Lithimnufræði

Lithimnufræði getur gefið mjög ítarlega mynd af heilsu viðkomandi einstaklings.
Lithimnugreining er heildarmynd sem dregin er af mynstrinu í lithimnunni í augunum. Hver einstaklingur hefur sitt einstaka mynstur í lithimnunni rétt eins og fingrafarið.
Lithimnugreining getur aðstoðað fólk við að skilja hluti eins og mígreni eða mjög erfiða sjúkdóma, en getur einnig verið mjög góð leið við fyrirbyggjandi aðferðir í heilsurækt.
Lithimnan hefur verið kortlögð af ýmsum fræðimönnum þar sem líffærin, líkamskerfin og svæði líkamans koma fram.

Lithimnan sýnir hvaða líffæri eða líkamskerfi eru viðkvæmust fyrir hrörnun og álagi. Meðal annars má sjá tengsl líkamskerfa, ástand líffæra, uppsöfnun eiturefna, sýrustig líkamans og bólgumyndanir.

Oft má sjá samband tilfinninga og líkama í lithimnunni og hvar jafnvægi ríkir og hvar ójafnvægi ríkir á ákveðnum sviðum hjá einstaklingi og áhrif þess á einstök líffæri.
Með því að skilja mynstrið í augunum getum við séð heildarmynd líkamans og þannig betur áttað okkur á því hvaða meðferðir gætu hentað best í hverju tilfelli. Út frá þessum upplýsingum getur lithimnufræðingurinn ráðlagt um mataræði og lífsstíl sem fyrirbyggjandi aðgerðir og til að bæta heilsuna. Lithimnan getur kennt manni margt um ástand líkamans og styrkleika og veikleika persónunnar. Segja má að mikilvægt hlutverk greinandans sé að fræða fólk um það ástand sem manneskjan er í og hvaða skref þarf að taka til að bera ábyrgð á eigin heilsu. Lithimnufræði er leið sem á vísindalegan máta getur gefið heildrænar upplýsingar um ástand líkamans og ráðlagt um meðferðir.

Hvað lithimnugreining getur sýnt:
1. Meinafræðilegar truflanir og röskun í uppbyggingu og starfsemi.
2. Arfgenga veikleika og styrk í trefjaáferð og líkamsvefjum.
3. Uppsöfnun eitraðra úrgangsefna.
4. Sýru og bólgumyndanir.
5. Hindrandi uppsöfnun á slími.
6. Getur sýnt brátt, undirliggjandi, krónískt eða hnignandi stigbólgu og eituruppsöfnun í hvaða líkamshluta eða líffæri
líkamans sem er.
7. Van- eða ofvirkni kirtils eða líffæris.
8. Viðbrögð líkamans við meðferð.
9. Getur sýnt jákvæða eða neikvæða þróun í líkamshlutum.
10. Bendir á ástæður sjúkdóma.
11. Er örugg, sársaukalaus leið til greiningar.
12. Sýnir ástand og tengsl líkamskerfa.
13. Leiðir líkur að tilhneigingu til sjúkdóms og getur gefið hugmynd um forvarnir.
14. Bendir á næringarfræðilegt ójafnvægi
15. Sýnir tilvist sýkingar (á lágu eða háu stigi)
16. Tengsl líffæra koma fram.
17. Jafnvægi á hægri og vinstri hlið sérstaklega þegar eitt líffæri er báðum megin.
18. Gefur heildarmynd af einstaklingnum, almennt heilsufar og vísbendingu um framvindu.
19. Grundvallargerð og styrkleika stig og meðfædda hæfileika til að vinna á sjúkdómum.
20. Að bæling á sjúkdómi er ekki lækning og sýnir hvernig sjúkdómur getur orðið langvinnt sjúkdómsástand.
21. Að lækning hefst innra með okkur.
22. Hvernig áhrif maginn og meltingarvegurinn hefur á aðra líkamshluta í gegnum blóðrás, sogæðar og taugakerfi.

Lithimnugreining getur ekki:
A. Greint sérstaka sjúkdóma, sýnir aðeins breytingar í vef.
B. Sýnt hvar aðgerðir hafa verið gerðar með svæfingu
C. Greint gallsteina og nýrnasteina, sýnir aðeins forstigsbreytingar í vef.
D. Spáð fyrir um kyn fósturs né um þungun.
E. Sýnt snýkjudýr eða örveirur aðeins forstigsbreytingar.
F. Spáð fyrir um lífshlaupið eða enda þess.
G. Greint einstök eiturefni, eiturlyf eða rotvarnarefni, aðeins uppsöfnun slíkra efna í einstaka líffærum.
H. Greinir ekki hverskonar slys, aðeins afleiðingar þess.
Lithimnufræði getur lagt grundvöll að ábyrgri afstöðu okkar til heilsu okkar og vellíðan.

Lithimnufræði og meðferðir
Lithimnufræði getur sýnt fram á hvaða meðferðir gætu gagnast best til að styrkja líkamann, þar sem hann er viðkvæmastur fyrir.  Gildir einu hvort meðferðin er fólgin í aðferðum eins og:
• Blómadropameðferð.
• Grasalækningu.
• Ilmolíumeðferð.
• Höfuðbeina- og spjaldhryggjarjöfnun.
• Nuddi.
• Yoga.
• Slökun.
• Eða hverri þeirri andlegu uppvakningu sem opnar augu okkar fyrir því sem hefur þau áhrif á líkamann að okkur líður illa.
Lithimnufræðin eru gjarnan tengd náttúrulækningum og heildrænum aðferðum í heilsuvernd. Ýmsar náttúrlegar lækningaaðferðir eru þá gjarnan notaðar til að hjálpa fólki að bæta heilsu sína eins og jurtalyf, blómadropar, hreinsun líkamans með bættu fæði og föstum, réttri hreyfingu, nuddi og öðrum ráðum sem að gagni gætu komið.
Lithimnugreining er ekki lækning. Greining af lithimnufræðingi getur aðeins sýnt ástand ýmissa líffæra og líkamans í heild sinni. Í framhaldi af því ráðlagðar meðferðir til að ná betri heilsu.

Lithimnugreining er ekki forspá. Aðeins forstigseinkenni í vefjum eða líffærum má sjá, sem að vísu geta leitt til langtímaveikinda, ef ekki er neitt að gert.
Lithimnufræði getur uppfrætt okkur nánar um orsakir og afleiðingar mataræðis, hugarfars og lífernis sem kemur af stað ferli sem færir okkur vanlíðan og síðar sjúkdóma.
Með ábyrgri afstöðu okkar getum við tekið á okkar málum og unnið gegn vanlíðan og sjúkdómum sem herja á okkur.

Tilfinningagreind mæld með lithimnugreiningu
Hefðbundin lithimnugreining sýnir það álag sem er á líffærunum. Þetta álag getur verið tengt erfðum, lífsháttum eða mataræði. Við getum líka lært að tengja álagið á líffærunum, hvernig við tökum á okkar málum tilfinningalega. Á því sviði hefur Björn Vernharðsson, höfundur þessarar greinar, þróað sitt kerfi til að greina tilfinningar og hvaða áhrif þær hafa á líffærin og okkar líðan. Hægt er því að greina hvers konar lífsmunstri við höfum komið okkur upp og hvernig við vinnum úr málum. Náttúrulegt hugsunarferli er heildrænt kerfi sem leiðir okkur frá fyrstu vitund og viðbrögðum til fullkominnar sáttar og jafnvægis. Það á við allar manneskjur á öllum tímum og öll verk. Þjálfun í að nota þetta kerfi getur unnið okkur upp úr vanlíðan og kvölum.

Hver þáttur í ferlinu er tilfinning þar sem við annaðhvort erum skjót að vinna okkur yfir í næsta skref og jafnvel klárum málin, eða erum lengi við hvert þrep og notum mikið álag til þess að skoða þann þáttinn. Þannig getum við fundið til á ákveðnum stöðum þegar við erum að hugsa um ákveðin þátt í ferlinu. Hugsanaferlið er byggt upp af tveimur grundvallarþáttum og níu þrepum. Annar þessarar grundvallarþátta er kvíði, sem byggist á hugsunum um óvissa framtíð og væntingar. Hinn þátturinn er sektarkennd, sem grundvallast á fortíðinni og því sem gerðist og átti að hafa gerst. Öll hugsun byrjar á ákveðnum viðbrögðum, til dæmis skynjun og vitund okkar fyrir umhverfinu. Ef þessi tilfinning hellist yfir okkur finnum við sterklega fyrir ótta og kvíða.

Annað skref er þekkingin sem við öflum okkur á þessari skynjun okkar. Þessi tilfinning kemur fram sem öryggisleysi ef við erum ekki viss. Við könnumst við þessa tilfinningu þegar við fáum í hálsinn vegna prófskrekks.
Þriðja tilfinningin er þegar við samræmum við reynsluheiminn og þekkinguna og það sem gerist. Þetta er það sem kallað er reiðistig þar sem við ákaft erum að setja saman myndina svo við skiljum.
Fjórða stigið er hjálpin sem við fáum eða veitum. Við fáum hjálp frá vinum, félögum eða fjölskyldu. Þessi tilfinning getur komið fram sem mikið magnleysi ef þetta skref er undir álagi og okkur finnst við vera ein og yfirgefin í stöðunni.
Fimmta þrepið er val og náin kynni eða ástin. Við veljum okkur maka, lífsstíl, starf eða hluti eins og hús eða bíla. Þeir sem vita hvernig það er að vera ástfanginn eða í ástarsorg vita mjög vel um hvað er verið að tala.
Sjötta skrefið er sköpun og afurð okkar. Við eignumst börn eða framkvæmum og sköpum í starfi eða leik. Við finnum fyrir þessu sem umhyggju og kemur fram sem álag í brjósti þegar við höfum áhyggjur af starfi, börnum eða öðru því sem við erum að sýsla við.

Sjöunda stigið er flæðið sem hlýst af endurtekningu á því sem við höfum áður skapað. Við þurfum að hafa minna fyrir hlutum, erum fljótari og gerum betur. Peningar eru myndbirting þessa stigs. Hjá þeim sem finna fyrir þessari tilfinningu er hún sem óskaplegt álag ef um peningaleysi er að ræða eða fyrirsjáanlega erfiðleika.
Þannig vinnum við fyrir áttunda þrepinu sem er sáttin í okkur sjálfum. Tilgangurinn með lífinu er að deyja sáttur. Æfinguna fáum við með því að sofna sátt á hverjum degi. Með því að haga lífi okkar þannig getum við oftar orðið sáttari og því mildari við sjálf okkur þegar mest er þörf á en það er fyrir svefninn. Ef við sofnum ekki sátt er síður líkur á því að við vöknum í jafnvægi. Það er hægt að beygja frá þessu og keyra sig í svefn örþreyttur og keyra sig svo áfram daginn eftir, en þá eru líkurnar á því að viðkomandi brotlendi fyrr eða síðar.

Lokaþrepið er hamingja og vellíðan. Hinn mikli friður. Það er þegar við erum í jafnvægi sem tekur tillit til allra þrepanna í hugsanaferlinu. Við vitum að við erum á réttum stað, á réttum tíma og erum sátt við það sem er að gerast í kringum okkur. Við erum fljót að skynja áreitin, lesum rétt úr þeim og vinnum hratt úr málinu án þess að leggjast í hugarvíl yfir málunum.

Höfundur:  Björn Vernharðsson, Sími: 896 5353 Netfang: bjornoskar@simnet.is  
Sjá freiri grein Lithimnufræði og hvítugreining á www.heilsuhringurinn.is    Greinin er skrifuð árið 2001Flokkar:Annað, Kynningar

Flokkar/Tögg, , , ,

%d bloggers like this: