Rætt við Þórunni Birnu Guðmundsdóttur doktor í austrænni læknisfræði

Þórunn Birna stundaði nám við ,,Emperor’s College of Traditional Oriental Medicine“ en sá skóli er í fyrsta til öðru sæti af virtustu skólum Bandaríkjanna í austrænum lækningum. Þórunn Birna tók vel beiðni Heilsuhringsins um viðtal og nú fær hún orðið:

,,Í Bandaríkjunum er algengt að menntað fólk í austrænum lækningum starfi á sjúkrahúsum við hlið vestrænna lækna enda er námið að stórum hluta einnig byggt á vestrænni læknisfræði. Þar má t.d. nefna sjúkrahúsin: Cleveland Clinic, Mayo Clinic, University of California San Francisco, Duke University Medical Center og Arthur Ashe Medical Center UCLA  þar sem ég starfaði einmitt í lok minnar skólavistar (http://www.unifiedpractice.com/top-u-s-hospitals-embrace-chinese-herbal-medicine/ ). Auk nálastungna, jurtalækninga og næringarfræði eru kennd hin hefðbundnu vestrænu fræði eins og líffærafræði (anatomy), lífeðlisfræði, sjúkdómafræði, efnafræði o.m.fl. sem tilheyrir námi vestrænna lækninga. Þannig erum við þjálfuð til að starfa samhliða vestrænna lækna og skilja þeirra tungumál.

Í læknadeild Harvard háskóla er austræn læknisfræði eitt af valfögum skólans og er kennd við hlið vestrænnar læknisfræði. Árin 2014 og 2015 komu margar virtar rannsóknir frá Harvard háskóla sem beinast að virkni og árangri nálastungupunkta.  Ástæða þess að Harvard reið á vaðið með kennslu í austrænum lækningum er að heildrænar lækningar eru orðnar mjög vinsælar í Bandaríkjunum.  Fleiri háskólar hafa fylgt dæmi Harvard háskóla með því að auka rannsóknir á austrænni læknisfræði á bæði jurtum og nálastungum.  Þrátt fyrir andstöðu vestrænna lækna á síðustu áratugum hefur virðing fyrir austrænni læknisfræði aukist mjög mikið á síðustu árum og í kjölfar þess hafa vestrænir læknar víða í heiminum breytt afstöðu sinni og kynna sér nú austræna læknisfræði.

Grunn námið tók fjögur ár. Það eru fjórar annir á ári: vetur, sumar vor og haust. Ég tók masters námið á fjóru og hálfu ári og bætti við mig nokkrum fögum sem höfðu bæst við námið síðan ég byrjaði og vildi ekki missa af. Síðan vann ég á læknastofu skólans undir handleiðslu kennara í tvö ár ásamt því að vinna á tveimur læknastofnunum utan skólans (Arthur Ashe Medical Center UCLA og Daniel Freeman Hospital). Eftir það rak ég stofu hér heima í 8 ár eða þar til að mig þyrsti í meira nám en þá lokaði ég stofunni og dreif mig aftur í skólann í tveggja ára doktorsnám í austrænum lækningum. Eftir það vann ég í tengslum við námið í eitt ár á stofum hjá tveimur mentorum mínum.  Annar var stofnandi skólans míns en hinn kennari í skólanum sem sérhæfði sig í krabbameinslækningum meðal annars og er mjög virtur nálastungu og jurtasérfræðingur í Los Angeles.

Doktorsnámið byggðist á rannsóknum og klínískri sérhæfingu í 2 ár undir leiðsögn lækna frá Asíu. Vestræna læknisfræðin var síðan kennd af vestrænum læknum m.a. skurðlæknum, hjúkrunarfræðingum, efnafræðingum, sjúkraþjálfurum, næringarfræðingum o.s.fv. en aðal markmiðið er dýpri skilningur á fræðunum, mikil sérhæfing og aukið samstarf milli hins austræna og vestræna læknisheims.  Einnig er okkur kennt að gera rannsóknir og lesa rannsóknir.

Mataræðis og jurtalækningar eru mjög þekktar í Kína enda byggðar á aldagamalli reynslu þjóðarinnar. Hefðbundnar kínverskar jurtaformúlur eru hátt í fjögur þúsund ára gamlar og taldar eldri en nálastungurnar. Í öllum löndum Asíu eru viðhafðar svipaðar lækningar eins og í Kína, Japan, Kóreu, Víetnam og Indlandi. En hvert land er með sína eigin hefð og eigin aðferð til jurtalækninga.  Margar jurtaformúlurnar eru afar gamlar og staðlaðar, þær hafa því ekki breyst í mörg þúsund ár af því að þær virka vel á almenn veikindi sem koma til vegna ójafnvægis í líkamanum. T.d. flensu, kvefs, verkja, hormónaójafnvægis, meltingarvandamála, hjartavandamála o.s.fv. Formúlurnar eru mismunandi til þess að þær geti hentað hinum ýmsu manngerðum. Hver formúla inniheldur á bilinu 5 til 20 jurtir og þeim er ætlað að koma á jafnvægi í líkamanum.

Undirstaða góðs árangurs er nákvæm greining hún felst m.a. í að taka púlsinn, ekki bara telja hann heldur finna hvers eðlis púlsinn er, sem er gert á mörgum mismunandi stöðum úlnliðsins.  Svo þarf að lesa tunguna, þ.e. að skoða skánina á tungunni, mót tungunnar og lit. Ef fólk kærir sig um getur það sjálft séð mikla breytingu á tungunni frá einum tíma til annars. Ástand tungunnar endurspeglar innri starfsemi líkamans. Í greiningu felst einnig að lesa í andlit, líkamsstöðu og málróm. Kunnátta í þessu er nauðsynleg til að komast að því hvernig meðferð hentar hverjum og einum.

Það sem skilur á milli vestrænna- og austrænna lækninga eru greiningarnar. Í vestrænni læknismeðferð fá flestir sem greindir eru með sama heiti á sjúkdómi eins meðferð. Hvort sem um er að ræða höfuðverk, mígreni, vefjagigt, meltingarvanda eða eittvað annað.  Að mati austrænnar læknisfræði er það alrangt því að við erum svo ólík og engin meðferð ætti því að vera eins. Tökum dæmi um konu á breytingarskeiði með hormónavandamál, engin önnur kona er með nákvæmlega sömu einkenni eða sama ójafnvægi á hormónum. Þess vegna þarf greining að vera mjög hnitmiðuð og einstaklingsbundin. Það þarf að koma jafnvægi á hjá þessari konu og til þess eru margir möguleikar og nauðsynlegt að velja rétta meðferð svo að gagni komi.  Það má einnig segja að austrænar lækningar snúist um það að koma jafnvægi á sál og líkama því álag, stress og tilfinningar spila einnig alltaf stórt hlutverk í heilbrigði líkamans.  Alls þessa verðum við að taka tillit til svo við getum litið á heildarmyndina og hafið meðferð eftir henni.

Tökum annað dæmi með tilliti til mataræðis um manneskju með síþreytu, smá bjúg, lausar hægðir, þreytu, þyngsli í höfði, einbeitingarskort og kannski kaldar hendur og tær. Hún má td. helst ekki vera á hráfæði, ekki borða mat í kalda flokknum eins og agúrkur, vatnsmelónur, salöt, hrátt grænmeti og kalda ávexti og óeldaðan mat. Þó að allar þessar matartegundir séu hollar út af fyrir sig þar sem þær eiga við. Þessari umræddu manneskju væri ráðlegt að fá sér eldaðan mat, rótargrænmeti, vermandi krydd og jafnvel einstaka kjötsúpu því dökkt kjöt er mjög vermandi og getur verið mjög nauðsynlegt sumum einstaklingum í einhvern tíma.  Annar einstaklingur gæti síðan þurft að hvíla sig á öllu kjöti og heitum kryddum, en borða frekar salöt, hráfæði og mat sem kælir til þess að ná jafnvægi.

Í austrænum hefðum almennt skiptir mataræði miklu máli. Það þarf að velja næringu og mataræði eftir hverjum árstíma og eftir því hvaða matur vex í nær umhverfi einstaklingsins. Þar að auki hefur hver matvara og jurt visst hitastig. Sum matvara er talin mjög heit og hita líkamsstarfsemina og þá einstaka líffæri, önnur minna heit og enn önnur köld, það fer eftir vandamálunum sem fengist er við hvað á að borða. Við vitum td. að pipar, hvítlaukur og engifer eru hitagefandi en aloe vera, agúrka og piparmynta eru kælandi.

Hlustum á líkamann og heyrum hvað hann er að segja hverju sinni, þannig náum við árangri.

Þegar ég fór út í námið árið 1996 var ég mikið fyrir græna djúsa og hráa ávexti en leið alltaf frekar illa í maganum og var alltaf þreytt. Það breyttist ekki fyrr en ég fór að hlusta á lærifeður mína í skólanum og velja mér skynsamara mataræði.  Það fólst í því að hlusta á líkamann og finna hvað ég var að gera rangt.  Nú hef ég komist að því að ef ég fer ekki eftir þessu þá truflast meltingin, svefninn eða annað í líkamsstarfseminni.

Meltingin er grunnurinn að allri heilsu og skiptir höfuðmáli til þess að önnur líffæri líkamans starfi rétt. Í meðferðum mínum og greiningum einbeiti ég mér fyrst að jafnvægi í meltingarfærum og þarmaflóru. En það er ekki bara starfsemi maga og þarma sem skipta máli, heldur einnig bris, milta, lifur, og gallblaðra sem tengjast svo þvagblöðru, nýrum, hjarta og lungum.  Öll líffærin tengjast á endanum og vinna eftir vissu jafnvægi og samstarfi.

Nálastungurnar eru merkilegar en jurtaheimurinn ekki síður merkilegur. Nálastungur koma jafnvægi á líkamann, örva og styrkja líffæri, rafrásir, blóðrás og meltingarveg en þegar jurtunum er bætt við er hægt að flýta batanum mikið og fást við erfiðari tilfelli. Með nálastungum þarf oft nokkur skipti, jafnvel 5 til 15 til að veruleg umbreyting verði á líkamsstarfseminni. Aftur á móti virka nálarnar mjög fljótt og eru frábærar til að slá á verki, en þegar styrkja á og breyta meltingunni, eða hvetja starfsemi lifrar, bris eða milta, þá tekur það fleiri skipti með nálastungunum einum sér. Þess vegna er heildræn meðferð best sem inniheldur nálastungur, jurtaformúlur og mataræðis aðlögun.  Þannig náum við besta árangrinum í meðferðinni á sem skemstum tíma.

Vestræn læknisfræði er mjög góð og framarlega á sínu sviði en að mínu mati er þar er samt ýmislegt sem betur mætti fara. Sem dæmi, þá hafa læknar oft á tíðum lítið annað en verksmiðjuunnin lyf til að styðjast við og því er lyfjum stundum ávísað ótæpilega. Gallinn er sá að lyfjum fylgja oft slæmar aukaverkanir sem valda jafnvel öðrum heilsufarsvandamálum sem svo í mörgum tilfellum er reynt að kveða niður með enn öðrum lyfjum. Ég er ekki að ýkja því að slík dæmi sé ég oft í vinnunni minni. Einstaklingur er kannski kominn á 5 til 6 lyf við hinu og þessu. Þegar þannig er komið fyrir fólki myndast vítahringur og aukaverkanirnar verða að viðvarandi vandamálum. Sumir verða að öryrkjum af þessum ástæðum. Það er sorglegt að horfa upp á fólk veikt af þessum sökum sem jafnvel hefði mátt hjálpa með því að breyta mataræði örlítið í upphafi, gefa nokkra nálastungutíma og jurtir. Sumu af þessu fólki hefði jafnvel dugað að hætta að neyta koffíns, sykurs og mjólkurvara í einhvern tíma.

Það veldur mér ugg að heyra um fólk sem meðhöndlar aðra með nálastungum eftir að hafa tekið örfá helgarnámskeið. Sama gildir um lækna sem hafa farið til Kína í 3 mánuði og telja sig færa um að meðhöndla fólk á eftir með nálastungum. Mér finnst það beinlínis hættulegt. Ég mæli eindregið með því ef fólk ætlar sér að vinna með heilsu fólks á sviði austrænna lækninga að afla sér viðurkenndrar menntunar hjá virtum skólum. Það er himinn og haf á milli þess að fara á nokkur námskeið í nálastungum eða fjögurra ára fullt nám í viðurkenndum skóla. Það er ágætt viðmið að leita aðeins til þeirra sem hafa aflað slíkrar menntunar á viðurkenndri stofnun“.

Þórunn Birna hefur tekið vel í að fræða lesendur meira um áhrif austrænna lækninga og taka þá fyrir afmörkuð svið. Þær greinar munu birtast á næstu mánuðum.

Þórunn Birna rekur stofuna: Kuan Yin Nálastungur, Hamraborg 10, 200 Kópavogi.  netfangið er:   drthorunng@gmail.com   og símanúmer er : 861-6778

Janúar 2016 – I.S.



Flokkar:Greinar og viðtöl, Kjörlækningar

Flokkar/Tögg, , , , ,

%d bloggers like this: