Söl

Af sæþörungum hafa söl haft meiri þýðingu fyrir Íslendinga til manneldis en nokkur annar fjörugróður. Bæta mætti heilsufar þjóðarinnar með aukinni neyslu sölva. Meðal vísindamanna er,,Palmaria palmata“ nýlegt heiti á sölvum, en þó er gamla fræðiheitið ,,Rhodymenia“ meira notað. Orðið söl er yfirleitt haft í hvorugkyni, en þekkist einnig í kvenkyni. Söl teljast til rauðþörunga. Óupplituð eru þau rauð-fjólu-blá eða rauðbrún. Þau em talin vaxa alls staðar við strendur Íslands, en þó virðist vera verulegur munur á hve mikið er af þeim eftir hinum ýmsu landshlutum.

Eftir gömlum heimildum virðist svo jafnan hafa verið að sýnu minnst hafi verið um söl við Norður og Austurland. Stafar það af því að í þeim landshlutum er sjávarfalla munur aðeins þriðjungur af því sem gerist við Suðurland og veldur það erfiðleikum við töku þeirra. Brögð eru að því að sölvafjara eyðist vegna ísalaga. Sölva er fyrst getið í íslenskum heimildum um miðja 13. öld, en í Grágás á 12. öld. Þess er getið um miðja 14. öld að maður í Saurbæ í Gilsfirði hafi gefið brúði sinni á brúðkaupsdaginn hálfa sölvafjöru og var gjöfin metin til mikils fjár. Sagt er frá því að árið 1552 hafi Páll Hvítfeldt hirðstjóri gefið út tilskipun um skóla hér á landi, þar sem gert var ráð fyrir að piltar hafi söl til matar. Heimildir eru um að söl hafi verið notuð til manneldis hér á landi á 17., 18. og 19. öld og hafi verið á borðum sumra allt til 1950.

Í heimild frá 18. öld er greint frá því að sumir eti söl með hvannarót og ólseigum harðfiski. Fleiri heimildir segja að fyrrnefnt hafi verið notað í stað brauðs. Getið er, að dregið hafi úr sölvanotkun á Kjalarnesi á 18. öld vegna þess að á þeim tíma hafi verið lítið um sýru og hafi sölin þótt fara illa í maga ef drukkið væri vatn með þeim. Betra þótti að nota sýru. Það var trú almennings að sýrublanda og þó einkum mjólk væri nauðsynleg með sölvum og öðrum fjörujurtum, einkum ef þær voru etnar sem einmeti viðbitslausar. Hjá Páli í Arnardrangi í Landbroti voru söl skömmtuð einu sinni á dag og þá alltaf með harðmeti. Magnús Stephensen dómstjóri segir að sölin komi í stað brauðs og fisks. Söl sem notuð voru í grauta voru söxuð og var þá notað jafnt af sölvum og mjöli, ýmist bankabyggi eða haframjöli.

Sölin voru afvötnuð og soðin í mjólk eða mjólkurblandi, en til að ná vel úr þeim nærandi efnum þurfti að sjóða þau lengi. Einnig þekktust sölvakökur en þær voru gerðar úr rúgmjöli og sölvum. Sölin voru notuð til að drýgja mjöl í brauð, og voru þau þá fyrst soðin í vatni, svo söxuð smátt, oftast með tóbaks- eða káljárni og þannig hnoðuð saman við brauðið. Sölvabrauð voru sögð líkjast seyddu rúgbrauði.

Lækningajurt
Til er málsháttur sem hljóðar þannig: ,,Ekki er sjúkum söl að bjóða“. Þessi málsháttur stangast á við kenningar þeirra sem töldu söl lækningarjurt. Varðveist hafa umsagnir fjögurra landlækna um lækningagildi sölva. Þeir eru: Bjarni Pálsson, Oddur Hjaltalín, Jón Hjaltalín og Jónas Jónassen. Auk þess eru ýmsar heimildir um söl sem lækningajurt runnar frá læknunum Jóni Pétrussyni og Sveini Pálssyni. Haft er eftir Jóni Hjaltalín að; varla sé efi á því, að úr vel af vötnuðum og þurrkuðum sölvum mætti gera holla og nærandi fæðu, og mundi sú fæða vera léttust væri hún soðin í mjólk. Ætli maður að ná vel öllum hinum nærandi efnum úr sölvunum og fjörugrösunum, þá liggi á að sjóða þau vel og lengi, svo að í hýðið sem er utanum hveitiefnið verði sem meyrast, því að það er einmitt hýðið sem liggur utan um allar hveitistegundir, sem meltingarfærunum veitist hvað örðugast að melta.

Eftir Odd Hjaltalín kom út grasafræði. Hann  segirr: ,,Söl eru kælandi, vallgang mýkjandi, uppleysandi, þvagleiðandi, nærandi, stillandi, svitadrífandi og styrkjandi. Fersk á lögð deyfa þau hitabólgu og tök. Soðin í vatni með litlu af nýju smjöri, til þess að verða að graut, og þannig etin, mýkja þau vallgang og örva svita. Þurrkuð sem vani er og etin ásamt öðrum þungum mat, svo sem fiski, styrkja þau magann og meltingarkraftinn og þannig allan líkamann eftirleiðis. Saltvera sú, er við þau loðir og við köllum hneitu er sem önnur meðalasölt uppleysandi, svita- og þvagrásaleiðandi og er því sölva át einkar gott fyrir þá er þjást af innvortis bólgu og meinlætum, gulu og vatnssýki, því heldur sem það útheimtir venju framar drykk, en allur drykkur hefur til ávaxtar þynningu og frekari úttæmingu þeirra stöðnuðu og þykku vessa“.

Bæta hjartverk
Bjarni Pálsson segir um söl að þau séu talin góð við margs konar sjúkdómum og minnir um leið á þennan málshátt: „Hjartverk stilla hrá söl etin“. Bjarni segir að í málshætti þessum felist gamalt húsráð. Kemur það heim við leiðbeiningar í handriti frá 18. öld, að ef menn fái hjartaverk, sé talið gott að borða söl. Seinni tíma rannsóknir sýna að hjartverkur getur stafað af steinefnaskorti.

Bjarni telur að ný söl gagnist við: Gallsótt, niðurgangi, kveisu, gigt, tæringu, brjóstveiki, lystarleysi, ógleði, ófeiti, ófrjósemi, kyndeyfð og skyrbjúg. Enn fremur talar hann um að söl séu fitandi og leggur áherslu á að þau auki frjósemi. Nú er talið að gallsteinar geti myndast af skorti á magnesíum. Gamalt ráð er líka að borða kúmen og drekka kúmente, sé um gallveiki að ræða. Einnig lagast gallverkur oft ef drukkin er súr drykkur t.d. sítrónuvatn með feitum mat.

Í bókinni Gigtarsjúkdómar og alþýðulækningar eftir ameríska lækninn D.C. Jarvis M.D. segir hann að í rannsóknum hans hafi komið fram að hjartaverkur stafi af steinefnaskorti og sé áberandi hjá fólki í Vermont í Bandaríkjunum vegna þess að það neyti lítils sjávarfangs.

Sjóveikis- og hægðalyf
Jónas Jónassen, fyrrverandi landlæknir telur  söl gott hægðameðal séu þau framreidd eftir ráðum Odds Hjaltalíns. Fyrrum var kveisa algeng hjá börnum og unglingum, sem mest nærðust af mjólk. Að ráði Jóns Péturssonar voru þeim gefin söl snemma morguns, sem lögð höfðu verið í vatn kvöldið áður. Ekki er ólíklegt að þar hafi steinefnainnihald sölvanna ráðið einhverju um. Vitað er að nútíma læknar hafa ráðlagt mæðrum að minnka mjólkurvörur við börn sín og jafnvel sleppa um tíma ef þau hafa verið lystarlítil og þjáðst annaðhvort af niðurgangi eða harðlífi. Í bókinni Grasnytjar eftir Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, segir að söl séu góð við sjóveiki og að þeir sem með ofdrykkju hafi spillt reglu maga síns og blóðtempran, hafi gott af að nota söl fyrir mat og krydd næsta dag. Halldór Jónsson í Miðdalsgröf í Strandasýslu getur þess að gott sé að éta söl til að forðast sjósótt og einnig séu þau sérlega holl þeim mönnum, sem hafi orðið ofurölvi.

Söl eru rík af joði
Jóni Hjaltalín var efst í huga joðinnihald sölvanna og telur þau góð við lifrarveiki af þeim sökum. Í bókinni Heilsa og næring eftir Jón Óttar Ragnarsson kemur fram að rétt fyrir síðustu aldamót hafi sannast að í skjaldkirtilinum sé joð. Eftir það hafi bandarískir vísindamenn farið að rannsaka sambandið á milli joðs og skjaldkirtilssjúkdóma og tókst nokkrum þeirra að lækna skjaldkirtilsstækkun í skólabörnum með litlum skömmtum af natríumjoðíði. Einnig er þar sagt að öll hryggdýr safni joði í skjaldkirtil og noti það ásamt amínósýrunni týrósíni til þess að mynda skjaldkirtilshormóna þ.á.m. þýroxín. Líkaminn notar þessa hormóna.a. til þess að stjórna hraða grunnefnaskiptanna (GE).

Ef joð vantar í fæðið reynir skjaldkirtillinn að ná meira joði úr blóðinu. Við það  stækkar hann stundum svo mikið að hálsinn þrútnar. Svo kemur að því að hraði GE minnkar, blóðrásin verður hægari og sljóleiki færist  yfir einstaklinginn. Ef skjaldkirtilsstarfsemi er hæg er meiri hætta á að fólk fitni, en það getur horast ef starfsemi hans er hröð. Það kom fram í rannsóknum Júlíusar Sigurjónssonar, sem gerðar voru fyrir seinni heimstyrjöld, að vegna mikillar joðneyslu höfðu Íslendingar minnstu skjaldkirtla sem mælst hafa. Og í athugun sem gerð var á árunum 1965-67 var meðalneysla fólks á joði talin 200-500 ug á dag. (Til saman burðar er RDS-  gildi fyrir fullorðna aðeins 80-130 ug). En rannsókn sem gerð var fyrir u.þ.b. 10 árum á Borgarspítalanum af Gunnari Sigurðssyni lækni í efnaskiptasjúkdómum, benti til að joð hjá Íslendingum væri síður en svo hærra en hjá öðrum þjóðum.

Í rannsókn Gunnars Sigurðssonar voru einnig athugaðir einstaklingar sem höfðu tekið inn þaratöflur um nokkurn tíma og leit ekki út fyrir neina röskun á skjaldkirtilsstarfsemi þeirra af þeim sökum. Í viðtali við Gunnar kom fram að rannsóknin hafi sýnt að joðmagn Íslendinga hafi verið gott á þessum tíma. Hann taldi að nú til dags fengu Íslendingar mikið afjoði úr kúamjólk og væri því joðskortur fátíður á Íslandi, vegna þess að kýr hérlendis væru fóðraðar á fiskimjöli og þar af leiðandi væri mikið afjoði í mjólk (4-7 ug í 100 g). Gunnar sagði það vel þekkt undir vissum kringumstæðum að of mikið afjoði gæti komið af stað vanstarfsemi eða of starfsemi í skjaldkirtli (ef það færi yfir 2 mg á dag) og gæti það haft áhrif á framleiðslu skjaldkirtilshormóns. Þó að skortur geti valdið vandamálum gæti of mikið joð hindrað kirtilinn í losun á hormóninu.

Árið 1987 var viðtal við Unu Pétursdóttur, sem fædd var um aldamótin 1900. Sagði hún frá því hvernig kona læknaðist af stækkun á skjaldkirtli með því að borða mikið magn af sölvum. Einnig taldi Una að inntaka joðs í mjólk hefði læknað hana sjálfa af langvarandi krankleika eftir umgangspest.  En Jónas Kristjánsson læknir hafði ráðlagt henni eftirfarandi: Byrja á því að taka einn dropa af joði í einum lítra mjólkur og drekka yfir daginn. Síðan að auka joðið daglega um einn dropa í sama magni af mjólk, þar til að joðið væri komið upp í tuttugu dropa á dag, þá átti að minnka það um einn dropa daglega. Kúrinn tók fjörutíu daga.

Bætir óróleika barna
Það væri gaman að vita hvernig íslensk ungmenni búa að joði í dag og hvort óróleiki barna, sem á nútímamáli er kallað ofvirkni, eigi eitthvað skylt við skort ájoði. Með fæðisbreytingum þjóðarinnar síðustu ár hefur mjög dregið úr fiskneyslu ungs fólks. Mér er kunnugt um unglinga sem nánast aldrei bragða fisk og hafa gosdrykki fyrir aðaldrykk. Skyldu þeir unglingar fá nægilegt joð? Reyndar er joði bætt í margar fæðutegundir núorðið, t.d. er það að finna í mörgu af því morgunverðarkorni sem á boðstólnum er.

Í bókinni Gigtarsjúkdómar og alþýðulækningar, sem áður hefur verið minnst á, er fullyrt að skortur ájoði valdi órólreika og óeðlilegum  æsingi hjá börnum. D.C. Jarvis bendir á joðupplausn Lugolsar, sem var franskur læknir á nítjándu öld. Lugols náði miklum árangri við að hjálpa órólegum börnum. Upplausnin er eftirfarandi: 1 teskeið af eplaediki og tveir dropar af joði í glas af vatni, hrært vel. Jarvis segist hafa reynslu af því að ótrúlegur árangur hafi komið fram eftir inntöku upplausnarinnar. Þó að joðskortur geti verið þáttur í ofvirkni barna vil ég benda á að margt getur valdið ofvirkni barna, t.d. skortur á steinefnum eða fæðuóþol. Um það má lesa í greininni Ofvirkni og námstregða, og má finna hér:  https://heilsuhringurinn.is/1990/04/02/ofvirkni-og-namstregea-afleieing-rangrar-naeringar/

Í lokin
Ekki ætti íslenska þjóðin að þurfa að þjást úr joðskorti því að vitað er að sjávarfang er ríkt af joði. Í 100 g af ýsu eru 600-700 ug af joði, í 100 g af mjólk 4-7 ug (getur verið meira ef kýrnar fá fiskimjöl í fóðri), í 100 g af garðávöxtum, korni og kjöti 2-5 ug. Meira er afjoði í jarðvegi við sjávarsíðuna en til dala. Rannsóknir hjá Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins sem gerðar voru á sölvum í janúar 1996 leiddu í ljós að söl innihalda mikið af næringarefnum, t.d. kalsíum, magnesíum, kalíum, sinki, járni og joði.

Heimildir:  Þessi samantekt er byggð að miklum hluta á heimildum úr bókinni Íslenskir sjávarhœttir eftir Lúðvík Kristjánsson, sem gefin var út af Menningarsjóði árið 1980.

Fróðlegar greinar:

Lífvirk efni í þörungum:  https://heilsuhringurinn.is/2013/12/26/lifvirk-efni-i-toerungum/

Málmsölt og steinefni: https://heilsuhringurinn.is/1993/04/02/malmsoelt-og-steinefni/



Flokkar:Fæðubótarefni, Næring

Flokkar/Tögg, , , , , ,

%d bloggers like this: