Vélindabakflæði – ný sýn. |
Vélindabakflæði er nokkuð algengt vandamál hér á landi. Það lýsir sér með brjóstsviða og óþægindum í maga en einnig óþægindum í hálsi og getur jafnvel valdið mæði og slappleika. Orsökin er sú að opið milli vélinda og maga lokast ekki og komast magasýrur upp í vélindað sem valda sviða. En gufur af magasýrum hafa slæm áhrif á öndunarveg og lungu. Þetta heilsuvandamál er talið stafa af mataræði fyrst og fremst og er þá feitur matur talin fyrst upp, súkkulaði, laukur, krydd og áfengi svo eitthvað sé nefnt.
Flestir sem þjást af þessu eru meðhöndlaðir með lyfjum eins og Nexium, Omeprazole eða Ezomeprasol. Nexium er með söluhæstu lyfjum í Bandaríkjunum og eyða Bandaríkjamenn 13 milljörðum dollara í þetta lyf á ári. Þetta eru sýruhamlandi lyf. Notkun þeirra hefur áhrif á magasýrurnar þannig að maginn verði minna súr. Lyfin hafa merkilega góð áhrif á magann og geta þeir sem þjáðst hafa af vélindabakflæði lifað eðlilegu lífi án óþæginda sem fylgja bakflæði. Það er þó einn hængur á og hann er sá að lyfin lækna ekki bakflæðið heldur halda bara einkennum niðri. Það er því líklegt að þeir sem nota þessi lyf þurfi á þeim að halda í fjölda ára ef ekki ævilangt.
Rannsóknir á vélindabakflæði og sýrustigi magans benda hinsvegar til þess að ekki sé endilega samhengi á milli súrs maga og bakflæðis.
Þetta kemur fram í samantekt eftir Chris Kresser (1) sem er nálastungufræðingur og áhugamaður um heilbrigðan lífsstíl. Hann vitnar í rannsóknir læknisins Jonathan Wright, á Tahoma Clinic í Washington fylki. Wright kemst að þeirri niðurstöðu að þegar sýrustig magans er mælt í einstaklingum með brjóstsviða og bakflæði kemur í ljós að sýran í maga þeirra er alls ekki sterk. Magasýran veikist í fólki eftir því sem það eldist en hinsvegar hækkar tíðni vélindabakflæðis eftir því sem aldurinn færist yfir.
Á 25 ára rannsóknarferli hefur Wright sjaldan fundið einstaklinga með mjög súra maga. Það sem meira er og ekki lítið athyglisvert er að rarnnsóknir Wright (2) sýndu að ef sjúklingum með vélindabakflæði voru gefin lyf til að styrkja sýrustig magans þá hurfu einkenni bakflæðis. Ekki síður athyglisvert er að melting þessara einstaklinga stórbatnaði og heilsan um leið.
Þetta er þversögn á það sem almennt er haldið fram um vélindabakflæði. Það er líka áhugavert að lyf sem sjúklingar taka eru til þess gerð að minnka magasýrur eða veikja þær. Þá er komin upp skrýtin staða. Lyf sem halda einkennum niðri eru hugsanlega að viðhalda sjúkdómnum.
Í greininni bendir Kresser á að þetta snýst jú um það að magasýrur eru að gúlpast upp í vélindað og valda bólgum og öðrum skaðlegum áhrifum. Wright segir að það sé í raun nákvæmlega sama hvort magasýrur séu sterkar eða veikar þær hafi alltaf skaðleg áhrif á vélindað. Þá snýst þetta ekki um súrar magasýrur heldur spurninguna; hvers vegna gúlpast þær upp í vélindað. Skýringin er sú að neðra op vélindans sem opnast niður í maga lokast ekki eða illa. Sýrur og gufur af sýrum eiga greiða leið upp vélindað og fara þar um öndunarfæri með tilheyrandi afleiðingum. En hvers vegna opnast þessi loka? Í grein í tímaritinu Gastroenterology er fjallað um rannsókn sem sýnir að innri þrýstingur í kvið valdi því að lokan opnar og að þessi þrýstingur stafi af gasmyndun í maga. Það er þó varla næg skýring.
Í bókinni Heartburn Cured eftir örveirufræðinginn dr. Norm Robillard (3) kemur fram áhugaverð kenning. Hann talar um að vanuppleysing kolvetna í maga leiði til kjöraðstæðna fyrir bakteríur í maga. Ef mikið er af bakteríum í maga og gerjun byrjar að eiga sér þar stað, þá valdi það loftmyndun sem geti þrýst á efra magaopið og hleypt þannig lofti mettuðum magasýrum upp í vélindað. Gerjun getur átt sér stað ef magasýrurnar ná ekki að leysa almennilega upp matinn sem neytt er. Því meira af kolvetnum sem neytt er því meiri líkur eru á að þetta gerist.
En hvers vegna í ósköpunum þrífast bakteríur í maganum? Þarna eiga ekki að þrífast bakteríur og lengi vel var talið útilokað að slíkt gæti átt sér stað. Það var ekki fyrr en uppgötvaðist fyrir mörgum árum að baktería að nafni Helicobakter Pylori var valdur að magasári. Einföld sýklameðferð dugði allt í einu til að lækna magasár.
Núna er sú staða að verða nokkuð skýr að ef vélindabakflæði er að valda óþægindum og ráðið sem notað er fellst í að minnka sýruna í magasýrum þá þrífast örveirur frekar. Örveirur eiga ekki að þrífast í maganum svo neinu nemi en ef sýrstig magans er minnkað þá myndast kjörlendi fyrir bakteríur og þá er ekki ólíklegt að baktería eins og Helicobacter Pylori komi sér fyrir og valdi tilheyrandi skaða með gasmyndun vegna vanuppleystra kolvetna.
Það sem verra er og ekki síður mikilvægt er sú staðreynd að illa uppleystur og kolvetnaríkur matur fer í meltingarvegin og veldur þar gerjun og gasmyndun sem aftur veldur óþægindum, þembu, meltingartruflunum og iðraólgu (Irritable Bowel Syndrome).
Rannsókn (4) í Bandaríkjunum sýndi að samhengi er á milli vélindabakflæðis og iðraólgu og allt að 71% þeirra sem þjáðir eru af vélindabakflæði voru einnig með iðraólgu. Önnur og nýlegri rannsókn framkvæmd af Malekzadeh & Moghaddam (5) sýnir skýrt samhengi milli vélindabakflæðis og iðraólgu. Sextíu og fjögur prósent sjúklinga með iðraólgu voru einnig með vélindabakflæði og 34% sjúklinga með vélindabakflæði voru einnig með iðraólgu. Rannsóknin náði til 6476 einstaklinga.
Líkurnar á því að Helocobakter Pylorisé sé megin vandamálið vélindabakflæði eru all nokkrar. Það er vitað að nálega 50% mankyns er smitað af H.p. og vitað er að H.p. bakterían hefur þau áhrif á magann að lækka sýru innihald magasýra (hækka PH gildi magasýra). Meðferð gegn H.p. hefur sýnt aukningu magasýra (6) í kjölfar meðferðar.
Það er fleira sem gerist þegar magasýrurnar dofna. Meltingin verður lakari og upptaka nauðsynlegra næringarefna dofnar verulega. Niðurbrot og melting næringarefna er svo mikilvæg að það eitt að melting er í óreglu getur leitt til vandamála eins og blóðleysis, beinþynningu, þunglyndis, hjarta og æðasjúkdóma, svo eitthvað sé nefnt. Eitt af frumskilyrðum góðrar meltingar eru magasýrur. Þær brjóta niður prótein, kolvetni og fitu.
Þegar matar er neytt aukast magasýrur í maganum og aukning magasýra kallar á myndun pepsína. Pepsín eru ensím sem líkaminn þarf til að melta prótein. Ef magn magasýru er óeðlilega lágt þá á það einnig við um pepsín. Það þýðir að prótein brotnar ekki niður í amínósýrur og peptíð eins og á að vera. Þetta getur leitt til skorts á amínósýrum í líkamanum sem aftur getur leitt til þunglyndis, kvíða og svefnleysis.
Prótein sem ekki meltast vegna skorts á pepsín getur endað í blóðrásinni með þeim afleiðingum að ónæmiskerfið bregst harkalega við og getur valdið ofnæmiseinkennum en einnig ónæmissjúkdómum. Vítamínupptaka verður skert ef magasýrur eru ónógar og er vel þekkt að B-12 skortur getur komið fram, B-9 skortur, kalkskortur og sinkskortur. Járnskortur gerir einnig vart við sig. Þeir sem þjást af vélindabakflæði þurfa samkvæmt þessu að huga vel að ofangreindum vítamínum. Það er jafnframt vel þekkt að smit af H.p. bakteríunni veldur einnig lakari upptöku B-12 úr fæðunni (7).
Það sem helst heldur bakteríumyndun niðri í maganum eru magasýrur. Til þess að magasýrur drepi bakteríur þurf þær að vera súrar og þarf sýrustigið að vera undir 3PH. Því lægri sem PH talan er því súrari er lausnin. Einstaklingar sem tekið hafa sýruhamlandi lyf eru gjarnan með sýrustig upp á 5 eða hærra og er því orðin gagnslaus til meltingar á mat. Það sem verra er; bakteríur þrífast vel með fyrrigreindum afleiðingum.
En hvað er hægt að gera í málinu? Auðvitað er skynsamlegt að leita læknis og viðra þessa hugmynd og skyldi enginn með vélindabakflæði á háu stigi fikta við tilraunir nema í samráði við lækni. Chris bendir á nokkur ráð fyrir utan að fá lyf hjá lækni. Í fyrsta lagi þarf að breyta mataræði á þann veg að minka kolvetnaneyslu.
Rannsóknir frakvæmdar (8) af Yancy og félögum sýndi að kolvetnasnautt (9) mataræði minnkar verulega einkenni vélindabakflæðis. Önnur regla er að borða aldrei of mikið í hvert mál. Sneiða hjá frúktósa ríkri fæðu og alls ekki neyta gervisætu. Forðast mjög trefjaríka fæðu. Ekki drekka vökva með mat því það þynnir magasýrurnar. Nota bitrar jurtir eins og túnfífil, fennil, mjólkurþistil, piparmyntu, malurt og engifer svo eitthvað sé nefnt, en grasalæknar geta ráðlagt frekar um hvað hentar. Einnig er gott að nota acidophilus og neyta gerjaðrar fæðu eins og AB mjólkur. Auðvitað þarf svo að huga að því að taka inn vítamín sem áður voru nefnd, B-12, B-9, (fólínsýra) Sink,kalk og járn.
Valdemar Gísli Valdemarsson 18.09.2013
1 – http://chriskresser.com/what-everybody-ought-to-know-but-doesnt-about-heartburn-gerd
3 -http://www.amazon.com/Heartburn-Cured-The-Carb-Miracle/dp/0976642506/ref=sr_1_1?ie=UTF8&qid=1352653327&sr=8-1&keywords=heartburn+cured
4 -http://journals.lww.com/jcge/Abstract/2002/03000/Increased_Prevalence_of_Irritable_Bowel_Syndrome.4.aspx
5 – http://www.wjgnet.com/1007-9327/pdf/v16/i10/1232.pdf
6 – http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/9696699
7 – http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/12485119
8 – http://www.springerlink.com/index/M731QXK14GUQ1J06.pdf
Flokkar:Annað