Hægðatregða. Er lausnin þarmaskolun?

Árið 1985 birti Heilsuhringurinn viðtal við Elisabeth Carlde heilsuráðgjafa frá Svíþjóð, hún hafði stundað nám í skóla heilsufrömuðarins Birger Ledin og einnig í hinum virta heilsuskóla Axelsson í Stokkhólmi. Í viðtalinu við Elísabeth kom fram að í námi hennar var veiku fólki ráðlagt skola þarmana með þar tilgerðu skoltæki, sem Birger Ledin hannaði fyrir árið 1920.

Fram kom að Elisabeth hafði sjö árum áður fengið reynslu af þarmaskolun vegna krabbameins sem hún réði niðurlögun á með breyttu mataræði og þarmaskolun. Hún taldi að ein orsök krabbameins væri  hægðatregða og léleg úthreinsun líkamans. ,,Það er talin örsök 60% krabbameinstilvika en 40% eru rakin til atvinnu og umhverfisþátta. Ef um hægðatregðu er að ræða setjast  óhreinindin fyrir í kirtlum og þannig byrja sjúkdómar. Þeir sem hafa hægðir tvisvar á dag eru sjaldan veikir, því að hreinsunin er það ör. Hinir sem ekki hafa hægðir á hverjum degi kvarta gjarnan um verki“ sagði Elísabeth.

Elisabeth hafði sérhæft sig í meðferð á bólóttri og óhreinni húð og sagði þarmaskolun oftast vera undirstöðu góðs árangurs í slíkri baráttu. Breyttar næringarvenjur væru  einnig nauðsynlegar, til dæmis væri fyrsta skilyrði að: sleppa algjörlega súkkulaði, sykri, mjólk, gosdrykkjum og draga úr fituneyslu.

Hvað er harðlífi?
Birger Ledin var þekktur heilsufrömuður í Svíþjóð. Hann skrifaði 5 eftirtaldar bækur: ,,Fyra vágar föra ut, Liv och Hálsa, Meditation och Halsa, Tankar och Reflexer, Se dig i Kosmos spegel“. Guðný Guðmundsdóttir þýddi eftirfarandi grein eftir Birger Ledin:

Sú var tíðin að ekki þótti skipta máli hvernig melting og hægðir gengu fyrir sig. Í dag er vitað að góð melting og eðlileg úthreinsun eru grundvöllur góðrar heilsu. Harðlífi sýnir að innri starfssemi hefur raskast og að það er truflun á allri líkamsstarfssemi. Ef melting truflast og þarmarnir stöðvast stöku sinnum getur það lagast með góðum nætursvefni. En í okkar þjóðfélagi er þetta oftast langvinnt ástand. Það eru svo margar orsakir fyrir meltingartruflunum í kringum okkur: streita, of mikil vinna, áhyggjur, lausung og öryggisleysi. Jafnvel við einstakt taugaálag getur starf þarmanna lamast og langvinnt ástand, sem kallast harðlífi, kemur fram.

Þunglyndi, hræðsla, sorg, niðurdrepandi hugsanir og kvíði geta haft slæm áhrif á hreinsunarstarfssemi líkamans og það getur orðið til þess að mikið af úrgangsefnum fari út í blóðið. Sænski læknirinn dr. Tage Voss álítur að þriðji hver Svíi þjáist af harðlífi og sagði: „Þegar ég, sem sjúkrahúslæknir, spyr sjúklinga mína, kemst ég að því að margir eiga í erfiðleikum með þessa starfssemi líkamans og ég þori að staðhæfa, að allt að þriðji hver Svíi á við erfiðleika að stríða varðandi hægðir. Það þýðir 3 milljónir Svía“. Læknirinn dr. Denis Burkitt sagðir: „Í fæðunni eru efni sem hafa þann eiginleika að geta framkallað krabbamein. Ef þau fara hægt í gegnum þarmana fá þau lengri tíma til að valda skaða. En ef þau aftur á móti fara hratt í gegn fá þau ekki tíma til að safnast saman og hættan verður minni“.  Dr. Burkitt hefur komist að því með rannsóknum, að hjá sumu fólki tekur næstum 3 daga, eða 70 klukkustundir fyrir matinn að fara í gegnum þarmana. Það eðlilega er 12 til 18 tímar.

Það er lífsvenjum okkar að kenna hversu stórt vandamál þetta er. Nóbelsverðlaunahafinn dr. Alexis Carrel sannaði á þriðja áratugnum hvernig andlegt ástand getur haft áhrif á meltingarstarfssemi. Sænski heilsufrömuðurinn Birger Ledin hefur í meira en 50 ár sannað í verki hve mikilvægt það er að örva og auðvelda hreinsunarstörf líkamans. Um það fjallar hann m. a. í bók sinni ,,Fyra vágar föra ut“. Þar segir hann m. a.: „Streita nútímans, óróleiki og önnur andleg áreynsla getur haft þau áhrif á þarmana að þeir hætti að starfa. Ef það skeður er þarmaskolun í mörgum tilfellum óhjákvæmileg. Við langvarandi hægðatregðu getur dagleg þarmaskolun verið nauðsynleg“.

Stöðug hægðatregða getur valdið mörgum sjúkdómum, s. s. höfuðverk, þreytu, óhreinni húð, nýrna- og þvagfærasýkingu, blöðru- og ristilbólgum, gall- og lifrarbólgum, kvefi, brjóstsviða, gigtarbólgum, loftmyndun í þörmunum, sári í endaþarmi, leggangabólgum, útferð, sviða í þvagrás og andfýlu.

Þarmaskolun

Það er hægt að hjálpa líkamanum við að sigrast á bakteríusýkingum með þarmaskolun. Það getur oft verið betra en að rjúka í lyfin. Þegar skoltækið er notað til að sigrast á sýkingum er best að gera eftirfarandi: Í einn, tvo til þrjá daga (einstaka sinnum lengur) er gerð þarmaskolun fjórum sinnum á dag með jöfnu millibili (stundum oftar). Það má ekki láta rugla sig þótt hægðir komi á undan skolun eða ef skolvatnið virðist tært, það eru í því úrgangsefni, óniðurbrotin eggjahvítuefni, bakteríur og fleiri efni sem safnast saman þegar fólk hefur hita. Þessi skaðlegu efni skolast út með skolvatninu. Einni til tveimur klukkustundum eftir skolun er aftur komið mikið af eiturefnum í þarmana. Þessi eiturefni geta haft lamandi eða örvandi áhrif á starfsemi þarmanna, auk þess sem þau sogast aftur út í blóðið og líðanin versnar. Stundum bólgnar endaþarmsopið við þarmaskolun.

Það er vegna þess að svo mikið er af eiturefnum í vatninu að slímhúðin verður fyrir ertingu. Í þannig tilfellum má alls ekki hætta skolun. Að sjálfsögðu væri best að útrýma þeim þáttum í lífsvenjum okkar sem hafa stoppandi áhrif á meltinguna. En ef ekki er hægt að útrýma orsökunum verður að aðlaga sig aðstæðunum með þeim ráðum sem til staðar eru. Með öðrum orðum: á vélrænan hátt að koma af stað þeirri þarmastarfsemi sem líkaminn sjálfur getur ekki framkvæmt vegna óhollra lifnaðarhátta.

Besti tíminn fyrir þarmaskolun er á morgnana milli kl. 7 og 9. Það er um að gera að losna við þau úrgangsefni, sem safnast hafa í þarmana yfir nóttina, eins fljótt og hægt er. Líka er hægt að skola fyrir svefninn á kvöldin til að losa líkamann við þau úrgangsefni sem safnast hafa yfir daginn. Þar verður hver og einn að finna út hvað honum hentar best.

Sjá líka ,,Fimmtíu prósent fimmtugra og eldri fá gyllinæð“ . Viðtal við Jóhannes Gunnarsson lækni á  www.heilsuhringurinn.is

Höfundur: Ingibjörg Sigfúsdóttir skrifað árið 2010



Flokkar:Annað, Ýmislegt

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , , , , ,

%d