MS séð frá sjónarhóli kínverskra lækninga

Hér fer á eftir viðtal við Arnbjörgu Lindu Jóhannsdóttur um viðhorf kínverskra lækninga til M.S. sjúkdómsins, sem er nokkuð frábrugðið þeim kenningum sem við eigum að venjast. Arnbjörg Linda lærði jurtalækningar í Englandi á árunum1984 til 1987 í School of Herbal Medicine (Phytotherapy) í Tumbrige Wells í Kent. Hún starfaði við grasalækningar í fjögur ár, en dreif sig síðan í nám í kínverskum lækningum og nálastungum í International College of Oriental Medicine (JCOM) í E.Grinstead, W. Sussex í Englandi á árunum 1991 til 1994. Hún starfar nú við nálastungur og grasalækningar í Reykjavík. Arnbjörg Linda var fyrst spurð hvort hún hafi lært um M.S. sjúkdóminn í nálastunguskólanum. Svar hennar var á þessa leið:

Í kínverskum lækningum er ekki talað um sjúkdóma heldur um sjúkdómsmunstur sem skapast þegar jafnvægi raskast í líkamanum. Það jafnvægi sem um er að ræða er þá fyrst og fremst í frumöflunum fimm, sem í kínverskum fræðum eru nefnd: viður, eldur, jörð, málmur og vatn, og í þeirri orku sem hvert og eitt líffæri hefur yfir að ráða. Hvert líffæri tilheyrir einnig ákveðnu frumefni. Það er litið svo á að fleiri en ein ástæða valdi hverju sjúkdómsmunstri.

Oftast eru það þrír þættir sem saman valda veikindum, það á einnig við um M.S. sjúklinga. Í M.S. tilfellum er aðallega um ójafnvægi að ræða í jarðarfrumaflinu, þ.e. í milta, en undirliggjandi er til staðar veikleiki í nýrum og lifur. Þess vegna er það að þó að aðallega beri á miltaeinkennum hjá M.S. sjúkum þá þarf alltaf að hlúa að nýrum og lifur til að ná upp Yin orku og blóðkrafti til að hjálpa miltanu.

Hlutverk miltans, samkvæmt kínverskri sjúkdómsfræði er meðal annars að vinna tæra orku úr fæðinu og losa slím og raka úr líkamanum. Þess vegna er það að flestir sjúkdómar sem tengjast miltanu hafa með raka að gera. Það getur verið um lítinn raka að ræða eða þéttan raka sem t.d. myndar slím í líkamanum. Hér er ekki eingöngu átt við slím svo sem nefrennsli eða kvef heldur slím sem festist í líkamanum og truflar eðlilega starfsemi hans.

Fyrstu einkenni raka í orkubrautum líkamans er m.a. dofi, sem M. S. sjúklingar þekkja vel. Ef ekkert er gert til að vinna bug á þessum dofa getur það leitt til lömunar. Orsök þess að M.S. sjúklingar þola illa vinnuálag og erfiði er meðal annars vegna þess að áreynsla eyðir nýrna Yin orkunni, og það aftur veldur því að lifrar-blóð minnkar. Lifur og nýru eiga einnig að gefa vökva og kraft til augnanna og þess vegna er það sem þurrkur og þreyta í augum er mjög algeng hjá M.S. sjúklingum.

M.S. sjúklingar kvarta gjarnan um slen og þreytu. Getur þú útskýrt það?
Ástæða slíkrar þreytu er m.a. sú að miltisorkan er ónóg, sem veldur því að manneskjan þarf stöðugt að hvíla sig. Til þess að auka miltisorkuna kallar líkaminn á hvíld og sætt fæði, sem er bragð miltans og orka. Ef sykurlönguninni er fylgt eftir í formi sætinda getur það valdið vítahring því að sykur í einhverju magni skemmir, hann er rakamyndandi og svæfir miltað.

Fólk með M.S. sjúkdóm ætti því að vera afar varkárt gagnvart sætindum og fá sér frekar þurrkaða ávexti til að styrkja miltað. Eins og fyrr kemur fram er það sameiginlegt með þeim sem þjást af M.S. að orka nýrna, lifrar og milta hefur minnkað, þannig að blóðið verður aldrei eins sterkt og vera skyldi, því ráðlegg ég þessu fólki að leggja sig einu sinni til tvisvar yfir daginn. Við það að leggjast niður rennur blóðið til lifrarinnar og hún endurnýjar það. Þá eykst orkan aftur.

Leggur þú áherslu á rétta næringu ?
Ég reyni alltaf að raska sem allra minnst lífsmunstri fólks af því að það er nóg að fást við erfiðan sjúkdóm þó ekki þurfi að mæla allt ofan í sig. En þó verður að taka burtu úr fæðinu augljósa skaðvalda sem mynda raka og miltað ræður engan veginn við að melta. Fyrst er að nefna mjólkurvöruna sem er köld og rök fæða og er því óviðráðanleg fyrir veikt milta.

Með heilbrigt milta gegnir öðru máli, það getur hitað upp fæðuna og unnið orku úr þessum raka massa. M.S. sjúklingar búa ekki yfir þeim krafti sem til þess þarf. Þannig að mjólk eða mjólkurmatur að morgni dags eins og t.d. AB mjólk, sem er bæði þykk og köld veldur því að miltað eyðir allri sinni orku í að hita hana upp. Þannig að orka miltans er uppurin þann daginn og engin orka er eftir til að vinna kraft úr fæðunni. Fólkið fær sem sagt engan kraft úr þessari fæðu heldur veldur hún álagi á ýmsum stöðum líkamans.

M.S.sjúklingar ættu af þessum sökum að hita eða velgja allan mat og drykk og forðast allan kaldan mat. Ef þeir ætla að borða ávexti ráðlegg ég að hafa engifer (duft) með ávöxtunum til að hjálpa miltanu að hita þá upp. Ég vara einnig við því að borða banana, þeir eru afar slím og rakamyndandi. Hafa þarf í huga að fæðan sé ekki köld heldur þurr og heit, borða oft, og alltaf morgunmat, svelta sig aldrei. Að drekka einhver kraftte t.d. kanilte og mu-te í staðinn fyrir að drekka vatn. Þá ætti M.S. sjúkum að líða betur og jafnvel gæti dregið úr ýmsum sjúkdómseinkennum þeirra án annarrar meðferðar.

Ertu á móti kaffi ?
Kaffið er hressandi, og sérstaklega er það hressandi á morgnana. Þó svo að kaffi sé ekki hollt þá er það heitt og það er þurrt í eðli sínu þannig að það er ákveðinn kraftur í því, þess vegna er í lagi að drekka kaffi fyrripart dagsins því að þá er verið að drekka Yang aukandi drykk með Yang rísandi orku dagsins, en um leið og komið er fram yfir hádegi þá gengur heitur Yang drykkur á nýrna Yin orkuna, sem alltaf þarf að vera að passa. Heitar sojaafurðir eru styrkjandi fyrir miltað vegna þess að það er svo þurr matur. Sama má segja um heitt tofu og hirsi. Kjúklingakjöt er besta kjötið fyrir miltað, lambakjöt má líka nota, en nautakjöt og svínakjöt er ekki æskilegt. Fiskur er góður og allt grænmeti ef það er heitt. En ekki ætti að borða köld grænmetissalöt, heldur er betra að snöggsjóða grænmeti eða gufusjóða það.

Algengt vandamál
Blöðruvandamál geta verið tvenns konar. Á annan bóginn getur ástæðan verið sú að nýrna Yin orkan sé ekki nógu mikil og veldur það þurrki í slímhúð blöðrunnar og þvagleiðurunum, sem getur síðan leitt til bólgu. Það er sársauki sem fylgir slíku. Þannig blöðrubólgu má stundum lækna með tei af húsapunti og fíflablöðum. Hin tegundin af blöðrubólgunni getur verið út af því að miltað annar ekki fæðunni vegna raka. Þá verður meiri þyngslatilfinning í blöðrunni og mikið þvag samfara kulda í líkamanum. Í þannig tilfellum gæti seyði af fíflarót og engiferrót hjálpað.

Sterar og sýklalyf valda vanda
Raki hleðst upp við stera- og pensilíninngjöf, rakinn lokast inni í líkamanum og verður þungur og þykkur. Það er afar erfitt að ná slíkum raka út úr líkamanum, en út verður hann að fara svo hægt sé að koma hreyfingu á starfsemi líffæranna aftur.

Hvað er til ráða ef fólk verður fyrir sýkingu og þarf að taka inn sýklalyf ?
Mér hefur reynst vel að ráleggja fólki að taka inn jurtadropa, sem nefndir eru sólhattur samfara inntöku sýklalyfja. Jurtirnar sólhattur, timjan, morgunfrú og augnfró eyða raka, og ef eitthvað af þessum jurtum eru notaðar meðan á lyfjameðferð stendur er dregið úr rakamynduninni í leiðinni. Eins og ráða má af því sem áður hefur komið fram um AB mjólk tel ég rangt að ráðleggja hana með eða á eftir sýklalyfjainntöku. Slíkt orsakar oft aðra sýkingu í kjölfarið vegna þess að bakteríur dafna best í röku umhverfi. Grein eftir Arnbjörgu Lindu um frumefnin fimm birtist í vorblaði Heilsuhringsins 1998.

Höf: Ingibjörg Sigfúsdóttir. Þessi grein birtist einnig í tímaritinu Meginstoð árið 1998.Flokkar:Greinar og viðtöl

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , ,

%d