Jarðsamband á hús! Lífsspursmál

Undirritaður hefur starfað við mælingar á húsasótt tengdri rafmengun og jarðaráhrifum undanfarin tuttugu  ár. Eitt atriði hefur ávalt staðið uppúr þegar góður árangur hefur náðst í meðhöndlun húsasóttar en það er jarðtenging.  Það hefur verið all nokkur höfuðverkur að skilja hvers vegna. Það er hinsvegar staðreynd, staðfest með reynslu margra að til að ná tökum á ákveðinni óáran í húsum og íbúðum þá hefur verið algert lykilatriði að kanna jarðsambönd húsa og þar sem úrbætur hafa verið gerðar gerast oft merkilegir hlutir sem snerta heilsu og líðan íbúa.

Í dag er alltaf rætt um jarðsamband í tengslum við rafmagnskerfið og sýnist sitt hverjum varðandi hve mikið þarf að jarðbinda gagnvart því. Staðlar segja að svo og svo mörg Ohm séu lágmarks jarðviðnám.  Sé viðnám undir skilgreindum mörkum þá telst jarðsambandið í lagi.  Samkvæmt reynslu undirritaðs þá er oft langur vegur frá því að jarðasamband sé fullnægjandi þó það mælist í lagi. Það jarðsamband sem flest hús hafa er í gegn um hitaveituna og sökkulskaut. Það þarf að leggja svokallað núllunarband frá rafmagnstöflu og út í hitaveituinntak, kaldavatnsinntak og í sökkuljárn. Það er ekki óalgengt að tengiklemmur á rörum hitaveitunnar hafi verið settar yfir málað rör eða tjargað og ná þá litlu sambandi. Einnig er algengt að tengiklemmurnar hafa tærst vegna raka eða þær orðnar lausar. Það er mjög mikilvægt að klemmurnar nái sambandi við rörin allan hringinn og að vel sé pússað undan.

Um langt skeið hefur hitaveitukerfið gefið húsum all gott jarðsamband á reykjavíkursvæðinu. Hitaveitan er að mestu lögð í járnrörum og er net járnröra um allt reykjavíkursvæðið og víðar. Nú er farið að leggja hitaveituheimtaugar í plasti og þar er ekkert jarðsamband að fá. Ekkert jarðsamband kemur í staðinn. Skilmálar rafveitna skilyrðir eingöngu svokallað sökkulskaut. Gagnvart húsinu er slík jarðtenging engan vegin fullnægjandi enda er húsið þá með jarðsamband í sjálft sig og nær litilli tenginu við jarðveg . Ef hús á að vera heilbrigt þá dugir engan vegin að jarðtengja bara í sökkulinn.
Staðreyndin er sú að jarðtengingar þurfa ekki að koma rafkerfinu nokkurn skapaðan hlut við.

Hús þurfa góð jarðsambönd burt séð frá rafdreifikerfinu. Hérlendis eru jarðtengingarmál í megnasta ólestri og undir hælinn lagt hvort  hús hafa gott jarðsamband eða ekki. Jafnvel þó jarðsamband sé í gegn um hitaveitu er æði víða svo illa gengið frá tengingum að jarðtengingin er nánast gagnslaus. Ekkert eftirlit er með þessum hlutum. Mælingar rafmagnseftirlitsmanna segja ekkert til um hvort hús hafi gott jarðsamband eða ekki. Í huga undirritaðs ætti að setja í byggingarskilmála hvers húss að því fylgi öflugt staf-jarðskaut og þar sem ekki er hægt að koma því við sjái bæjarfélagið um að bora fyrir góðu jarðskauti sem dugað gæti fyrir jafnvel heilu hverfin.

Það gleymist gjarnan í umræðunni að náttúran hefur sín rafsvið og þau all sterk. Þrumur og eldingar eru afleiðing að firnasterku rafsviði sem myndast á milli tveggja skýjabakka eða milli skýja og jarðar. Í sól og sumaryl er jónahvolfið sterkur áhrifavaldur. Jónahvolfið er hlaðið gríðarlega hárri plús spennu. Jörðin er mínuspóllinn. Í höfuðhæð er rafsviðsstyrkurinn ca 150V/m. Þetta rafsvið stuðlar að því að rafeindir losna frá jörðinni, til dæmis frá gróðri eins og grasi og trjám. Þegar rafeind losnar frá grasstrái myndast mínusjón og í náttúrunni myndast aragrúi fjölda mínusjóna á hverri sekúndu. Mínusjónir bæta loftgæði.

Vísindin hafa sýnt fram á að mínusjónir eru okkur gríðarlega mikilvægar. Sé skortur á þeim þá líður okkur illa og kvillar koma upp eins og pirringur í skapi, þreyta, liðverkir, bjúgmyndun og höfuðverkur. Í borgarsamfélagi þá stuðlar mengun frá umferð og svifryk að því að fækka mínusjónum. Loftræstikerfi eyða mörg hver stórum hluta mínusjóna úr loftinu. Raftæki geta haft svipuð áhrif og viss veðrátta hefur samskonar áhrif. Vel þekkt er Foehn vind veiki  í Sviss sem stafar af háu hlutfalli plús jóna í staðvindum sem blása af fjöllum oft vikum saman. Margir kannast líka við umræðuna um Santa Ana vindinn sem blæs í Kaliforníu. Með honum koma ýmiss konar kvillar og óþægindi . Norðanáttin í Reykjavík hefur sennilega svipuð áhrif.

En hvað kemur þetta húsasótt við? Það er líklega ansi mikill skyldleiki þarna á milli. Ég skal útskýra það betur. Hús í dag eru byggð á klöpp eða púða úr möl. Í kring um húsið er sett drenmöl sem á að tryggja að raki haldist ekki að steyptum sökklinum og tryggir þá að ekki myndist raki inni í húsi og múrinn skemmist síður. Í sökkul húsa er sett járnabinding og þessi járnabinding er gerð að svokölluðu sökkulskauti fyrir rafkerfi hússins. Húsið tengist hvergi við jarðveg sem leiðir rafmagn að neinu viti! Og hvaða máli skiptir það? Jú þar er mergurinn málsins.

Tökum dæmi: Það er góðviðrisdagur og sól skín í heið. Jónahvolfið er fyrir ofan bláan himininn og sendir frá sér firnasterkt rafsvið frá gríðarlega hárri plús hleðslu. Þessi hleðsla myndar rafsvið sem nær niður til jarðar og togar allar lausar rafeindir upp frá stöðum þar sem rafeindir geta losnað. Rafeindir losna auðveldlega frá oddmjóum gróðri eða hlutum, t.d. gróðri, grasi og trjáblöðum. Þegar rafeind losnar frá tré þá togar tréð rafeind úr jarðveginum í staðinn. Þannig er að myndast rafstraumur í öllum gróðri og virðist vera mikilvægur þáttur í lífi plantna. Lausu rafeindirnar sem sleppa svífa upp í loftið og mynda mínusjón sem er öllum lífsnauðsynleg.  Hvað gerist í húsum? Hús hafa gríðarlega stóran yfirborðsflöt og efst er yfirleitt þak úr málmi.

Jónahvolfið togar rafeindir frá húsinu eins og jarðveginum. Nema hvað að hús sem ekki hefur jarðsamband  nær ekki að toga rafeind upp úr jarðveginum í staðin fyrir þær sem losna. Það þýðir að rafeindum fækkar óeðlilega í húsinu. Það aftur hefur það í för með sér að húsið hleðst upp og verður smátt og smátt plús hlaðið. Þetta er engin óskapar hleðsla en nóg til þess að veggir hússins fara að draga til sín mínusjónir úr loftinu og þær mínusjónir eru gjarnan bundnar rykörðu eða sóti. Þá fer að safnast upp í húsinu óeðlilega mikið ryk og veggir geta orðið á tiltölulega stuttum tíma sótugir sérstaklega á svæðum þar sem bílaumferð er mikil. Loftið inni í húsinu verður snautt af mínusjónum og þeir sem þar búa geta þá fengið sömu einkenni og á svæðum þar sem plúshlaðnir staðvindar blása.

Einkenni eins og pirring í skapi, höfuðverk, þrálát hálssæri, þreytu og bjúgmyndun. Þetta er ein hlið af húsasótt og ástæðan er sú að húsið getur ekki sótt rafeindir í stað þeirra sem jónahvolfið hefur togað upp frá því. Lausnin er jarðsamband! Það þarf gott jarðsamband á öll hús og það þarf að sækja í gljúpan og rakan jarðveg. Best er að nota svokallað stafskaut og tengja það inn á járnabindingu hússins og þá um leið inn á jarðsamband rafkerfis. Þá getur húsið gefið þær rafeindir sem jónahvolfið kallar á en haldist algerlega hlutlaust gagnvart rafhleðslum innandyra. Undirritaður hefur reynslu af því að sótmyndun og rykmyndun hefur minnkað verulega við það að treysta jarðsambönd húsa. Ekki síst hefur heilsa íbúa skánað.

Valdemar Gísli Valdemarsson rafeindavirkjameistari



Flokkar:Rafmagn, Umhverfið

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , , , ,