Ljósfælni

Nýlega birtust fréttir af konu einni sem fyrirfór sér. Ástæðan var sjúkdómur sem kallast ljósfælni. Hún gafst upp. Sjúkdómur hennar var á svo háu stigi að hún varð að hafast við í myrkvuðu herbergi alla daga. Þessi kona komst í heimspressuna vegna þess að eiginmaður hennar var þekktur. Hann heitir Helmut Kohl. Árið 1985 birti blaðakonan Gunni Nordström grein um bankastarfsmann sem þjáðist af ljósóþoli. Hún fékk sterk viðbrögð við greininni. Fólk hringdi hvaðanæva af til að tala við hana um vandamál sem grein hans fjallaði um.

Einkennin voru: Sólbruni án sólar. Sviði í húð og roði, engu líkara en um sólbruna væri að ræða, en án sólar. Þetta fólk hafði tilhneigingu til að forðast sólarljós og mikla birtu. Einungis tölvuskjáir komu við sögu. Svo virtist sem óþolið væri vegna tölvuskjáa. Gunni Nordström ákvað að rannsaka þetta mál frekar og nú hefur hún gefið út bók sem fjallar um þessi mál. Bókin nefnist „Cover Up“ og fjallar um atvinnusjúkdóma með áherslu á ljósóþol. Gunni telur að ljósóþol, rafsegulóþol, síþreyta og fjölefnaóþol (Multible Chemical Sensitivity) séu í raun sami sjúkdómurinn.

Gunni telur að einkenni þessara sjúkdóma hafi fyrst komið fram í kringum 1970. Það var þó ekki fyrr en um 1980 sem ljóst var að eitthvað var að gerast hjá tölvurum. Húð- og taugavandamál voru algeng. Einnig var talað um fósturlát hjá konum. Bankastarfsmaðurinn sem nefndur var hér áður, fékk greiningu á sínum sjúkdómi hjá húðsjúkdómalækni, Björn Lagerholm. Hann líkti ástandi hennar við fólk sem hefði orðið fyrir of stórum skömmtum af röntgen og útfjólublárri geislun.

Björn hafði mikla reynslu af slíkum málum þar sem hann starfaði sjálfstætt samhliða starfi hjá Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Hann hafði séð nokkur önnur slík tilfelli þar sem ungt fólk, starfandi við tölvur, kom við sögu. Eftir nokkrar rannsóknir greindi hann frá skoðunum sínum í sænsku læknatímariti, Swedish Medical Journal. Hann sagði að breytingarnar á húð þessara einstaklinga væri með ólíkindum fyrir jafn ungt fólk og líktist húð þeirra húð gamalla bænda eða sjómanna sem höfðu unnið undir berum himni alla sína ævi. Eru þetta áhrif frá rafseglsviði sem stafar frá skjáum eða er þetta hugsanlega efnamengun?

Gunni varpar fram þeim möguleika og segir frá því að vitað sé að kemísk efni gufa upp frá tölvukubbum og plasti í tölvuskjám. Þarna er um að ræða eldtefjandi efni af ýmsum tegundum. Þetta er ekki mikið magn en talið er að þessi efni safnist fyrir í líkamanum, fituvefjum, og geti með tímanum orðið svo sterk að eituráhrif koma fram. Efnin eru t.d. bromíð efnasambönd, PBDE (Polybrominated diphenolethers) og TBBPA (Tetrabromidbisphenol A). Árið 1990 kom fram hjá IBM að hundruð efnasambanda gufuðu frá tölvuskjám.

Það fylgdi sögunni að magnið væri svo lítið að þau væru langt undir hættumörkum. Gunni hinsvegar veltir því fyrir sér hvar hættumörkin séu ef efnin safnast upp í fituvefjum og líkaminn sé ófær um að losa sig við þessi efni. Einnig hafa komið fram hugmyndir um að sum þessara efna séu lík östrogen og geti flokkast sem framandöstrogen. Það er hormónalíki, plastefni sem líkaminn telur vera hormón en er það ekki í raun.

Þessi efni geta m.a. valdið ófrjósemi hjá körlum og ýtt undir krabbamein. Sérfræðingur í vinnuumhverfi, Josep LaDou, heimsótti Stokkhólm um 1980. Hann greindi frá sjúkdómi sem kallaður var Silicon Valley Syndrome. Þessi sjúkdómur lýsti sér sem hrun í ónæmiskerfinu og fjölefnaóþol. Sjúkdómurinn kom fram hjá fólki sem vann við framleiðslu rafeindakubba. Josep LaDou taldi hiklaust að efnamengun væri um að kenna.

Gunni bendir á það að jafnvel þó færir sérfræðingar hafi bent á slík tilvik, fást yfirvöld ekki til að viðurkenna það sem möguleika. Læknar eru tregir til að samþykkja að tölvuskjár geti valdið sjúkdómum þrátt fyrir að fjölmörg eiturefni komi frá honum sem og rafsegulsvið. Tölvuskjáir eru að breytast. Þrátt fyrir að yfirvöld hafi hvergi samþykkt að rafsegulsvið geti verið skaðlegt, hefur miljónum verið varið í að finna heppilegar lausnir til að minnka geislun.

Í dag eru flestir skjáir vottaðir með TCO99, sem þýðir að rafsegulgeislun framan við skjáinn er lítil. Flatir skjáir eru að ryðja sér til rúms, en frá þeim stafar nánast ekkert rafsegulsvið. Hvað snertir efnamengun er ekki víst að útgufun sé nokkuð minni en í hefðbundnum skjám. Notkun rafeindatækja er geysileg og þar afleiðandi gífurlegt magn rafeindakubba með eldtefjandi efnum. Tíminn verður að leiða það í ljós hvort um skaðleg áhrif sé að ræða.

Valdemar G. Valdemarsson tók saman 2001.Flokkar:Reynslusögur

%d