Orkustraumar fléttast eins og þéttriðið net yfir landið allt

Erindi futt af Erlu Stefánsdóttur á haustfundi Heilsuhringsins ári 2001 

Með auknum áhuga á umhverfi okkar, fræðumst við um samspil náttúrunnar og mannsins. Hörkuleg inngrip í vistkerfi náttúrunnar skilar sér þannig að það getur valdið okkur mönnunum skaða og truflað líf okkar. Við verðum að virða náttúruna og vera vakandi fyrir öllum hennar þörfum, það kemur sér bæði vel fyrir okkur mannfólkið og dýr merkurinnar. Við verðum að muna að jörðin er lifandi vera, gædd mætti, vitund og lífi. Hún andar og hjarta hennar slær. Fljót hennar eru taugar og fjöllin eru heimkynni „deva“ guða. Því er æðakerfi jarðarinnar lifandi ljós er streymir milli orkupunkta og orkustöðvanna í hverju landi fyrir sig og milli orkustöðva jarðarinnar. Orkupunktar er þar sem orkulínur skerast. Við verðum að vera vakandi fyrir rafeðlisfræðilegum áhrifum, bæði frá náttúrulegu rafsegulsviði jarðar og af mannvirkjum, t.d. frá raflínum innanhúss og háspennulínum utan dyra.

Rafmagn
Oft þykir mér hugsunarleysi birtast í staðsetningu spennustöðva. Ósjaldan kemur fyrir að slíkar byggingar eru staðsettar allverulega nálægt híbýlum manna. Á einum stað í Mosfellsbæ er spennustöð komið fyrir í enda bílskúrs er stendur upp við hús. Þar býr fjölskylda, foreldrar og 3 börn, en svefnherbergi hjónanna liggur næst spennustöðinni. Þarna var lítill drengur sem var veikur fyrstu 9 mánuði lífsins, sífellt kvefaður og með eyrnabólgur. Kom að því að móðirin hringdi til mín og spurði hvað gera skyldi, þau væru orðin langþreytt af vökunóttum og barnið væri stöðugt á einhverjum fúkkalyfjum. Eftir að hafa séð þessa staðsetningu rafmagnsstöðvarinnar bað ég um að svefnherbergið væri flutt í hinn endann á húsinu og barninu batnaði.

Orkulínur
Orkulínur geta verið margskonar, uppbyggjandi og neikvæðar. Jarðseguláhrif geta haft neikvæð áhrif á mannverurnar en það má einnig segja um orkukerfi jarðarinnar, að ekki sé hollt að eyða 6 til 10 klukkustundum á sólarhring á sama stað í of mikilli orku. Orkukerfi landsins er af svo margvíslegri tíðni að við verðum að skerpa næmni okkar og læra hvað okkur er fyrir bestu. Við gætum varist betur sjúkdómum og allskonar ójafnvægi, andlegu sem líkamlegu, ef við kynnum að staðsetja hús okkar frá raffræðilegum áhrifum, jarðseguláhrifum og almennu orkukerfi.

Ég hef skoðað margar vistarverur fólks og sem dæmi ætla ég að segja frá er ég mældi orku í íbúð einni í Hafnarfirði. Þar bjuggu fullorðin hjón. Ekki gætti neinna neikvæðra áhrifa frá orkustraumum herbergjunum, en þegar komið var inn í svefnherbergið, var sterk orkulína í gegnum herbergið streymdi um efri hluta hjónarúmsins. En hjónin voru bæði orðin veik, hann hjartveikur og hún brjóstveik. Efnishyggjumenn bera mikla virðingu fyrir vísindum og er það vel, en hvernig fer þegar vísindin fara að afneita efnishyggjunni. Athugið að það ekkert rökréttara að trúa á vísindin frekar en að trúa á Guð.

Virðum hulduverurnar
Fyrirtæki í Gullbringu og Kjósarsýslu byggði hús undir starfsemi sína, en á lóðinni voru mjög stórir steinar sem þurfti að fjarlægja, og var það gert. Þeim var komið fyrir við endimörk lóðarinnar og ruslapokar fengu þar einnig pláss. En nú fór að bera á allskonar óhöppum og jafnvel slysum, menn duttu milli hæða, brotnuðu og sködduðu sig. Einum datt í hug, „gæti hugsast að álfar væru í steinunum, sem vildu virkilega gera þeim grikk“.

Ég fékk upphringingu, jú, það var ekki nokkur vafi, þarna bjuggu álfar og fyrir framan stofugluggana hjá þeim voru fullir ruslapokar, einnig var búið að sletta málningu á hús þeirra. Nú voru pokarnir fjarlægðir og málningin hreinsuð og þeir sættust að einhverju leyti. Óhöppunum fækkaði, en ekki er útkljáð til fulls deiluefni manna og álfa á þessum stað. Sennilega vilja þeir fallegra umhverfi með blóm og gróður í kring um húsin sín. Einn velviljaður hulduverum tók sig til, fann nýja staðsetningu þessara álfahúsa, lét tyrfa og girða í kring um húsin. Álfarnir borguðu fyrir sig með gleði og velvild til þeirra mannvera sem vinna þarna.

Grétar Fells segir einhvers staðar: „Á fögrum vormorgni þegar allt iðar af gleði yfir því einu að vera til, er vissulega erfitt að komast undan því að gera ráð fyrir einhverjum ósýnilegum verum, sem taka þátt í þessum veislufögnuði lífsins og þá er jafnvel ekki laust við stundum, að næm eyru heyri einhvern þyt ósýnilegra vængja eða sviflétts fótataks, sem að vísu skilur ekki eftir sig nein sýnileg spor.“ Ef við gætum opnað okkar sálardyr fyrir verum himins og náttúru, mundi gleði og jafnvægi flæða inn í líf okkar. Öll náttúran er full af lífi, líf í óteljandi myndum. Allt hefur innra líf og álfaþróunin gegnir því að vera birting þessa innra lífs.

Húsagarðar
Í sérhverjum húsagarði getur verið ýmislegt sem er hulið okkar jarðnesku augum. Oft finnast margskonar orkulínur og álfakyn. Þar geta verið léttir og svífandi blómálfar, staðbundnar hulduverur, einnig blómálfar sem fljúga um er líkjast englum eða fiðrildum í öllum hugsanlegum litbrigðum. Við getum fundið litla jarð-dverga sem eru varla meira en 10 cm háir, lifa þeir í fjölskyldum líkt og við mannfólkið. Í hverju tré eru verur, og hefur hver trjátegund sinn sérstaka álf. Þeir garðeigendur sem vilja blómum sínum og trjám vel, hugsa til þeirra og jafnvel tala við blómin, þeir láta trén vita hvenær á að saga greinar, en ráðast ekki einn góðan veðurdag að trjánum. Enda sjáum við að svör koma frá gróðrinum því við horfum hugfangin á fallega og vel hirta garða.

Straumar í Ölfusi
Á bökkum Ölfusár stendur fallegt hús, með miklum gróðri í kring en þangað er för okkar heitið. Þegar komið er að afleggjaranum, tökum við eftir því að blá orkulína liggur eins og á miðjum veginum, og öll sveitin er sem böðuð blindandi ljósi. Hér mætast margar gerðir af orkulínum, bláu orkulínurnar sem eru í sömu tíðni og tilfinningar okkar. Önnur sem er stór, gul og gljúp orkulína sem hefur sömu stefnu og sprungubelti landsins og er huglæg.

Ein af stærstu orkubrautunum frá Hofsjökli er í sömu tíðni og sálarsól okkar. Ölfusáin er þyngslaleg yfirlitum en vatnadís er yfir fljótinu í bláhvítum geislum. Þegar komið er inn fyrir hliðið, mæta okkur kubbslegir dvergar, í skærum fatnaði, þeir hneigja sig og beygja, en eru nú samt kátir og vinalegir. Norðanvert við húsið eru jarðdverga-hús, þeir eru að stærð um 10-12 cm í skærrauðum og skærgrænum fötum. Híbýlin eru fábreytt utandyra en mjög glaðleg og litrík innandyra. Í runnunum búa ljúflingar sem eru á stærð við 8 – 10 ára börn í léttum klæðnaði líkt og dansarar í klassískum ballett.

Þegar við komum inn fyrir mætir okkur virðulegur búálfur, virtist hann hafa einskonar umsjón yfir þessu búi, var hann ráðsmannslegur með lyklakippu við beltið. Hann er í þykkum bláum vaðmálsbuxum, hvítri skyrtu, rauðu vesti og svörtum sauðskinnskóm. Hann er hvíthærður og virtist mjög gamall, með mildi og gæsku í augum, athugull  og fylgir honum mikil ró. Var hann á stærð við 4 ára barn. En þegar við komum innar í stofuna skildum við hversvegna hann var svona valdsmannslegur, stofan var full af litlum snaggaralegum álfaverum, á að giska 20 – 25 cm háum, telpum og drengjum, með galsa og glettni í svip í litríkum klæðum.

Út um gluggana sáum við hóla niður á túni. Við máttum til að athuga þá. Sá sem nær var húsinu var vel byggður. Þar var að sjá reisulegt hús, með háum stafni líkt og útskurður væri á með einhverskonar letri sem ég gat ekki lesið. Þarna býr þéttvaxin huldukona í bláum kyrtli með syni sínum 16 til 17 vetra gömlum. Fannst mér eins og hún verndaði hann alveg sérstaklega. En á móti, hinum megin við lautina, bjuggu barnslegir álfar í tveggja hæða húsi. Húsið er rauðleitt og árur álfana einnig og voru þeir ærslafengnir og kátir að sjá. Þarna er gaman og gott að koma, þarna býr lifandi og gott fólk og ljúfar álfaverur.

Huldufólk
Huldufólk býr í hólum, klettum og jafnvel á sléttlendi. Er það fíngerðara en mannfólkið, og oft mjög fallega búið, í litríkum fatnaði. Húsakynni þeirra eru fjölbreytt líkt og hjá okkur mönnunum, allt frá torfhúsum upp í nýtískuleg einbýlishús. Kirkjur þeirra eru fallegar og sýnast þeir mjög trúaðir en krossarnir eru frábrugðnir kristnum, því þverarmarnir vísa í höfuðáttirnar fjórar. Ég var eitt sinn beðin um að koma á sveitabýli á Suðurlandi. Þar voru veikindi, andleg og líkamleg. Einnig hafði ólán elt húsbændur þarna í áratugi. Hvað var til ráða, hvernig væri að fá einhvern skyggnan, gæti þetta stafað frá óvelkomnum gesti?

Þegar ég nálgaðist bæinn, sá ég að huldufólksbæir voru sitt hvoru megin við bóndabýlið og virtist vera óróleiki þar yfir, einhverskonar fjandskapur milli allra þessara bæja. Ég kom með ráð, „viljið þið ekki reyna að vingast við álfana, gefa þeim blóm, ljós og jafnvel graut“. Húsráðendum fannst bónin undarleg, svo ekki sé nú meira sagt, en ég kvaddi og hvarf á braut. Þrjár til fjórar vikur liðu, þá hringir bóndinn á bænum, „Heyrðu, við gerðum það sem þú baðst um, sagði hann, og allt hefur orðið
gott, okkur er batnað.“

Jörðin er lifandi vera
Ef við skerpum vitund okkar með andlegri ræktun, þá getum við séð innri hreyfingu efnisins, séð að allir hlutir, allt efni hefur mismunandi útgeislun og innri kraft. Jörðin hefur orkuhjúp sem er í senn útstreymi jarðar og lífsæðar fyrir lífsorkuna. Úr tíbetskum helgiritum finnum við: „Allar verur, allir hlutir jafnvel þeir sem ekki eru lífsanda gæddir, gefa frá sér hljóm. Hver vera og hver hlutur gefur frá sér hljóm, sem er einkennandi fyrir hana eða hann. En þessir tónar taka breytingum eftir þeim stigum sem veran eða hluturinn fer í gegn um. Hver vera og hlutur eru uppbyggður úr atómum sem dansa og framleiða hljóma“. Af þessu sjáum við að orkukerfi landsins getur hljómað, og það er einmitt þannig. Orkustrengirnir titra sem voldug hljómkviða.

Orkurásir kalla Kínverjar „Drekaslóðir“, Englendingar „Lei-Lines“ og Ástralíubúar „Sönglínur“. Við finnum á landinu okkar orkulínur í margvíslegum litbrigðum. Fjallatívar senda milli sín ákveðna geisla í fjólulitum, sem sindra og hljóma. Um allt land er eins og þéttriðið net af bláum orkulínum, við sjáum þær með okkar jarðnesku augum því blessuð dýrin, kindur og hestar hafa markað margar göturnar. Gæti það ekki verið að húsdýrin sjái og skynji aðra þætti en við mannfólkið, flest okkar. Við getum greint ljósstrengi milli varða, og jafnvel séð vörðu-leiðina, þó tímans tönn hafi sorfið og molað vörðurnar. Get ég vel hugsað mér að þeir sem lifðu hér á landinu okkar á árunum áður, hafi séð þessar götur lýsandi, þá var fólkið betur vakandi fyrir náttúrunni og umhverfi sínu. Við verðum blind í rafmagnsljósum og hávaða nútímans,  blind á landið, heyrum ekki og sjáum ekki hulduhvammana.

Á stærstu orkubrautunum finnum við kirkjur landsins, þar eru einnig að finna helgar lindir. Þar sem þessar ljósbrautir mætast er ótrúlegt orkuflæði, eins og glitrandi gosbrunnar í tæru skínandi ljósi. Hofið í Hofsjökli sendir frá sér 12 orkulínur sem haldast í hendur við gróðurbeltin og álfheima landsins. Sú braut er streymir austur – vestur og norður – suður tengir saman útverði landsins, þá náttúruvætti sem við þekkjum í skjaldarmerki Íslands. Í vestri Snæfellsjökull, í austri Búlandstindur, í norðri Kaldbakur og í suðri Mýrdalsjökull. Haldið þið að það séu ekki margir sem hafa fundið fyrir „ósýnilegum“ verum? Hver hefur ekki fundið fyrir „návist“ upp til fjalla, fjarri byggð, fundið verur sem lifa og hrærast í skauti náttúrunnar og eru sameinaðar henni.

Haft er eftir Sigurði Nordal: „Það er efasamt hvort sá vex alltaf, sem tignaður er, en á hinu er enginn efi, að sá sem tignar af hreinu hjarta, opnar huga sinn fyrir undrum og aðdáun, hlýtur að vaxa við það. Auðvitað er æskilegast að horfa sem hæst í dýrkun sinni. En fáum er gefið að dýrka Guð sem anda, svo að bæði svali hug og hjarta. Þá er betra að leita Guðs í því sem lægra er og nálægara og finna Hann þar. Betra er að lúta stokkum og steinum en að lúta ekki neinu.“ Af öllum átrúnaði er sá verstur að vita ekkert meira en sjálfan sig“. (Tilv. lýkur.)

  • Lokaorð koma með hugleiðingu sem ég hef gefið Hafnfirðingum á kortinu þeirra:
  • „Finnum okkur kyrrlátan stað, þar sem hljómur náttúrunnar gefur okkur fyrirheit, setjumst þar og horfum inn á við hlustum eftir himins og jarðartónum og finnum taktslög lífs og jarðar.
  • Finnum einingu með öllu lifandi – finnum að jörðin, himinninn, þú, ég, við öll, erum eitt. Finnum hljóm sköpunarinnar gagntaka okkur – finnum að sá er skapaði allt þetta er nálægur.“ Gætum að jafnvægimanns og jarðar     

 Höfundur:  Erla Stefánsdóttir. Flokkar:Umhverfið

Flokkar/Tögg, , , , , , , , ,

%d bloggers like this: