Nýjar leiðir í krabbameinslækningum vor 1998

Nýtt krabbameinslyf
Í maímánuði s.l. komu fréttir um það í ríkisútvarpinu, að búið væri að finna upp nýtt krabbameinslyf sem grundvallað væri á alveg nýrri hugmynd sem ekki hefði áður verið notuð við krabbameinslækningar. Undirritaður varð að vonum forvitinn að heyra meira um þetta nýja lyf en aðeins fáum dögum síðar kom svo löng grein í Morgunblaðinu um það og þær upplýsingar sem hér koma á eftir eru að mestu byggðar á þeirri grein.

Nýæðamyndun heft
Þegar krabbameinsæxli fer að stækka, byrja nýjar æðar að myndast í því, sem svo flytja því næringu. Ef engar nýjar æðar mynduðust gæti æxlið ekki orðið stærra en í mesta lagi 1-2 mm. Þetta hefur lengi verið þekkt og sum náttúrulyf t.d. hákarlabrjósk grundvallast á því að hindra nýæðamyndun í æxlum. Einnig að nota efnið urea, sem sennilega eyðileggur nýmyndaðar æðar í æxlum í lifur, eins og sagt var nýlega frá í þessu riti.

Vísindamaðurinn Judah Folkman við Barnasjúkrahúsið í Boston í Bandaríkjunum fór að sinna rannsóknum sem miðuðu að því að „svelta“ krabbameinsæxli með því að stöðva blóðrennsli til þeirra, fyrir nálægt því 30 árum. Fyrir um það bil 10 árum tókst honum að búa til lyf sem höfðu þannig verkanir. Hann nefndi þau „æðamyndunarhemla“ (anti angiogenesis) því að þau hindruðu myndun nýrra æða (angiogenesis).

Þessi lyf hægðu á æxlisvexti í dýrum en eyddu æxlunum ekki alveg. Tilraunir á fólki benda til hins sama og fjöldi lyfjafyrirtækja er nú að þróa þessi lyf frekar. Þáttaskil urðu í rannsóknum Folkmans þegar hann fór að velta fyrir sér fyrirbæri sem krabbameinslæknar hafa lengi veitt athygli. Stundum er aðeins eitt æxli í krabbameinssjúklingi en engin meinvörp annars staðar í líkamanum. Sé æxlið tekið og allt virðist ganga að óskum fer þó oft þannig að nokkrum mánuðum síðar kemur í ljós fjöldi meinvarpa sem fljótlega verða sjúklingnum að bana.

Árið 1989 setti Folkman fram tilgátu um ástæðuna fyrir þessu. Hann spurði sjálfan sig: Er hugsanlegt að sama æxlið myndi samtímis bæði efnahvata og hindrun fyrir nýæðamyndun?

Ef svo væri kynnu hindrandi efnasambönd að berast með blóðrásinni og koma í veg fyrir að meinvörp mynduðust annars staðar. Sé æxlið tekið myndast þessi hindrandi efni ekki lengur og meinvörp fara að verða til. Folkman reyndi að vekja áhuga samstarfsmanna sinna á þessari hugmynd fyrir daufum eyrum þeirra. Dr. Folkman sagði í viðtali við The New York Times „Enginn hafði áhuga á að taka þetta að sér. Það virtist of fráleitt til að verða efni í ritgerð sem fengist samþykkt til birtingar í viðurkenndu vísindariti.“

Angiostatin fundið
Svo var það árið 1991 að nemandi Folkmans, sem nýlokið hafði doktorsprófi, Michael O’Rally, ákvað að taka að sér að athuga þetta nánar. Hann einbeitti sér að tiltekinni gerð illkynja æxla í músum sem alltaf er banvænt. Á meðan stórt æxli var í músunum mynduðust  engin meinvörp en aðeins fimm dögum eftir að æxlin voru tekin myndaðist fjöldi meinvarpa í lungum þeirra og að hálfum mánuði liðnum voru þær allar dauðar. Eftir miklar rannsóknir og í samvinnu við efnafræðinga uppgötvaði O’Rally svo að meginæxlið myndaði efnasamband sem hindraði vöxt annarra æxla. Efnið var finnanlegt í þvagi dýranna en í mjög takmörkuðu magni.

Það var hluti af próteini, plasminogen, sem líkaminn notar við blóðstorknun. Falkman nefndi þetta nýfundna efni angiostatin. Spurningin var nú hvort þetta efni hindraði krabbameinsvöxt. Folkman og O’Rally fundu örlítið af angiostatin í mannablóði og þeim tókst að einangra lítið eitt af efninu úr því. Síðan hófst tilraunin. Þeir voru með 20 mýs sem allar höfðu stór krabbameinsæxli á bakinu. Æxlin voru tekin og síðan var helmingi músanna gefið angiostatin daglega en afgangurinn fékk saltlausn til samanburðar. Eftir hálfan mánuð voru allar mýsnar drepnar og þær krufnar. Í þeim músum sem fengu saltvatnið var fjöldi meinvarpa en ekkert í hinum hópnum, sem fékk angiostatin.

Uppgötvun endostatins
Síðar fundu Folkman og samstarfsmenn hans annað prótein eða hluta próteins sem myndaðist í krabbameinsfrumum sem einnig hindraði nýæðamyndun. Þetta er brot úr collagen 18. Próteinið sjálft hefur engin áhrif á krabbamein, aðeins þetta brot úr því. Því var gefið nafnið endostatin. Það reyndist jafnvel öflugri hindrari á nýæðamyndun en angiostatin. Væri það gefið músum með stór krabbameinsæxli urðu æxlin agnarlítil svo að aðeins var hægt að sjá þau í smásjá.

Í ljós kom að bæði þessi efni héldu virkni sinni og æxlin urðu ekki ónæm gegn þeim við langvarandi notkun eins og oftast verður með hefðbundin krabbameinslyf (frumueitur). Þau tapa virkni sinni vegna þess að meinfrumurnar breyta erfðaefni (genum) sínu þannig að lyfin hætta að verka. Angiostatin og endostatin verka aftur á móti ekki beint á krabbameinsfrumurnar, heldur á æðarnar sem flytja næringu til æxlisins. Í æðunum eru aðeins venjulegar frumur en ekki meinfrumur sem stöðugt eru að endurraða erfðaefni sínu. Því halda þessi efni virkni sinni svo lengi sem þurfa þykir, jafnvel ævilangt. Sé angiostatin eða endostatin gefið nógu lengi, annaðhvort efnið, verða æxlin að lokum agnarsmá en sé

Enn eitt nýtt gervisætuefni
Framleiðendur aspartam (NutraSweet) Monsanto Co. hafa nú sótt um hjá Matvæla og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA), að mega nota nýtt gervisætuefni, neotame, sem er 8000 sinnum sætara en sykur en aspartam er 200 sinnum sætara en sykur. Ekki er búist við að leyfi fáist til að nota neotame í mat og drykk fyrr en í fyrsta lagi um aldamót, þegar nauðsynlegum prófunum á efninu verður lokið. hætt að nota efnin byrja þau aftur að vaxa. Séu þau bæði notuð samtímis hverfa æxlin að lokum algerlega, svo að þau sjást ekki einu sinni í smásjá. Þá fara þau heldur ekki lengur að vaxa þó að hætt sé að nota efnin og sjúklingurinn virðist fullkomlega læknaður.

Aukaverkanalaust
Efnin virðast vera fullkomlega aukaverkanalaus, að minnsta kosti á músum. Þó að músunum væru gefnir fjórum sinnum stærri skammtar en þurfti til að lækna þær sáust engar aukaverkanir. Þó má sennilega gera ráð fyrir að á fólki sem nýlega hefur fengið blóðrásartruflanir t.d. í kransæðar hjartans, tefji það fyrir að nýjar æðar myndist til að flytja þeim hluta hjartans blóð, sem orðið hefur fyrir blóðrásartruflunum. Þetta verður þó að koma í ljós á sínum tíma.

Folkman og samstarfsmenn hafa reynt lyfjablönduna við margar mismunandi krabbameinstegundir með jafngóðum árangri. Það virðist jafnvel verka á hvítblæði, sem gæti bent til að fleira komi til en að efnið aðeins hindri nýæðamyndun. Hann varar þó við allt of mikilli bjartsýni því að ennþá hefur nýja lyfið aðeins verið reynt á músum. Gangi allt að óskum verður fljótlega farið að prófa það á fólki en nokkur ár munu líða þar til það kemst á almennan markað, jafnvel þó að allt gangi eins vel og hugsast getur.

Almenn bjartsýni
Ýmsir eru mjög bjartsýnir, t.d. Nóbelsverðlaunahafinn James D. Watson, sem segir að eftir tvö ár muni hægt að lækna krabbamein og að Judah Folkman muni verða minnst í framtíðinni við hlið Charles Darwins sem mikilmennis sem breytti gangi veraldarsögunnar. Hvort hann verður sannspár verður framtíðin að skera úr um. Það sem eykur e.t.v. mest bjartsýni er þó það, að þarna er á ferðinni ný hugmynd við að lækna krabbamein. Eldri krabbameinslyf eru flest grundvölluð á því sama, semsé að nota eitruð efnasambönd til að drepa krabbameinsfrumurnar.

Enda þótt efnin sem notuð eru til þess heiti ýmsum nöfnum er þó verkunarmáti þeirra líkur. Svo hefur stundum virst að hefðbundnar krabbameinslækningar væru orðnar fastar í einskonar þráhyggju, sem sé að ekkert mætti gera annað en „skera, brenna og eitra“ eins og þekktur erlendur krabbameinsfræðingur orðaði það svo kaldhæðnislega. Nú virðast að minnsta kosti sumir sérfræðingarnir hafa rifið sig upp úr þessari þráhyggju og farið að reyna eitthvað nýtt. Hvort þetta nýja lyf, sem hér er til umræðu, verður lokasvarið við krabbameinsvandamálinu verður framtíðin að skera úr um, en hvort sem svo verður eða ekki er þó full ástæða til bjartsýni og að lokasvar sé í augsýn.

Höfundur: Ævar Jóhannesson vor 1998.
Heimild að mestu úr Morgunblaðinu 7. maí 1998.



Flokkar:Krabbamein

Flokkar/Tögg, , , , , ,