Heilsan bætt á Breiðdalsvík

Rætt við Sigrúnu Oddgeirsdóttur um undraverðan bata á liðagigt eftir breytingu á mataræði og ósónmeðferð á Breiðdalsvík

Sigrún greindist með liðagigt 1982. Eftir sjúkrahúsvist var byrjað á gullsprautumeðferð sem varaði í 15 ár, eða þar til hún þoldi ekki lengur lyfið. Árið 1993 var ákveðið að skipta um hnúa í hægri hönd hennar vegna þess að hnúarnir voru orðnir svo illa farnir af sjúkdómnum. Ekki tókst þá betur til en svo að of stórir liðir voru settir í staðinn og ber höndin þess menjar síðan. Eftir að gullsprautunum var hætt var reynt Methotrexat krabbameinslyf ásamt Prednisolon steralyfi.

Við það blés líkaminn út og líðanin versnaði. Þegar komið var fram á árið 1999 var henni gefið lyfið Remacate sem þá var nýtt í Bandaríkjunum. Gigtarlæknarnir á Landspítalanum fengu leyfi til að prófa að gefa tíu verst höldnu sjúklingunum lyfið. Við inntöku þess fór hún að kenna hjartaverkja og varð mjög veik af. Um tíma var vafi á að hún hefði það af. Eftir veikindin ákvað hún að hætta inntöku Remacate lyfsins áður en það yrði henni að fjörtjóni. Hér fer á eftir frásögn Sigrúnar þegar hún snéri vörn í sókn, breytti um maratæði og fór í ósónmeðferð.

Vorið 2001 sóttu börnin mín um meðferð fyrir mig á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Áður en til þess kom fór ég í greiningartæki til Ægis Bessasonar í Hafnarfirði. Tækið greinir hvaða fæða er manni holl eða óholl. Ég var furðu lostin að heyra niðurstöður tækisins sem sagði að fæðið sem ég var búin að leggja áherslu á að borða í áratugi væri mér óhollt. Eins og: Kartöflur, blómkál, laukur, bananar, gulrætur, rófur, tómatar, paprika, heilhveiti, hafrar, hveiti bygg, maís, feitur fiskur, og mjólkurvörur. Aftur á móti sagði tækið að ég ætti að borða: Kjúkling, ýsu, lambakjöt, spergilkál, aspas, púrrulauk, sætar kartöflur, hrísgrjón og eingöngu brauð úr speltmjöli. Enga aðra ávexti en epli, perur og ananas.

Þó að grænmetis og baunafæði ráði ríkjum á Heilsustofnun NLFÍ ákvað ég að þiggja meðferð þar í nokkrar vikur og sneiddi hjá því sem mér var óhollast en tók svo til óspilltra málanna að breyta fæðinu þegar heim kom. Árangurinn kom fljótt í ljós öll líðan varð betri og batnaði stöðugt. Ég fór að taka inn seyðið hans Ævars Jóhannessonar en tók einnig Vioxx gigtarlyfið. Tvö ár eru síðan og líðan mín hefur batnað stöðugt. En ef ég fer út af sporinu með næringuna finn ég það eftir augnablik og er algengt að eftir sex klukkutíma sé ég komin með sára verki í alla liði. Þegar slíkt hefur hent mig hef ég drukkið vatn þar til verkirnir hætta.

Nýtt verkjalítið líf
Svo las ég um ósónlækningar á Djúpavogi í viðtali við Hallgrím Magnússon lækni á bls. 10 í vorblaði Heilsuhringsins 2003. Ég ákvað nærri samstundis að kanna nánar möguleika á að komast í slíka meðferð. Í gegnum ættingja á Breiðdalsvík komst ég að því að slíka meðferð var einnig hægt að fá þar, vegna þess að þegar kvenfélagið á Breiðdalsvík heyrði um hve margir haldnir mismunandi sjúkdómum fengu betri líðan eftir ósónmeðferð á Djúpavogi ákvað félagið að kaupa súrefniskassa sem þarf til meðferðinnar til að gera fólki á staðnum kleift að njóta ósónmeðferðar. Klukkutíma akstur er á milli staðanna, svo að margir eiga óhægt með að komast í meðferð til Djúpavogs. Hallgrímur þjónar báðum stöðunum og kemur til Breiðdalsvíkur tvisvar í viku.

Eftir að hafa talað við Hallgrím og falast eftir meðferð hringdi ég á hótel Bláfell og samdi um leigu á herbergi í þrjár vikur og ákvað að drífa mig austur þrátt fyrir að þurfa að keyra 1200 kílómetra fram og til baka. Meðferðin var þrenns konar. Fyrst var hitameðferðin í ósónkassanum sem tók frá 20 til 30 mínútur. Sest er nakinn inn í kassann sem var með stól í miðjunni og hurðum sem opnuðust til beggja hliða, aðeins höfuðið stendur uppúr. Síðan er ósóninu hleypt á kassann, en í honum er einnig slanga með túðu sem hægt er að beina að einstökum stöðum sem þurfa sérstakrar meðferðar. Hiti kassans er stillanlegur.

Eftir að meðferðinni í kassanum var lokið var farið í sturtu og síðan í Aqua Detoxtm fótatæki sem er með tímateljara. Í það er sett volgt vatn sem nær upp að ökkla og örlitlu salti bætt í vatnið. Í miðjunni er lítið rafsegultæki sem gefur frá sér vissa tíðni. Rafsegulsveiflur fara í gegn um vatnið í tækinu sem kemst í snertingu eða tengsl við vökva/vessa líkamans. Dr. Royal R. Rife sem upphaflega framleiddi tækið sagðist hafa uppgötvað að hvert líffæri í líkamanum hafi sérstaka tíðni og eins hafi hver sjúkdómur ákveðna tíðni og sjúkdómar eyðist við hærri tíðni en þeirra eigin.

Þegar líffæri sýkist eykst rafhleðsla ýmissa efna í líkamanum en önnur efni tapa hleðslu í líkamsvessum/vökvum og mynda þannig breytingu í tíðninni. Þetta er vegna utanaðkomandi efna eða úrgangsefna sem byggja upp eigin tíðni sem trufla tíðnina sem einkennir heilbrigt ástand. Þegar líffæri er hjálpað með svona tíðni nær það aftur upp sinni réttu tíðni og losar sig við efnin sem loddu við það.

Af þessum ástæðum breytir vatnið sem umlykur fæturna smám saman um lit og getur breyst úr tæru í ljós gult, dökkgult, appelsínugult og brúnt, slímkennt og marga liti af loftbólum. Allt brýst þetta út í vatnið úr meira en 2000 svitaholum iljanna. Gult gæti komið frá kynfærum, nýrum eða blöðru. Appelsínugult-brúnt frá liðunum. Grænt, dökkbrúnt til svart frá lifur, gallblöðru eða þörmum. Hvítt frá sogæðum eða vessaæðum. Svart gæti verið þungmálmar. Loftbólur af ýmsum litum gætu verið slím eða sýkingar. Fita eða olía sem flýtur ofan á vatninu er bara uppsöfnuð líkamsfita. Tækið er ekki ráðlagt fyrir fólk sem er með hjartagangráð, ígrædd líffæri, flogaveiki eða ófrískar konur. Við fyrsta fótabaðið varð vatnið gult. Í næsta skipti varð það gruggugt og óhreinindin jukust eftir því sem skiptin urðu fleiri þar til í eitt skiptið varð það eins og skólp og ótrúlegt var að sjá fitubrákina sem kom. Eftir það skipti komu lítil óhreinindi í fótabaðið. Þriðji þáttur meðferðarinnar voru nálastungur hjá Hallgrími.

Allt þetta samanlagt hafði þau áhrif að ég fór að geta hreyft tábergið og ökklana sem voru búnir að vera stífir í átta ár. Þá gat ég farið að ganga nokkuð eðlilega aftur sem gerði mér kleift að fara í langa göngutúra. Ég gekk úti í náttúrunni og arkaði marga kílómetra í fjörunni og naut sjávarloftsins. Batinn var hreint ótrúlegur, bólgurnar minnkuðu, blóðflæðið varð betra og eðlilegur hiti kom í líkamann. Háræðaslit minnkaði og þreytan hvarf og líkast var að húðin yngdist.

Í viðbót við það sem áður er talið fór ég einnig í heilun til Njáls Torfasonar hóteleiganda á Breiðdalsvík. Því miður var mikið að gera hjá honum og því ekki tími fyrir fleiri skipti. En hann er magnaður heilari og stórmerkur maður, vildi ég gjarnan kynnast honum nánar og fá að njóta hæfileika hans. Nú eru liðnir þrír mánuðir síðan ég kom heim frá Breiðdalsvík og finn ég að nú væri þörf á frekari meðferð. Sjúklingur eins og ég sem hefur þjáðst lengi af liðagigt þarf eðlilega lengri meðferð og vil ég taka það fram að liðskemmdir lagast ekki. Þessi ósón meðferð gefur ótrúlegar vonir og hefur linað þjáningar fólks með ólíka sjúkdóma. Ég vil að lokum skora á heilbrigðisráðherra að kynna sér þessa tækni og spara íslenska lýðveldinu milljónir á milljónir ofan til kaupa á lyfjum og gera fólki kleift að komast í ósónmeðferð á hverri heilsugæslu á landinu.

Viðtlaið skrifað árið 2003 – I.S.   Sigrún lést árið 2012 Flokkar:Reynslusögur

Flokkar/Tögg, , , , , , , ,

%d bloggers like this: