sér eins og Kári segir hér á undan, að manneskjan er ekki annars flokks þó svo að geðrænir erfiðleikar knýji dyra og við verðum að gera það sýnilegt. Það er eðlilegur hlutur að áföll, erfið lífsreynsla eða langvarandi álag geti tímabundið haft alvarleg áhrif á sál og líkama.  Fordómar sem óneitanlega hafa ríkt í garð geðsjúkra eru fylgifiskur viðhorfa sem eru í raun gríðalega sterk enn í dag og byggja á því að það sé að einhverju leiti skammarlegt að missa tímabundið stjórn á lífinu. Það að sum okkar séu lengur en aðrir til að rata um ranghala tilfinninganna er ekki hægt að skýra það á einfaldan hátt. Hvaðan við komum, hvaða aðstæðum við lifum í, hvaða lífskjör við búum við, hver við erum og hvað við erum alin upp við skipir allt máli. Sú tilhneiging að setja fólk í ákveðin hólf sjúkdómsgreininga á eflaust að útskýra á fullnægjandi hátt hvað gerist og hvernig ferlið verður, en gallinn er bara sá að það gerist ekki.

Höfundur: Auður Axelsdóttir iðjuþjálfi árið 2011  Auður Axelsdóttir 1Flokkar:Hugur og sál

Flokkar/Tögg, , , , , ,

%d