Nokkrar hugleiðingar

Til hvers erum við….?
„Hvað er ég, hver er ég“, eru spurningar sem við e.t.v. fæðumst með. Mannkynið leitar að sjálfu sér í gegnum maka, félaga, tónlist, trúarbrögð, fíkniefni, mat, bækur, bíla, tæki og tól, dulvísindi, stjörnuspeki, heimspeki, erfðafræði, eðlisfræði, tækni …..já við leitum að okkur sjálfum alls staðar. Ekki kemur svarið nema til örfárra, sem við köllum meistara; útskrifaða kandídata af skóla jarðar. Þeir skilja eftir sig gengisfelld „ljósrit“ af prófum og úrlausnum fyrir hvern sem er, í mörgum fræðiritum, biblíum og dulspekibókum. En það eru bara svo fáir sem skilja prófið, hvað þá úrlausnirnar. Frumrit prófanna finnast aldrei, því þau eru án orða, en þó bæði hávísindaleg og tilfinningalegs eðlis í gegnum verkfæri hugans og hjartans. Einu hef ég tekið eftir sem er sameiginlegt með öllum þessum útskrifuðum kandidötum/meisturum. Þeir stunduðu óeigingjarna þjónustu við mannkynið. Nú þegar sumarið er komið sjáum við þjónustu í gjörvallri náttúrunni.

Grasið sem grær fyrir grasætuna, blómin og trén sem springa út til að við megum gleðjast og fuglar búa til hreiður í trjánum, býflugur sem þjónusta blómin, sólina sem vermir og gefur lífskraftinn, rigninguna sem vökvar, já allstaðar er náttúran að þjónusta. Allir gefa og þeim er gefið. Eitt er þó merkilegt þegar að er gáð; þjónusta sólarinnar er aðeins á einn veg. Hún gefur aðeins, en þiggur ekkert. Orðið þjónusta er nú í tísku í atvinnugeiranum, ýmist hóflega seld eða rándýr, en spurningin er hvernig einn einstaklingur getur þjónað mannkyninu til að feta í fótspor meistaranna. Það er hægt og mörg okkar gerum það. Við styrkjum ýmis góð málefni þegar þar er þörf og margir fara með hjarta sitt út fyrir landsteinana og styðja við menntun, fæði og uppeldi barna í þróunarlöndunum í gegnum ABC hjálparstarf eða Hjálparstofnun kirkjunnar og S.O.S. barnaþorpin. Eitt hólpið barn er meira virði en allt sem við eignumst um ævina. Þannig þjónustum við mannkynið óeigingjarnt. Hver finnur ekki til eldmóðs hjartans ef hann á kost á að bjarga heimi á heljarþröm. Eitt barn er neisti af þeim eldmóði.

Náttúrulögmálin brotin
Þau hafa ekki komið á óvart vandamálin í Evrópu vegna kúariðunnar og gin- og klaufaveikinnar. Menn brutu lögmál náttúrunnar með því að fæða grasbíta með kjöti. Maðurinn þröngvaði dýrunum til að gerast kjötætur. Þetta er álíka og mannakjöti væri laumað inn í matvælaiðnaðinn til að gera okkur að mannætum. Það hlaut að koma að afleiðingunum því allt í þessum alheimi lýtur Lögmáli Orsaka og Afleiðinga. Það er aðeins spurning um hvenær afleiðingar koma fram. Mér verður einnig hugsað til erfðafræðinnar. Erum við þar einnig að brjóta náttúrulögmálin? Eru fósturfrumur hlutur eða líf með vitund? Hvenær verður vitundarlíf til? Við samruna sæðisins og eggfrumunnar eða síðar? Einhver sagði mér að við samruna þessara fruma þá væri komið vitundarlíf. Er það líf með sál og anda eða eru fósturfrumur bara kísilflögur sem eru grunnur fyrir mannlegan hugbúnað eins og: hjarta, lungu, nýru og skinn, sem hægt er að setja í hvaða tölvu/mannveru sem er? Tilheyrir nýra, búið til úr fósturfrumum því fóstri sem átti að verða til, eða er það bara ópersónulegur varahlutur?

 Búa fósturfrumur yfir persónueinkennum ófædds lífs sem yfirfærast á líffæraþiggjandann, rétt eins og harði diskurinn í tölvunni, sem er „persónueinkenni“ hans. Það er hugsanlegt að hver fósturfruma sé hólograf allrar manneskjunnar og vitundar hennar. Verður þá til andleg togstreita á milli líffæraþiggjandans og hins ófædda lífs, nema með aðstoð ónæmisbælandi lyfja. Er vitund í öllu lífi, lífrænu og ólífrænu þar sem allt er búið til úr atómum, sem eru legókubbar þessa heims? Það er vert að íhuga þessa spurningu áður en áfram er haldið. Áður fyrr vorum við ráðsmenn í aldingarði guðs. Nú erum við orðin verktakar á leiðinni að verða guðir. Við verðum að minnast afleiðinganna með kúariðuna, sem ekki var hægt að sjá fyrir þegar bændur byrjuðu að fæða grasbítana á kjöti fyrir rétt um 50 árum. Í upphafi skyldi endinn skoða…

Samkeppni við sálina
Iðnbyltingin átti bæði góðar og slæmar hliðar. Í fyrstu hræddust menn að missa vinnuna, en í dag sjáum við allt hið jákvæða, enda er iðnbyltingin búin að slíta barnsskónum og orðin fullorðin. Hún losaði okkur við þrældóm og léttir undir öll störf. Tölvu-og samskiptatæknin er rétt í frumbernsku sinni. Allir þykjast sjá aðeins það besta í þessari tækni að undanskyldu barnakláminu, tölvuvírusunum og tölvuinnbrotum. En eitt er það sem menn hafa e.t.v. ekki áttað sig á. Þessi tæknibylting tífaldar áreiti manna. Egóið segir okkur að skilja aldrei við símann og við límum hann við eyrað á okkur með fjarbúnaði. Fyrirtæki spretta upp sem ætla að passa upp á að við missum ekki af neinu í lífinu og við erum endalaust á „tánum“. Undir- og dagvitundin bíða og bíða. Við missum sjálfstæði okkar og erum miðstýrð af fyrirtækjum sem græða á okkur um leið. Hvað er sjálfstæði annað en að hafa gagnrýna hugsun og stýra sjálf huga og tilfinningum okkar. Við erum að verða háð gemsanum, háð tölvunni, háð sjónvarpi, útvarpi, háð öllu. Kannski er sítenging við síma og net aðeins undirbúningur fyrir sítengt innstreymi sálarinnar þegar hún sér einhverja ljósglufu á mannlegum þroska okkar og vill nálgast persónuleikann og egóið. Að tækni-áreitið sé undirbúningur taugakerfis fyrir geislavirkni sálarinnar. Eða er tækni-áreitið í samkeppni við sálina sem nær ekki í gegn nema í hugarkyrrð? Spyr sá sem ekki veit, en kínverska heimspekin segir okkur að vera óháð. Það er galdur lífsins og leið til skilnings og frelsunar í lífinu.



Flokkar:Greinar og viðtöl

%d bloggers like this: