Vanvirkni skjaldkirtils og afleiðingar þess s.s. almennt heilsuleysi, þunglyndi og síþreyta

Það er talið að þunglyndi og fylgifiskar þess séu einir helstu kvillar nútímans. Skortur á lífskrafti er orðinn algengari en áður hefur þekkst. Verður þú oft úrvinda af þreytu eftir litla áreynslu, leið/ur og svartsýn/n? Finnst þér kannski að líðanin hafi alltaf verið þannig? Hefurðu reynt allt mögulegt?, s.s. leikfimi og hugleiðslu án þess að neitt virki? Gæti þá ekki verið að þú sért með vanvirkan skjaldkirtil? Sumir læknar telja að allt að 15-40 prósent mannfólksins þjáist af vanvirkum skjaldkirtli. Sem betur fer er auðvelt að meðhöndla þennan krankleika þegar búið er að greina hann.

Hvað er skjaldkirtill?
Skjaldkirtillinn er í hálsinum framanverðum neðan við adamseplið. Hann er í laginu eins og fiðrildi með hægri og vinstri vængjalaga flipa. Hvor flipi er u.þ.b. 50-60 mm í fullorðnum og allur skjaldkirtillinn vegur u.þ.b. 25-30 gr (aðeins þyngri í konum).

Hvað gerir skjaldkirtillinn?
Skjaldkirtillinn hefur það mikilvæga hlutverk að stjórna þróun efnaskiptanna, hitastigi líkamans, orkuframleiðslu og kolvetna- og fituefnaskiptum. Heilbrigð virkni skjaldkirtilsins er mjög mikilvæg fyrir ófrískar konur, til að tryggja barninu eðlilega þróun heilans. Margar vísindarannsóknir hafa tengt vanvirkan skjaldkirtil við ófrjósemi og aukna tíðni fósturmissis, svo konur sem ætla sér að verða eða eru orðnar ófrískar ættu sérstaklega að láta rannsaka virkni skjaldkirtilsins. Skjaldkirtillinn fær örvun frá heiladinglinum, sem gefur frá sér hormón sem kallast THS (stytting á Thyroid Stimulating Hormone). Skjaldkirtillinn framleiðir svo tvö aðalhormón – thyroxine (T4) og triiodothyronine (T3). Minna en eitt prósent af T4 og T3 er „virkt“ þ.e.a.s. kemst inn í frumur til að stjórna orkuframleiðslu. Þessi hormón eru kölluð frjáls T4 og frjáls T3 og þau eru nauðsynleg fyrir heilbrigða skjaldkirtilsstarfsemi.

Meirihluti T4 hormónanna þarf að breytast í T3 í lifrinni og þess vegna er nauðsynlegt að vera viss um að lifrin starfi nægilega vel. Það finnst með því að láta rannsaka magn járns sem lifrin geymir. Ef lifrin starfar ekki nægilega vel þá getur það skemmt fyrir umbreytingu T4 í T3. Þar á ofan hefur léleg lifrarstarfsemi áhrif á myndun kortisols (sem er framleitt í nýrnahettunum), og ójafnvægi kortisols í nýrnahettunum hefur áhrif á framleiðslu THS og þar af leiðandi á framleiðslu T4 og T3. Það er að segja, heiladingullinn, skjaldkirtillinn, nýrnahetturnar og lifrin mynda samvirkandi kerfi sem verður að vera í jafnvægi til að tryggja heilbrigða skjaldkirtilsstarfsemi. Síðan er talið að skortur á seleni hafi áhrif á skjaldkirtilsstarfsemina. Selen er steinefni sem finnst aðallega í plöntum, einnig í sumu kjötmeti og sjávarfangi. Selen er nauðsynlegt fyrir starfsemi skjaldkirtilsins og til að halda ónæmiskerfinu heilbrigðu.

Hvað er vanvirkur skjaldkirtill?
Vanvirkni í skjaldkirtli þýðir að skjaldkirtillinn starfar ekki eins vel og hann ætti að gera. Vegna þess að skjaldkirtillinn stýrir efnaskiptunum verður vanvirkur skjaldkirtill til þess að það hægist á efnaskiptunum. Þótt afleiðingar óeðlilega hægra efnaskipta séu ekki alltaf sjáanlegar er enginn vafi á að þau draga úr þreki og munu, til lengri tíma litið, leiða til alvarlegra veikinda ef ekkert er að gert. Margt fólk af báðum kynjum þjáist af ótímabærri ofþreytu og sleni. (Þetta eru helstu einkennin. Á eftir fylgir listi yfir fleiri einkenni).

Við höldum oft að um sé að kenna of mikilli vinnu, fjölskyldu- og sambúðarerfiðleikum, umhverfinu, eða of litlum frítíma svo eitthvað sé nefnt. Flestir reyna að hrista þetta af sér, enda mætir það oft litlum skilningi að kvarta yfir þreytu og leiða. Vanvirkni í skjaldkirtli ber hins vegar að taka mjög alvarlega. Stundum geta raunar ýmsir streituvaldar orsakað svipuð einkenni og þau sem stafa af vanvirkum skjaldkirtli og ef við misbjóðum líkamanum eykur það enn á það álag sem fyrir er á skjaldkirtlinum. Eins og áður er sagt, er talið að allt að 40 prósent fólks sé með þennan heilsubrest sem þó er mjög auðvelt að ráða bót á.

Hvað orsakar vanvirkan skjaldkirtil?
Vanvirkni í skjaldkirtli getur verið afleiðing vandamála í ónæmiskerfinu, þ.e. að varnarkerfi líkamans ráðist gegn skjaldkirtlinum. Þetta ástand kallast á fagmáli Hashimotos Thyoroiditis. Vanvirknin getur líka stafað af öldrun eða verið tengd vandamálum í öðrum tengdum kirtlum, sérstaklega heiladinglinum, eins og áður var á minnst. Annars er algengasta orsökin fyrir skjaldkirtilsvanvirkninni skortur á joði. Í Bretlandi er mælt með að börn taki inn 70-150 míkrógrömm af joði á dag, að karlmenn taki 150 míkrógrömm og að konur taki 120 míkrógrömm. Á meðgöngutímanum þurfa konur 150 míkrógrömm á dag og 200 míkrógrömm meðan þær eru með barn á brjósti.

Til að viðhalda eðlilegri skjaldkirtilsstarfsemi er best að vera viss um að fæðið sé hæfilega joðríkt. Borðið ca. 5 máltíðir yfir daginn, með reglulegu millibili og ekki of mikið í einu. Stærsta máltíðin ætti að vera á morgnana og kvöldmaturinn ætti að vera lítil máltíð. Reglulegar máltíðir hafa örvandi áhrif á efnaskiptin, sem aftur styður skjaldkirtilsstarfsemina og stuðlar að því að fækka aukakílóum. Listinn hér á eftir gefur til kynna joðmagn í ýmsum algengum matvælum:

Fæða Joðmagn í míkrógrömmum pr. 100 grömm
Salt (joðbætt) 3000
Sjávarfang 66
Grænmeti 32
Kjöt 26
Egg 26
Mjólkurafurðir 13
Brauð og kornmeti 10
Ávextir 4

Eins og sést á listanum er joðbætt salt einstaklega joðríkt. Þegar fyrst var farið að joðbæta salt, snemma á síðustu öld, tókst með því næstum að útrýma skjaldkirtilsbólgu í þeim löndum þar sem það var notað. Skjaldkirtilsbólga er ennþá alvarlegt vandamál víða um heim, í löndum sem hafa ekki aðgang að venjulegu borðsalti eins og við notum. Ekki þarf að borða mikið salt til að koma í veg fyrir skjaldkirtilsbólgu af völdum joðskorts, en þeir sem þurfa að vera á saltskertu mataræði og eru með vanvirkan skjaldkirtil ættu að gæta þess að borða nægan fisk. Svo er sérstaklega mælt með þaratöflum sem fást í öllum heilsubúðum.

Ekki er samt víst að skjaldkirtilsvanvirknin stafi eingöngu af joðskorti. Oft stafar vandamálið af því að lifrin ræður ekki við að umbreyta T4 hormóninu í T3 hormónið. Hæfni lifrarinnar til þessa umbreytingarferils getur truflast af sink- eða selenskorti, mikilli streitu, ójafnvægi kortisols, eða af getnaðarvarnarpillunni. Ef þig grunar að þú sért með vanvirkan skjaldkirtil ættirðu að fara til læknis og biðja um fullkomna blóðrannsókn á öllum skjaldkirtilstengdum hormónum, þ.e. THS, frjálsu T4, frjálsu T3, kortisoli, seleni og járni, sem og hvaðeina öðru sem til greina kemur. En hvernig getur fólk séð í fljótu bragði ef það er með vanvirkan skjaldkirtil? Lítum aðeins á nokkur algeng einkenni:

Þunglyndi
Síþreyta
Lágur líkamshiti (kuldatilfinning)
Skapsveiflur og pirringur
Þurrkur í húð, hári og augum
Stökkar neglur
Svefnleysi
Þyngdaraukning
Hárlos
Lágur blóðþrýstingur
Vöðvakrampi
Stirðleiki í liðamótum
Orkuleysi
Of hátt sýrustig í meltingarvegi
Óþol fyrir hita og kulda

Einkennin þróast venjulega mjög hægt og eru oft ranglega greind vegna þess að þau líkjast einkennum margra algengra kvilla. Eitt eða tvö af ofangreindum einkennum eru ekki endilega merki um vanvirkan skjaldkirtil, en séu mörg þeirra til staðar er vissulega líklegt að svo sé. Margir mundu álíta að flest af ofangreindum einkennum séu eðlileg afleiðing af streitufullu lífi nútímans og að ekkert sé við því að gera. Það er hægt að gera einfalda heimaprófun á virkni skjaldkirtilsins með venjulegum hitamæli. Þannig er farið að: Hafðu mælinn á náttborðinu (til að þurfa ekki að fara fram úr að sækja hann). Mældu þig strax og þú vaknar að morgni og skráðu líkamshitann. Endurtaktu þetta í 5 daga. Konur á barneignaraldri ættu að mæla hitann á þeim dögum tíðahringsins þegar líkamshitinn er lægstur.

Aðrir geta gert þetta hvaða daga sem er. Reiknaðu út meðalhitastigið þessa 5 morgna og ef það er 36,4 stig á Celsíus eða minna, ertu líklega með vanvirkan skjaldkirtil. Þá er orðið tímabært að panta tíma hjá lækninum. Gættu þess að rannsóknin sé gagnger, og að allir þættir séu teknir til athugunar. Athuga skal að vanvirkur skjaldkirtill getur haft áhrif á eða orðið fyrir áhrifum af öestrógeni, sem er sérstakt athugunarefni fyrir konur sem eru að reyna að verða eða eru orðnar ófrískar, sem og konur á breytingarskeiði. Svo gæti auðvitað þurft að bæta lífsstílinn, gæta þess að borða hollan mat, hreyfa sig nóg, fá nægilega hvíld og láta sér líða vel.

Greinin eftir Belinda Burman, úr tímaritinu Positive Health hefti 102 ágúst 2004. Ebba Valvesdóttir þýddi, styttiFlokkar:Greinar og viðtöl

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , , , , , ,

%d bloggers like this: