Lymesjúkdómur – Lyme disease

Er hér á ferðinni ný hrollekja fyrir nútíma þjóðfélög, sem e.t.v. gæti valdið því að sjúkdómar eins og berklaveiki og sumir aðrir smitsjúkdómar hverfi í skuggann af Lyme?

Hvað er Lyme ?
Þegar ég sá þetta nafn fyrst, vissi ég ekkert hvaða sjúkdómur það var. Eftir að þetta nafn kom aftur og aftur fyrir í bandaríska tímaritinu Townsend Letter hélt ég fyrst að þetta væri einhver hitabeltissjúkdómur og nennti ekki að lesa greinarnar. Fyrst þegar margar langar greinar fóru að koma í sama blaðinu, las ég þó eina þeirra og fljótlega fór áhugi minn að vakna. Síðan hefur fjöldi greina um Lyme-sjúkdóminn komið í Townsend Letter og ég skynjaði fljótlega að hér var á ferðinni nýr sjúkdómur, sem ég og margir aðrir höfðu ekkert vitað um, hvað þá heldur komist í návígi við.

Þann 23.október 2009 kom svo stutt grein um þetta efni í Fréttablaðinu, þar sem sagt var frá því að barn hefði sýkst af biti eða stungu af völdum skógarmítils, sem þetta kvikindi er nefnt á íslensku. Mér skilst að það sé sama skepnan sem oft er nefnd ,,tick” á ensku. Skógarmítill mun nú vera búinn að skapa sér þegnrétt á Íslandi, hvort sem okkur líkar það vel eða illa.

skógartítlur
Teikning af einni tegund mítils, þessi er kennd við dádýr og lifir í feldi þeirra.

Þegar skógarmítill sígur blóð úr manni eða dýri, er mjög oft að bakteríur berist úr kvikindinu inn í sárið. Þetta geta verið ýmiskonar örverur og eru sumar þeirra valdar að sýkingum og jafnvel alvarlegum sjúkdómum.  Sennilega er sjúkdómurinn sem nefndur er ,,Lyme” á ensku einn sá sem vakið hefur mest umtal að undanförnu.

Lyme nafnið er dregið af bandarísku þorpi eða bæ, Old Lyme í Connecticut, þar sem sjúkdómurinn var fyrst greindur árið 1975.  Sá sem það gerði hét Willy Burgdorfer en hann starfar nú við Bandarísku heilbrigðisstofnunina (National Institute of Health). Hann uppgötvaði að lyme-sjúkdómur stafaði af gormlaga bakteríu (spirohetes) og nefndi hana Borrelia Burgdorferi í New York 1981, þar sem hann fann hana í sógarmítli. Nokkrar aðrar tegundir af ættinni Borrelia hafa síðar fundist, aðallega í Evrópu en Borrelia Burgdorferi er sú eina sem vitað er um í Bandaríkjunum. Vegna þess að oftast er ekki vitað með vissu hvaða tegund af Borrelia er til staðar í hverju tilfelli, mun ég aðeins nefna sýkilinn ,,borrelia” hér á eftir.  Allar tegundir borreliasýkla valda líkum eða eins einkennum og dreyfa sér með aðstoð skógarmítla að áliti margra, þó að suma gruni raunar að fleiri smitleiðir kunni að finnast, en um það ræði ég e.t.v. síðar.

Sé einhver bitinn eða stunginn af skógarmítli má búast við að í sárinu séu nokkrar skaðlegar bakteríur, þar á meðal borrelia. Hún fer fljótlega að fjölga sér og dreyfa sér í nágrenni stungusársins, sem  þá roðnar fljótlega og bólgnar lítilsháttar. Sé stungan þá þvegin úr sóttvarnarefnum og sjúklingurinn fær sýklalyf í viku til tíu daga tekst yfirleitt að drepa allar bakteríur í stungusárinu og engin frekari sýking skapast og sjúklingurinn verður alheill.

pedsinreview.20140037f4
Dæmigert útlit á húð eftir bit skógarmítils.

Annað og verra skeður ef ekkert er gert og stungan eftir bitið látin óhreyfð. Í fyrstu roðnar húðin í kringum stunguna og bólgnar lítilsháttar. Von bráðar hverfur roðinn og bólgan og flestir telja þá að allt sé nú búið og að sjúklingurin sé orðinn alheill. En það er blekking. Borrelia sýkillinn er nú sennilega búinn að koma sér inn í blóðrásina og sogæðakerfið og er  nú að búa sig undir nýja árás, sem getur verið næstum hvar sem er í líkamanum. Sé ennþá ekkert gert getur árásin, t.d. beinst að taugakerfinu, liðamótum, liðagigt, vöðvaverkjum, æðakerfinu og nánast hverju sem hægt er að láta sér detta í hug.

Mjög erfitt er oft að gera sér grein fyrir margskonar sjúkleika sem borrelia sýking getur haft áhrif á eða valdið. Það gerir málið jafnvel ennþá torleystara að oft sýkist fólk einnig af nokkrum öðrum bakteríum samhliða borrelia sýkingunni, verði það fyrir því að skógarmítill stingi það eða bíti. Sumar þannig sýkingar eru jafnvel ennþá verri en borrelia sýkingin ein sér.
Þegar svo er komið er oft fyrst leitað læknis.  Hann skoðar sjúklinginn og finnur þá eitthvert eða mörg einkennin sem áður eru nefnd en gerir sér eðlilega enga grein fyrir hinni raunverulegu ástæðu, sem er bakterúsýking sem sjúklingurinn fékk eftir að hann eða hún var bitinn af skordýri, löngu áður og hafði næstum því gleymt, þegar hér var komið sögu.

E.t.v. grunar lækninn að þetta sé einhverskonar sýking og vill prófa hvort viku eða tíu daga kúr af t.d. penicillini komi að gagni. Hann afhendir sjúklingnum lyfseðil og biður hann að koma til sín aftur og lofa sér að sjá sig þegar sýklalyfið sé búið. Þegar sjúklingurinn kemur svo aftur hafði ástand hans batnað töluvert en var þó alls ekki orðið gott. Hann fær því annan lyfseðil og nú fyrir lengri tíma. Honum batnar dálítið en er þó alls ekki enn nægilega góður og langt frá því að hafa jafngóða heilsu og hann hafði áður en hann veiktist.

Læknir hans fer þá að reyna önnur sýklalyf með sáralitlum árangri og að lokum fór hann að láta sér detta í hug að þetta sé eitthvað sálrænt sem væri að og prófar að láta sjúklinginn fá vægan skammta af þunglyndislyfi en hætta að nota sýklalyf. Fljótlega fór þá ástand sjúklingsins versnandi og jafnvel ennfrekar við það að nota meira af þunglyndislyfinu. Hann fær því aftur sýklalyfið og við það skánaði honum á nýjan leik töluvert en var þó langt frá því að vera heilbrigður. Svona gekk þetta í mörg ár og öðru hvoru var hann látinn hætta að nota sýklalyfið en við það versnaði honum alltaf. Einnig var reynt að skipta um sýklalyf. Við það kom í ljós að þau verkuðu mismunandi vel og sum jafnvel ekkert. Eftir nokkur ár var talið útséð um að hægt væri að lækna þennan einstakling og hann var dæmdur ólæknandi öryrki.

Þetta er að vísu tilbúið dæmi um sýkingu af borrelia bakteríu en t.d. í Bandaríkjunum má finna tug þúsndir hliðstæðra dæma. Ekki eru reyndar til neinar opinberar tölur um fjölda Lyme-sjúklinga í Bandaríkjunum (eða annarsstaðar) en einn sem reyndi að áætla það þar komst að þeirri niðurstöðu að ekki færri en 200-300 þúsund Bandaríkjamenn væru með lyme-sjúkdóm, þegar hann gerði áætlunina, sem var fyrir nokkrum árum.

Líffræðilegar varnir sýkla
Margir sjúkdómsvaldandi örverur hafa þróað með sér afar sérhæfðar varnir gegn mörgum eða jafnvel flestum þekktum sýklalyfjum. Séu sýklalyf gefin lengi við einhverjum sjúkdómi endar það oft með því að sýklarnir mynda þol eða ónæmi gegn þessu lyfi og það hættir að hindra sýklana í að fjölga sér, nema miklu stærri skammtur sé notaður eða jafnvel hindrar sýklana alls ekki neitt.  Þá má stundum nota annað sýklalyf eða mörg lyf samtímis. Oft fer þó þannig að ekkert sýklalyf virðist bera árangur, jafnvel þó að ræktun í tilraunaglösum á rannsóknarstofu sýni að lyfin séu öll virk á viðkomandi sýkil og  ættu því að drepa hann.

Þetta hefur lengi verið töluverð ráðgáta, en nú telja vísindamenn sig hafa fundið lausnina, að minnsta kosti í sumum tilfellum. Það er með því að sýklarnir mynda það sem líffræðingar nefna ,,lífræna himnu” (biofilm) utan um sig. Lífræna himnan er mynduð úr sýklum sem lokaðir eru inni í flóknum sykurfjölliðum þar sem sýklarnir mynda lifandi samvirkni sín á milli. Þeir hafa innbirðis samband með efnaboðum en himnan sem umlíkur þá ver þá fyrir utanaðkomandi áreiti eða efnum sem gætu skaðað þá. Vísindamennirnir telja nú að svona lífrænar himnur séu í 80% tilfella allra erfiðra sýkinga af völdum baktería og sveppa. (National Institutes of Health´s Center for Integrative Biology and Infections Diseases.)
Lífrænar himnur eru í sjálfu sér ekki skaðlegar eða valda vefjaskemmdum. Fyrst og fremst er skaðinn vegna bólgu sem himnurnar valda.

Rannsóknarstofutilraunir og stærðfræðilíkön benda til, að bestur árangur af lyfjagjöf náist með að nota valin sýklalyf í skamman tíma og hætta svo í smá tíma og byrja síðan aftur og hætta síðan o.s.frv. Þetta útrýmir að vísu bakteríunni ekki algerlega en komið hefur í ljós, að verulega minni lífræn himna verður þá til en ef sýklalyfið er gefið allan tímann. Alveg ný könnun frá 2008 (Cogan og P.De Leenhaar) við Háskólann í Florida sagði frá í skýrslu að meira gagn væri af því að nota sýklalyf þannig við fjölda sjúkdóma, heldur en að nota sýklalyfin stöðugt allan tímann.

Þannig slitrótt sýklalyfjameðferð er  þó alls ekki sú eina sem reynst hefur vel, þegar um er að ræða lífrænar himnur. Í yfirlitsgrein eftir Kim Lewis við Tuffs Háskála er sagt að rafsegulsvið eða hátíðnihljóðbylgjur ásamt sýklalyfjameðferð gefi góðar vonir eftir frumtilraunir. Fyrrverandi formaður Ríkisháskólans í Montana William Costerton, langar til að geta notað samskonar efnafræðileg skilaboð eins og bakteríurnar nota. Hugmyndin hefur breyst frá því að drepa bakteríurnar, sem veldur því að þær mynda ónæmi gegn sýklalyfinu, í að þær hætti að búa til eiturefni og að þær hætti að mynda slímhulu um sig til að dyljast ónæmisvörnum líkamans. Costerton vill einnig nota hvata til að styrkja ónæmiskerfið þegar um langvarandi sjúkdóma sem stafa af myndun lífrænna himna er að ræða.     Heimild: Jule Klotter, Townsend Letter, júlí 2009. http://www.townsendletter.com jule@townsendletter.com

Lækning á krónískum Lyme-sjúkdómi með jurtalyfjum, hómópataefnum og Rife-tækjum.
Þegar Lyme-sjúkdómur er til umræðu í Bandaríkjunum koma oft fram margskonar skoðanir, jafnvel hjá menntuðu fólki. Sumir eru á þeirri skoðun að langvarandi og jafnvel ólæknandi lyme sjúkdómur sé aðeins hugarburður fólks og því fyrst og fremst verkefni fyrir geðlækna og sálfræðinga.

Aðrir og þeir eru sennilega fleiri, segja aftur á móti að langvarandi eða krónískur lyme-sjúkdómur sé vísindalega sannaður fyrir löngu, þó að sumir trúi því ekki og að oft sé til þess að gera auðvelt að sanna það vísindalega, vilji fólk fá óyggjandi sannanir. Líklegt finnst mér að ekki líði nema fá ár þar til hætt verður að þrátta um þetta í fræðiritum eins og gert hefur verið, þó að enn um sinn verði vafalaust til einstaklingar sem hafa einhverntíma lesið það að ólæknandi lymesjúkdómur sé hugarburður og megi telja til geðsjúkdóma. Ég læt þetta nægja um sálrænar skýringar á lyme, þó að vitanlega geti fólk sem þjáist af lyme einnig þjáðst af geðrænum sjúkdómum.

Þegar reynt er að lækna lyme-sjúkdóm er sennilega oftast byrjað á að nota sýklalyf. Hafi fólk ekki verið lengi veikt tekst sem betur fer oft að lækna sjúkdóminn. Þá er sýklalyfið oftast gefið í  nokkrar vikur. Ekki er sennilega rétt að ráðleggja hvaða sýklalyf sé best að nota. Flestir læknar prófa líklega einhverja tegund penicillins, sem er alls ekki neitt síðra en eitthvað annað. Það verður læknirinn að ákveða. Stundum dugar þetta og sjúklingurinn verður alheill, en því miður dugar það ekki alltaf. Að vísu skánar sjúklingnum oftast eitthvað, en það er gálgafrestur.

Fljótlega versnar honum aftur, þegar sýklalyfið er  búið. Þegar svo er komið er úr vöndu að ráða. Reyna má að gefa sýklalyf í langan tíma, jafnvel í mörg ár. Einnig má reyna að nota saman mörg sýklalyf og þá í skemmri tíma. Til eru mörg jurtalyf sem verka á lyme. Reyna má að nota hómópataefni, jafnvel með öðrum lyfjum. Rafeindatæki sem kennd eru við bandaríska þúsundþjala vísindamanninn Royal Rife hafa reynst mjög vel, samkvæmt upplýsingum Townsend Letter og fleira má sjálfsagt nefna t.d. bandarísk indíanalyf, hugleiðslu og ýmislegt annað.

Séu notuð hómópataefni má reyna Ledum og byrja á frekar lágu gildi t.d. 30C eða jafnvel enn lægra, en alls ekki mjög háu. Síðar má svo hækka þetta smátt og smátt ef þarf. Fleiri hómópataefni hafa verið notuð, t.d. eru þessi nefnd: Arsenicum Album, Mercurius, Thuja, Carcinosin, Lac Caninum og Syphillinum. Sé reynt að nota eitthvert þeirra er rétt að byrja með lágu gildi t.d. 30C sem síðar má hækka. Ef byrjað er á háu gildi getur það haft öfugar verkanir og verður þá að hætta samstundis og ekki byrja aftur fyrr en  eftir nokkurn tíma.

Sé reynt að nota Rife-tækið þarf að fá með því leiðbeiningar og helst aðstoð einhvers sem hefur reynslu í að nota það. Fyrirtækið sem flytur það inn hefur aðstoðað fólk við að nota það þegar það er að byrja. Tækið myndar rafbylgjur með ákveðinni tíðni eða tíðniröðum og er viss tíðni eða raðir tíðna talin eyða eða hindra margskonar sjúdómsvalda s.s. bakteríur, veirur, sveppi og frumdýr sem valda sjúkdómum. Þessi tíðni þarf að vera nákvæmlega stillt ef tækið á að koma að gagni, en í því er lítil tölva sem geymir í minni sínu fjöldann allan af tíðnum sem talið er að verki á margskonar sjúkdóma, t.d. lyme, krabbamein, kvef, inflúensu og ótal aðra sjúkdóma.Vitanlega hefur sá sem þetta ritar ekki prófað þetta allt, en þó hef ég nokkur dæmi sem ég get staðfest að verkuðu.

Fjölmörg jurtalyf hafa verið notuð við lymesjúkdóm.
Flest þeirra eru lítið þekkt hér og því óþekkt og ekki fáanleg. Þó eru  nokkur þeirra þekkt hér og fáanleg. Þar má fyrst nefna hvítlauk og sennilega einnig venjulegan matlauk. Báðar þessar tegundir eru áhugaverðar lækningajurtir, þó hvítlaukurinn sé líklega öflugri. Hvítlaukur inniheldur sýkladrepandi efni og einnig matlaukur, þó að í minna mæli sé. Auk þess eru í þessum jurtum mörg önnur holl efni sem gera lauk og hvítlauk að heilsufæðu. Þá má nefna olífulaufaextrakt sem er mjög gott lyf við bakteríum og veirum, sé hann rétt notaður.

Vegna þess að hann endist mjög stutt í líkamanum eftir að hans er neytt, þarf að taka hann inn á 5-6 klst. fresti allan sólarhringinn. Oftast nægir að nota eitt hylki í einu. Olífulauf má nota við flestum sýkingum, einnig af völdum lyfjaþolinna sýkla en sennilega þarf að nota þau lengi við lyme-sjúkdóm. Mikill kostur við olífulauf er að engar þekktar hliðarverkanir fylgja því að nota þau. Ekki er heldur vitað hvort öll olífulauf eru jafn góð og verka jafn vel. Ef olífulaufextrakt er notaður, er aðalatriðið að nota hann rétt. Sé það ekki gert er gagnslítið að nota hann.

Capryl-sýra er stutt fitusýra sem m.a. finnst í ýmsum matvælum þ.a.m. er töluvert af henni í kókósolíu og eitthvað í feitum mjólkurvörum. Caprylsýra hindrar margar bateríur og sennilega einnig veirur, enda hefur hún af sumum verið talin hindra vöxt og framvindu eyðni-sjúkdómsins. Mörg fleiri náttúrumeðul, t.d. Kattarkló og Lapacho-börkur, eru nefnd en hér verður staðar numið. Tekið saman úr mörgum greinum í Townsend Letter.

Lyme-sjúkdómur og hugsanleg tengsl við einhverfu
Nú er rætt um einhverfu og hvernig hún getur mögulega átt eitthvað sameiginlegt við borreliu-sýkilinn eða hvernig borreliu-sýkillinn gæti hugsanlega átt þátt í þeim mikla fjölda einhverfu sjúklinga sem árlega greinast í Bandaríkjunum. Til að byrja með komumst við ekki hjá því að gleyma nokkrum atriðum sem okkur hafa verið kennd, um þennan sýkil og jafnvel að hætta að kalla þessa sýkingu Lyme-sjúkdóm, en nefna sýkinguna Borreliosis eða Borreliusjúkdóm. Til samræmingar og til að hindra misskilning mun ég þó áfram nefna þetta Lyme-sjúkdóm, þó að hitt sé raunar réttara.

Borreliu-sýking er miklu algengari en talið hefur verið
Í fyrstu var álitið að borelliu-sýkillinn sýkti aðeins ef einhver er svo óheppinn að skógarmítill bíti hann. Nú er fullsannað að fleiri skorkvikindi beri einnig borreliu-smit. T.d. flær, lýs og ýmsar tegundir af bitmýi, t.d. moskvítóflugur. Sennilega eru þessar tegundir fleiri. Borreliusmit getur borist í ungviði og börn á brjósti gegnum brjóstamjólkina, þá geta lifandi sýklar borist gegnum fylgjuna inn í blóðrásina til ófædds barns eða ófædds dýrs. Sennilega geta borreliusýklar einnig smitast beint á milli einstaklinga, bæði manna og dýra. Borrelia sýklar geta komist lifandi yfir blóð-heila þröskuldinn og orsakað þá heilabólgu sem er ill-læknanleg og gæti t.d. valdið einhverfu eða vitglöpum.

Nokkrar aðrar sjúkdómsvaldandi örverur en borreliu-sýkillinn smitast á líkan hátt, jafnvel um leið og hann. Algengt er t.d. að fólk með lyme-sjúkdóm hafi samhliða fengið babesiu, mycoplasma, ehrlichia og jafnvel fleiri sjúkdómsvaldandi örverur. Þess vegna er oft erfitt fyrir lækninn að vita hvaða örvera veldur mestu um sjúkdómseinkennin. Oft dugar heldur ekki eitt sýklalyf til að fást við allar þessar örverur. Mjög lítið er ennþá vitað um hvernig best er að fást við borreliu sýkingu sem einstaklingurinn hefur e.t.v. gengið með frá fæðingu. Ástæða þess að vísindamenn grunar að svo sé stundum, er að ótrúlega hátt hlutfall barna með einhverfu hefur reynst jákvætt gagnvart borreliu, frá 50-90 %, í Bandaríkjunum. Nokkur dæmi eru til um einhverfusjúklinga sem fengu sýklalyf við öðrum sjúkdómi en virtust losna við einhverfueinkennin á meðan sýklalyfin voru notuð. (Townsend Letter, apríl 2007, bls. 82)

Langvarandi sýklalyfjanotkun veldur næstum alltaf offjölgun candida sveppa í meltingarfærum. Sveppalyfið mycostatin drepur candidasveppi í meltingarfærunum, án þess að valda samhliða neinum teljandi skaða og ætti því að velja áður en önnur sveppalyf eru notuð. Ómeðhöndluð candidasýking er mjög skaðleg en náttúrleg sveppalyf eru t.d. hvítlaukur, laukur og lapacho-bökur. Hafi það við rök að styðjast að borrelia-sýkillinn kunni að eiga þátt í að börn fái einhverfu, þá eiga aðrir sýklar eða erfðafræðilegir þættir í samvirkni við borreliu-sýkilinn, að vera höfuðorsökin að einhverfu. Þar er borreliusýkingin höfuðástæðan.

Reynist þetta rétt, að borrelia sýking sé hin raunverulega orsök einhverfu og jafnvel fleiri alvarlegra sjúkdóma í miðtaugakerfinu, hvað þá með fjöldan allan af ýmsum öðrum illa skilgreindum sjúkdómum sem erfiðlega hefur gengið að lækna eða finna lækningu við. Þar á ég t.d. við gigtarsjúkdóma af ýmsum toga, svo eitthvað sé nefnt. Ég veit um dæmi af konu sem hefur þjáðst af liðagigt mest alla ævina en hún er nú á áttræðisaldri. Tvisvar sinnum hefur hún fengið sýklalyfið erithromycin í viku eða tíu daga.

Í bæði skiptin hurfu liðagigtar einkennin meðan hún notaði lyfið og fyrst á eftir. Stafaði liðagigtin af eiturverkunum frá bakteríunum sem sýklalyfið drap, eða hindraði í að fjölga sér, en náði ekki að uppræta að fullu? Þessi kona hafði enga liðagigt þegar hún var barn en fékk hana upp úr Akureyrar-veikinni á unglingsárum. Borrelia-bakterían er náskyld sárasóttar- eða syfilis-bakteríunni. Sennilega eru lífsform hennar jafnvel enn líkara henni en álitið hefur verið, ef þessar hugmyndir sem nú er verið að fjalla um eru réttar.

Þessi greinaflokkur er nú orðinn æði langur og fáir hafa sennilega nennt að lesa hann. Því er nú best að honum ljúki, í bili að minnsta kosti, hvað sem síðar kann að verða.

Ævar Jóhannesson tók saman.

Heimildir aðallega tvær greinar í Townsend Letter, apríl 2007. www.townsendletter.com
Heimildir: Katy Blanco, Geoffrey Radoffo og Nicola Me Fordzeam.

Myndir:
Borrelia Burgdorferi: http://www.lib.uiowa.edu/hardin/md/cdc/6631.html
Deertick: http://www.righthealth.com/topic/Lyme_Disease_Photos/overview/adam_images?img=2
Húðútbrot eftir bit: http://en.wikipedia.org/wiki/File:Bullseye_Lyme_Disease_Rash.jpgFlokkar:Greinar

%d