Segir Sigríður Pétursdóttir kvikmyndafræðingur, sem heldur niðri liðagigt með breyttu mataræði, lyfjum, hugrænni atferlismeðferð, hreyfingu og nægum svefni.
Hér fær Sigríður orðið: Ég hélt fyrst að þetta væri venjuleg slitgigt en svo varð ég alltaf veikari og veikari. Hnúar á fingrum fóru að bólgna og axlir að frjósa ásamt fleiri einkennum. Þetta ágerðist hratt, ég varð bólgnari og bólgnari, og stundum urðu fingurnir krepptir og úlnliðirnir tvöfaldir. Ég gat ekki haldið á kaffibolla og iljarnar urðu svo bólgnar að ég gat ekki gengið. Mig var farið að gruna að ég væri komin með sjálfsofnæmissjúkdóm.
Á þeim tíma bjó ég í London og heilbrigðiskerfið þar er aldeilis frábært. Ég þurfti ekki að bíða lengi eftir að komast til sérfræðings, sem fljótlega greindi mig með liðagigt. Ég var sett á sterk lyf, sem heita Methotrexate. Mér var ekki sagt hve sjúkdómurinn var á háu stigi fyrr en ári seinna til þess að gera mig ekki stressaða. Því að við stress eykst streituhormónið kortisól.
Þremur mánuðum áður en ég fékk sjúkdómsgreininguna var ég svo heppin að komast á námskeið hjá konu sem heitir Hildur M. Jónsdóttir. Hún glímdi við sjálfsofnæmissjúkdóma, mígreni og fleira, en tókst að ná bata með breyttu mataræði og lífsstíl. Ég hafð ekki sérstaka trú á þessu til að byrja með, en þegar ég sá auglýsingu um ókeypis námskeið ákvað ég að ekki sakaði að prófa. Þegar ég hafði farið eftir ráðum Hildar í rúman mánuð og búin að breyta töluvert mörgu komst meltingin í lag. Þá hugsaði ég; kannski ég gefi þessu séns. Þannig að ég var farin að finna fyrir töluverðum bata áður en ég byrjaði að taka lyfin.
Hvernig breyttist mataræðið?
Ég hætti að borða sætindi, brauð og allt slíkt, mjólkurvörur, glúten, kaffi og unnar marvörur. Nú er ég búin að átta mig á hve mataræðið hefur mikil áhrif, því að ef ég svindla þó ekki sé nema smávegis þá snarbreytist allt. Til dæmis ef ég borða of mikið af döðlum þá bólgna fingurnir. Jafnvel þó það sé ekki nema ein daðla. Meltingarvegurinn er reyndar orðinn heilbrigðari núna, svo ég þoli aðeins meira.
Ertu til i að segja á hverju mataræðið byggist?
Ég borða mjög mikið af grænmeti, sjávarfangi, möndlum, hnetum og fræjum. Nú finnst mér sá matur svo miklu betri en maturinn sem ég var vön áður að mig langar nánast aldrei í neitt sem ég má ekki borða heilsu minnar vegna.
Hvernig var andleg líðan þín þegar þú varst orðin svo veik að þú gast ekki gengið?
Það var mesta furða og ég held að það vaki einhver verndarengill yfir mér. Þetta hafði ótrúlega lítil áhrif. Ég er yfirleitt í góðu andlegu jagnvægi sama á hverju gengur, þó ástandið væri svekkjandi og pirrandi meðan á því stóð. En þetta gerðist á stuttum tíma og ég var líka fljót að ná mér upp úr því að mestu. Ég hugsa oft til fólks sem þarf að vera svona árum saman án þess að fá hjálp.
Ég hef grennst eftir að ég breytti um mataræði og bragðlaukarnir hafa breyst. Nú finn ég mikið meira bragð af mat, ekki síst grænmeti. Viðbrögð frá sumu fólki hafa verið svolítið skondin. Það hefur áhyggjur af næringarskorti og ég heyri stundum setningar eins og ,,ferlegt er að sjá þig, færðu nóg prótín?” Enginn sagði við mig meðan ég var feitari ,,mikið ertu feit, það er ferlegt að sjá þig.” ,,Ég öðlaðist nýtt líf við þessa breyingu og ég sé ekki eftir því.” Fólk getur alveg eins þjáðst af næringarskorti þó það borði kjöt, en það er sjaldnast talað um það.
Hér er slóð á ítarlegt viðtal við Sigríði sem birtist RUV: https://www.ruv.is/utvarp/spila/segdu-mer/24558?ep=7hqb6f
11.7.2021. Nýlegt viðtal við Sigríði benti á að hún væri búin að opna heimasíðu með uppskriftum að bólguminnkandi mataræði: https://purelysigga.com/
Viðtalið skrifaði: Ingibjörg Sigfúsdóttir
Flokkar:Annað, Reynslusögur