Vítt og breitt um geðheilbrigðismál. Pistill nr: 11

Fisher og andlegt hjartahnoð.
Í dag vil ég ræða um heimsókn Daniel Fishers hingað til lands. Hann dvelur hér í tæpa viku í boði Hugaraflsmanna og kemur gagngert til að styðja okkur hér á landi til að efla batanálgun í geðheilbrigðiskerfinu. Í þetta sinnið gerðu fjölmiðlar gesti okkar góð skil og ég vona að sem flestir hafi eitthvað orðið varir við umfjöllunina og boðskapinn sem við munum svo vinna áfram með. Margir gerðu hlé á störfum sínum eða sumarleyfi og hlýddu á fyrirlestur Fishers, notendur og fagfólk sótti vinnusmiðjur og ég þykist vita að úr nægu sé að moða í framhaldinu fyrir okkur sem viljum stuðla að jákvæðum breytingum á okkar kerfi. Við munum auðvitað kynna fyrir ráðamönnum þann innblástur sem Fisher hefur veitt okkur hér þessa daga og ég vona sannarlega að okkur beri gæfa til að nýta hans þekkingu til  framtíðarstefnumótunar í geðheilbrigðismálum.

Eins og margir vita er Fisher geðlæknir, útskrifaðist frá Harvard og hefur starfað sem slíkur í tæp 35 ár. Hann er  einnig framkvæmdarstjóri Empowermentcenter í  Massachusets. Dan veiktist þegar hann var 25 ára og fékk geðklofagreiningu. Hann starfaði þá sem lífefnafræðingur á á rannsóknarstofu og lokaðist inni vísindunum og sá ekki út fyrir rannsóknarstofuna. Þó að það hljómi kaldranalega var hann einmitt að rannsaka lífefnafræði í tengslum við geðklofa þegar hann veikist. Seinna ákvað hann að verða geðlæknir og vildi breyta kerfinu. Hann hafði þann draum að geta opnað öll geðsjúkrahús, henda lyklinum og hleypa fólki út í lífið. Jafnframt stuðlað að því að einstaklingar fengju þá þjónustu sem þyrfti á heimavelli eða í nærumhverfinu.

Honum er tíðrætt um að ríkjandi stofnanakerfi taki vonina frá fólki og að á stundum geti stofnananálgun verið hættuleg, þannig meint að þegar vonin hverfur þá getur löngun til að lifa lífinu minnkað og tilgangur getur virst harla lítill. Vonin er lykilatriði í bata og hlutverk allrar þjónustu að viðhalda henni. Auðvitað gat Fisher ekki lokað geðsjúkrahúsunum en hann hefur í um 30 ára skeið beitt sér fyrir breytingum og unnið að því að minnka vægi stofnana og kortlagt þá staðreynd að hægt sé að bá sér af geðröskunum, líka af alvarlegum geðröskunum eins og geðklofa og geðhvörfum. Hann þróaði valdeflingarmódelið sem oft hefur verið nefnt hér og kynnti um leið aðferðir til að styrkja þá nálgun í okkar kerfi. Hann bendir á eftirfarandi í viðtali sem Morgunblaðið tók við hann og birtist 21.júní:

„Í þessu samhengi segist Fisher hafa miklar áhyggjur af því hvar áherslur liggja, bæði í eigin þjóðfélagi og víðar. Of mikil áhersla segir hann að sé lögð á vísindin þegar hið mannlega sé í raun mun mikilvægari þáttur í geðheilbrigði. Reynsla hans sé lýsandi fyrir það hvert sú leið liggi. Sé of mikil áhersla lögð á efnafræði heilans segir Fisher að höfuðatriði á borð við merkingu, tilgang og sérkenni einstaklinga glatist“. Tilvitnun lýkur. Í Kastljósi í viðtali við Brynju Þorgeirsdóttur benti hann einnig á að það væru ekki til ótvíræð sannindi af geðklofi stafaði eingöngu af breytingum í heila og sú mýta að það væri ekki hægt að ná sér væri ekki sönn. Ég hvet ykkur til að hlusta á þetta merkilega viðtal sem var birt þann 20.júní í Kastljósi.

Það er mikilvægt að hafa það í huga að áföll, langvarandi streita, svefnleysi, fíkniefnaneysla og fleira getur valdið því að hugurinn er yfirbugaður og leitast við að verja sig með því að leita inná við og það köllum við stundum geðrof. Ef ekki er leitað skýringa og eingöngu ákveðið að hér sé um sjúkdóm að ræða sem þurfi að lækna, getur verið tekinn mikilvægur eiginleiki líkama og sálar til þess að ráða við að snúa aftur til raunveruleikans og ná í gegnum áfallið. Tilfinningar sem upp koma eru nauðsynlegur áttaviti fyrir það sem koma skal og getur í raun leiðbeint með þau málefni sem augljóslega urðu til þess að verja þurfti hugann fyrir sársaukanum. Tími er hér afar mikilvægur og ég held að við horfum stundum fram hjá því hversu brýnt það er að gefa tíma, vernd og umhyggju til að komast út úr þeim áföllum sem mögulega hafa dunið yfir.

Hvernig getur fagfólk brugðist við þegar einstaklingur er ráðþrota og leitar inná við? Er rétt að taka einstaklinginn til hliðar, láta hann vera einan í lokuðu herbergi  og bíða þar til hann jafnar sig? Nei það held ég ekki, af og frá. Verndað umhverfi getur verið nauðsynlegt en það þarf ekki endilega að vera hefðbundin stofnun og einvera í mikilli vanlíðan getur ekki verið farsæl. Í valdeflingarnálgun er lögð áhersla á nánd, samtal, umhyggju, hlustun sem byggir á virðingu, tengsl sem rúma aðstæður eins og þær eru hverju sinni þar til einstaklingurinn treystir sér til að koma til baka á ný. Að rúma þær tilfinningar sem upp koma og að vinna úr þeim er síðar mikilvægt, svo að hægt sé að stuðla að varanlegum bata og þeim bjargráðum sem gæti þurft að nota síðar ef upp kæmu erfiðleikar.

Fisher sagði frá EmotionalCpR eða „Andlegu hjartahnoði“ sem er í raun lykilatriði þegar einstaklingur fæst við alvarlegt tilfinningalegt rót sem veldur jafnvel stjórnleysi og ótta. Ef við berum saman hefðbundna nálgun sem er notuð  og nálgun í þessari aðferð sem við köllum hér „Andlegt hjartahnoð“ má koma auga á miklar andstæður. „Andlegt hjartahnoð“ er í raun aðferð sem við getum öll notað til að styðja einstakling sem er í tilfinningalegri neyð. Alveg eins og líkamlegt áfall fyrir hjartað þarfnast aðhlynningar, þarf einstaklingur sem er í andlegri neyð að fá aðstoð einstaklings sem er tilbúin að hlusta og styðja frá hjartarótum.

Í „Andlegu hjartahnoði“ er lögð áhersla á að það sé gott að stuðningsaðili sýni tilfinningar en sé jafnframt meðvitaður um þarfir viðkomandi fyrir stuðning. Unnið er að því að leysa vandann í sameiningu á jafningjaplani og stuðningsaðili er tilbúin að deila eigin reynslu til að efla einstaklinginn sem er í neyð. Trúin á að einstaklingurinn sé fyrst og fremst heil manneskja er til staðar og forðast er að setja stimpil á vanlíðan viðkomandi. Stuðningsaðili þarf ekki að vera fagaðili en hefur farið í gegnum þjálfun í „Andlegu hjartahnoði“.

Samkvæmt hefðbundinni nálgun er ekki viðurkennt að stuðningsaðili sýni tilfinningar heldur lögð áhersla á hlutleysi. Valdahlutföllin eru þau að stuðningsaðilinn kemur til hjálpar og mætir því einstaklingi ekki á jafningjagrunni. Viðkomandi deilir ekki reynslu sinni en heldur henni út af fyrir sig vegna þess að annað þykir ófaglegt.  Trúin á að einstaklingurinn nái tökum á ný án faglegrar aðstoðar er ekki sterk og þörfin fyrir stimplun er til staðar. Fagmaðurinn setur forsendurnar og stólar ekki á að einstaklingurinn geti gert það eða ráðið við það þrátt fyrir aðstoð.

Þegar þessar aðferðir eru bornar saman á þennan hátt getum við séð að í „Andlegu hjartahnoði“ er lögð áhersla á efla einstaklinginn sem er í vanda á þann hátt að hann geti sem fyrst tekið ákvarðanir og náð tökum á sinni vanlíðan á eigin forsendum.

Fisher ræddi einnig um mikilvægi þess að endurheimta röddina. Bæði í persónulegum skilningi en einnig að hópur eins og Hugarafl geti nýtt sameiginlega rödd til að þrýsta á breytingar. Einstaklingur sem hefur farið í gegnum geðræna erfiðleika getur átt erfitt með að koma orðum á eigin tilfinningar, draumaog skoðanir svo fátt eitt sé nefnt. Fisher lagði áherslu á 12 atriði valdeflingar sem byggja á því að endurheimta röddina sem mögulega var pressuð niður í veikindunum af ótta við viðbrögð í umhverfinu eða vegna þess að það þótti ekki viðeigandi að sýna tilfinningar og jafnvel þurfti á ákveðnum tímapunkti að bæla þær með lyfjum.

Það eru mikil verðmæti að hafa fengið mann eins og Daniel Fisher hingað til lands sem er þar að auki tilbúinn til að miðla þekkingu og aðstoða við framfarir á okkar kerfi. Það er áríðandi að ráðamenn og aðrir sem sinna málaflokknum skoði vel hans  valdeflingar-og batamódel og þau viðhorf sem þar koma fram. Við þurfum að opna hugann og leita allra leiða til að efla flóruna í úrræðum og nálgun. Fara út fyrir ramman, vera óhrædd við að brjóta hefðbundnar reglur með þann dýrmæta tilgang að vopni að bæta líf einstaklinga. Við verðum að varast að festa okkur ekki í viðjum vanans, svo við lokumst  ekki inní hulstri eins og kennarinn í smásögu Antons Thjekhov.

Auður Axelsdóttir 1

Erindið var áður flutt í þættinum Vítt og breitt í ríkisútvarpinu stöð eitt  árið 2011og birt með leyfi höfundar sem er: Auður Axelsdóttir iðjuþjálfi og forstöðumaður Geðheilsu-eftirfylgdar og einn af stofnendum Hugarafls. Símar eru:  4141550 og 8212183 og netfangið: audur.axelsdottir@heilsugaeslan.is .Flokkar:Hugur og sál

Flokkar/Tögg, , , , , , , ,

%d bloggers like this: