Góðu gæjarnir á móti þeim slæmu

Algengasta íslenska þýðingin á bakteríum eru sýklar sem er slæmt orð enda valda ekki allir sýklar sýkingum heldur þvert á móti eru verndandi gegn öðrum slæmum bakteríum og sýkingum. Hann er vandrataður meðalvegurinn. Í mörgu sem þessu höfum við Íslendingar farið kolvitlausa leið og sennilega alltaf misskilið þýðingu „sýkla“. Ein slík er hvað við höfum verið gjörn á að meðhöndla vægar sýkingar barna með sýklalyfjum, sem er mikið inngrip fyrir alla sýklaflóruna. Við höfum talið okkur trú um að við gætum snúið á hana móður náttúru og alltaf haft betur. En á misjöfnu þrífast börnin best, það er löngu sannað. Aldrei má gleyma jafnvæginu sem er milli allra lífvera, ekki síst í okkur og milli okkar sjálfra. Og skítur er ekki alltaf til ógagns. Oftast eru sýklar til góðs í flórunni, sérstaklega þeir sem fá að þróast í jafnvægi með hverjum öðrum. Góðu gæjarnir á móti þeim slæmu.

Ofnotkun sýklalyfja hér á landi um árabil hefur síðan valdið miklu sýklalyfjaónæmi meðal raunverulegra sýkingarvalda, miklu meira en þekkist í nágranalöndunum. En ekki er nóg með að við séum að skemma möguleikann á að geta meðhöndlað alvarlegar sýkingar á öruggan hátt þegar mikið liggur við vegna ofnotkunar lyfjanna, heldur eru ýmsar vísbendingar um að við séum oft að eyðileggja möguleika ungra barna að fást við sýkingar á eðlilegan máta og gerum þau þá um leið jafnvel viðkvæmari fyrir endurteknum sýkingum í framhaldinu. Það getur verið alvarlegur hlutur að ákveða sýklalyfjameðferð hjá ungu barni í dag.

Nýlega sat ég fyrirlestra á Ameríska heimilislæknaþinginu (AAFP) þar sem sérfræðingar frá Harvard Medical School (W. Allan Walker) og Yale University School of Medicine (Martin Floch) ásamt forstjóra International Scientific Association for Probiotics and Prebiotics  www.isapp.net (Mary Ellen Sanders) héldu fyrirlestra þar sem þessi og neðangreind sjónarmið um jafnvægi í flórunni komu sterklega fram. Aðal umræðan snerist þó um hvernig bæta mætti heilsuna með því að bæta þarmaflóruna, en breiðvirk sýklalyf sem svo mikið eru notuð hér á landi í dag gera einmitt það þveröfuga. Eins má ekki gleyma því að bólusetningar gegn algengum bakteríum í nefkoksflórunni eins og mikið er rætt um í dag, geta líkað raskað ákveðnu jafnvægi í nefkoksflórunni og á aðeins að nota að vel athuguðu máli og gegn þá ákveðnum vandamálum sem verulega ógna heilsu barna.

Í seinni tíð eru vísindamenn í auknum mæli að sjá hvað sýklaflóran í görnum er mikilvæg í þroska ónæmiskerfis barna. Bakteríur í görn eru 10 sinnum fleiri en frumur líkamans og til að ónæmiskerfið þroskist eðlilega þarf náið samspil milli þessara baktería og þarmaslímhúðarinnar. Rannsóknir sýna að börn sem fæðast t.d. með keisaraskurði eru viðkvæmari fyrir sýkingum og ónæmissjúkdómum hverskonar, eins og t.d. astma og barnaexcema, vegna þess eins að þá smitast ekki eðlileg flóra til þarma barnanna í sjálfri fæðingunni. Sama gildir einnig um aukna áhættu á bólgusjúkdómum í görnum hjá börnum sem fæðast með keisaraskurði. Ákveðinn hluti þarmaflórunnar eins og t.d. ákveðnir stofnar af ,,Lactobacillus og Bifidobacteria“ sporna líka gegn yfirvexti á slæmum þarmabakteríum og er jafnvægið þarna á milli oft hárnákvæmt og viðkvæmt. Eins til að halda aðkomnum matareitrunarbakteríum í skefjum. Við breiðvirka sýklalyfjagjöf geta einmitt slæmu bakteríurnar fjölga sér mikið á kostnað þeirra góðu sem þurrkast þá jafnvel út.

Sýklalyfjameðferð snemma í barnæsku getur unnið gegn þroska ónæmiskerfisins tímabundið og jafnvel stuðlað að endurteknum sýkingum almennt talað í framhaldinu eins og vísbendingar eru um að hafi gerst einmitt hér á landi um árabil með hárri tíðni miðeyrnabólgu og vaxandi fjölda barna sem þurfa að fá rör í hljóðhimnur. Eins hafa erlendar rannsóknir sýnt að eftir sýklalyfjameðferð er nefkoksflóran oft eins og nýplægður akur þar sem nýjar framandi bakteríur úr umhverfinu eiga auðvelt með að fá bólfestu, ekki síst sýklalyfjaónæmar bakteríur. Líkurnar eru síðan margfaldar að ný baktería valdi sýkingu samanborið við eldri bakteríur sem fengið hafa verið í friði í nefkoksflórunni.

Talað er um ,,PROBIOTICS“ (enskt orð í andstöðu við anti-biotics) þegar átt er við hagstæða þarmaflórustofna sem hægt er að gefa í inntöku í stöðluðu magni eftir ákveðnum fyrirmælum sem sannreynd hafa gert gagn með vísindalegum rannsóknum. Þar sem ekki er um lyf að ræða, frekar fæðubótarefni, lúta leiðbeiningarnar ekki beint lyfjaeftirliti. Margar jógúrtvörur eru víða á markaði sem probiotics fyrir ýmist fullorðna eða börn m.a. hér á landi. Þessar bakteríur eða gerlar eins og sumir vilja frekar kalla þær, hjálpa jafnframt meltingunni með gerjun fæðunnar í görn og með því að brjóta niður t.d. fitusýrur. Inntaka á probiotics getur þannig hjálpað að halda ýmsum sjúkdómum í skefjum svo sem tannskemmdum, ofnæmi, sveppasýkingum hverskonar, þarmabólgum, ristilkrömpum, húðsjúkdómum, öndunarfærasjúkdómum, vaxtartruflunum barna, offitu, sykursýki og þar með hjarta- og æðasjúkdómum. Mikilvægt er að átta sig á vel á innihaldslýsingu og velja vöruna (probiotics) með tilliti til hvað áhrifa er fyrst og fremst verið að leita eftir. Farið er að gefa ,,probiotics“ á sjúkrahúsum víða erlendis í dag  strax við innlögn í því fyrirbyggjandi sjóarmiði að sporna gegn smiti og niðurgangssýkingum sjúklinga, með góðum árangri.

Sýkingar, ekki síst veirusýkingar og vægar bakteríusýkingar í kjölfarið er lífsins gangur sem líkaminn, ekki síst í annars hraustum börnum, ræður vel við. Ef ónæmiskerfið þroskast illa að þá gefur auga leið að einstaklingurinn verður gjarnari á sýkingar eins og t.d. öndunarfærasýkingar. Rannsóknir hafa einmitt sýnt fram á að svo sé og með því að gefa inn probiotics að þá má styrkja ónæmiskerfið og t.d. minnka líkur á  kvef- og flensueinkennum sem oft kalla jafnframt í kjölfarið á endurteknar sýklalyfjagjafir hjá börnum (Leyer GJ, Pediatrics 2009;124:e172-9). Eins hafa rannsóknir sýnt að sýklalyfjagjöf ein og sér eykur líkur á astma hjá börnum (Marra F, Pediatrics 2009;123:1003-10). Rannsóknir hafa jafnvel sýnt að með því að væntanlegar mæður með ofnæmisvanda taki inn probiotics fyrir fæðingu í ákveðnum skömmtum  að þá megi minnka líkur á excema hjá börnunum þar sem flóra barna er þá væntanlega betur örvuð fyrir verndandi þáttum (Kalliomaki M, Lancet 2001;357:1076-79)

Alvarlegast er þó þegar yfirvöxtur verður á slæmum bakteríum í görn eftir breiðvirkar sýklalyfjagjafir. Við venjulegar aðstæður finnast sýklar eins og ,,Clostridium difficile“ aðeins í litlu magni hjá okkur flestum, þó frekar hjá ungum börnum (allt að 20%) og sem geta fjölgað sér mikið eftir sýklalyfjagjöf og valdið þá alvarlegri og langvinnri sýkingu og eitrun í görn. Í Ástralíu í dag er verið að gera rannsóknir og meðhöndla mikið veika sjúklinga með slíkar sýkingar í görn með innhellingu saurs (saurgerla) frá heilbrigðum einstaklingum til þess einfaldlega að byggja upp eðlilega flóru að nýju. Þarf að segja meira?

Höfundur: Vilhjálmur Ari Arason er læknir og bloggar á www.eyjan.is| og gaf leyfi til að birta þessa grein hér.Flokkar:Greinar

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , ,

%d bloggers like this: