Hráfæði

Hér á landi eru æ fleiri farnir að sýna áhuga nýjum áherslum í fæðuvali, svonefndu hráfæði. Þótt hér sé þetta nefnt nýjar áherslur, er þó sennilega réttara að nefna þær elsta fæðuval í heimi, maturinn sem fólk borðaði áður en það uppgötvaði eldinn. Þetta fæði fer nú eins og eldur í sinu um heimsbyggðina og upp spretta nýir hópar og ný veitingahús þar sem fólk borðar svona mat saman.

Hvað er hráfæði?
Hráfæði er hægt að lýsa á einfaldan máta: hrátt grænmeti, ávextir, hnetur og fræ. Þessi upptalning segir þó ekki alla söguna, því að vissulega er hægt að setja saman matseðil með þessu hráefni á mjög mismunandi hátt. Hér verður til gamans settur fram matseðill að máltíð sem auðvelt er að búa til:

Gulrótasúpa með möndlukexi, rófuréttur með kasjúhnetum, ólífum og karrí, hrásalat með sólþurrkuðum tómötum, kínakáli og spergilkáli. Súkkulaðibúðingur úr lárperum, banönum og karobdufti. Sú ímynd sem flestir fá af hráfæðisfólki er að þetta sé meinlætahópur sem lifi aðallega á gulrótum og káli sem það narti í. Matseðillinn hér að ofan ætti að geta leiðrétt þann misskilning. Hráfæðisfólki þykir margskonar matur góður eins og öðrum og lætur eftir sér að búa til gómsæta rétti og kökur til að krydda lífið. Eina skilyrðið er að hráefnið sé hrátt og að maturinn sé ekki eldaður við hita, heldur matreiddur hrár.

Hvers vegna hráfæði?
Kostir þess að borða hráfæði hafa lengi verið ljósar. Fólki líður betur og það er við betri heilsu ef það borðar mat eins og hér hefur verið lýst. Hvers vegna þetta gerist er þó ekki eins ljóst. Ýmsar skýringar hafa verið settar fram. Sú sem fólk hefur lengst hallast að er sú, að hrár matur inniheldur alla sína eðlilegu efnahvata (ensím) og líkaminn getur notað þá við meltinguna. Þá þurfum við ekki að nota efnahvata líkamans til að melta matinn og getum betur notað þá til annarra hluta. Margir efast þó um þessa skýringu og segja að efnahvatarnir verði lítils virði þegar þeir eru búnir að fara í gegnum magasýrurnar. Þeir sem hallast að efnahvataskýringunni segja að kostirnir við að maturinn innihaldi eigin efnahvata séu aðallega þeir að meltingarfærin í munninum þekki efnahvata í hráum mat og geti þá stjórnað því, hvaða meltingarvökvar séu notaðir í maganum. Þannig verði meltingin auðveldari og skilvirkari.

Önnur skýring hefur einnig verið sett fram. Með nýrri tækni til að skoða í smásjá blóð sem enn er lifandi, hefur fólk séð að líkaminn nýtir hráan mat á annan hátt en soðinn. Þegar fólk borðar hráan mat eru rauðu blóðkornin laus hvert frá öðru og sveima um blóðvökvann hvert í sínu lagi. Um leið og soðinn matur kemur í meltingarfærin, safnast þessi blóðkorn saman í kekki. Þannig eiga þau erfiðara með að bera súrefni til líffæranna. Þar sem þetta er aðalhlutverk rauðu blóðkornanna og súrefni er öllum líffærum lífsnauðsyn, er augljóst að það er afar mikilvægt að ýta undir að þau geti rækt hlutverk sitt á sem bestan hátt.

Þriðja skýringin er sú, að ef við lítum til dýraríkisins í heild og athugum hvaða dýr borða soðinn mat, kemur fljótlega í ljós að það er aðeins ein tegund sem það gerir, nefnilega maðurinn. Maðurinn er vissulega eina tegundin sem hefur getað beygt eldinn í sína þjónustu til að nota hann í þessum tilgangi, en þar með er ekki sagt að þetta sé það sem henti líkama hans best. Reyndar virðist það heldur ólíklegt ef málið er skoðað í vistfræðilegu ljósi. Líkami okkar varð til fyrir mörgum aldaþúsundum, löngu áður en við uppgötvuðum eldinn, og það er ekki líklegt að bygging hans hafi breyst á þessum tíma á svo byltingarkenndan hátt, að það henti okkur skyndilega (á mælikvarða þróunarinnar) að sjóða það sem við biðjum hann að melta.

Hvaða kosti hefur það að borða hráfæði?
Fyrsti og augljósasti kosturinn við að borða hráfæði er að fólki líður betur. Þeir sem borða kjöt, þekkja tilfinninguna að hafa stein í maganum þegar búið er að innbyrða stóra kjötmáltíð með öllu tilheyrandi. Óþægindatilfinningar af þessu tagi heyra sögunni til þegar fólk lifir á hráfæði eingöngu. Margir lýsa því að þeir þurfi minni svefn, gangi betur að einbeita sér, og að matur verði ekki lengur eins mikið aðalatriði í lífsmynstri þeirra og áður. Allt bætir þetta almenna líðan. En hráfæði hefur einnig fleiri kosti. Þegar ekkert annað er borðað en hrár matur, fer líkaminn sjálfkrafa í þá lögun sem honum hentar best. Þeir sem þurfa að grennast, gera það án nokkurra átaka og þeir sem þurfa að bæta utan á sig, gera það einnig. Fyrstu viðbrögð líkamans eru reyndar yfirleitt að fólk grennist verulega, en svo bætir það á sig aftur þeirri þyngd sem líkaminn ákvarðar sjálfur. Þeir sem vilja hafa mikla vöðvabyggingu, geta æft hana upp á hráfæði.

Margir ákveða að þeir verði of grannir og vöðvarýrir án líkamsræktar, enda er hún mjög vel viðeigandi viðbót við hráfæði. Fáir myndu bera á móti því að hráfæði sé hollur matur. Það reynist enda svo, að þeir sem lifa á þessu fæði, eru yfirleitt við afar góða heilsu, fá sjaldan kvef eða aðrar umgangspestir. Í hópnum sem hittist hérlendis og borðar saman hráan mat, geta margir sem lifa algerlega á hráfæði sagt litríkar sögur af því hvernig heilsa þeirra breyttist til hins betra við umskiptin yfir á hráfæði. Gigt og vöðvaverkir er meðal þess sem hefur greinanlega látið undan síga við þetta fæði. Á internetinu er hægt að lesa frásagnir fólks sem hefur læknað sig af alls konar kvillum og þakkar hráfæðinu það, þar  meðal er krabbamein og sjálfsofnæmi. Neikvæðar afleiðingar við hráfæði eru fyrst og fremst félagslegar.

Ekki treysta öll veitingahús sér ennþá til að setja fram hráfæðismáltíð, þótt mörg þeirra geri það reyndar. Þegar fólk kemur í heimsóknir til vina og vandamanna, hefur nú breyst það sem hægt er að bjóða því. Margir leysa þetta með því að búa til litla hráfæðisköku og leggja á borð með sér, eða setja vínberjaklasa á disk. Þá er málið yfirleitt leyst. Þá ber þess einnig að geta, að sumir finna til nokkurra óþæginda í upphafi meðan líkaminn er að hreinsa út gömul eiturefni. Meðal þess sem fólk hefur upplifað á þennan hátt er höfuðverkur, niðurgangur, kvef og útbrot. Þetta tekur misjafnlega langan tíma, yfirleitt þó ekki mjög langan, og þegar því er lokið er heilsan yfirleitt afskaplega góð.

Að lokum
Ég hef nú borðað grænmetismat eingöngu í 16 ár. Þegar ég byrjaði að borða þennan mat, þótti ég afskaplega sérvitringsleg. Fá veitingahús buðu upp á grænmetisrétti og fæstir vissu hvað væri eiginlega hægt að bjóða mér. Nú er það orðinn sjálfsagður hluti af matseðli hvers sæmilega virðingarverðs veitingahúss að hafa a.m.k. einn grænmetisrétt á matseðlinum og það þykir ekki lengur neitt sérstaklega sérvitringslegt að borða ekki kjöt eða fisk.

Undanfarin 2 ár og ríflega það hef ég aðeins borðað hráfæði. Staðan er aftur orðin svipuð og þegar ég var að skipta yfir á grænmetisfæði. Enn veit fólk ekki vel hvað það getur boðið mér upp á og fá veitingahús gefa sig út fyrir að bjóða upp á hráfæðisrétti. Ég held að þróunin eigi eftir að verða svipuð í þessu og hún var með grænmetisfæðið. Eftir nokkur ár verða veitingahúsin komin með einn hráfæðisrétt eða svo á matseðilinn og hráfæði verður orðið viðurkenndur hluti af flórunni í mataræði fólks. Nú þegar eru komin fjölmörg veitingahús víða um lönd, þar sem eingöngu er boðið upp á hráfæði, og þeim fjölgar stöðugt. Þrátt fyrir þessi félagslegu vandkvæði er ég ákveðin í að halda áfram að borða hráfæði.

Heilsa mín er orðin miklu betri en áður, líkamslögunin mun betri, og þar að auki er þetta svo góður matur að ég gæti ekki hugsað mér annan betri. Ef við viljum hugsa um það sem er gott fyrir okkur og gott fyrir jörðina sem við höfum tilveru okkar bundna við, hlýtur að vera augljóst að hráfæði er góður kostur, sérstaklega ef það er lífrænt ræktað. Ég sting upp á að sem flestir prófi.

Höfundur:Sigurlína Davíðsdóttir Lektor í uppeldis- og menntunarfræði Háskóla ÍslandsFlokkar:Næring

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , ,

%d