Hveitióþol og fósturlát

Orsökin fyrir endurteknum fósturlátum gæti verið celiac-sjúkdómur sem ekki hefur verið uppgötvaður. Svo er að minnsta kosti álitið í grein í læknaritinu The Lancet, 29. júlí 2000. Celiac-sjúkdómur er meltingarsjúkdómur sem sennilega á sér erfðafræðilega orsök en lýsir sér í erfiðleikum við að melta glúten, sem er prótein efnasamband sem flestar algengar korntegundir eru auðugar af. Sérstaklega er mikið glúten í hveiti, þó að einnig sé glúten í höfrum, rúgi og byggi og fleiri korntegundum í minna mæli.

Jafnvel er kominn á markaðinn erfðabreyttur maís sem inniheldur glúten, en annars er ekkert glúten í maís, hirsi og bókhveiti. Fólk með celiac-sjúkdóm vantar sennilega ensím sem brýtur niður glúten og því berst ómelt eða hálfmelt glúten niður í smáþarmana og veldur þar einhverskonar ónæmisviðbrögðum. Smátt og smátt eyðileggur þetta þarmatoturnar, sem þekja innra borð smáþarmanna, sem í smásjá á að líkjast flosteppi. Sé haldið áfram að nota glúten smá versnar ástandið eftir því sem fleiri þarmatotur eyðileggjast og upptaka næringarefna í þörmunum versnar. Þetta getur endað með dauða viðkomandi, sé ekkert að gert.

Sennilega er þó til mildara form celiac-sjúkdóms eða glúten-óþols, sem þetta er oft kallað. Þá getur fólk verið með sjúkdóminn jafnvel áratugum saman, án þess að gera sér grein fyrir hvað er að. Það er þessi gerð celiac-sjúkdóms, sem grunur er um að valdi fósturláti og fósturskaða, samkvæmt áðurnefndri grein. Grunur er um að þetta valdi ófullnægjandi upptöku mikilvægra næringarefna í meltingarfærunum t.d. á fólinsýru, sem vitað er að valdið getur fósturskaða, auk hættu á að amínósýran hómócystein geti stuðlað að oxun kólesterols, sem svo getur valdið ótímabærri aðahrörnun.

Því er sennilega skynsamlegt fyrir konur, sem endurtekið hafa misst fóstur, að hætta að nota matvörur sem innihalda glúten, sem þýðir að þær mega ekki nota nein brauð, grauta eða sósur sem notað er í hveiti, rúgur, bygg eða hafrar. Nýjar upplýsingar benda reyndar til að sumir þoli hafra. Í þessu tilfelli er sama þó að þetta sé úr lífrænt ræktuðu korni og séu „heilsukornsvörur“. Samkvæmt kenningum D´Adamo, sem sagt var frá í síðasta blaði, eru þeir sem ekki þola glútein einkum fólk af O og A blóðflokkunum, sem reyndar eru sennilega 80 –90% allra íslendinga.

Heimild: Townsend Letter for Doctors and Patients, nóvember 2000.

Höfundur: Ævar Jóhannesson árið 2001Flokkar:Úr einu í annað

Flokkar/Tögg, , , , ,

%d bloggers like this: