Sveiflumeðferð læknar góðkynja stöðusvima

Rætt við Sigurð Stefánsson, háls-, nef- og eyrnasérfræðing

Rannsóknir sýna að svimi er algengasta umkvörtun fólks sem komið er yfir 75 ára aldur. Aðrar rannsóknir segja að svimi sé mikið vandamál hjá þriðja hverjum sem kominn er yfir 65 ára aldur og talið er að 20% þeirra þjáist af svonefndum stöðusvima. Einföld aðferð sem kallast sveiflumeðferð getur læknað þann kvilla á stuttum tíma og ætlar Sigurður að fræða okkur um það nánar.

 

Eðlilegt jafnvægi

Það má segja að eðlilegt jafnvægi byggist á fjórum kerfum, í fyrsta lagi á sjóninni, svo á jafnvægisskynfærum sem eru í innra eyranu, og skynja halla og snúning, í þriðja lagi er það tilfinning út í líkamanum svo kallað djúpskyn sem skynjar t.d. hvort hné er beint eða bogið og snertiskyn s.s. á hverju og hvernig staðið er, ilin skynjar hvort staðið er í halla eða lárétt. Fjórða kerfið er heilinn, sem stöðugt vinnur úr öllum upplýsingum og sendir þær aftur út í líkamann, t.d. til vöðva, um hvort þeir eigi að taka í eða slaka á.

 

Það koma mikilvæg boð frá hálsinum, vöðvum og sinum í kringum hann, sem heilinn vinnur úr og greinir í sundur, svo sem hvort við höllum höfðinu út á hlið eða hvort höfuðið hallast af því að við séum að detta og sendir boð um hvernig eigi að bregðast við ef maður dettur eða hrasar. Bilun í einhverju af þessum kerfum getur truflað jafnvægið. Þar eru sjúkdómar í eyrum mikilvæg og algeng orsök, ekki er síður algeng orsök að eitthvað sé að úrvinnslu heilans, t.d. geta æðasjúkdómar, streita og aukaverkanir lyfja truflað þessa úrvinnslu heilans eða gert viðbrögð óeðlileg. Vöðvabólgur í hálsi, stirðleiki eða hálsáverkar geta valdið svima.

 

Stöðusvimi

Það má skipta svima í tvennt. Annars vegar óstöðugleikatilfinningu, sem getur verið af ýmsum toga, má þar nefna þyngsli yfir höfðinu, óöryggistilfinningu, yfirliðakennd, jafnvel eins og eitthvað snúist inni í höfðinu. Þeim svima fylgir ekki sú tilfinning að umhverfið hreyfist t.d. fari af stað, snúist eða hallist. Hins vegar kemur sú tilfinning við snarsvima eða ákafan svima („vertigo“). Sé um slík einkenni að ræða eru yfir 80% líkur á að um eyrnavandamál sé að ræða. Stöðusvimi sem á fagmáli er nefndur „Benign Paroxysmal Positional Vertigo“ skammstafað BPPV, lýsir sér í örstuttu snarsvimakasti, þar sem manni finnst umhverfið fara af stað eða maður sjálfur, oft er eins og herbergið fari af stað eða maður steypist. Þetta ástand varir stutt, frá örfáum sekúndum upp í tuttugu til þrjátíu sekúndur og kemur við ákveðnar legubreytingar, þ.e. þetta kemur ekki í kyrrstöðu þegar legið er eða setið, heldur ef höfuðið breytir um halla t.d. ef fólk lútir fram, horfir upp fyrir sig, leggst útaf eða fer framúr, einnig við það að snúa sér í rúminu.

 

Dæmigerð tilvik eru þegar lagst er útaf þá hellist yfir svimi sem nær hámarki á nokkrum sekúndum og fjarar svo út. Því getur fylgt ógleði. Síðan ef legið er hreyfingarlaust, hverfur þetta, en um leið og eitthvað er rótað sér getur þetta komið aftur. Við endurtekna hreyfingu er algengt að þetta fjari út t.d. ef lagst er til skiptis á hliðarnar. Því er svimi af þessu tagi oft verri á morgnana en kvöldin. Venjulega kemur þetta oftast uppúr þurru, algengt dæmi er að allt umturnist þegar fólk fer fram úr rúminu að morgni. Eða að vakna að næturlagi og svima smástund, sem líklega stafar af snúningi í rúminu.

 

Bilaður hallamælir í eyra

Í innra eyranu er örsmáir kalk kristallar í tveimur litlum hrúgum sem eiga að vera þar fastir og kyrrir í sínum hrúgum. Þó kemur það fyrir að þeir losni, það er eins og límingin bili, og er nokkuð algengt hjá fullorðnu fólki, en skeður nánast aldrei hjá börnum og er mjög sjaldgæft hjá ungu fólki nema eftir höfuðhögg. En við höfuðhögg geta steinarnir losnað. Innra eyrað er inni í klettbeini höfuðkúpunnar innaf miðeyranu og er kerfi vökvafylltra holrúma og ganga. Þar er annars vegar heyrnarlíffærið eða kuðungurinn og hins vegar jafnvægishlutinn með stöðuhol og bogapípur.

 

Í stöðuholinu eru áðurnefndar tvær steina- eða kristallahrúgur sem eru hallamælar. Bogapípurnar eru þrjár og hornréttar hver á aðra og nema snúning í hvaða fleti sem er. Ef áðurnefndir steinar losna geta þeir farið á flakk í innra eyranu, flotið um í vökvanum og dottið inn í bogapípu og runnið þar til við höfuðhreyfingar. Þegar steinarnir renna til tosa þeir vökvann í pípunum með sér og senda svipuð skilaboð til heilans eins og það sé verið í tívolíhringekju. Heilinn bregst þannig við að hann fer að snúa augunum eða láta þau rykkjast til því að það er mikilvægt hlutverk innra eyrans að hreyfa augun í öfuga átt við hreyfingu höfuðsins. Ef eyrun sæju ekki um þessa hreyfingu augnanna myndi umhverfið hoppa fyrir augum manns þegar gengið er hratt, hlaupið eða verið á hestbaki eins og mynd hoppar þegar gengið er með kvikmyndavél. Þessar ósjálfráðu augnhreyfingar valda svo því að umhverfið virðist fara af stað.

 

Sjúkdómsgreining

Ekki er hægt að greina þennan sjúkdóm á röntgenmyndum og verður því að framkalla svimann með hreyfingu, þ.e. legubreytingum. Sjúklingurinn er látinn sitja á bekk og leggjast á bakið með höfuðið aftur af bekknum sveigt niður og til hliðar eða setjast á bekkbrúnina og halla sér til skiptis til hliðanna alveg niður á axlirnar og láta nefið snúa skáhallt upp. Ef stuttvarandi svimi kemur í einhverri stellingunni ásamt dæmigerðum ósjálfráðum augnhreyfingum er um að ræða góðkynja stöðusvima. Veilan kemur fram þegar veika eyrað snýr niður þegar lagst er til hliðar niður á öxlina.

 

Þegar greiningin er komin veit maður í voru eyranu sjúkdómurinn er og í hvaða bogapípu steinarnir hafa lent, sem í 95% tilvika er í svonefndri aftari bogapípu og er kallaður hinn klassíski stöðusvimi. Það þarf að gæta þess að rugla þessum svima ekki saman við blóðþrýstingsfall, sem getur orðið þegar staðið er snöggt upp, t.d. úr rúmi. Þá leitar blóðið niður í fæturna og heilann vantar súrefni. Þá getur fólk svimað dálitla stund. Það er auðvelt að rugla þessu saman en munurinn er sá að þá kemur svimi af því að standa snöggt upp, en ekki við að leggjast niður eða snúa sér.

 

Lækningin

Lækningin felst ekki í lyfjum heldur vissum æfingum sem hægt er að gera á tvo vegu, þær eru jafn góðar þrátt fyrir að um sé að ræða sitt hvora hreyfinguna. Ég nota yfirleitt aðferð sem er kennd við Fransmanninn Sémont. Hin aðferðin er kennd við Ameríkana að nafni Epley. Það fer eftir sjúklingunum hvor aðferðin hentar betur, en hvor aðferðin sem notuð er læknast um eða yfir 90% fólks strax eða á næstu dögum.

 

Ég læt sjúklingana fá með sér heim leiðbeiningar um æfingarnar, sem hægt er að geyma í náttborðsskúffunni, svo þeir geti hjálpað sér sjálfir ef þetta hendir þá aftur, eða prófað áfram ef fyrsta meðferð dugar ekki. Svimi af þessari ástæðu er sjaldan viðvarandi í heilt ár eða meira, yfirleitt fjarar hann út á nokkrum vikum þó ekkert sé að gert, en með þessari sveifluaðferð má flýta fyrir bata og oftast nær laga hann strax. En hvort sem það fjarar út sjálft eða þessi meðferð er notuð geta allt að 30% þeirra sem verða fyrir þessu búist við að það endurtaki sig fyrr eða síðar.  Sagði Sigurður að lokum.



Flokkar:Ýmislegt

Flokkar/Tögg, , , , , ,

%d bloggers like this: