Nýjar leiðir í krabbameinslækningum árið 1999

Getur veira sigrast á krabbameini?
Í tímaritinu Lifandi vísindi, nr. 7, 1999 er athyglisverð grein um að nota kvefveiru til að sigrast á krabbameini. Við fengum leyfi til að nota efni úr þessari grein í blað okkar að því tilskildu að geta um hvaðan heimildin er fengin. Lítil bandarísk rannsóknarstofa að nafni Onix Pharmaceuticals í borginni Richmond í Kaliforníu lýsti nákvæmlega þessari kvefveiru nýlega. Veiran hefur verið nefnd Onix-015 og er svonefnd adenoveira sem veldur vægu kvefi, einkum á vorin og haustin. Onix-015 hefur þó verið breytt erfðafræðilega þannig að hún er ekki lengur fær um að valda kvefi. Aftur á móti er hún talin geta sigrast á ýmsum illkynja meinsemdum.

Krabbameinsfrumurnar dóu
Fyrsta tilraunin með Onix-015 var gerð á tilraunastofu, þannig að veiran var látin smita heilbrigðar frumur og einnig krabbameinsfrumur sem ræktaðar höfðu verið í tilraunaglösum. Þessar tilraunir leiddu í ljós að krabbameinsfrumurnar dóu en erfðabreytta veiran gat ekki fjölgað sér í heilbrigðu frumunum. Einnig var gerð tilraun á músum með stór æxli á líkamanum. Mýsnar náðu fullri heilsu eftir að veirunni hafði verið sprautað í þær. Eftir langvarandi dýratilraunir og ræktun á frumum í tilraunaglösum hafa vísindamennirnir nú fengið niðurstöður úr fyrstu tilraununum með veiruna á fólki sem þjáist af krabbameini.

Gerðar voru tilraunir með ýmsar tegundir krabbameins og aðeins á fáum einstaklingum með hverja tegund til að byrja með, á meðan verið er að finna hvernig heppilegast er að nota veiruna í hverju tilfelli. Best hefur aðferðin reynst við stór æxli á hálsi og höfði. Veirunni er þá sprautað beint inn í æxlið nokkrum sinnum. Niðurstöðurnar lofa mjög góðu þegar haft er í huga að sjúklingarnir höfðu áður fengið hefðbundna krabbameinsmeðferð án árangurs. Stór æxli hurfu t.d. alveg á nokkrum sjúklinganna meðan á meðferðinni stóð en áður hafði dauðinn aðeins blasað við þeim. Vonast er eftir að bandarísk heilbrigðisyfirvöld gefi fljótlega leyfi til að prófa Oni-015 á stærri hópi sjúklingi á mörgum sjúkrahúsum.

Engar hliðarverkanir
Engar hliðarverkanir fylgja því að nota Onix- 015. Það stafar af því að veirurnar hafa engin áhrif á heilbrigðar frumur. Frumuskiptingu er stjórnað af nokkrum erfðavísum og próteinum. Tvö prótein koma einkum við sögu í þessu tilfelli. Það er prótein sem nefnt er Rb (retínoblastoma) og p53 sem ég hef áður rætt um. Sjálf frumuskiptingin stjórnast einkum af Rb próteininu en p53 stjórnar ferlinu sem þarf til að stöðva frumuskiptingu sem hefst á röngum tíma. Það gerist með því að p53 sendir frumunni merki um að fremja sjálfsmorð. Það getur gerst t.d. við krabbamein og veirusýkingar. Vitað er að sumar veirur af herpes-ættinni gera p53 óvirkt t.d. cytomegaloveirur.

Vegna þess að p53 er nokkurskonar neyðarhemill til að stöðva óæskilega frumuskiptingu er mjög hættulegt að gera þennan neyðarhemil óvirkan og getur leitt af sér að krabbamein fari að vaxa. Í krabbameinsfrumum er p53 oftast óvirkt. Venjulega tekst p53 að hindra í tíma óeðlilega frumuskiptingu. Fari æxli að vaxa stafar það sennilega oftast af stökkbreytingu í þeim erfðavísum sem stjórna myndun Rb og/eða p53. Þannig stökkbreytingar hafa fundist í flestum krabbameinsfrumum og veldur því að krabbameinsfrumur mynda ekki neyðarhemilinn p53 eða Rb.

Veiran deyðir krabbameinsfrumur
Frank McCormick, líffræðingur sem starfar hjá Onix Pharmaceuticals átti þá hugmynd að nota breytta kvefveiru. Væri henni breytt þannig að hún missti getuna til að sýkja heilbrigðar frumur væri hér komið sérhæft vopn í baráttunni við krabbamein. Vegna þess að krabbameinsfrumur skortir p53 geta þær hvorki stöðvað veirumyndun innan frumanna, né svipt sig lífi. Veirunum fjölgar því mjög hratt innan frumunnar svo að hún springur að lokum og deyr. Ítrekaðar tilraunir með vefjaræktun úr heilbrigðum frumum og meinfrumum leiddu í ljós að þessi kenning stóðst dóm reynslunnar. Onix-015 veiran deyðir krabbameinsfrumur en  sniðgengur þær heilbrigðu algerlega.

Veirumeðferð í sjónmáli
Erfðabreytta kvefveiran hjá Onix er ekki eina veiran sem vísindamenn eru að þróa til að lækna krabbamein. Nú sem stendur er talið að verið sé að gera tilraunir með að minnsta kosti tug svokallaðra „krabbameinsveira“ sem hver um sig skynjar krabbameinsfrumur á sinn hátt og eyðileggur þær, hver með sinni aðferð. Gangi þessar rannsóknir eins og vonir standa til má búast við nýjum krabbameinslyfjum sem byggja á þessum hugmyndum á næsta áratug. Sennilega verða fyrstu lyfin af þessari nýju kynslóð komin í prófun innan 2 til 5 ára.Heimild: Lifandi vísindi, nr. 7, 1999. Þeir sem vildu lesa nánar um þetta efni er bent á að fá sér eintak af tímaritinu og lesa það þar.

Höfundur Ævar Jóhannesson árið 1999Flokkar:Krabbamein

%d bloggers like this: