Vítt og breitt um geðheilbrigðismál. Pistill nr:10 -Hægt að ná bata af geðklofa og geðhvörfum

,,Vonin er forsenda bata“ segir dr. Daniel Fisher sem er bandarískur geðlæknir og verður með opinn fyrirlestur mánudaginn 20.júní kl. 16 í Háskóla Íslands við Stakkahlíð sem áður hét Kennaraháskóli Íslands.

Dr. Daniel Fisher veiktist sjálfur af geðsröskun upp úr tvítugu og á hann að baki þrjár mjög erfiðar innlangir. Hann var settur á lyf og greindur með geðklofa. Þegar Fisher komst út úr erfiðustu veikindunum fann hann fyrir mikill þörf hjá sjálfum sér að breyta kerfinu og ákvað að verða geðlæknir. Daniel kemur til Ísland um helgina og verður með tvær vinnusmiðjur, aðra fyrir notendur og hina fyrir fagfólk. Mánudaginn 20. júní verður Fisher með fyrirlestur, sem er opinn almenningi og aðgangur ókeypis. Fyrirlesturinn hefst kl.16 í Háskóla Íslands við Stakkahlíð, sem áður hét Kennarháskóli Íslands. Það er Hugarafl í samstarfi við Unghuga og Maníu, sem standa að komu Dr. Fishers.

„Það er mikill fengur að fá Fisher til landsins“ segir Auður Axelsdóttir, iðjuþjálfi, sem starfað hefur með Hugarafli frá stofnun þess árið 2003, en kenningar Fishers um valdeflingu hafa einmitt verið grundvöllur að starfi hópsins. „Fisher hefur starfað sem geðlæknir í tæp 30 ár og er nú jafnframt framkvæmdastjóri Miðstöðvar valdeflingar (National Empowerment Center). Hann hefur helgað líf sitt því að afbyggja goðsögnina um að ekki sé hægt að ná sér af geðröskunum. Starf hans og bati varð til þess að hann var valinn til stefnumótunar Hvíta Hússins í geðheilbrigðismálum árið 2003 og var þar afar mikilvægur fulltrúi nýrra úrræða.“

Á fyrirlestrinum gefst fólki færi á að hitta Dr. Daniel Fisher, sem er geðlæknir við Riverside geðheilsumiðstöðina í Wakefield, Massachusetts. Daniel, eða Dan eins og hann kýs að kalla sig, náði bata af geðklofa. Hann er einn fárra geðlækna í Bandaríkjunum sem ræðir opinberlega um hvernig honum batnaði af geðsjúkdómi sínum og er fyrirmynd fyrir aðra sem berjast við að ná sér. Notendum geðheilbrigðisþjónustunnar, aðstandendum þeirra, fagfólki og áhugamönnum um geðheilbrigðismál gefst hér einstakt tækifæri til að spyrja Dan um sýn hans á bata, hlutverk notenda og ný viðhorf og úrræði í þessum málaflokki.

Aðgangur að fyrirlestrinum er ókeypis og öllum opinn, en þátttakendur eru beðnir um að tilkynna þátttöku sína til hugarafl@hugarafl.is. Sjá nánar um vinnustofurnar og fyrirlesturinn á hugarafl.is

Um Daniel Fisher

Menntun og starfsferill
Daniel er með B.A. gráðu frá Princeton háskóla, lauk doktorsprófi í lífefnafræði frá Wisconsin háskóla og læknanámi frá George Washington háskóla. Hann sérhæfði sig og fékk starfsréttindi í geðlækningum við Harvard læknaskólann. Í dag er hann framkvæmdarstjóri National Empowerment Center (sjá heimasíðu miðstöðvarinnar á http://power2u.org) og er starfandi geðlæknir við Riverside göngudeildina í Wakefield í Massachusetts.

Fyrirlesari, kennari og fræðimaður
Daniel ferðast um öll Bandaríkin og víða um heim til þess að halda námskeið og fyrirlestra, kenna og skipuleggja ráðstefnur fyrir notendur geðheilbrigðiskerfisins, þá sem hafa náð bata, aðstandendur og fagaðila í geðheilbrigðisgeiranum. Markmið hans er  að tala fyrir bata með notkun valdeflingaraðferða fyrir fólk sem hefur verið stimplað með geðraskanir. Hann hefur komið fram í ótal útvarps- og sjónvarpsþáttum, þ.á.m. CNN Special Report. Að auki er hann fræðimaður sem hefur rannsakað taugaboðefni við bandarísku geðheilbrigðisstofnunina (National Institute of Mental Health) og hvernig fólki batnar af geðsjúkdómum. Með Laurie Ahern þróaði hann Valdeflingarlíkanið og PACE batamódelið (Personal Assistance in Community Existence) sem gengur út á persónulegan stuðning úti í samfélaginu. Hann hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir starf sitt, t.a.m. verðlaun Clifford Beers geðheilbrigðissamtakanna og Bazelon miðstövar um lagaráðgjöf.
Höfundur

Daniel hefur skrifað fjölda greina í fagtímaritum, svo sem ,,Hospital and Community Psychiatry“ og ,,Psychosocial Rehabilitation Journal“ og kafla í ýmsum bókum. Hann hefur auk þess gert mynd um mikilvæga þætti í bata, „Notendur sem þjónustuaðilar“ og bækling, „Bati er fyrir alla“, um sama efni.

Höfundur Auður Axelsdóttir  árið 2011        Auður Axelsdóttir 1



Flokkar:Hugur og sál

Flokkar/Tögg, , , , , , ,