Áhugaverð nýjung í meðferð á astma

Eftirfarandi grein er þýdd úr nýlegu Bottom Line´s Daily Health netfréttabréfi og er hægt að finna á vefslóðinni: http://www.bottomlinesecrets.com/article.html?article_id=100003240

Hún er áhugaverð fyrst og fremst fyrir það, að hún kynnir til sögunnar nýja og að því er virðist árangursríka aðferð til meðhöndlunar á astma án lyfja. Meðferðin er framkvæmd með rafsegulbylgjum – en meðhöndlanir með ý.k. bylgjum njóta nú vaxandi áhuga bæði sem hefðbundin og óhefðbundin meðferðarform. Sú meðferð sem hér er kynnt stendur enn sem komið er einungis til boða sjúklingum í Bandaríkjunum, en m.v. niðurstöður um árangur er  ólíklegt annað en að í framtíðinni muni skurðlæknar annarsstaðar í heiminum tileinka sér þessa kunnáttu og bjóða uppá sambærilegar aðgerðir hver í sínu landi. Þetta eru sérlega ánægjulegar fréttir fyrir astmasjúklinga og vonandi forsmekkur að einhverju fleiru góðu úr þessari átt í framtíðinni:

Lækning á astma með aðgerð hjá skurðlækni fækkar astmaköstum um 30%

Ný tegund aðgerðar, sem framkvæmd er af skurðlækni, gæti reynst hafa mikil áhrif til bóta fyrir líf þeirra sem þjást af krónískum astma og hafa ekki getað fengið bót með stöðluðum meðferðarúrræðum – hún gæti jafnvel bjargað lífi þeirra. Þessi aðferð sem kallast ,,bronchial thermoplasty“, var samþykkt af Matvæla og lyfjastofnun Bandaríkjanna fyrir um ári eða í apríl 2010. Hún er einungis framkvæmd á 23 spítölum um landið (á við um Bandaríkin), en er þess virði að skoða sem kost  ef þú eða einhver þér nákominn þjáist af síendurteknum astmaköstum sem ekki hefur verið hægt að lagfæra með hefðbundnum aðferðum. Enn sem komið er benda sannanir til að þessi aðferð, þ.e. fyrsta meðferð við astma án lyfja, dragi stórlega úr tíðni astmakasta og bæti lífsgæði tengd astma.

Álitið er að meira en 23 milljónir Bandaríkjamanna (þ.m.t. sjö milljónir barna) þjáist af astma, krónískum sjúkdómi sem veldur bólgum og þrengslum í öndunarvegi. Sumir einstaklingar eru fæddir með tilhneygingu til astma vegna ofnæmis eða þróa hann með sér eftir að hafa orðið fyrir skaða af völdum reykinga annarra. Hjá öðrum getur ástæðan verið ófyrirsjáanlegri t.d. veirusýking.

Hjá fólki með astma, verður lag mjúkra vöðva sem umlykja öndunarveginn þykkara og bregst frekar við ákveðnni örvun útskýrir Sumita B.Khatri, MD, meðstjórnandi  Asthma Center í Cleveland Clinic´s Respiratory Institute. Þegar manneskja með astma fær kast, dragast vöðvarnir umhverfis loftveginn saman vegna krampa, sem gerir það að verkum að öndunarvegurinn þrengist, öndun grynnist og andþrengsli verða, ásamt fleiri óþægilegum einkennum.

Minnkar bólgur í loftvegi
Þvert á móti virkni astma-lyfja, sem hafa það að markmiði að lina bólgur og geta að auki dregið eitthvað úr vöðvaþykknun, meðhöndlar ,,bronchial thermoplasty“ öndunarveginn beint með hita búnum til með rafsegulbylgjum.

Meðhöndlunin er greinilega mjög árangursrík. Handahófskennd, tvíblind stýrð rannsókn sem náði yfir 12 mánaða tímabil á u.þ.b. 300 sjúklingum leiddi í ljós að þeir sem fóru í ,,bronchial thermoplasty“ meðhöndlun, fengu afar mikla bót á lífi sínu m.a.

• að meðaltali 32% fækkun astma kasta
• 84% fækkun í heimsóknum á bráðamóttökur spítala
• 66% fækkun í töpuðum vinnu- eða skóladögum
• 73% fækkun í innlögnum á spítala vegna öndunarvandamála.

Dr.Khatri tjáði mér að tveimur árum eftir fyrstu klínísku prófanirnar séu framfarirnar enn til staðar – þ.m.t. að ekki sé einungis fækkun á einkennum almennt séð, en einnig í tíðni alvarlegra astmakasta og innlögnum. Margir sjúklingar hafa einnig minnkað þörf sína fyrir lyf til notkunar í neyðartilvikum.

Meðferðin ekki sársaukafull
,,Bronchial thermoplasty“ meðhöndlun er framkvæmd í þremur klukkustundar löngum aðgerðum með þriggja vikna millibili.  Í hverri aðgerð fær sjúklingurinn létt róandi lyf –margir sofna. Hver hinna þriggja aðgerða hefur að markmiði að meðhöndla mismunandi hluta lungnanna  – í fyrstu aðgerðinni er unnið með loftveginn í neðra lungnablaði hægra megin. Í annarri aðgerð er unnið með neðra lungnablaðið vinstra megin og í þriðju aðgerðinni eru öndunarvegir beggja efri lungnablaða meðhöndlaðir.

Hvað felur aðgerðin í sér: Lungnasérfræðingurinn þræðir langa, sveigjanlega pípu kallaða lungnasjá í gegnum munn eða nef niður í loftveg lungnanna. Inni í lungnasjánni eru rafskaut sem hitað eru með hátíðni raforku. Það gerir það að verkum að vöðvinn minnkar og það er talið koma í veg fyrir hinn mikla vöðvasamdrátt sem á sér stað í astmakasti. “ Reiknað er með að þessi árangur sé varanlegur, en enn liggja ekki fyrir nægjanlega mikil gögn til að geta verið alveg viss” segir Dr.Khatri.

Það eru engar taugar sem eru viðkvæmar fyrir sársauka í loftveginum, þannig að notkun varmaorku er ekki sársaukafull fyrir þyggjandann. Fylgst er með sjúklingunum í nokkrar klukkustundir eftir aðgerðina þar sem einkenni geta stundum versnað tímabundið. Til að minnka líkurnar á að það gerist, taka sjúklingarnir fimm daga kúr á sterum fyrir og eftir aðgerð. Þó ,,bronchial thermoplasty“ sé oft framkvæmd á göngudeildarsjúklingum, segir Dr. Khatri að á Cleveland Clinic séu sjúklingar hafðir inni yfir nótt til að auka á öryggi. Hún segir að strax eftir aðgerðina upplifi sumir sjúklingarnir vanlíðan svipaða því að astmi sé að gjósa upp og kallar það á meðhöndlun bráðalyfja til að slá á einkennin. Einnig hafa margir sjúklinganna særindi í hálsi eftir lungnasjána en aðrar hugsanlegar hliðarverkanir geta verið eymsli í brjóstholi eða verkir, samfall á lungnahlutum (alvarlegt en hægt að meðhöndla), höfuðverkur, kvíði og ógleði.

Ertu þú hæfur umsækjandi ?
,,Bronchial thermoplasti“ hefur aðeins hlotið samþykki Matvæla og lyfjastofnunar Bandaríkjanna fyrir fólk 18 ára og eldra með alvarleg, þrálát einkenni astma sem ekki hefur tekist nógu vel að meðhöndla með astmalyfjum. Aðgerðina er ekki hægt að framkvæma á reykingarfólki, fólki með virkar öndunarfærasýkingar eða hjartsláttaróreglu, né heldur þeim sem eru með hjartagangráð eða önnur rafmagnstæki í líkamanum.

,,Bronchial thermoplasty“ er dýr aðgerð – kostar allt að 15.000 bandaríkjadali – og þar sem aðgerðin telst enn á tilraunastigi tekur sjúkrasamlag ekki þátt í kostnaði né heldur tryggingarfélög. Þrátt fyrir það telur Dr.Khatri að von sé til að þetta breytist með tímanum þegar fleiri sjúklingar upplifi umtalsverðar jákvæðar breytingar í kjölfar slíkrar aðgerðar.

Á meðfylgjandi slóð er að finna lista yfir sjúkrahús og lækna sem framkvæma þessa aðgerð: http://www.BTForAsthma.com/bronchial-thermoplasty/procedure-availability/.

Heimild: Sumita B. Khatri, MD, MS, meðstjórnandi Asthma Center, The Respiratory Institute, Cleveland Clinic Foundation, Cleveland, Ohio, Bandaríkjunum.

 

 Flokkar:Meðferðir

Flokkar/Tögg, , , , , ,

%d