Lífvirk efni í þörungum

Þörungar eru enn svolítið framandi fyrir flesta neytendur en sífellt má finna fleiri mataruppskriftir sem innihalda þörunga enda vaxandi áhugi á nýtingu þeirra til manneldis.

Það finnast um 300 tegundir af botnþörungum við Ísland en nýtingin er einungis bundin við fáar tegundir. Botnþörungar eru að jafnaði flokkaðir í þrjár meginfylkingar, rauð-, græn og brúnþörunga. T.d. eru söl ákveðin tegund af rauðþörungum. Þari og þang eru síðan íslensk heiti yfir nokkrar tengundir brúnþörunga, t.d. beltisþari, hrossaþari, klóþang og bóluþang.

Vitað er að þörungar hafa verið notaðir til manneldis í Austurlöndum í árþúsundir og enn þann dag í dag er neysla matþörunga mest í Japan, Kína og Suður-Kóreu. Elstu rituðu heimildir um notkun þörunga til manneldis á Vesturlöndum eru hinsvegar í Egilssögu. Áður fyrr voru söl, fjörugrös og marinkjarni einkum notuð til matar og voru söl þeirra verðmætust. Hægt er að nýta þörunga á margvíslegan hátt. Þá má nýta beint til matargerðar, sem krydd eða í stað salts í matvæli. Einnig má vinna ýmsar verðmætar afurðir svo sem innihaldsefni í matvæli til að bæta stöðugleika og auka jákvæð heilsufarsleg áhrif, í fæðubótarefni og í snyrtivöruiðnað.

Þörungar eru auðugir af ýmsum vítamínum, einnig málmum líkt og natríum, kalki og magnesíum sem gefa saltbragð, auk þess sem þeir innihalda mikið af bragðaukandi efnum. Þá innihalda þörungar mikið magn af joði sem er mikilvægt fyrir virkni skjaldkirtilsins. Síðast en ekki síst innihalda þeir mikið af lífvirkum efnum sem geta haft margvísleg jákvæð áhrif á mannslíkamann.

Mikill áhugi er á náttúrulegum lífvirkum efnum og jákvæð virkni er eftirsótt til framleiðslu á heilsuvörum til að fyrirbyggja ýmsa kvilla og sjúkdóma. Þar má nefna virkni gegn álagi í líkamanum en margir alvarlegir og algengir sjúkdómar heimsins tengjast álagi af völdum oxunar í líkamanum. Það hefur verið sýnt fram á að náttúruleg andoxunarefni geti spornað við þessum sjúkdómum. Margar tegundir brúnþörungar innihalda mikið af lífvirkum efnum sem vinna vel gegn þess konar álagi.

Í þanginu eru einnig mismunandi efni sem hafa jákvæð áhrif á heilsu, svo sem andoxunarefnin sem verka gegn þránun og öldrun og geta því bæði lengt líftíma matvöru og haft jákvæð áhrif á okkar eigin líkama. Í þörungum er að finna sérstaka gerð af fjölfenólum sem eru einstök fyrir þörunga og finnast ekki í landplöntum. Þessi fjölfenól hafa mikla andoxunarvirkni og sem dæmi má nefna þá hafarannsóknir á Matís ohf. sýnt fram á mun meiri andoxunarvirkni í bóluþanginu en í grænu tei sem gjarnan er talið vera mjög gott.

Þá er að finna í bóluþangi fjölsykrur af ákveðinni gerð sem nefnast fucoidans en þær hafa ýmsa lífvirknieiginleika eins og  hindrun gegn blóðstorknun og blóðtappamyndun. Einnig hefur verið sýnt fram á að lífvirku efnin í þangi hafa t.d. bólguhemjandi virkni og blóðsykurslækkandi áhrif og gætu því mögulega haft jákvæð áhrif gegn sykursýki 2.

Gríðarleg eftirspurn er eftir náttúrulegum andoxunarefnum vegna stefnu matvælafyrirtækja að draga úr notkun á tilbúnum efnum og vegna betur upplýstra neytenda sem í auknum mæli krefjast náttúrulegra vara. Lífvirku efnin í bóluþanginu eru mjög áhugaverð bæði fyrir snyrtivöru- og lyfjaiðnaðinn og í fyrra voru t.d settar á markað húðvörur undir nafninu Una skincare sem innihalda mikið af lífvirku efnunum úr bóluþangi.

Þörungar eru vannýtt auðlind sem í liggja miklir möguleikar til verðmætasköpunar. Það er mikil og aukin eftirspurn eftir lífvirkum efnum úr náttúrunni og Ísland hefur ímynd hreinnar náttúru. Nú þegar hefur mikill árangur náðst í rannsóknarvinnu Matís ohf. og ljóst að ýmsir möguleikar eru fyrir hendi. Með nýtingu á sjálfbæran hátt á þessari vannýttu auðlind í íslenskri náttúru skapast möguleikar á mikilli verðmætasköpun.

Höfundur:  Rósa Jónsdóttir, M.Sc., fagstjóri á Líftækni og Lífefnasvið Matis ohf., grein frá árinu 2013



Flokkar:Næring

Flokkar/Tögg, , , , , , ,

%d