„Rafsegulsvið er hugsanlega krabbameinsvaldur“ segja vísindamenn

Umræðan um rafsegulsvið og áhrif þess á manneskjuna eykst stöðugt. Nefnd vísindamanna í Bandaríkjunum NIEHS eða National Institute of Environmental Health Sciences, fundaði í júní 1998. Hópurinn ályktaði, með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða þá ályktun að lágtíðnirafsegulsvið væri hugsanlegur krabbameinsvaldur. Krabbameinsvaldur 2B vegna hvítblæðistilfella, sérstaklega hjá börnum. Lágtíðni rafsegulsvið er það rafsegulsvið sem stafar frá rafmagnstækjum og orkuveitu.

Börn sem ferðast með bíl í klukkutíma dag hvern geta orðið fyrir geislun langt yfir þau gildi sem finnast við háspennulínur.

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar sem sýna hækkaða tíðni hvítblæðis í börnum. Eins og áður hefur komið fram er um að ræða lítinn hóp, að því er talið er, en enginn veit í raun hversu stór hann er. Faraldsfræðirannsóknir byggjast á því að borin eru saman hvítblæðitilfelli í nágrenni við háspennulínur og aftur þar sem engar línur eru. Þannig myndast tveir hópar sem hægt er að bera saman.

Ef tilfellin eru fleiri í hópnum sem er nær raflínunum en þeim sem er fjær er það vísbending um að búseta í nágrenni við háspennulínur hafi áhrif. En þessar rannsóknir eru annmörkum háðar. Sá hópur sem ekki er búsettur við rafmagnslínur er nefnilega ekki laus við rafsegulsvið. Fyrir nokkru voru þrír áhugamenn í Bandaríkjunum að mæla rafsegulsvið í bifreið eins þeirra. Þeim til mikillar furðu mældu þeir töluvert hátt rafsegulsvið í bílnum en bara þegar hann var á ferðinni. Rafsegulsviðið sem þeir mældu var að styrkleika 3 – 4 mG í bílstjórasæti og 6 – 20 mG í aftursæti.

Þeir hófu að grufla í gögnum til að vita hvort einhverjar rannsóknir styddu þeirra mælingar og fundu rannsóknarskýrslu frá Svíþjóð. Sú var eftir K. Vedholm og Y.K. Hamnerius og hét „Personal Exposure from Low Frequency Electromagnetic Fields in Automobiles“ birt á heimsráðstefnu í Bologna Ítalíu. (World Congress for Electricity and Magnetism in Biology and Medicine). Í ljós kom að rafsegulsviðið stafaði frá dekkjum bifreiðarinnar sem voru radíal og með stálvír ofnum í kappann.

Það sem gerist er það að við framleiðslu dekkjanna þá segulmagnast stálvírinn og getur „pólað“ dekkið. Það þýðið að annar helmingur dekksins er með norðurpól en hinn helmingurinn með suðurpól. Þegar svo dekkið snýst myndast riðrafsegulsvið þ.e. rafsegulsvið sem skiptir stöðugt um stefnu eins og rafsegulsvið frá heimilisrafmagni. Tíðnin verður háð ferð bifreiðarinnar. Það er háð segulmögnun dekkjanna hversu sterkt sviðið verður. Börn sem ferðast með bíl í klukkutíma dag hvern geta orðið fyrir geislun langt yfir þau gildi sem finnast við háspennulínur. Því má spyrja hversu áreiðanlegar þessar faraldsfræðirannsóknir eru.

Áhrif rafsegulsviðs gæti verið alvarlegra en rannsóknir endurspegla. Það er athyglisvert að íhuga mælingar á tíðni segulsviðs frá bíldekkjum. Tíðnin er lág eða mest á bilinu 0 til 40 rið. Robert O. Becker, H. Friedman og C.H. Bachman gerðu gagnmerka rannsókn sem sýndi að lágtíðni rafsegulsvið á tíðnisviðinu 0 – 20 rið gat haft áhrif á starfsemi heilans. „Effect of Magnetic Fields on React- on Time Performaance“ birt í Nature 213, pp. 949-950, 1967. Þetta dæmi með dekkin sýnir að það er margt sem þarf að athuga þegar verið er að reyna að meta líffræðileg áhrif rafsegulsviðs. Tíðni, styrkur og „karakter“ rafsegulsviðsins skiptir máli og er þetta svið svo víðfermt að langt verður þar til öll kurl koma til grafar.

Rafsegulsvið hefur áhrif á ensím
Dr. Fatih Uckun á Wayne Hughes stofnunni í St. Paul, MN hefur fundið sannanir fyrir því að rafsegulsvið hafi áhrif á virkni ensíma, (protein kinases) sem eru virk í frumum og hafi áhrif á feril krabbameinsmyndunar. Frá þessu var greint í Journal of Biological Chemistry (273, pp. 4,035-4,039, 13 feb. 1998). Þar segir að rafsegulsvið geti truflað jafnvægi í vaxtastjórnun heilbrigðra fruma og krabbameinsfruma. Dr. Uckun hefur einnig fundið sömu áhrif á önnur skyld ensímkerfi. Dr. Ross Adey hjá háskólanum í Californiu, Riverside, segir að þetta sé enn ein sönnun fyrir því að kinases prótínið, sem er mikilvægt í innra samskiptakerfi frumna, verði fyrir áhrifum af rafsegulsviði og mótuðum hátíðnibylgjum. Rafsegulsviðið sem Uckun notaði var 60 rið 1G.

Skýrsla EPA ekki birt
Rafsegulsvið frá orkuveitu ætti að skoðast sem krabbameinsvaldur gagnvart börnum sögðu þeir hjá Environmental Protection Agency (EPA) árið 1994. EPA samdi skýrslu sem aldrei var birt vegna skipana æðstu stjórnar félagsins. Tímaritið Microwave News hefur þessa skýrslu undir höndum og birtir hana í mars/apríl ´98, hefti sínu. Vinna við skýrsluna var stöðvuð árið 1995 og hefur legið niðri síðan. Þeir segja fullum fetum að vegna fjölda rannsókna sem sýni samhengi milli búsetu í nálægð við háspennulínur og hvítblæðistilfella og heilaæxla hjá börnum þá skuli rafsegulsvið skilgreint sem krabbameinsvaldur.

Nýtt um farsíma
Kjell Hanson Mild og félagar birtu í vor niðurstöður merkilegrar rannsóknar. Markmiðið var að komast að því hvort farsímanotkun hefði óæskilegar hliðarverkanir. Það reyndist vera. Farsímar, bæði NMT kerfisins og GSM kerfisins hita höfuð notenda. Rannsakað var hvort farsímanotendur fyndu fyrir einkennum eins og þreytu, höfuðverk, hita bak við eyra, hita í eyra og sviða í húð. Greinileg aukning var á vanlíðan eftir því sem síminn var notaður lengur og þegar talað var í 60 mínútur eða meira var vanlíðan orðin mjög áberandi.

Það kom í ljós að þeir sem nota NMT síma fundu fyrir meiri óþægindum en GSM símanotendur. Þetta vekur enga furðu því orkan frá NMT símanum er hærri en GSM símanum. Farsímar hafa sjálfvirka orkustillingu þannig að þeir senda einungis á þeirri orku sem nauðsynlega þarf. NMT síminn hefur tveggja þrepa sendiorku en GSM síminn hefur fimm. Því er meðal sendiorka GSM símans mun lægri en NMT símans. Hinsvegar hefur verið bent á það að GSM síminn sendir frá sér sterka púlsa og það sé ástæða til að óttast þá.

Rannsóknir Narendrai Sing, sem áður hefur verið sagt frá hér í Heilsuhringnum, hefur ekki verið hnekkt en hún sýndi fram á að örbylgjur eins og frá farsíma getur skemmt DNA sameindir. Frumur geta gert við skemmdirnar en það tekst ekki alltaf og þá er voðinn vís. Læknaritið The Lancet birti nýlega niðurstöður rannsókna þar sem sýnt hafði verið fram á að farsímanotkun hækkaði blóðþrýsting. Hækkunin var ekki umtalsverð en hversvegna örbylgjur hækka blóðþrýstinginn er ekki vitað.

Ástralski læknirinn Dr. Andrew Davidson setti allt á annan endann í heimalandi sínu þegar hann sagði frá því að hann grunaði að farsímanotkun væri ábyrg fyrir aukningu á tíðni heilakrabba. Hann biðlaði til Ástralska farsímafélagsins Telstra um að gefa upplýsingar um farsímanotkun en fékk ákveðna neitun. Davidson sagði að aukning á tíðni heilakrabba hjá karlmönnum hefði verið úr 6,4 á hver eitthundrað þúsund íbúa í 9,6 á tímabilinu 1982 til 1992. Þetta tímabil getur ekki endurspeglað fyllilega áhrif farsíma því mikil aukning á notkun þessara síma er á þessu tímabili. Síðan þegar GSM síminn er markaðssettur upp úr 1992 þá margfaldast farsímaeign Ástrala sem og annarra þjóða. Við verðum bara að bíða og sjá hvaða áhrif þeir hafa. Notandinn fær ekki að njóta vafans heldur sá sem hagnast á æðinu.

Fréttir af jákvæðum áhrifum örbylgna
Dr. Jerry Phillips VA sjúkrahúsinu Loma Linda CA hefur tekist að sýna fram á að krabbameinsfrumur í ræktun eru geysilega viðkvæmar fyrir örbylgjugeislun. Þá er verið að tala um örbylgjugeislun sem er svo dauf að styrkurinn er innan við þúsundasta hluta af stöðluðum hættumörkum. Hann hefur einnig vísbendingar um að svo daufar örbylgjur örvi viðgerðarferli fruma á DNA kjarnanum. In Vitro (ræktun í glasi) tilraunir sýndu örvað viðgerðaferli á DNA sameindum og tilraunir á rottum sýndu minni líkur á heilaæxlamyndun ef þær voru geislaðar með daufri örbylgju. Phillips segir að örbylgjur hafi áhrif á frumur og þá er ekki verið að tala um hitaáhrif heldur bein áhrif (nonthermal) en tíðni og mótunarháð.

Þetta styður eldri kenningar um að tíðni, geislunartími og mótun hefði allt að segja um hvort og hvernig áhrif örbylgjur eða rafsegulsvið hefði á frumur og vefi. Phillips notaði við rannsóknir sínar tvennskonar tíðnisvið 813MHz iDEN og 836MHz TDMA hvorutveggja kerfi notuð í fjarskiptum. Þrennskonar tilraunir voru gerðar með TDMA merkið. Frumur voru geislaðar með 2,6mW/Kg SAR í tvo tíma og einnig í tuttugu og einn tíma með sama styrk en síðan var aukið í styrkinn og frumur geislaðar í tvo tíma með 26mW/Kg SAR. Allar niðurstöður sýndu fækkun á DNA skemmdum (single strand break).

Það sama var upp á teninginn þegar gerðar voru tilraunir með iDEN merkið með SAR 2,4mW/Kg í tvo tíma og í tuttugu og einn tíma, merkin virtust örva viðgerðaferli DNA. Það vakti hinsvegar athygli að þegar styrkur SAR var aukinn tífalt eða upp í 24mW/Kg SAR í tvo tíma þá greindist aukning á skemmdum DNA. Þetta eru svipaðar niðurstöður og Dr. Ross Adey hafði áður greint frá þegar hann rannsakaði áhrif örbylgna á rottur. Niðurstöður þeirra tilrauna sýndu að rottur sem geislaðar voru með 0,58 – 0,75 W/Kg fengu færri miðtaugakerfisæxli en rottur sem ekki voru geislaðar og benti til þess að örbylgjurnar hefðu jákvæð áhrif. Niðurstöður rannsókna Phillips er að vænta í sérfræðiritunum Bioelectrochemistry og Bioenergetics.

Narendrai Singh gerði rannsóknir sem sýndu að skemmdum DNA fjölgaði við örbylgjugeislun við 1,2w/Kg SAR. Það er mun hærri styrkur en Phillips notaði og virðist aðstoða við viðgerðarferli. Hinsvegar er 1,2w/Kg lægri styrkur en búast má við frá GSM farsíma. Dr. Niels Kustner hjá Tæknirannsóknarstofnun Svissneska ríkisins hefur sýnt fram á að allt að 1,8W/Kg SAR mældust í vefjum farsímanotanda. Verstu tilfelli sem Kustner hefur mælt er toppgildi og er 5,3W/Kg SAR en ANSI IEE staðallinn kveður á um 1,6W/Kg sem er tæplega sjöhundraðfalt meiri orka en Phillips notaði í sínar tilraunir og sýndu jákvæð áhrif á DNA.

Rafsegulsvið á lágum styrk getur lækkað næturmelatonin hjá konum
Ný rannsókn, stjórnað af Dr. Scott Davis hjá Fred Hutchinson Cancer Research Center í Seattle, sýnir að lágur styrkur rafsegulsviðs getur lækkað magn (nocturnal release) næturmelatonins (Nocturnal melatonin) hjá konum. Styrkur þess rafsegulsviðs sem notaður var er það sem þeir kalla „real world condition“ eða sambærilegt því sem getur komið upp eða verið til staðar á venjulegum heimilum. Mest mældist minnkunin hjá konum sem fyrir voru á lyfjum er lækkuðu melatonin. „Þetta er mjög áreitin niðurstaða“ sagði Dr. David Blast hjá Mary Imogene Bassett Hospital Research Institute í Cooperstown, NY en hann hefur rannsakað melatonin í fjölda ára. Samstarfsmaður Davids Dr. Richard Stevens kom með þá kenningu fyrir tíu árum að aukin rafmagnsnotkun ætti að hluta til sök á hækkaðri tíðni brjóstakrabbameins.

Dr. Maria Feychting hjá Karolinska Institute, framkvæmdi rannsókn sem sýndi að konur undir fimmtugsaldri sem búa við rafsegulsvið að styrkleika 2mG eða hærra ættu 80% meiri hættu að fá krabbamein í brjóst en konur sem búa við 1mG rafsegulsviðsstyrk. Þegar einangruð voru tilfelli þar sem konur voru estrogen-receptor-pósitívar (ER+) jókst hættan  á krabbameini í brjósti í margfeldið 7,4 (relative risk) hjá konum þar sem rafsegulsvið var hærra að styrk en 1mG.

Af innlendum vettvangi
Skólastjóri nokkur hafði samband við undirritaðan fyrir allnokkru og spurði hvort rafbylgjur gætu valdið streitu. Fátt var um svör nema tilgátur sem taldar eru líklegar, að rafsegulsvið geti verið streituvaldur. Skólastjórinn hóf að segja sögu af skóla sem hann var nýlega tekinn við. Nemendur voru stressaðir og einkennilega erfitt var að halda aga og reglu. Hann sagði að það væri erfitt að lýsa þessu en af langri reynslu sem kennari hafði hann aldrei kynnst öðru eins. Nálægt skólanum var gríðarlegt sendiloftnet fyrir útvarp og velti hann því fyrir sér hvort þetta hefði áhrif. Eina leiðin til að fá úr því skorið var að slökkva á sendinum en það var náttúrulega þyngri þraut.

Því var þetta ekki frekar rætt fyrr en nokkrum árum seinna að þetta barst í tal aftur. Þá sagði skólastjóri frá því að einn veturinn hefðu börnin verið eins og börn áttu að vera. Hæfilega miklir ólátabelgir en ekki þessi undarlega streita sem hann átti erfitt með að lýsa. Foreldrar höfðu einnig orð á þessu og voru allir sammála um að eitthvað hefði breyst. Fyrir tilviljun komst skólastjóri að því að þessi tiltekni sendir sem var í nágrenni skólans var búinn að vera bilaður allan veturinn og sendingar frá honum höfðu legið niðri. Í því fjarskiptabrjálæði sem gripið hefur þjóðina hafa verið settir upp sendar á ótrúlegustu stöðum. Meira að segja hafa stór sendiloftnet verið sett upp á skóla þar sem nemendur eru í skólastofu í innan við 8 metra fjarlægð.

Rafsegulsvið hefur áhrif á ónæmiskerfið
Frönsk rannsókn sem greint var frá í mars/apríl hefti „Archives of Environmental Health“ (53,pp87- 92, 1998) staðfestir að rafsegulsvið hefur áhrif ónæmiskerfið. Rannsóknin sem greint er frá var lítil en niðurstöður voru afgerandi. Viðvera í rafsegulsviði getur truflað starfsemi ónæmiskerfisins. Heilsufar þrettán einstaklinga, sem allir höfðu unnið a.m.k. ár nálægt stórum spennubreytum og 13 þúsund volta háspennulínu, var borið saman við aðra þrettán sem ekki komu nálægt neinu slíku.

Niðurstöður sýndu að þeir sem unnu við hærra rafsegulsvið, átta tíma á sólarhring, áttu við mun fleiri heilsufarsvandamál að stríða en hinn hópurinn. M.a. kvörtuðu þeir um andlega og líkamlega þreytu, þunglyndi, pirring og minni kynhvöt. Blóðsýni sýndu umtalsverða fækkun á hvítum blóðkornum. Athugun leiddi í ljós að hvítu blóðkornunum fjölgaði þegar þeir hættu á vinnustaðnum um tíma en þegar komið var til baka á sama vinnustað fækkaði hvítu blóðkornunum aftur. Rannsóknin var í höndum Dr. Laurence Bonhomme-Faivre á Paul Brousse sjúkrahúsinu í París. Styrkur rafsegulsviðsins var á bilinu 3 – 66 mG. Undirritaður hefur mælt allt að 150 mG inni á heimili þar sem engar raflínur voru sjáanlegar. Mælingin var gerð inni í barnaherbergi og hjónaherbergi.

Áhrif örbylgna á matvæli
Hópur japanskra vísindamanna hjá Kochi Women’s University hefur komist að því að matreiðsla í örbylgjuofni hefur áhrif á vítamín í matnum. Dr. Fumio Watanabe greinir frá þessu í Journal of Agricultural & Food Chemistry (46, pp.206-210, 1998). Þar segir að þegar matur eins og mjólk, nautakjöt eða svínakjöt er eldað í örbylgjuofni minnkar B12 vítamín um 30 – 40%. Venjulega eldamennska minnkar einnig B12 innihald matvæla en ekki eins hratt. Sem dæmi segir Watanabe að lítill munur sé á B12 vítamín innihaldi mjólkur hvort sem hún er elduð í 6 mínútur eða 30 mínútur sem segir að megnið af B12 hverfi á innan við fyrstu 6 mínútunum.

Höfundur:.Valdemar Gísli Valdemarsson rafeindavirkjameistari. Frekari upplýsingar: http://www.isholf.is/vgv



Flokkar:Rafmagn, Umhverfið

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , , , , , , , ,

%d bloggers like this: