Morgunfrú ,,Calendula officinalis” Körfublómaætt

Plantan er ættuð frá Miðjarðarhafslöndum þar sem hún vex villt. Hún er ræktuð víða um lönd og hér á landi sem sumarblóm. Morgunfrúin er 30-50 cm há, með breið mjúkhærð linsulaga blöð. Blómin ýmist appelsínugul eða sítrónugul ca. 5 cm breiðar fylltar blómakörfur, sem lokast til hálfs eftir sólsetur og opna sig við sólarupprás. Blómstrar frá júní og fram eftir hausti. Hefur sterkan en þægilegan balsamharpiks ilm.

Morgunfrúin hefur verið ein af þekktustu lækningajurtum í sögu jurtalækninganna í gegnum aldirnar. Einnig tengdist hún fornum trúarathöfnum og náttúrudýrkun í heiðnum sið, þar sem dýrkaðir voru kraftar náttúrunnar, sól, jörð, eldur, vatn, o.s.frv. Í fornri menningu Indverja og araba og síðar Egypta og Grikkja hafði morgunfrúin stóru hlutverki að gegna. Hún var mikið notuð í matarmenningu þessara þjóða og var kölluð ,,saffran fátæka mannsins“. En þó sérstaklega var hún þýðingarmikil við trúarsiði, töfra og galdraathafnir, sem tengdar voru frjósemi, dauða og endurfæðingu. Indverjar bundu morgunfrúna í kransa sem þeir krýndu með gyðjur og guði og litu á hana sem mikilvægt ástar- og frjósemistákn við töfraathafnir og hjónavígslur.

Mikil gæfa þótti að dreyma þessa jurt. Morgunfrúin var kölluð hinum ýmsu nöfnum s.s. sólbrúður, guðablóm, blóm dauðans, sem gáfu til kynna við hvaða aðstæður jurtin var notuð. Síðar eða í kristinni trú þóttu þessi nöfn ekki við hæfi og var þeim útrýmt og önnur látin koma í staðinn. En átrúnaðurinn á þessa ,,heilögu jurt“ lagðist þó ekki af, hún var í gegnum aldirnar mikilsmetin lækningajurt og mikið notuð sem slík innan kirkjunnar og í klaustrum. Þá þótti hún ómissandi við kirkjuathafnir til að hreinsa andrúmsloftið með sínum sterka ilmi, halda frá óþrifum og draga úr smithættu á margmennum kirkjuhátíðum.

Á miðöldum hlaut morgunfrúin opinberlega viðurkenningu sem heilög jurt, þegar hún var vígð Jómfrú Maríu, og fékk nafnið Maríugull eða Jómfrúarjurt. Enn síðar fékk hún svo nafnið Morgunfrú þar sem blómin opna sig við sólarupprás. Ástæðan fyrir því að morgunfrúin var helguð kvenkyns dýrlingi var sú að þessi blessaða jurt þótti sérstök lækningajurt fyrir konur og þá sjúkdóma sem þjáðu þær. Seyði drukkið af jurtinni þótti gott til að koma jafnvægi á blæðingar kvenna og lina verki og krampa í móðurlífi. Ekki þótti ráðlegt að vanfærar konur drykkju mikið af þessu jurtaseyði, það gat komið af stað ótímabærri fæðingu.

Konum á breytingaskeiði var ráðlagt að drekka morgunfrúarseyði, morgunfrúin var talin innihalda efni sem líktist hormóninu östrogen og þótti létta konum ýmis óþægindi s.s. hitaköst. Lækningamáttur morgunfrúarinnar var þó ekki eingöngu bundinn við kvensjúkdóma. Hún var mikið notuð við ýmiskonar innvortis sjúkdómum og einnig sem græðandi og bólgueyðandi útvortis. Lækningaeiginleikar morgunfrúarinnar eru í dag viðurkenndir af fagfólki á sviði jurtalækninga og hafa áhrif hennar á ýmsa sjúkdóma s.s. sveppasýkingu jafnt innvortis sem útvortis mikið verið rannsökuð. Meðal efna sem morgunfrúin inniheldur eru ilmolíur, kvoðungar, karotín, sterar og biturefni. Heitt seyði eða te af morgunfrú þykir gott við magasári og bólgum í meltingarvegi, meltingartruflunum og innvortis smitsjúkdómum og sveppasýkingum.

Hún styrkir ónæmiskerfið, er vessa og blóðhreinsandi. Örvar gallmyndun og linar krampa. Útvortis er morgunfrúin best þekkt sem sýkladrepandi, bólgueyðandi og græðandi á sár, útbrot og bruna. Smyrsli úr blómum morgunfrúarinnar hafa reynst vel við exemi, psoriasis og allskyns útbrotum og miklum húðþurrk. Vegna samandragandi (herpandi) eiginleika hennar hefur hún gefið góða raun við æðahnútum og gyllinæð. Morgunfrúin er ekki kröfuhörð jurt í ræktun og getur hver sem vill ræktað hana, safnað og þurrkað blómin. Þessi yndislega jurt er ekki bara augnayndi, hún er líka góð til matar og drykkjar.

Að síðustu, uppskrift af morgunfrúar muffins.
100 gr. smjör
100 gr. sykur
2 stk. egg
100 gr. hveiti
1 tsk lyftiduft
2 msk. þurrkuð krónublöð af morgunfrú.
Öllu blandað saman, hrært, 1½ msk krónublöð sett saman við. Sett í muffins pappaform, afgangurinn af krónublöðunum ásamt örlitlu af sykri stráð yfir. Bakað í 25 – 30 mín. við 160 gráður. Verði ykkur að góðu.

Heimildir: Urter for kropp og sjel. Jekka Mc. Vicar Urter og urtemedicin. Georg Borchorst Vore medisinske planter. Prof. Ore Arbo Hörg Íslenskar lækningajurtir. Arnbjörg Linda Jóhannesdóttir Hildegard grosse Apoteke dr. Gottfried Hertzka

Höfundur: Gígja Kjartansdóttir



Flokkar:Jurtir

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , , , , , , ,

%d bloggers like this: