Vítt og breitt um geðheilbrigðismál. Pistill nr. 8

Aldrei að segja aldrei.
Bandaríski geðlæknirinn Daniel Fisher er væntanlegur til landsins í júní á vegum Hugarafls. Hann er höfundur batamódelsins og byggir þar á eigin reynslu af geðröskunum og ekki síður þekkingu sem geðlæknir. Ég hef starfað með hans módel í mörg ár og í dag langar mig til að gefa ykkur dæmi um þessa nálgun. Mig langar til að segja ykkur sögu af konu sem vildi ekki gefast upp þrátt fyrir að hafa fengið geðklofagreiningu.

Hún háði sína erfiðustu baráttu í sex ár áður en hún losnaði við neikvæðar hugsanir og raddir sem voru erfiðir húsbændur. Innlagnir á tímabilinu voru tíðar og erfiðar. Þegar ég hitti hana fyrst var hún var stöðugt þreytt, var með einbeitingarskort, notaði sterk lyf til að geta sofið og átti oftar en ekki erfitt með að komast í gegnum daginn vegna úthaldsleysis. Samkvæmt læknisfræðilegri nálgun, átti hún að sætta sig við núverandi stöðu.

Að halda í horfinu var aðalmarkmiðið, það borgaði sig ekki að breyta neinu. Engar áhættur skyldu teknar. Ástandið þótti viðunandi(miðað við fyrr) og vert að gleyma öllum hugmyndum um að fara út að vinna, það væri ekki ráðlegt og ekki hægt með svo erfiðan sjúkdóm. Hún fékk einnig að vita að ekki bæri að ræða tilfinningar, það gæti ruggað bátnum.
Þetta var ástandið þegar hún leitaði til mín og kallaðist sem sagt, bara nokkuð gott. En athugið, ekki að hennar mati! Hún var á miðjum aldri, átti fallegt heimili, eitt barna hennar bjó hjá henni og hún var með örorkubætur.

Einkennin voru vissulega deyfð, versti tíminn var yfirstaðinn en félagsleg einangrun var mikil. Stutt gönguferð eða innkaup í Bónus gátu verið mikið þrekvirki og úthaldsleysið plagaði hana. Stöðug þreyta hafði gríðarleg áhrif, líkaminn virtist svo þungur, og einbeitingarskorturinn gerði það erfitt að dvelja við lestur til dæmis. Breytingar í daglegu lífi gátu valdið miklu hugarangri og kvíða.  Radíusinn hennar var í  raun mjög takmarkaður þ.e.a.s hinn hefðbundni hringur til útréttinga og mögulegra heimsókna var þröngur og hindraði hana í að komast til dæmis í heimsókn til góðrar vinkonu sem bjó úthverfi Reykjavíkur. Þetta lokaða box var hamlandi og hún vissi að breytingar urðu að eiga sér stað til að hún gæti höndlað lífið og tilveruna.

Þegar við hófum samstarf var frá upphafi ljóst að hana langaði til að fara aftur að vinna, en hún sér ekki væntingar um að komast til starfa við sitt fag. Hún þráði að vera virk í samfélaginu en átti í raun erfitt með að sjá að það gæti gengið.
Traust myndaðist á milli okkar og við hófumst handa við uppbygginguna.

Í byrjun fórum við yfir stöðu mála, fórum yfir vilja og drauma og ekki síst lífssöguna. Í viðtölunum, sem stóðu yfir í 3 ár, var farið yfir málin í dagsins önn, gerð plön út frá þeim verkefnum sem þurfti að fást við, hlustað og bakkað upp. Til að víkka út radíusinn fórum við í nokkra leiðangra á bílnum, fyrst var það ég sem keyrði, síðan hún og loks náði hún takmarki sínu og fór út fyrir þægindaramman og gat heimsótt hvern sem var eða útréttað hvar sem var.

Í samvinnu okkar náðum við að vinda ofan af vandamálunum þegar þau komu upp. Erfiðið skilaði sérsmátt og smátt og virkaði því viljinn og draumurinn var til staðar. Mörg erfið áföll áttu sér stað á tímabilinu og en hún komst í gegnum þau án þess að gefast upp. Hún talaði sig frá þeim og leitaði alltaf lausna til að halda út og halda áfram. Það var mikill sigur og gaf mikla von.

Ekki láta ykkur detta í hug að þetta hafi verið þrautalaust en hvatinn var sá að fá að taka þátt í lífinu, eiga betra líf og að geta sinn sér og sínum betur.

Í samstarfi okkar voru sem sagt notaðar aðrar áherslur en þær sem komu fram áðan og nálgunin byggir á batamódelinu.

Staðan í dag er eftirfarandi:
Konan hefur stundað vinnu við sitt fag síðast liðin fjögur ár og hún fær mjög gjarnan sérverkefni m.a. vegna sinnar færni í mannlegum samskiptum. Úthaldsleysið og þreytan er horfin. Samverustundum með börnum og barnabörnum hefur fjölgað og valda í dag bara gleði, ekki álagi og kvíða eins og áður. Raddirnar eru til staðar en eru jákvæðar og styðjandi. Hún hefur ekki farið til geðlæknis undanfarin ár. Síðasta innlögn átti sér stað fyrir 9 árum og stóð í sólarhring.

Hún þarf ekki lengur sterk lyf til að sofa af, notar nú lítið brot úr svefntöflu á kvöldin.
Hún stundar hugleiðslu og slökun og síðast en ekki síst, hún er hamingjusöm!

Hvað telur hún að hafi hjálpað sér mest:
Að tengslanetið stóð alltaf við hlið hennar um leið og það gerði kröfur til hennar eins og venjulegrar manneskju og reiknaði jafnframt með að hún tæki ábyrgð. Það skipti sköpum að kröfur voru gerðar til hennar með að passa barnabörnin. Með öðrum orðum þau treystu henni þrátt fyrir veikindin og sýndu henni aldrei fordóma. Þau gerðu henni grein fyrir að þau vildu ekki missa hana og að þau elskuðu hana. Hennar eigin vilji og þrautseigja til að ná bata og hún vildi ekki sætta sig við að framtíðin væri ekki bjartari.

Húmorinn.

Hún gjörbreytti mataræði og hafði meðferðaraðila sem trúði á hana og gafst ekki upp

Ég stend á því fastar en á fótunum að það eigi aldrei að segja aldrei!!
Aldrei segja við konu á miðjum aldri að hún fari aldrei aftur á vinnumarkað vegna sjúkdóms.
Aldrei segja við manneskju að það sé fullnægjandi að lifa í óbreyttu ástandi (status que) bara til þess að halda sjúkdómsástandi í skefjum
Tökum ekki vonina frá neinum með svona viðhorfum.
Teljum aldrei einstaklingum trú um að það borgi sig ekki að reyna að komast lengra því það geti verið of mikil áhætta.
Aldrei að vanmeta drifkraft manneskjunnar og gildi nánustu aðstandenda.
Látum aldrei sjúkdómsgreininguna villa okkur sýn
Aldrei að segja aldrei!!

Auður Axelsdóttir 1

Erindið var áður flutt i þættinum Vítt og breitt í ríkisútvarpinu stöð eitt og birt með leyfi höfundar sem er:iðjuþjálfi og forstöðumaður Geðheilsu-eftirfylgdar og einn af stofnendum Hugarafls. Símar eru: 41415508212183 og netfangið: audur.axelsdottir@heilsugaeslan.is



Flokkar:Hugur og sál

Flokkar/Tögg, , , , ,

%d bloggers like this: