Gamlar og nýjar leiðir í krabbameinslækningum eftir Wayne Martin

Formáli þýðanda
Lesendur Heilsuhringsins eru vafalaust farnir að kannast við Wayne Martin, sem ég hef oft vitnað í eða birt eftir greinastúfa eða hluta greina á liðnum árum. Í janúarblaði Townsend Letter for Doctors and Patients, 2003 birtist eftir hann löng grein um krabbamein, en hann hefur oft áður skrifað um lækningar á krabbameini. Mér fannst þessi grein svo áhugaverð og fróðleg að ég ákvað strax að nota eitthvað af efni hennar í Heilsuhringinn, en við nánari athugun sá ég að greinin var svo merkileg að best mundi að þýða hana alla, þó að eitthvað hafi þar áður e.t.v. verið birt af líku efni.

En málshátturinn segir ,,Sjaldan er góð vísa of oft kveðin“. Wayne Martin er líffræðingur og lífefna- eða lífeðlisfræðingur eða jafnvel þetta allt. Hann er háaldraður, kominn um nírætt. Síðustu áratugina hefur hann mikið farið í gegnum margskonar gamlar rannsóknarskýrslur og rifjað upp ýmislegt sem skrifað hefur verið í vísindarit á öldinni sem leið, sér í lagi um læknisfræðileg efni. Sérstaklega hefur hann lagt sig eftir greinum um krabbamein og hjartasjúkdóma.

Þó að hann hafi ekki formlega læknisfræðilega menntun er þekking hans í þeim efnum mjög yfirgripsmikil og örugglega ekki minni en hjá flestum með full réttindi. Wayne Martin hefur í marga áratugi verið í bréfa- og símasambandi við fjölda kunnra vísindamanna, sumra heimsþekktra, þó að nokkrir þeirra séu nú látnir. Það sem einkennir skrif Wayne Martins er hvað hugur hans er opinn og hann er laus við allar kreddur og tískustrauma, sem því miður lita stundum vísindalegan hugsunarhátt.

Verið getur að hinn hái aldur hans hafi kennt honum að greina hismið frá kjarnanum, einnig í vísindalegum tilgátum og kenningum. Stundum er Wayne Martin alls ekki sammála þeim kenningum sem vinsælastar eru á hverjum tíma. Ég hef þó tilfinningu fyrir því að þegar upp verður staðið, sé það þó hann sem oftast hefur rétt fyrir sér. Þrátt fyrir háan aldur er ekki sýnilegt að frjó hugsun og vitsmunaleg geta hans hafi neitt látið á sjá. Því eigum við vonandi eftir að sjá margar fróðlegar og áhugaverðar greinar frá honum á komandi árum. – Þýðandi.

Að hafa lítið járn í blóði getur hindraðkrabbamein
Ritstjóri. Ég var byrjaður á bréfi sem fjallaði um að krabbamein sé plága nútímans og hafði lokið við að skrifa eina síðu, þegar ég las skýrslu Ralph Moss um sama efni í nóvemberhefti Townsend Letter for Doctors and Patients, 2002. Hann sagði að miklu færri krabbamein hefðu verið fyrir 200 árum og það væri ekki vegna þess að nú lifði fólk lengur og að aldrað fólk fengi oftar krabbamein en ungt. Hann sagði að barnadauði hefði þá verið miklu meiri og einnig hefði dauði ungra kvenna við barnsburð verið hár. Þeir sem náð hefðu 30 ára aldri lifðu álíka lengi eins og fólk lifir nú á dögum. Eini munurinn var að fólk dó þá úr ýmiskonar sýkingum en færri úr krabbameini.

Moss sagði frá Albert Schweitzer. Þegar hann stofnsetti sjúkrahús í Gabon í Vestur-Afríku 1913 varð hann mjög undrandi yfir, að ekki fundust nein tilfelli af krabbameini meðal innfæddra. Þegar fyrri heimstyrjöldin braust út 1914, var Schweitzer, sem þýskur borgari sem bjó í franskri nýlendu, tekinn fastur og þurfti að dvelja í einangrunarbúðum í Suður-Frakklandi, ásamt konu sinni, til loka stríðsins 1918. Hinir innfæddu í Gabon lifðu að mestu á grænmetisfæði fyrir 1913 og aðal matjurtin var kassava.

Í bók sinni On the Edge of the Primeval Forest (Við jaðar frumskógarins) sýnir hann mynd af innfæddum í Gabon, sem halda á kassavarót sem er þriggja feta löng og sex þumlungar í þvermál. Schweitzer snéri ekki aftur til spítalans í Gabon fyrr en árið 1922. Á þessum tíma hafði timburiðnaðurinn náð fótfestu í Gabon. Innfæddum var greitt fyrir að höggva niður risatrén sem uxu þar og setja upp sögunarmyllu. Þeir bjuggu nú í bústöðum,sem félagið sem þeir unnu hjá átti, og þeir lifðu á mat eins og Evrópubúar nærast á. Á þessum skamma tíma sem aðeins var tíu ár, höfðu margir hinna innfæddu fengið krabbamein og voru farnir að deyja úr því. Schweitzer var ekki hinn eini sem skýrði frá að innfæddir Afríkubúar væru lausir við krabbamein, meðan þeir sömdu sig ekki að háttum Evrópubúa.

Í tímaritinu British Medical Journal 1923, voru þrjú bréf frá enskum læknum í Afríku, sem skýrðu frá að innfæddir væru fullkomlega lausir við krabbamein.Mataræði þessara Afríkubúa var með mjög litlu af járni og þeir höfðu blóðrauða (hemoglobin) nálægt 10. Fari blóðrauðinn niður fyrir 13 í bandaríkjamönnum eru þeim oftast gefin járnmeðul. Dr María de Sousa starfaði árum saman við Sloan-Kettering-krabbameinsrannsóknarstofnunina í Bandaríkjunum. Hún er sérstaklega þekkt fyrir að sýna fram á, hversu ónæmisbælandi of mikið járn í líkamanum er og þess vegna krabbameinsvaldandi.

Ég fékk skýrslu úr Medical Hypotheses, 1984, 13, síða 119-121, sem nefnist: „Fáum við of mikið járn?“ Þar er saga dr Maríu de Sousa sögð. Hún segir að í þróunarferlinum  hafi hvítu blóðfrumurnar, sem skynjað geta krabbameinsfrumur og tortímt þeim og einnig skaðlegum sýklum, lærst að dragast að þeim vegna járnsins í þeim. Járn í bakteríum er miklu meira en í frumum mannslíkamans. Þetta veldur því að ónæmisfrumurnar dragast einkum að járngeymslusvæðum líkamans og „halda“ að þau séu bakteríur.

Vegna þess eru ónæmisfrumurnar ekki frjálsar að ráðast á krabbameinsfrumurnar og tortíma þeim (þær eru bundnar við járn-geymslusvæðin). Þetta er grundvöllur ónæmisbælingarinnar sem of mikið járn veldur. Í Bandaríkjunum fáum við mikið járn úr rauðu kjöti og einnig fáum við járn úr „járnbættu hveiti“og bætiefnum (fjölefnapillum) sem innihalda járn. Ég býst við að de. Sousa hafi langað til að meðhöndla krabbameinssjúklinga þannig, að þeir fengju mjög litið járn úr fæðunni. Hún fluttist til Portúgal, þaðan sem hún var ættuð, og hóf starf við Háskólann í Oporto.

New England Journal of Medicine, 1989; 320 (15) 1012 birti eftir hana bréf sem bar nafnið! „Body Iron Stores and Risk of Cancer“I (Járn í líkamanum og hætta á krabbameini) Í bréfinu segir hún að börn með hvítblæði lifi lengur fái þau fæði með litlu járni. Hversu lítið járn var í fæði innfæddra í Gabon 1913 getur hafa skipt sköpum, hversvegna engin krabbamein fundust meðal þeirra. Samt er alls ekki út í bláinn að láta sér detta í hug að nitrilosid-efnasambönd sem innihalda blásýru (sjá laetrile) og finnast í kassava, hafi að hluta til valdið því að þetta fólk fékk ekki krabbamein

Hindrar cesíum krabbamein?
Nú skulum við líta á skýrslu frá Keith sáluga Brewer, ph.d. Hann stofnaði A.Keith Brewer International Science Library, sem hefur þróað að nota cesium við krabbameinslækningar. Hann hefur sagt frá að Hopi- og Pueblo- indíánar í Arizona hafi verið algerlega lausir við krabbamein um 1940. Undirstöðufæða þeirra var blár indiánamaís (Blue Indian corn), melónur og melónu-kjarnar sem voru megin uppistaðan í fæði þeirra.

Þeir bjuggu til mais-mjöl úr maískorninu og blönduðu það með öskunni sem fékkst við að brenna græn lauf af chamisa-jurt. Jarðvegurinn í Arizona þar sem þeir héldu sig var eldfjallajarðvegur, auðugur af cesíum, rubidíum, kalki og kalíum. Blái maísinn inniheldur mikið af þessum fjórum efnum, en með því að bæta öskunni af chamisa laufunum saman við maís-mjölið fengu Hopi indíánarnir nálægt 35 sinnum meira af þessum fjórum efnum í fæði sínu en Bandaríkjamenn fá almennt. Brewers taldi að svona mikið af cesíum, rúbidí- um og kalíum á fæði Hopi-indíánanna væri það sem ylli því að þeir væru svo til lausir við krabbamein.

Um 1940 höfðu Hopi og Pueblo indíánarnir nálægt 1 tilfelli af krabbameini hjá 1000 einstaklingum. Á sama tíma fengu hvítir menn í Bandaríkjunum nálægt 1 tilfelli hjá 4. En 1955 ákvað Bandaríska Heilbrigðisþjónustan (US Public Health Service) að þessir indíánar þyrftu að fá betri fæðu en þeir höfðu. Bandaríska ríkið ákvað að gefa þeim mat, sem væri dæmigerð fæða Bandaríkjamanna almennt. Pueblo indíánarnir þáðu gjöfina en Hopi indíánarnir neituðu að þiggja hana. Innan skamms tíma hafði krabbameinstilfellum hjá Pueblo indíánum fjölgað í sama og annarsstaðar í Bandaríkjunum, en hélst óbreitt hjá Hopi indíánununum. Um 1982 byrjuðu Hopi indíánarnir að taka á móti hluta af matargjöfunum. Fljótlega sexfaldaðist tala þeirra sem létust úr krabbameini.

Kalk og selen hindra krabbamein
Nú skulum við líta á hvað Harold Foster, prófessor  við Victoria háskólann hefur að segja um steinefni og krabbamein. Skýrsla frá honum var birt í Journal of Orthomolecular Medicine, 13. árg. nr. 3 síða 173-5, 1998, undir nafninu Calcium and Cancer: A Geographic Perspective (Kalk og krabbamein: Landafræðileg yfirsýn). Hann gefur yfirlit yfir dauðsflöll úr krabbameini í Bandaríkjunum og Kanada. Árið 1994 urðu 520.930 dauðsföll úr krabbameini í Bandaríkjunum, en 54.950 í Kanada. Þetta er, segir hann, eins og 12 Júmbó-breiðþotur hröpuðu vikulega og allir innanborðs færust.

Foster telur að frumefnin kalk (calcium) og selen séu mikilvæg til að koma í veg fyrir krabbamein. Hann segir frá könnun, sem gerð var í Kanada og sýndi í 526 landnemabyggðum, að minna var um krabbamein í meltingarfærum á svæðum þar sem drykkjarvatn var mjög hart og innihélt mikið af kalki og magnesíum. Hann gefur  eitt dæmi: Í Kína er landssvæði, þar sem mjög margir höfðu dáið úr krabbameini í vélinda. Fjöldi dauðsfalla úr þeirri tegund krabbameins minnkaði úr 275 á 100.000 íbúa á ári, niður í 54, þegar bætt hafði verið kalki út í drykkjarvatnið.

Foster tekur dæmi frá Senegal. Þar er harðasta drykkjarvatn sem vitað er um á jörðinni. Í því eru 3.5g af kalk- og magnesíum-söltum í hverjum lítra. Þar eru einnig fæst tilfelli, sem vitað er um, af krabbameini í vélinda. Krabbamein í lungum, brjóstum, ristli og blöðruhálskirtli eru nánast óþekkt í Senegal. Verið getur að hið mikla magn af seleni sem er í jarðveginum, bætist hér við krabbameinshindrandi verkanir kalks og magnesíums í vatninu þar. Engin viðurkenning hefur enn fengist hjá hinum „rétt-trúuðu“ læknasamtökum á því afar mikla gagni sem ónæmiskerfið hefur af selen. Foster tengir það með virðingu við Senegal, HIV og eyðni. Í Zimbabwe er jarðvegur mjög snauður af selen. Þar er yfir fjórðungur þjóðarinnar sýktur af HIV-I (eyðniveiru). Í Senegal er mikið selen í jarðveginum og þar er aðeins 1.77% íbúanna sýktur af HIV1. Svo virðist að þetta mikla selen í jarðveginum verji þjóðina, bæði fyrir eyðni og krabbameini. Foster hefur talað um hversu dauðsföll úr krabbameini eru nú ofboðslega mörg.

En dauðsföllin eru jafnvel ennþá fleiri ef við tökum með í reikninginn að sjúklingar með eyðni, sem fá herpes-veiru 8, deyja oftast úr krabbameini. Þegar það gerist er þó venjulega sagt að þeir deyi úr eyðni eða herpes 8 veiru-sýkingu en ekki úr krabbameini. Lítið selen í blóðinu er einn höfuð valdur krabbameins og veirusýkingin eyðir birgðum líkamans af selen og gerir þannig krabbameinshættuna enn meiri. Í stórum svæðum Bandaríkjanna er gnægð af kalksteini. Á þessum svæðum er vatnið hart og auðugt af kalki. Þar er algengt að hafa „mýkingartæki“ til að taka úr því meirihluta þessa mikilvæga kalks, sem það hefur frá náttúrunnar hendi. Mýkingartækin mætti líta á sem „dauðabúnað“ eða „tæki sem valda dauða“. Þá var farið að selja eimað vatn í stórum flöskum en í því er ekkert kalk. Almennt var farið aðnota mýkingartæki um 1950 og eimað vatn á flöskum um 1970.

D-vítamín og krabbamein í ristli
Foster vitnar í dr. Frank og dr. Cedric Garland við Kaliforníu-Háskóla í San Diego. Þau, ásamt Foster ræða um sameinuð krabbameinsverndandi áhrif af kalki og D-vítamíni. Garland-hjónin gerðu tvær kannanir á D-vítamíni og ristilkrabbameini. Sú fyrri var gerð á karlmönnum við Hawthornevinnustaðinn hjá Western Electric Company í Chicago. Þeir sem voru með mest D-vítamín í blóðinu voru með 14,2 tilfelli af ristilkrabbameini af 1.000 á ári. Þeir sem höfðu minnst D-vítamín í blóðinu höfðu aftur á móti 38 tilfelli af 1.000. Þessar niðurstöður voru birtar í The Lancet, 9. febrúar 1985. Þau gerðu einnig könnun á 25.000 einstaklingum sem bjuggu í Maryland. Í þeirri könnun hafði fimmti hluti þeirra sem tóku þátt í könnuninni, en voru með mest D-vítamín í blóðinu, 80% færri tilfelli af ristilkrabbameini en þeir sem minnst höfðu af D-vítamíni í blóðinu.

Þetta var birt í The Lancet 18. nóvember 1989. Síðustu níu ár hefur verið framkvæmd könnun á vegum NIH (National Institute of Health) á 60 þúsund konum sem komnar voru yfir breytingaskeiðið. Helmingi þeirra var gefið fæðubótarefni með kalki og D-vítamíni. Verið var að líta eftir ristilkrabbameini, brjóstakrabbameini og beinbrotum. Könnuninni er enn ekki lokið en niðurstöðunnar er að vænta á þessu ári (2003). Önnur könnun er í þann veginn að hefjast á vegum NIH, á karlmönnum. Athuga á hvort rétt sé að gefa þeim blöndu af K-vítamíni og selen, til að fyrirbyggja krabbamein í blöðruhálskirtli.

Ónæmismeðferð Coley´s- Getur bakteríusýking læknað krabbamein?
Ég var í nánu sambandi við Helen Coley Nuts, sálugu, (sjá grein um Coleys´s Toxins í HH vor 1998) í mörg ár. 1953 stofnsetti hún Cancer Research Institute (Krabbameinsrannsóknarstofnun) til að gefa upplýsingar um bóluefni eða ónæmismeðferð föður hennar gegn krabbameini, Coley´s Mixed Toxins. Hún skrifaði 18 skýrslur og bæklinga um krabbameinsrannsóknir og árangur af að meðhöndla fólk með ónæmismeðferð föður hennar. Í átjánda bæklingnum 1984, um brjóstakrabbamein, er hún með upplýsingar um dauða úr lungnakrabbameini.

Heilbrigðisyfirvöld fullyrða nú, án efasemda, að sígarettureykingar valdi lungnakrabba. Upplýsingar úr skýrslum Coley Nuts, sýna þó öllum til undrunar, að 1930 reyktu nálægt því 80% allra karlmanna, en samt var lungnakrabbamein mjög fátítt meðal þeirra. Nánast engin lungnakrabbamein voru í Bandaríkjunum um aldamótin 1900. Handgerðar sígarettur komu á markaðinn um 1910. Um 1930 reyktu um 80% karlmanna í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir það voru lungnakrabbamein fátíð. Aðeins var eitt dauðsfall úr lungnakrabbameini hjá 100 þúsund einstaklingum á ári.

Árið 1978, þegar aðeins 40% karlmanna reyktu, voru 60 dauðsföll hjá 100 þúsund einstaklingum í Bandaríkjunum, sextíuföld aukning, ótrúleg tala. (Það sem Wayne Martin segir hér um sígarettureykingar og lungnakrabbamein má ekki misskilja þannig að hann telji reykingar ekki eiga neinn þátt í lungnakrabbameini. Það sem hann á við er, að til þess að reykingar valdi lungnakrabbameini þarf ónæmiskerfið að vera bælt að vissu marki. Sé það aftur á móti óbælt valda reykingar, einar sér, sjaldan lungnakrabbameini, enda þótt þær valdi ýmsum öðrum sjúkdómum eins og alþjóð veit. Þýð.) Coley Nauts gefur upp ástæðuna, sem hún telur vera fyrir þessari geysilegu fjölgun á ekki lengri tíma. Hún segir að sýklalyfin hafi komist í almenna notkun um 1955.

Sýklalyfin sem þá voru notuð voru mjög ónæmisbælandi. Hún var góður vinur Maríu de Sousa, sem áður var nefnd, en hún hafði sagt að allt sem bælir ónæmiskerfið væri krabbameinsvaldandi. Coley Nauts segir okkur hér, að á sama hátt sé ofnotkun sýklalyfja orsök að fjölgun krabbameina, með því að bæla ónæmiskerfið. Í skýrslu eða bæklingi nr. 8, 1980, fjallar Coley Nauts um gagnleg áhrif sem bakteríusýkingar geta haft til að hindra eða lækna krabbamein. Hún skoðaði 449 krabbameinstilfelli, sem læknuðust þegar sjúklingurinn fékk bakteríusýkingu. Hún taldi að sýkingin gerði ónæmiskerfið virkt og að það læknaði krabbameinið. Skoðun hennar var að lungnasýkingar, fyrir komu sýklalyfjanna, hefðu virkjað ónæmiskerfið og það væri ástæðan fyrir fáum dauðsföllum úr lungnakrabbameini 1930.

Fjölómettaðar fitur bæla ónæmiskerfið
Dr. Eric Newsholme var yfirmaður við lífefnafræðideild Oxford-háskóla. Hann skrifaði bréf sem birt var í The Lancet í mars 1977, þar sem bent var á hversu mjög fjölómettaðar fitur væru ónæmisbælandi. Fjölómettaðar jurtaolíur, t.d. maís- eða sólblómaolía, eru til þess að gera ný tegund af matvælum sem skyndilega komu á markaðinn í miklu magni, seldar af hinum nýstofnaða fræ-olíu iðnaði á árunum eftir 1920. Nálægt árinu 1955 lýsti allt heilbrigðiskerfið því yfir einum rómi að fjölómettaðar fitur væru hollar og góðar og mettaðar fitur úr dýraríkinu væru slæmar og að þær ætti að varast. Það sem Newsholme sagði var, að fjölómettuð fita væri afar ónæmisbælandi en að mettuð dýrafita, aftur á móti bældi ónæmiskerfið alls ekkert.

En vegna þess að fjölómettuðu jurtaolíurnar eru ódýrar og heilbrigðisyfirvöld segja að þær séu óðar en mettuðu fiturnar slæmar, hefur neysla fjölómettuðu jurtaolíanna þrefaldast síðan 1930. Newsholme sagði að hægt sé að meðhöndla alla sjálfsónæmissjúkdóma með sólblómaolíu. Í The Lancet, 18. mars 1978 skrifaði hann bréf sem sagði frá tveimur börnum með Guillain-Barre heilkenni. Bæði þessi börn voru alvarlega bækluð. Búið var að reyna að gefa þeim mörg ónæmisbælandi lyf án árangurs. Með því að gefa þeim daglega 50ml af sólblómaolíu fengu þau samt fullan bata. Á það hefur verið bent, að nálægt 30ml á dag af ónæmisbælandi fjölómettuðum olíum hafi verið bætt í fæði okkar síðan 1930 og að þetta kunni að vera höfuðástæðan fyrir 50-60 faldri aukningu á lungnakrabbameini á sama tíma.

Sumar fjölómettaðar fitur eru ómissandi
Fjölómettuðu fiturnar eru viss þverstæða. Við þörfnumst þeirra að vissu marki. Línolsýra (18:2n- 6) í sólblóma- eða maísolíu myndar gamma-línolensýru (18:3 n-6) fyrir áhrif ensímsins delta-6- desaturasa, sem síðan getur orðið hráefni til að mynda prostaglandin E-1. David Horrobin (sem oft hefur verið nefndur í HH) hefur rætt um krabbameinshindrandi verkun af gamma linolensýru og prostaglandin E-1, sem uppgötvað var af Bengt Samúelsson við Karolinska-sjúkrahúsið í Stokkhólmi, en hann, ásamt öðrum, fékk Nóbelsverðlaun fyrir 1982.

Hann sýndi fram á að prostaglandin E-1 hvetur myndun á hringtengdu AMP (sem er mikilvægt við efnaskipti og tjáningu gena o.fl.). Dr T.T. Duck, við Elenor Roosvelt Krabbameins-rannsóknarstofnunina hefur sýnt fram á að hringtengt AMP hefur tilhneigingu til að breyta krabbameinsfrumum aftur í eðlilegar frumur, eða að minnsta kosti að þær hætti að þröngva sér inn í heilbrigða vefi og verði því skaðlausar. Árið 1990 gaf dr. Horrobin út Reviews in Contemporary Pharmacotherapy – gamma linolenic Acid.

Þar sagði hann frá tilraun sem gerð var í frumuræktun. Séu eðlilegar frumur og krabbameinsfrumur látnar vaxa saman í frumuræktun, líða aðeins nokkrir dagar, þar til aðeins krabbameinsfrumur eru eftir í ræktunarskálinni. En sé aftur á móti tilraunin endurtekin og lítið eitt af gamma-linolensýru bætt út í ræktunarvökvann, þá snýst dæmið við og eftir nokkra daga eru aðeins heilbrigðar frumur í ræktunarvökvanum en krabbameinsfrumurnar dauðar. (Ég hef áður sagt frá þessari tilraun í HH. Þýð.)

Má not lyfið theophyllin sem krabbameinslyf? – Veldur kaffidrykkja krabbameini í briskirtlinum?
Dr. A. Govaert frá Belgíu skrifaði í The Lancet 1975 á síðu 341. Hann telur eða gerir ráð fyrir að theophyllin, hvetji myndun á hringtengdu AMP. Hann vitnar í Puck, áðurnefndan, og vill láta prófa að nota theophyllin til að meðhöndla krabbamein. Vitnað er í könnun sem gerð var í Englandi, þar sem theophyllin var notað fyrir astma-sjúklinga.  Þriðjungi færri dauðsföll úr krabbameini voru hlutfallslega  meðal þeirra en hjá öðrum astmasjúklingum sem ekki fengu theophyllin. Vitnað er í The Lancet 1974, síðu 1475 eftir dr. Michael Alderson. Theophyllin finnst í tei en ekki í kaffi. Aftur á móti eru krabbameinsvaldandi efni í kaffi 4,5, benzopyren og tveir aðrir krabbameinsvaldar, sem myndast þegar kaffið er brennt.

Prófessor Brian McMahon við Harward School of Public Health birti í NEJM (New England Journal of Medicine) 1981-304, síða 630-635, um kaffidrykkju sem orsakavald krabbameins í briskirtlinum. Hann gerði könnun á Boston svæðinu á sjúklingum með krabbamein í briskirtlinum og á heilbrigðu fólki. Eftir könnunina var hann á þeirri skoðun að fólk sem drakk þrjá bolla af kaffi á dag yki líkur á að fá briskirtislskrabbamein 2.7 sinnum.

Hann telur að kaffidrykkja sé orsök 50% (helmings) allra krabbameina í briskirtlinum. Í Englandi drukku flestir te fyrir seinni heimstyrjöldina en fáir kaffi. Nú drekka Englendingar álíka mikið kaffi og Bandaríkjamenn. Árið 1981  gerði dr. Tim Spencer við St. Bartholomewssjúkrahúsið í London könnun á kaffi-innflutningi til Englands. Hann upplýsti í The Lancet 29. ágúst 1981, að yfir tímabilið frá 1948-1973, hefði innflutningur á kaffi til Englands aukist um 120%. Dauðsföllum úr krabbameini í brisi hafði á sama tíma fjölgað um 50%.

C-vítamín hindrar þvagblöðrukrabbamein
Við einni tegund krabbameins virðist vera áhrifaríkt að nota C-vítamín – það er krabbamein í þvagblöðru. Ein blaðsíða var í Medical World News 21. júní 1968, um að nota C-vítamín við að meðhöndla og hindra þvagblöðrukrabbamein. Það var um dr Jörgen Schlegel við þvagfæradeild Tulane- Háskólans. Ég var í sambandi við hann þar til hann lést árið 1982. Hér kemur svo hin heillandi frásögn hans: Meðfram strönd Mexíkó-flóans er mikið um olíuiðnað og þvagblöðrukrabbamein er þar líka algengara en annarstaðar í landinu.

Sígarettureykingar ollu ekki svo mörgum dauðsföllum úr lungnakrabbameini um 1930, en þeir sem reyktu fengu oftar þvagblöðrukrabbamein en aðrir sem ekki reyktu. Schlegel hafði uppgötvað að þeir sem reyktu sígarettur og sumir verkamenn í olíu-iðnaðinum mynduðu þvag sem gaf frá sér ljós. Það var ekki venjulegt ljós sem auðvelt var að sjá, heldur efnafræðileg útgeislun (chemiluminescence) sem hægt var að mæla með sindurteljara (scintillation counter). Hann fann að ljósið stafaði frá cinnabarinsýru, sem er æxlismyndandi krabbameinsvaldur.

Hann uppgötvaði að væri sjúklingum sem mynduðu sjálflýsandi þvag gefin 1,5g af C-vítamíni á dag, myndaðist ekkert ljós í þvaginu. Schlegel fann það út að 1,5g af C-vítamíni á dag þurfti til að hindra að cinnabarin-sýra myndaðist og þar af leiðandi að æxli kæmu. Hann langaði til að gera könnun á hvort hægt væri að gefa sígarettureykingamönnum 1,5g af C-vítamíni á dag, til að hindra að þeir fengju krabbamein í þvagblöðruna. Sú könnun var þó aldrei gerð en í mörg ár voru þeir sem skornir voru upp við þvagblöðru-krabbameini látnir taka daglega 1,5g af C-vítamíni eftir skurðaðgerðina og það sem eftir var ævinnar. Þessir sjúklingar tóku 1,5g af C-vítamíni á dag og krabbameinið tók sig ekki upp aftur, jafnvel þó að sumir þeirra héldu áfram að reykja eða vinna áfram í olíu-iðnaðinum. Schlegel fann það, að á meðan þvagið í þeim gaf ekki frá sér ljós, fengu þeir ekki þvagblöðru-krabbamein.

Methyl-fjólublátt læknaði sýkingarnar
Sem eftirskrift við þessa grein gæti eftirfarandi frásögn fallið vel að efninu: Þegar Albert Schweitzer kom aftur til Gabon 1923 voru heimamenn önnum kafnir við að fella risatrén sem uxu þar. Afleiðingin af því var að margir komu til spítalans hjá honum með slæm beinbrot með drepi í limnum. Schweitzer fann að hann var í samkeppni við innfæddu galdralæknana. Galdralæknar taka aldrei limi af fólki og Schweitzer gat heldur ekki gert það, ef hann vildi að innfæddir kæmu til sín á spítalann. Schweitzer gæti hafa verið sá fyrsti sem notaði sýklalyf til að meðhöndla bakteríu-sýkingar.

Hann notaði litarefnið „methyl-fjólublátt“ (sem er skylt súlfa-lyfjunum) á beinbrot, sem sýking var komin í, með frábærum árangri. Árið 1925 dvaldi svissneskur skurðlæknir, dr. Lautenburg, um tíma á sjúkrahúsi Schweitzers. Dr. Lautenburg var undrandi að sjá sjúkling með opið beinbrot með sýkingar og blóðeitrun á byrjunarstigi, vera færðan til sjúkrahússins. Hann hafði talið að eina leiðin til að bjarga lífi hans væri að taka liminn umsvifalaust af. En sjúklingnum batnaði fljótt og það tókst að bjarga limnum með því að nota methyl-fjólublátt. Þetta var áratug áður en dr. Gerhard Domagk í Þýskalandi uppgötvaði „fyrsta sýklalyfið“, litarefnið Prontosil, sem er hálf-sulfonamið. Seinna fékk Domagk Nóbelsverðlaunin fyrir uppgötvun Verið getur að Schweitzer hafi þó, þrátt fyrir allt, ekki verið fyrstur til að nota methyl-fjólublátt.

Dr Frederick Banting, sá sem uppgötvaði insúlínið, sem hann fékk Nóbelsverðlaun fyrir, ásamt öðrum 1923, yfirgaf Læknaskólann við Háskólann í Toronto snemma árs 1918, án þess að ljúka námi, til að ganga í kanadíska herinn og verða þar skurðlæknir á vígstöðvunum. Í september 1918 var hann með aðstöðu fyrir skurðaðgerðir innan við hálfa mílu frá víglínuninni. Þýsk sprengja féll á þar sem Banting var með sjúklinga sína og margir þeirra létust. Banting fékk sjálfur alvarlegt sár á hægri handlegg ofantil. Hann batt um sárið og hélt síðan áfram að gera læknisaðgerðir á særðum hermönnum í tíu klukkustundir, þangað til hann fékk sig lausan.

Þegar hann kom aftur til Englands var honum sagt að komið væri drep í sárið og að taka þyrfti samstundis af honum handlegginn. Hann svaraði því til, að hann ætlaði að vera skurðlæknir með báða handleggina, eða deyja að öðrum kosti. Hann meðhöndlaði sjálfan sig með methyl-fjólubláu og fékk fullan bata. Vonandi er að þessar frásagnir af Albert Schweitzer og Frederick Banting veki áhuga einhverra lækna til að meðhöndla sýkt sár með methyl-fjólubláu. Sími 251-928-3975 Fax 251-928-0150

Höfundur Ævar Jóhannesson  þýddi úr Townsend Letter for Doctors and Patients, janúar árið 2003



Flokkar:Krabbamein

%d bloggers like this: