Okholms hollráð gegn minnisleysi og elliglöpum

Árið 1985 gaf Fjölva útgáfan út bókina Okholms hollráð til langlífis og heilsu sem Þorsteinn Thorarensen íslenskaði. Þótt liðin séu 23 ár síðan bókin kom út á íslensku eiga kenningar höfundarins Lars Okholms erindi við okkur enn. Hér kemur styttur kafli úr bókinni.

Lars Okholms segir að margvísleg fyrirbrigði, sem við köllum elliglöp, stafi ekki beinlínis af árafjöldanum, heldur af því að líkamann vanti ýmis snefilefni, málma og vítamín, að sumu leyti af því að líkaminn eigi orðið erfiðara með að vinna þau. En úr því megi bæta. Hann segir það sé mjög óþægileg tilfinning, þegar fólk jafnvel á miðjum aldri finni að minnið sé farið að gefa sig og það viti ekki sitt rjúkandi ráð, t.d. ef eigi að taka til máls á opinberum vettvangi og allt í einu muni fólk ekki hvað það ætlaði að segja. Slíkt minnisleysi veldur ósegjanlegum kvíða og óþægindum.

Minnisleysið er oft í augum annarra ábending um að manneskjan sé orðinn óhæf til að gegna ábyrgðarstarfi. Þess vegna reyna flestir að leyna því og grípa til örvæntingarfullra ráða, leita t.d. uppi sálfræðibækur um skammtíma- og langtímaminni og hvernig hægt sé að þjálfa minnið. Margir grípa þá til furðulegustu ráða til að reyna að muna. En hvernig stendur á þessu minnisleysi og hvað á að gera við því? Við köllum það oft elliglöp (þó það geti gerst á miðjum aldri), og þá vaknar upp spurningin um, hvort það stafi af einhverjum næringarskorti.

Fyrir því er að vísu fátt um sannanir, en þó skal hér vikið að nokkrum möguleikum. En fyrst ætti fólk þó að ganga úr skugga um, hvort það er í rauninni að kveljast af einhverju ofnæmi, sem getur valdið slíkum sálrænum truflunum. En svo er að snúa sér að næringunni og tryggja, að henni sé ekki ábótavant.

Kólín
Það næsta sem menn hafa komist því að finna vissa skýringu á minnisleysi, birtist í skýrslum N.W. Flodins, 1979 og 1981 um sjúklinga með Alzheimer-sjúkdóm (ellihrörnun fyrir aldur fram). Þeir urðu fljótari að hugsa og minnisbetri, ef þeir fengu 25 g af Lesítíni á dag. En þetta gilti þó því aðeins að sjúkdómurinn væri ekki langt á veg kominn. Lesítín er nokkuð algeng efnavara. Það er m.a. notað í smjörlíki, súkkulaði og salatvörur. Sá hluti Lesítínsins, sem verkar eins og hjálpar-vítamín, kallast kólín (cholin).

Hænur verða að fá kólín til að verpa, og ef rottur, naggrísir, hundar og kanínur fá ekki kólín, eru þau óðar en við er litið komin með skorpulifur. Þá er það ekkí síður athyglisvert, að rottur sem í lengri tíma er gefið 15 % alkóhól í staðinn fyrir vatn, svo þær eru eiginlega stöðugt á rungandi (aldrei heyrt þetta orð) fylliríi, — fá ekki lifrarskemmdir ef nóg kólín er í fæðunni. Annars væri lifrin ekki lengi að spillast í þeim. Loks má geta þess, að kólínskortur virðist stuðla að æðakölkun (Sjá Syntex Bibliography, 1979).

Kólín hefur viss áhrif á taugavef. Það hjálpar fólki, sem ekki hefur vald á hreyfingum sínum. Sé því gefið 1 gramm af kólínklóríð 4 sinnum á dag, fær það greinilega betra jafnvægi, göngulag og vöðvastjórn. Kólín virðist einnig bæta minnið hjá tilraunadýrum eins og músum. Mýs hafa fengið þroskað lærdómsminni 3 mánaða gamlar og halda lærdómsnæminu fram til 8 ½ mánaðar aldurs, en eftir það þýðir ekki að reyna að kenna þeim frekari listir.

Hinsvegar geta þær enn lengi munað þær listir, sem búið var að kenna þeim. Nú hafa verið gerðar tilraunir með 8 ½ mánaðar gamlar mýs, sem búið var að kenna ýmsar listir. Þeim var svo skipt í tvo hópa. Annar hópurinn fékk kólínríka fæðu, en hinn hópurinn kólínsnauða fæðu. Eftir 4 og ½ mánuð, þegar þær voru 13 mánaða, voru viðbrögð þeirra svo könnuð. Sá hópurinn, sem vantaði kólín, mundi ekkert lengur. Viðbrögð þeirra voru lík og 23 mánaða músaöldunga.

En hinn hópurinn, sem kólínið fékk, mundi allar listir, sem þær höfðu lært. Það þarf heldur ekki að hafa fleiri orð um tilraunir á dýrum, því að tilraunir á mönnum hafa líka borið árangur. Hópur gamals fólks, sem farinn var að missa minni, fékk tífaldan hámarksskammt, eða 10 grömm, áður en þau gengu undir minnispróf. Það kom ótvírætt í ljós, að fólkið varð minnugra. Mest hjálpaði það þeim, sem voru hvað minnislausastir. Dagsþörfin á kólíni liggur einhversstaðar á milli 0,14 og 1 gramm, og það magn fá menn í venjulegu blönduðu mataræði. Helstu kólíngjafar eru egg og lifur.

Kólín-innihald_millígr.pr. 100 grömm
Eggjarauða ………………………… 1500
Lifur …………………………………… 500
Kjöt, fiskur, belgaldin, hnetur ….. . 250
Kornvörur …………………………… ..I00
Mjólk ……………………………….. … 15
Ávextir, grænmeti ……………… … ….0
Sumar vítamín- og steinefnatöflur innihalda kólín. Þið sjáið það á vörulýsingu þeirra. 500 mg á dag er nokkuð skynsamlegur aukaskammtur.

 Zínk
F.M. Burnet (1981) hefur sett fram athyglisverða kenningu um að sú hrörnun skynsemi, sem fylgir háum aldri, sein hugsun, slæmt minni og sljóleiki (í stuttu máli elliglöp), stafi af zínkskorti . Þetta er svo stórbrotin kenning, að hætta er á því, að allt gamla fólkið flykkist og þjóti eins og byssubrennt í apótekin, til að fá sér zínk-súlfattöflur (ef það getur munað nafnið á þeim). Dagleg zínkþörf fullorðinna er 15 millígrömm, en óhætt er að taka tífaldan þann skammt í nokkra mánuði, því að eitrunaráhrifa gætir ekki fyrr en við mörg hundruð millígrömm á dag.

Hitt er þó varasamara, að maður veit ekki fyrir víst, hver víxláhrifin verða fyrir aðra málma. Kynni að vera að zínkið ýtti út koparnum, svo eftir tilraun í tvo mánuði með tífaldan dagskammt upp á 150-mg, er vissara að fara að draga úr því og láta síðan nægja um 3-faldan dagskammt eða um 50 mg. Zínkþörfin er í vissum tengslum við DKS-keðjuna í frumum. Það eru DKS-mólekúlin, með öllum sínum innbyggðu forskriftum, sem stýra frumumyndun og þar með uppbyggingu líkamans.

Zínk fyrirfinnst í næstum öllum ensímum, sem nokkuð hafa að gera með endurnýjun á DKS og viðgerðum á DKS-keðj. Öll sú starfsemi þarf að ganga mjög hratt fyrir sig og af óskeikulu öryggi allan daginn. Verði zínkið of lítið, fer það að hanga laust í mólekúlkeðjunni og aðrir málmar, eins og mangan, að ýta því burt. Þá fer strax að bera á smá mistökum, sem áður en við er litið, leiða af sér heila röð og óstöðvandi foss af mistökum, svo að eggjahvítu-ummyndunin endar í ringulreið og dauða. Þá hefjast fyrst elliglöp fyrir aldur fram t.d. Alzheimer-sjúkdómur eða Pick-sjúkdómur (Elliglöp á fimmtugsaldri).

En hversvegna fer svona með hækkandi aldri? Er það kannski erfðabundinn eiginleiki, að menn eigi í vaxandi erfiðleikum með, eftir því sem aldurinn færist yfir þá, að koma zínkinu fyrir á réttum stöðum, einmitt þar sem mest er um nýsmíðar í DKS- keðjunni? Svo mikið er víst, að óregluleg zínk-efnaskipti hafa komið í ljós í fólki með Pick-sjúkdóm. Finnst þér kannski vissara að bíða átekta, þangað til vísindamennirnir hafa komist algerlega til botns í þessu? Gallinn við það er, að það getur tekið mörg ár, og vonandi verðurðu þá ekki þegar dauður úr ellihrumleika.

C-vítamín
Þeir sem glugga í fjallháa skýrsluhlaða um hlutverk C-vítamíns í efnaskiptum, komast ekki hjá að hitta á staðhæfinguna um að C-vítamín styrki ónæmisvarnirnar og verndi okkur gegn hvarfeindum (lausum radíkölum) og hinum ,,þrálátu” peroxíðum, sem annars eru stöðugt að fremja skemmdarverk til að stytta líf okkar og mæða okkur af elli og hrörnun.

Ráðlagður dagskammtur okkar af C-vítamíni er 60 mg, en Linus Pauling (1977) heldur því fram að það magn hafi nú ekki meiri áhrifin dropi í hafíð. Til dæmis má nefna það, að grænmetisæta, sem úðar í sig 2500 kcal í grænmeti á dag, fær þar með í sig 2,3 grömm, eða 2300 mg af C-vítamíni. Og síðan heldur Pauling fram baráttu sinni fyrir því, að það sé ekki einu sinni nóg. Hann bendir strax á það, að ef maður má ekki taka nema 60 mg á dag, ætti jurtaæta, sem fær 2300 mg á dag, annaðhvort að vera dauð, eða búin að breytast fyrir stökkbreytingu í aðra dýrategund.

Líka bendir hann með sterkum rökum á ýmsar dýrategundir, eins og apa, sem háma ávexti í sig í margföldum mæli, — og taka þá líka í sig margfalt magn af C-vítamínum, án þess að kenna sér nokkurs meins. Nú er maðurinn náskyldur öpum og kominn af þeim. En hann var bara svo heimskur að draga stórlega úr ávaxtaneyslu sinni, þó hann hafi sjálfsagt þörf fyrir sama magn af C-vítamíni og aparnir. Og úr því að hann fær það ekki úr mataræði sínu, ætti hann að bæta sér það upp með aukaskammti, helst ekki minna en 1—2 grömm á dag (1000 —2000 mg).

Loks mætti svo minna á frægar rannsóknir P. Helms á næringarástandi á elliheimili, sem þó var vel rekið og bauð upp á til þess að gera góðan stofnunarmat (1977). Þar kom í ljós, að allt vistfólkið (100 %) þjáðist af einhverri vannæringu. Þar skorti t.d. 100 % af fólkinu Fólasín (Fólín-sýru), 96 % skorti B-6 vítamín og 93 % skorti E-vítamín. Í nútíma samfélagi er eiginlega engin önnur leið til, en aukainntaka af vítamínum og steinefnum. Að vísu er til í dæminu, að fólk hreyfi sig (t.d. með hjálp Jane Fonda) svo mikið, að því sé óhætt að borða nóg til þess að það fái þau aukaefni sem þarf.

En það er ekki hægt að reka allt gamla fólkið út á víðavang og láta það ,,hlaupa af sér spikið“. Það er því í mestri hættu að hreyfa sig sáralítið, borðar því sáralítið, samtímis því sem hæfni þess skerðist, til að nýta sér næringu og aukaefni úr fæðunni. Í mestri hættu er það, þegar það liggur lasið með hita og brennir því töluverðu, en er um leið lystarlaust. Þá getur svo farið, að það byrji jafnvel að þjást af skorti á eggjahvítuefni. Þegar á heildina er litið, er því ekki nema von, að svona næringarskortur leiði til andlegrar hrörnunar og hrumleika. Hollráð er því, hvort sem maður er kominn með elliglöp eða ekki, að taka inn dagskammt af K-Z-C: það er:
Kólín ……………………………. 500 millígrömm
Zínk ……………………………… 50 millígrömm
C-vítarnín …………………………….. 2 grömm

Auk hinnar sjálfsögðu fjöl-vítamín/steinefna-töflu á dag. Athugið sérstaklega, að Fólínsýra sé þar með, hana megið þið alls ekki láta ykkur vanta. Það væri hreint ekki svo slæm hugmynd yfir vetrarmánuðina að bæta við 300 til 500 mg af Fólínsýru í töflum. Gleymið því nú ekki (Lykilstafurinn er F). P.S. Munið líka, ef þið farið í samkvæmi eða samkomu meðal fólks, þá eru það enn ein ellimörkin, ef ykkur finnst allt hitt fólkið vera tómir fábjánar.

Eins og kom fram í upphafi:  gaf Fjölva útgáfan út bókina Okholms hollráð til langlífis og heilsu árið 1985 . Þorsteinn Thorarensen íslenskaði. Þótt liðin séu 23 ár síðan bókin kom út á íslensku eiga kenningar höfundarins Lars Okholms erindi við okkur enn. Hér kemur styttur kafli úr bókinni sem Ingibjörg Sigfúsdóttir skráði. 

Fjölva útgáfan var í eigu Þorsteins Thorarensen, sem lést fyrir fáum árum. Þorsteinn gaf út margar bækur um nýungar í heilbrigðismálum. Lars Okholm var virtur heilsufrömuður í Danmörku og sá meðal annars um framleiðslu á ,,Okholms-Ældretabler” steinefnatöflum ætluðum eldra fólki.



Flokkar:Fæðubótarefni, Næring

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , , , ,

%d bloggers like this: