Snyrtivörur á Íslandi

Neytendamál ,,neytendur ættu ekki að leggja trúnað á sýndarvísindalegar fullyrðingar um öldrunarhamlandi snyrtivörur”

Róttæk ný tækni á borð við líftækni og nanótækni er nú í vaxandi mæli notuð til sóknar á snyrtivörumarkaðinn vegna þess að hann er mjög gróðavænlegur en að sama skapi undir slöku eftirliti.

Nanótækni og snyrtivörur
Nanótækni er vísindi öreindanna. Nanóeind er einungis einn hundrað-þúsundasti hluti af þvermáli hárs af höfði okkar. Nanóeindir má nota til að hlaða atómum upp í nýja hluti, allt frá lífveru til véla. Óprófaðar snyrtivörur gerðar með nanótækni eru nú þegar á markaði í formi sólarkrema. Hefðbundin sólarkrem innihalda sínkoxíðagnir sem stöðva sólargeislana en ókostur þeirra er að þau virðast hvít eftir að þau eru borin á húðina.

Nýju nanó-sólarkremin innihalda nanóagnir úr sínkoxíði og virðast ekki hvít eftir að þau eru borin á húðina vegna þess að þau “ná dýpra” eins og segir í auglýsingunum. Reyndar geta þessar nanóöreindir smogið í gegnum öll lög mannshúðarinnar og inn í blóðið. Þær eru svo smáar að þær ná jafnvel að komast í gegnum himnu sem verndar heilann með því að sigta skaðleg efni úr blóðinu. Evrópuþingið samþykkti reglugerð í mars árið 2009 sem kveður á um skyldumerkingar á nanóeindum í snyrtivörum. En er það einhver trygging fyrir svokölluðu ,,valfrelsi” neytenda ef þeir vita ekki hvað ,,nanó” merkir?

Líftækni og snyrtivörur
Líftækni er beitt til að erfðabreyta plöntum til ræktunar á próteinum til afnota í snyrtivörugerð. Fjöldi öldrunarhamlandi (anti-aging) krema og dropa á markaði eru kynnt á þeirri forsendu að þau innihaldi ný lífvirk prótein eða vaxtarþætti sem sem geti – með orðum íslensks líftæknifyrirtækis – ,,yngt upp skaddaðar frumur”. Slíkar fullyrðingar geta verið mjög villandi. Því er haldið fram að varan geti veitt sködduðum frumum unglegra útlit eða að varan geti umbreytt sködduðum frumum í unglegri frumur – nokkuð sem ekkert lyf (eða töfrar) hafa enn sem komið er megnað að gera.

Ekki er hjá því komist að álykta að slíkar auglýsingar séu hannaðar til þess að fá neytendur til að trúa því að mikið sé í boði þótt í reynd sé litlu lofað. Ef vaxtarþættir í snyrtivörum geta raunverulega stuðlað að húðfrumuvexti kunna þeir að valda ofnæmisviðbrögðum hjá sumu fólki og auka vöxt krabbameinsfruma hjá öðru, einkum eldra fólki. Þær spurningar vakna hvort kostir öldrunarhamlandi snyrtivara séu ýktir og hvort hugsanleg áhætta af notkun þeirra sé vanmetin.

Snyrtivörur og Evrópusambandið
Reglugerð ESB um snyrtivörur hefur ekki komið í veg fyrir að snyrtivöruiðnaðurinn noti villandi auglýsingar. Auglýsingar um öldrunarhamlandi snyrtivöru, sem sögð er innihalda vaxtarþætti sem stuðli að endurnýjun og vexti húðfrumna, mætti til dæmis skilja þannig að varan gefi húðinni unglegt útlit með því að mýkja, vökva og bæta þar af leiðandi heilsu frumnanna. Þær mætti líka skilja á þann veg að varan geti raunverulega breytt gömlum húðfrumum í ungar.

Aukinn skilningur er á því að Evrópureglugerðin um snyrtivörur þurfi að herða kröfur um auglýsingar og merkingar til þess að tryggja neytendum réttar upplýsingar. Einnig er aukin krafa um að Evrópureglugerðir krefjist strangari öryggisprófana á snyrtivörum sem nota líftækni og nanótækni, og að merkingar tilgreini hvort snyrtivara innihaldi erfðabreyttar afurðir – líkt og krafist er um snyrtivörur með nanóögnum. Þar til úr því verður bætt ættu neytendur ekki að leggja trúnað á sýndarvísindalegar fullyrðingar um öldrunarhamlandi snyrtivörur.

Snyrtivörur á Íslandi
Á Íslandi er nú vaxandi framleiðsla á lífrænum snyrtivörum. Þær eru traustsins verðar vegna þess að þær eru vottaðar af þriðja aðila. Vottunin staðfestir að notuð eru örugg, náttúruleg hráefni við framleiðslu þeirra, en erfðabreyttar afurðir og afurðir nanótækni eru bannaðar. Fyrirtæki sem framleiða lífrænar snyrtivörur eru undir reglubundnu eftirliti óháðra matsmanna frá faggildum vottunarfyrirtækjum. Neytendur ættu jafnframt að gæta að því að ekki er hægt að treysta því að snyrtivara sé lífræn einfaldlega vegna þess að hún er auglýst innihalda einhver lífræn hráefni, heldur vegna þess að óháður aðili hefur vottað vöruna og merki vottunaraðilans kemur fram á umbúðum vörunnar.

Greinin var áður birt í Fréttablaðinu 24. júní 2010 og birt með leyfi höfundar: Söndru B. Jónsdóttur

 



Flokkar:Annað, Ýmislegt, Greinar og viðtöl

Flokkar/Tögg, , , , , , ,

%d bloggers like this: