Þann 23. apríl 2010. kom saman hópur áhugamanna um varnir gegn rafsegulmengun og stofnuðu félag til að vinna að hagsmunum sínum. Félagið fékk heitið Geislabjörg og hefur að markmiði að vinna gegn rafmengun og ófullnægjandi frágangi raflagna. Í stofnsamþykkt félagsing er kveðið á um að „fá viðurkennda þá skaðsemi sem rafmengun og geislun frá þráðlausri tækni getur haft á heilsu fólks og náttúru og að sett verði lög og reglugerðir til að draga úr þessari mengun og standa vörð um heilsu almennings. Jafnframt vilja félagsmenn beita sér fyrir auknum rannsóknum og vitundarvakningu almennings.
Á fundinum voru flutt nokkur erindi m.a. fjallaði Brynjólfur Snorrason um sín störf, Kári Einarsson og Haraldur Guðbjartsson fluttu jafnframt erindi um ýmsar hliðar rafmengunnar. Árgjald var samþykkt 3500 kr og eru allir áhugamenn um málefnið velkomnir.
Formaður félagsins var kjörin Svala Rún Sigurðardóttir og er nú verið að vinna að vefsíðu félagsins: http://www.geislabjorg.is/.
Það er löngu ljóst að rafmengun er eitthvað sem verður að taka alvarlega. Samtök um heildrænar lækningaaðferðir og starfsfólk heilbrigðisstofnanna víða um heim hafa í vaxandi mæli beint sjónum sínum að þessum málaflokk og lagt fram viðvaranir til yfirvalda þess efnis að þessi mál verði að skoða betur en gert er. Þar ber hæst áhrif frá GSM símum og símkerfum en einnig vaxandi vandamál í rafkerfum orkuveitna en það er óhreinindi í rafmagni. Slík óhreinindi hafa slæm áhrif á tækjabúnað en þau stafa frá ýmsum rafmagnstækjum eins og halogen spennubreytum, tölvum ,flúrljósum, flatskjáum, sparperum og svo mætti lengi telja.
Þessi tækni byrjaði að riðja sér til rúms samhliða tölvuvæðingunni og vinnur þannig að raftækin taka til sín rafstraum frá rafveitu sem er 230 Volta spenna á 50 riða sveiflutíðni og breyta henni í spennu á nálægt 40 – 80 þúsund riða sveiflutíðni. Þessi háa sveiflutíðni er á sviði útvarpsbylgna og lekur gjarnan frá tækjunum bæði sem bein geislun og einnig út á rafmagnsnetið. Það hefur þær afleiðingar að rafkerfi í heimahúsi geta auðveldlega orðið geislandi af þessum tíðnum. Þá er rafmagnið orðið „óhreint“ og rafgeislunin mun varasamari en áður þar sem sveiflutíðnin var á hreinum 50 riðum.
Sumir framleiðendur leggja mikið upp úr því að sía þessi óhreinindi út þannig að sem minnst af óhreinindum berist út á rafmagnsnetið en aðrir framleiðendur hugsa lítið um þennan málaflokk. Engar sérstakar kröfur eru gerðar hér á landi um síuhæfni raftækja.
Annað mál er einnig áhyggjuefni en það er sú staðreynd að öll tæki geta bilað og sakleysisleg raftæki eins og spennubreytir fyrir farsíma eða sparpera getur farið að senda frá sér mikinn styrk truflana á rafmagnsnetið án þess að nokkuð sjáist að tækinu sjálfu. Því eru notendur grunlausir og það sem verra er, það er ekki hægt að greina þetta nema með mælitækjum.
Komið hefur fram að óhreint rafmagn geti valdið sykursýkiseinkennum, höfuðverk, síþreytu, roða og pirring í húð og svo mætti lengi telja. Önnur hlið á rafmengun er rafsegulsvið frá svokölluðum flökkustraumum í rafveitukerfinu. Rannsókn sem gerð var fyrst 1979 sýndi að samhengi virtist á milli bráðahvítblæðis í börnum og viðveru nálægt raflínum. Margar rannsóknir hafa verið gerðar síðan sem sýna það sama og einnig margar rannsóknir sem sýna ekkert slíkt samband. Það gefur okkur þó tilefni til að sýna skynsamlega varúð gagnvart rafgeislun og gaf Sænska Rafmagnsöryggiseftirlitið út bækling árið 1995 þar sem mælt var með því að rafsegulsvið í skólum og leikskólum væri innan skynsamlegra varúðarmarka. Norðmenn hafa sett slík viðmðunargildi.
Nýlega kom í fréttum tilfelli þar sem ung stúlka greindist með bráðahvítblæði og var heimili hennar rannsakað í kjölfarið. Í ljós kom að mjög hátt rafsegulsvið mældist heima hjá henni, mun hærra en viðmiðunarmörk Norðmanna. Hér á landi hafa engin slík mörk verið sett og hafa ráðamenn tekið lítið undir slíka umræðu. Það má nefna að Drífa Hjartardóttir fyrrum alþingismaður lagði ítrekað fram frumvarp þess efnis að þessi mál væru rannsökuð hér á landi en það frumvarp náði aldrei í gegn. Því er það fagnaðarefni að stofnaður hafi verið félagsskapur sem geti stutt við bakið á framsæknum þingmönnum og öðrum sem þora að láta sig málið varða.
VGV 01.08.10
Flokkar:Umhverfið