Sveppasýking veldur gerjun í þörmum

1. kafli bókarinnar Candida sveppasýking, eftir Hallgrím Þ. Magnússon lækni og Guðrúnu Bergmann. Candida er heiti á sveppum, sem þrífast í líkama okkar og sem undir venjulegum kringumstæðum eru okkur skaðlausir. Ónæmiskerfi líkamans og aðrar bakteríur sem er að finna í og á líkamanum sjá um að halda sveppagróðrinum í skefjum. Þegar breytingar verða í líkama okkar, t.d. í ristlinum, ná þessir sveppir sem eru myglusveppir að fjölga sér þannig að þeir geta valdið skaða í líkamanum, sem kemur fram sem vanlíðan.

Þar sem Candida sveppurinn er myglusveppur sem fjölgar sér án þess að þurfa á öðrum svepp að halda, þ.e.a.s. í gegnum svokallaða kynlausa fjölgun, þá getur einn sveppur fjölgað sér mjög hratt og valdið okkur vandræðum. Til hliðsjónar getum við haft í huga hvað myglan nær sér fljótt á strik, t.d. í brauði og í húsnæði þar sem mikill raki er. Sveppasýking í líkama okkar á alltaf rætur sínar að rekja til ristilsins. Þegar hún nær sér á strik, getur hún valdið mjög mörgum sjúkdómseinkennum, en algengast er að einkennin komi fram í þremur líffærakerfum. Í fyrsta lagi skapa einkennin vandamál í meltingar- og þvagfærakerfi líkamans, í öðru lagi skapa þau ofnæmissvörun og í þriðja lagi einkenni sem rekja má til taugakerfis, t.d. þreytu, spennu og svefnleysis.

Talið er að Hippocrates hafi fyrstur lýst sjúkdómseinkennum sem rekja má til sveppasýkingar fyrir um það bil 2000 árum. Á síðustu 100 árum hafa komið fram margar rannsóknir sem sýna fram á skaðsemi sveppasýkingar fyrir manninn. Erfitt hefur verið að fá heilbrigðisyfirvöld til að leggja trúnað á þessar rannsóknir og bregðast við þeim á réttan hátt. Þeir sem hafa stundað þessar rannsóknir og aðrir sem hafa kynnt sér niðurstöður þeirra eru sammála um aukna tíðni sveppasýkingar, þ.e.a.s. að einkenni sem rekja má til hennar hafi aukist mjög mikið á síðustu árum, sem aftur má rekja til hinna miklu breytinga sem hafa orðið á lifnaðarháttum manna, sérstaklega í hinum vestræna heimi. Smátt og smátt hafa þó augu lækna opnast fyrir þessum upplýsingum þannig að í kringum 1980 var talið að 2% lækna í Bandaríkjunum aðhylltust þessar kenningar, en þeir voru orðnir 12% árið 1993. Það eru mjög margar tegundir af ýmsum örverum í líkama okkar, en flestar tegundirnar er að finna í ristlinum.

Margir telja að hægt sé að finna yfir 500 tegundir af örverum í ristlinum og fjöldi þessara örvera getur orðið margar trilljónir. Þegar líkami okkar er heilbrigður, er jafnvægi á milli þessara 500 tegunda og þær lifa í sátt og samlyndi sín á milli. Þegar breyting verður á þessu jafnvægi, verða til ótal sjúkdómseinkenni sem flest má rekja til breytinga á bakteríu innihaldi eða örveruinnihaldi ristilsins. Í þörmum okkar eru yfir 81 tegund af Candida sveppum og undir venjulegum kringumstæðum brýtur myglusveppur eins og Candida niður og eyðir dauðum, rotnandi mat og myndar þannig næringu fyrir sig.

En þegar Candida sveppirnir fjölga sér í óeðlilegu magni mynda þeir nokkurs konar efnaskiptahús sem framleiðir mörg mismunandi efni, t.d. ýmis efni sem innihalda alkahól. Þessi efni geta skipt þúsundum og myndast í þörmum okkar fyrir atbeina Candida sveppsins. Í meltingar- og hreinsiferlinu fara þessi efni síðan í gegnum ristilvegginn og inn í blóðið og þaðan í lifrina, sem á að gera þau skaðlausfyrir líkamann. En þegar hún nær ekki að vinna það verk, sökum ofurálags af rangt samsettu fæði, ferkerfið að veikjast og í líkamanum birtast ýmis sjúkdómseinkenni sem talin eru eiga rætur sínar að rekjatil of mikillar gerjunar í þörmunum.

Endurbirt með leyfi höfundar. 1. kafli bókarinnar Candida sveppasýking, eftir :

Hallgrímur Magnússon     Hallgrím Þ. Magnússon og Guðrúnu Bergmann  0r7b8569_20x20sv_1298651Flokkar:Líkaminn

%d