Staðreyndir um ginseng

Undanfarin tæp 30 ár hef ég gefið sérstakan gaum þeim fæðubótarefnum og náttúrulyfjum, sem í boði eru í almennum verslunum. Ég starfa við grasalækningar, en hef engra hagsmuna að gæta varðandi þessar vörur. Hinsvegar er oft leitað ráðgjafar minnar um notkun þessara efna. Því er mér vel ljós nauðsyn þess að fólk hafi óvilhallar upplýsingar um eðli þeirrar vöru sem því stendur til boða.

Ginsengjurtin
Ginsengplantan er fjölær sveipjurt og er fjarskyldur ættingi ætihvannarinnar og fleiri ágætra lækningajurta sem forfeður mínir hafa notað um langan aldur. Kínverjar og Kóreubúar uppgötvuðu lækninga- og hressingarmátt ginsengs fyrir þúsundum ára. Verðmætasta ginsengið er nefnt Panax Ginseng (merkir mannsrótin sem læknar allt) á sér kjörlendi í norður- og vesturhlíðum steinefnaauðugra fjallshlíða í 800 til 1000 metra hæð. Vegna mikillar eftirspurnar eftir ginsengi er allt kjörlendi löngu fullnýtt og meira til. Í rótarbolnum, en það er sá hluti jurtarinnar sem talinn er hafa lækningamátt, má finna 7 flokka af virkum efnum. Þar til fyrir fáum árum töldu margir vestrænir vísindamenn að einu virku efnin í ginsengi væru svonefndir ginsenosíðar.

Austurlandabúar bentu aftur á móti á að mun meira er af ginsenosíðum í ungum jurtum. Engu að síður verður rótin kröftugri með aldrinum til sex ára aldurs. Nú hefur nýlega verið sýnt fram á með margendurteknum rannsóknum að úthaldsaukandiog hressingaráhrifum ginsengrótarinnar er ekki hægt að ná með neyslu hreinsaðra og staðlaðra ginsengosíða. Þó þeir væru gefnir stórum skömmtum höfðu þeir engin slík áhrif. Þá er vitað að ýmsir fjölsykrungar ginsengrótinni hafa jákvæð áhrif á ónæmiskerfið. Í dag beinast sjónir manna ekki síst  að fituleysanlegum efnum sem byrja að myndast þegar rótin er 5 ára gömul og af mörgum talin ábyrg fyrir æxlishemjandi áhrifum ginsengrótarinnar, sem ekki eru lengur umdeild.

Hvað færð þú?
Það er vel kunn staðreynd að mismunandi jurtahlutar hafa ólíka verkun. Eins og áður segir er rótarbolurinn verðmætasti hluti ginsengjurtarinnar. Því neyta Asíubúar helst heilla róta til að vera vissir um að fá rétta vöru. Sum evrópsk fyrirtæki nota aðeins ódýrasta hluta jurtarinnar í sína vöru en selja hana sem raunverulegt ginseng. Hvað varðar þessa vöru ekki síður en aðrar er því heillavænlegast að neytandinn viti hvað hann vill og þekki þá vöru sem honum er boðin.

Heimild: Secrets of the Chinese Herbalist eftir Richard Lucas. Parker Publisher Company, Inc., West Nyack, N.Y. 1978.

Höfundur: Einar Logi Einarsson.

 Flokkar:Fæðubótarefni

%d bloggers like this: