Heilbrigð nýru

Íþessari grein ætla ég að fjalla um nýrun og hvert er hlutverk þeirra. Sagt er frá starfsemi heilbrigðra nýrna og hvernig við getum stuðlað að heilbrigði þeirra og dregið þar með úr líkum á nýrnasjúkdómum. Ekki er fjallað um nýrnasjúkdóma eða meðferð við sjúkdómum. Tilgangurinn er að fræða fólk um nýrun, starfsemi þeirra og hvernig við getum verndað þau. Við efnaskipti/bruna mynda frumur líkamans úrgangsefni eins og koltvíoxíð, ammoníak og þvagefni.

Öll úrgangsefni og efni sem verða afgangs við efnaskipti þarf að losa út úr líkamanum þannig að hann starfi eðlilega. Nýrun eru ásamt lungum, svitakirtlum í húð og meltingarvegi losunarlíffæri líkamans. Nýrun eru tvö og eru staðsett í kviðarholinu aftur við hrygg til móts við lendarlið, rétt fyrir ofan mitti. Rifbeinin verja nýrun að hluta.(sjá mynd) Nýrnaslagæðar flytja blóð til þeirra. Hvort nýra um sig er á stærð við krepptan hnefa. Nýrun tilheyra þvagkerfi líkamans sem samanstendur af nýrum, tveimur þvagpípum, þvagblöðru og þvagrás. Í hvoru nýra eru um milljón litlar síur/frumur, nýrnafrumur. Þessar frumur sjá um að fjarlægja úrgang úr blóðinu sem verður til við efnaskipti líkamans.

Nýrun eru lífsnauðsynleg, en hægt er að lifa góðu lífi með eitt heilt nýra. Ef nýrun verða fyrir skaða af völdum sýkingar eða áverka safnast þvagefni og önnur úrgangsefni fyrir í blóðinu og leiðir það til dauða ef ekkert er að gert. Nýrun sinna mörgum mikilvægum störfum og hér er gerð grein fyrir nokkrum þeirra.

Viðhalda vökvajafnvægi líkamans og losa hann við úrgangsefni
Nýrun sía vatn og úrgangsefni úr blóðinu og skila mestum hluta vatnsins aftur út í blóðrásina. Sérstakar frumur, nýrnafrumur fjarlægja úrgangsefni(þvagefni og fleiri efni). Síuðu efnin fara í gegnum örfín göng í nýrum. Úrgangsefnin fara til þvagblöðru og skilast þannig út úr líkamanum sem þvag, en vatn sem líkaminn endurnýtir fer aftur út í blóðrás. Á hverjum degi  fara um 1.5 lítrar af þvagi til blöðrunnar. Nýrun geta síað 120 millilítra af blóði á mínútu. Nýrun sjá um að varðveita vökvajafnvægi líkamans og halda vatnsjafnvægi blóðsins í eðlilegu horfi. Frumur kallaðar osmóviðtakar sjá um að salt-og vatnsmagn blóðsins sé í jafnvægi.

Ef vatnsmagn líkamans minnkar t.d. þegar við svitnum eða það er heitt og blóðið verður of salt senda osmóviðtakarnir sem staðsettir eru í undirstúku heilans merki til heilans um að auka framleiðslu á þvagdempandi hormónum. Þá losar líkaminn minna vatn með þvagi og endurnýting vatns sem líkaminn notar aftur eykst. Við þurfum sjaldnar að p issa og þvagið verður dekkra. Þannig fer ekkert vatn til spillis. Drekki maður aftur á móti mikið vatn og þynnir blóðið, senda osmóviðtakarnir boð um minni framleiðslu á þvagdempandi hormónum. Þar af leiðandi skila nýrun meira af vatni til þvagblöðru og minni þörf er á endurnýtingu. Við þurfum oftar að pissa og þvagið er ljósara.

Sjá um að ákveðin efni séu í jafnvægi
Nýrun sjá um að styrkur, natríums, kalíums og salts sé í jafnvægi. Þau viðhalda sýrujafnvægi líkamans og halda í þau efni sem eru líkamanum nauðsynleg t.d. glúkósa, amínósýrur, fosfat og prótín.

Hjálpa til við að stjórna blóðþrýstingi.
Blóðþrýstingur er þrýstingur blóðs á slagæðaveggina. Blóðþrýstingur er nauðsynlegur til að viðhalda blóðrás til líffæra. Nýrun seyta ensíminu retín sem hækkar blóðþrýsting þegar þess þarf. Mæling á blóðþrýstingi er tvenns konar, neðri mörk og efri mörk. Efri mörkin mælast þegar hjartað slær en neðri þegar hjartað slakar á. Eðlilegur blóðþrýstingur er venjulega um það bil 120 við efri mörk og 80 við þau neðri, (120/80), en strax við 140/90 telst blóðþrýstingur orðinn of hár. Hár blóðþrýstingur til lengri tíma getur leitt til hjarta-og nýrnabilunar.

Of hár blóðþrýstingur eykur álag á hjartað og eykur líkurnar á hjartasjúkdómum, hjartaáfalli, nýrnasjúkdómum og blindu. Of hár blóðþrýstingur hefur slæm áhrif á litlu slagæðarnar í nýrunum. Yfirleitt finnur fólk ekki fyrir líkamlegum áhrifum háþrýstings enda er hann oft kallaður „hinn hljóðláti dauðavaldur“. Eina leiðin til að fylgjast með blóðþrýstingi er að láta mæla hann reglulega. Ef blóðþrýstingur er of hár er mjög mikilvægt að taka lífshætti sína til endurskoðunar. Lyf við háum blóðþrýstingi eru aðallega þrenns konar, þvagræsilyf, betablokkarar og æðavíkkandi lyf. Til dæmis virka þvagræsilyf þannig að nýrun skila út vatni og salti, þannig að vökvarúmmál og þar með blóðrúmmál líkamans minnkar og þar með álagið á slagæðarnar. Þvagræsilyf raska oft eðlilegu jafnvægi blóðsins t.d. lækkar kalíum í blóði, þannig að vert er að skoða aðrar leiðir en lyf.

Mynda rauðkornahormon
sem örvar framleiðslu rauðra blóðkorna í beinmerg og taka þátt í myndun D-vítamíns sem er nauðsynlegt fyrir beinmyndun. Ef nýrun starfa ekki eðlilega verðum við vör við ýmis einkenni. Meðal einkenna eru:
• Sviðatilfinning við þvaglát.
• Tíðari þvaglát, sérstaklega um nætur.
• Sýnilegt blóð í þvagi.
• Pokar, dökkir baugar undir augum og þroti á höndum og fótum.
• Hár blóðþrýstingur.(140/90 eða hærri)
• Verkur í baki, á nýrnasvæði, verkur eykst ekki við hreyfingu. Þreyta
Margir þættir stuðla að betri nýrnastarfsemi. Meðal þess sem skiptir máli er eftirfarandi:
• Drekka vatn. Við þurfum að drekka 6-8 glös af vatni á dag.
• Mataræði. Forðast salt og fæðu með miklu salti.
• Láta athuga blóðþrýsting reglulega.
• Einstaklingar með sykursýki þurfa að passa vel upp á blóðsykur.
• Varkárni með verkjatöflur sem fást án lyfseðils, fá umsögn læknis um hvaða magn hentar.
• Afla sér upplýsinga um hvort lyf sem læknir ávísar geti haft áhrif á nýrnastarfsemi.
• Hætta að reykja.
• Láta meðhöndla sýkingar strax.
• Láta fylgjast með kólesteróli í blóði.
• Hreyfing

Ég ætla að fjalla nánar um hreyfingu, mataræði, húðburstun, nýrnanudd og segja frá hvernig austurlenskar/ kínverskar lækningar horfa á sjúkdóma.

Hreyfing
Æfa reglulega. Hreyfing eykur blóðflæðið til nýrnanna og eflir starfsemi þeirra. Vera virkur líkamlega, stunda sund, dans, tai chi, hreyfa sig úti t.d.gönguferðir. Regluleg hreyfing stuðlar einnig að réttri líkamsþyngd.

Mataræði
Forðast öfgar eins og skyndimat, gosdrykki, saltað snakk, steiktan mat, kaldar mjólkurvörur og áfengi. Sterkt krydd, ostar, kaffi, te og áfengi getur örvað nýrun um of og þá þarf að hvíla nýrun og hætta/draga úr neyslu þessara efna. Sýklalyf geta einnig örvað nýrun. Ef um ofvirk nýru er að ræða er gott að nota sólhatt. Þegar nýrun eru ofvirk getur fólk verið með hárlos. Best að borða fjölbreytta holla fæðu úr öllum fæðuflokkum. Draga úr neyslu á eggjahvíturíkri fæðu. Minnka saltneyslu. Drekka vatn og muna að enginn annar vökvi kemur í staðinn fyrir vatn. Fæða sem styrkir nýru er meðal annars: Lax, silungur, bókhveiti, bygg, quinoa, azukibaunir, brokkoli, blómkál, steinselja, grænkál, rauðrófur, sellerí, þang (gott salt), trönuberjasafi. Gott að elda súpu með þessu grænmeti og nota þang . Þangið sem er gott í súpur heitir wakame og fæst þurrkað í heilsubúðum. Gott er að brjóta 10 cm bút út í súpuna og sjóða með.

Húðburstun
Húðin aðstoðar nýrun og er oft kölluð þriðja nýrað vegna þess hversu lík efnasamsetning er í svitanum og þvaginu. Til að auka hreinsigetu húðarinnar er gott að þurrbursta hana. Húðin er burstuð með hringlaga hreyfingum frá fingurgómum að nafla og frá tám að nafla. Gufubað er einnig gott ef fólk þolir hitann.

Nýrnanudd
Til að auka blóðflæði í nýrunum og bæta starfsemi þeirra er gott að nudda þau. Þetta nudd að kvöldi og að leggjast á eitthvað heitt gefur góða slökun og bætir nætursvefn.

Nudd á nýrun
Að kvöldi dags áður en gengið er til náða er gott að nudda nýrun. Finndu nýrun með því að leggja lófana á bakið fyrir ofan mitti. Sjáðu fyrir þér hlýtt, hvítt ljós sem flæðir um líkama þinn og út í hendurnar. Hendurnar verða heitar og hitinn fer úr höndunum og inn á nýrnasvæðið. Nuddaðu nýrnasvæðið. Leggstu svo niður á eitthvað heitt t.d. hitapoka. Nota má grjónapoka sem hitaður er í örbylgjuofni. (heimild:You are what you eat bls.198).

Austurlenskar/kínverskar lækningar
líta öðrum augum á sjúkdóma en vestrænar lækningar. Í austurlenskum lækningum er litið svo á að manneskjan sé heilbrigð þegar jafnvægi er á milli breytilegra innri og ytri aðstæðna. Manneskjan getur mætt ytri og innri aðstæðum og tekist á við þær. Heilbrigði er að geta aðlagað sig aðstæðum bæði líkamlega og andlega. Sjúkdómar eru aðskilnaður frá ytri aðstæðum. Þannig að sjúkdómar eru ójafnvægi, líkaminn er ekki lengur í jafnvægi.Við virðum ekki líkamann, t.d. borðum fæðu sem hentar okkur ekki, byrgjum inni reiði og pirring og virðum ekki þörf fyrir hvíld.

Við hlustum ekki á aðvaranir líkamans, við dempum þær heldur með lyfjum. Við verðum neikvæð, reið og spennt. Streita, andlegt og líkamlegt álag spilar þar stóran þátt og hindrar aðlögun. Þau líffæri sem verða fyrir mestu álagi við streitu eru nýru, nýrnahettur og taugakerfi. Austurlenskar lækningar líta á líkama og sál sem eina heild.

Þá er líkami og sál meðhöndluð sem ein heild þegar leitast er við koma á jafnvægi aftur. Tilfinningar sem tengjast nýrum í ójafnvægi eru hræðsla, áhyggjur, ótti, lítið sjálfstraust og skortur á vilja. Ef nýrun eru sterk og starfsemin í lagi erum við sjálfsörugg og með góða lífsorku. Jafnvægi næst aftur með því að huga að mataræði, hreyfingu og með andlegri vinnu. Í kínverskum lækningum er talað um frumefnin fimm, eld, jörð, málm, vatn og við (sjá tímaritið Heilsuhringinn vor 1998, bls. 14-20). Þau líffæri sem tilheyra vatninu eru nýru og þvagblaðra.

Nýrun geyma lífsorkuna og viðhalda lífi og starfsorku. Vatnið er sterkast á veturna og þá eru nýrun jafnframt viðkvæmust. Árstíð nýrnanna er vetur og nóttin er tími nýrnanna. Jurtir sem styrkja nýrun eru m.a. klóelfting, birki og kanill. Engifer er mjög hitagefandi og styrkjandi fyrir líkamann. Gott er að búa til heitan bakstur sem lagður er á nýrun. Þessi bakstur nær blóðrásinni af stað, losar um stöðnun, slím og fitu og hitar langt inn í líkamann.

Engiferbakstur:
Rífið engiferrót í rifjárni, u.þ.b 2 fullar matskeiðar og setjið í grisju eða poka og lokið. Hitið 4-5 l af vatni að suðu, má ekki sjóða Setjið grisjupokann út í vatnið og hafið í 5-10 mínútur í vatninu, kreistið svo pokann og takið hann úr pottinum, nú er krafturinn úr engifernum kominn út í vatnið Handklæði undið upp úr sjóðandi heitu engifervatninu, gott að nota 2 handklæði. Handklæðin lögð á nýrnasvæðið, plast sett yfir og teppi yfir allt saman. Handklæðin undin upp eftir þörfum og nýrnasvæðinu haldið heitu í u.þ.b. 15 mínútur.

Krafturinn í engifervatninu endist í 24 tíma og því er hægt að nota sama vatnið í 2 kvöld í röð. Gott að endurtaka þetta í 3-4 kvöld í röð. Ekki má nota þennan bakstur ef bólga er í nýrum eða einstaklingur er með sótthita. Gott er að nota þennan bakstur egar einstaklingurinn getur hvílt sig vel því mikil þreyta getur komið, þar sem líkaminn sendir alla orku til nýrnanna. Við getum gert svo margt til að bæta heilsuna ef við hugum að venjum okkar. Það eru þessir smáu hlutir sem við venjum okkur á sem skipta svo miklu máli. Við berum sjálf ábyrgð á heilsu okkar og þurfum að vera vakandi yfir velferð okkar. Gangi ykkur vel.

Heimildaskrá:
Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir: Íslenskar lækningajurtir. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, 1992. McKeith, Gillian dr. You are what you eat. Penguin Books. England 2004. Heimur þekkingar. Ritstjóri L. Sabel. Örn og Örlygur. Reykjavík 1985. Tímaritið Heilsuhringurinn. Vefslóðir: Háskóli Íslands: http://www.visindavefur.is/svar (5.9.2006). The Kidney Foundation of Canada: http://www. kidney.ab.ca/health (5.9.2006)

Höfundur: Berglind GuðmundsdóttirFlokkar:Líkaminn

%d bloggers like this: