Flutt erindi á aðalfundi Heilsuhringsins í apríl 1998
Um þessar mundir er beinþynning mikið á döfinni í Danmörku en um það mál hefur verið hljótt undanfarin ár. Enda má segja að beinþynning sé hljóðlátur sjúkdómur sem ekki verði vart við fyrr en að fólk byrjar að beinbrotna. Þessi sjúkdómur (ef við eigum að kalla þetta sjúkdóm) hefur færst mjög í aukana undanfarin ár. Talið er að í Danmörku sé þriðja hver kona og sjötti hver karlmaður, sem komin eru yfir fimmtugt með beinþynningu. Meðferð vegna sjúkdómsins kostar danska ríkið yfir 700 milljónir danskar krónur á ári. Svo ekki séu nefndar þjáningarnar sem sjúkdómurinn veldur þeim sem fyrir honum verða. Nú til dags er hætt að einblína á inntöku kalks sem einu aðferðina til að fyrirbyggja beinþynningu. Komið hefur í ljós að orsök beinþynningar má rekja til lifnaðarhátta og menningar hverrar þjóðar. Vitað er að svo er einnig um marga aðra sjúkdóma og því er farið að líta þessi mál í öðru ljósi en áður var.
Eftir að ég sannfærðist um að ekki væru réttar kenningar lækna í Danmörku og Englandi um að besta forvörn við beinþynningu væri mjólk og hormónar, kom ég og samstarfskona mín Eva Lydeking á fót rannsóknarverkefni. Markmiðið með verkefninu var að færa sönnur á að mataræði og lífsvenjur gjætu snúið ferlinu við þannig að beinin þéttu sig aftur. Sem og kom í ljós við mælingu eftir eitt ár að svo er. Allar konurnar þéttu sín bein. Með okkur að verkefninu störfuðu tveir hjúkrunarfræðingar og tveir næringarráðgjafar ásamt einum lækni. Hans starf var aðallega í því fólgið að afla okkur sambanda við rétta aðila t.d þá sem sáu um beinþéttnimælingar og lækna sem við þurftum að vera í sambandi við.
Tíu konur tóku þátt í rannsókninni þær höfðu allar greinst með beinþynningu á háu stigi, meðalaldur þeirra var 57 ár. Þegar við hófumst handa við rannsóknina byrjuðum við á því að kanna heilsu kvennanna og ráða bót á heilsufarsvanda ef einhver var t.d. þar sem laga þurfti sveppasýkingu og hreinsa út þungmálma, koma lagi á magasýrur og þess háttar. Þessi rannsókn stóð yfir í eitt ár og byggðist á réttu mataræði, bætiefnum og hreyfingu. Að ári liðnu voru konurnar mældar aftur og útkoman lofaði svo góðu að nú er Eva Lydeking byrjuð á samskonar rannsókn, bara umfangsmeira verkefni því að í því eru 300 konur og ætlunin að sanna gildi næringar og hreyfingar á beinþynningu.
Hver er orsök beinþynningar
Nú skulum við átta okkur á hvað gerist í beinvefnum við beinþynningu. Beinvefur er lifandi vefur sem þarf á næringu að halda eins og allt annað í líkamanum. Um er að ræða beinfrumur ásamt tvenns konar öðrum frumum sem kallaðar eru beinætur. Beinæturnar eyða gömlum beinum í vefnum. Það fylgist með kalksetningu í sjálfum. beinunum, þar sem D-vítamín er Svo eru líka frumur sem ég kalla beinsmiði það eru frumur sem mynda nýja vefi. Ferli beinfruma liggur í því á annan bóginn að eyða en á hinn bóginn að byggja upp. Það eru margir þættir sem hafa áhrif á það hvort við eyðum meiru en við byggjum upp. Beinþynning á sér stað þegar eyðist meira af kalki en byggist upp.
Beinvefur
Beinvefurinn er í raun tveir hlutar sá fyrri er: Kollagen (organic matrix), sem er aðallega myndað úr eggjahvítuefnum og límgjafa, slímsykrur (mucopolysaccharid), kondroitin sulfat (chondroitin sulphate), keratín sulfat (keretin sulphate), síalsýra (sialic acid) og fjölsykrur. Hinn er steinefnahlutinn: Aðallega kalk, fosfór, magnesíum, kísill, flúor og strontium. Þegar um beinþynningu er að ræða er skortur á báðum þessum hlutum, það er ekki bara kalk sem vantar, t.d. í kollageninu er mikilvægt að hafa C-vítamín, sink, magnesíum og A-vítamín. Ef að vöntun er á þessum efnum í líkamanum getur það valdið beinþynningu. Ein rannsókn hefur sýnt fram á að vöntun á C-vítamíni getur valdið beinþynningu.
Þættir sem hafa áhrif á beinmyndun
Áhrifamestu þættirnir eru: Hormónastarfsemi, kalkefnaskipti og D-vítamín. Það vita sjálfsagt flestir að við fáum D-vítamín úr sólinni og kólesterólið sem er í lifrinni breytist í það sem kallað er virkt D-vítamín, en þá er það orðið hormónavirkt og farið að haga sér eins og hormónar. Þetta ferli leikur stórt hlutverk í upptöku kalks í þörmunum og í endurnýtingu kalks í nýrunum, og einnig við kalksetningu í sjálfum beinunum, þar sem D-vítamín er mjög mikilvægt. Svo er það annað hormón sem heitir PTH (para. thyroidea hormón) sem kemur frá bískjaldskirtlinum (kalkkirtlunum), þetta hormón er mjög mikilvægt til að örva upptöku D-vítamíns. Það er talið auka myndun D-vítamíns í líkamanum.
PTH er líka eins og vörður, eins og lögga, sem kíkir á hvort að það sé nóg kalk í blóðinu Það fylgist með því og ef of lítið kalk er í blóðinu þá gefur það skilaboð til beinætanna um að brjóta svolítið meira niður svo að það bætist meira kalk í blóðið. Því að það verður að vera ákveðið magn af kalki í blóðinu fyrir aðra starfsemi líkamans. Calcitonin sem er annað hormón hefur áhrif á beinsmiðina. Það hefur einnig hemjandi áhrif á beinæturnar. Svo er það Estrogenið sem myndast í eggjastokkum kvenna og án efa hefur áhrif á beingæði okkar svo lengi sem við sjálfar framleiðum estrogen. Estrogenið er talið hemja PTH-ið og hindra þannig niðurbrot þess. Á hormónastarfsemina hefur mataræðið mikil áhrif og getur hún ekki orðið góð nema með réttu mataræði, sem sést af því að það má laga margar tíðatruflanir kvenna með réttu mataræði og réttum fitusýrum.
Lifnaðarhættir
Talið er sannað að breytingaskeið kvenna sem reykja, byrji að jafnaði fimm árum fyrr en hjá þeim sem ekki reykja. Það bendir til þess að reykingar minnki estrogen hormónið í líkamanum. Reykingar geta líka haft áhrif á magasýrur, ef við höfum litlar magasýrur nýtum við steinefni illa s.s. kalk, magnesíum, sink og járn. Þess vegna er nauðsyn að hafa magasýrurnar í lagi. Þegar við erum komin yfir fertugt/fimmtugt dregur úr magasýrum hjá fólki. En reykingar valda víðar skaða t.d. eyða þær C-vítamíni úr líkamanum. Talið er að það þurfi 25 til 40 milligröm af C-vítamíni til að bæta líkamanum upp skaðann sem ein sígaretta veldur.
Áfengi
Talið er að áfengi skaði beinin ef drukkið er of mikið. Þá er spurningin hvenær er drukkið of mikið. Ég tel að eitt til tvö rauðvínsglös á dag skaði ekki beinin, en sé drukkið mikið umfram það getur það haft áhrif á lifrina og starfsemi hennar við myndun D-vítamíns. Áfengi hefur líka áhrif á maga og meltingarvökva.
Kaffi
Kaffi er einn stærsti beinaþjófur sem um getur. Það bindur kalk, magnesíum og járn og skolar þeim út, það má mæla það í þvaginu á eftir. Neysla eins lítra af kaffi á dag skolar út um 60 mg af kalki. Til þess að bæta skaðann og vega upp á móti því þarf að taka inn 250 mg af kalki. Ekki ætti að drekka meira en 1 til 2 bolla af kaffi á dag og ef það er gert ætti aðeins að nota gott kaffi lífrænt ræktað.
Hreyfing
Rannsóknir sýna það að hreyfing er mjög nauðsynleg og þörf er hálftíma hreyfingar á dag. Helst hreyfingu sem eflir mótstöðu eins og hlaup, hopp, tennis eða göngur, svo eitthvað sé nefnt.
Lyf
Vitað er að ýmis lyf eru þekkt fyrir að eyða beinum, þar má nefna stera og ál. Það á við um ál hvort sem það er þungamálmur eða í sýrueyðandi lyfjum.
Mataræði
Það fer eftir meltingu hvers og eins hve góð upptakan og nýtingin er á þeirri næringu sem við neytum. Ég ætla að gefa hér nokkur almenn ráð um mataræði: Best er að takmarka eggjahvítu í fæðu, í hinum vestræna heimi borðum við alltof mikið af eggjahvítu. Í eggjahvítu er mikill fosfór en ef hlutfall eggjahvítu í daglegu fæði fer yfir 10% veldur það ójafnvægi milli kalks, magnesíums og fosfórs. En rétt hlutföll af þessum efnum eru nauðsynlegt til að þau nýtist. T.d. má ekki vera of mikið af kalki, þá skolast magnesíum út. Ef við borðum of mikið af eggjahvítu verður blóðið súrt, sem veldur því að líkaminn sækir lútinn í kalkið sem er í beinunum. Gott er að borða heilkorn, baunir og sojavörur, t.d. sojamjólk og tofu.
Í verkefni okkar drukku konurnar sojamjólk í staðinn fyrir kúamjólk. Sojamjólk er rík af magnesíum, fjölómettuðum fitusýrum og svo inniheldur hún jurtaestrógen, sem eru talin hafa mjög jákvæð áhrif á hormónastarfsemi kvenna. Best er að fitan í fæðinu fari ekki upp fyrir 20%. Almennt er talið að fita í fæði hér og Danmörku sé um 38 til 40%. Einnig þarf að leggja áherslu á að þessi 20% komi frekar úr kaldhreinsuðum jurtaolíum en úr dýrafitu. Ég bendi á ólífuolíu, þistilolíu og að borða feitan fisk, helst daglega t.d. síld, lax, lúðu, steinbít og aðra feita fiska. En borða magurt kjöt, takmarka neyslu mjólkurafurða, í mesta lagi hálfan lítra á dag. Þar er innifalið ostar, jógurt og kúamjólk. Það er mjög erfitt að nýta kalk úr ostum sérstaklega ef þeir eru feitir. Takmarka neyslu á unnum sykri og takmarka allan mat sem sykur er í þ. á. m. gosdrykki, sem er mikill beinaþjófur því að gos/kóka kóla inniheldur mikið magn af ólífrænum fosfór, sem bindur kalk og önnur steinefni. Einnig á að forðast dósamat og mikið unninn mat.
Mikilvæg fæðubótarefni
Þýðingarmestu vítamínin, steinefnin og snefilefnin fyrir beinauppbyggingu eru kalk, magnesíum og kísill, (kalsíum carbonat nýtum við ekki vel, en kalsíum sítrat er það besta sem ég hef reynslu af) Snefilefnið bór er mikið notað í uppbyggingu beina. Það hjálpar við myndun D-vítamíns í húðinni og er talið virkja hið náttúrulega estrógen. Sink er mikilvægt fyrir kollagenið. Vítamín A og vítamín B-6 sem er mjög mikilvægt við upptöku og nýtingu magnesíums, B-9 fólinsýra og B-12, C-vítamín, D-vítamín og K-vítamín.
Jurtir
Vallhumall, lakkrísrót, elfting.
Hörfræ er ríkt af ómega-3 fitusýrum og plöntu estrogenum en nýtist aðeins séu þau fínt möluð og borðuð strax.
Rannsóknir sýna það að hreyfing er mjög nauðsynleg og þörf er á hálftíma hreyfingar á dag.
Spurningar úr sal
Hvert er rétt hlutfall kalks og magnesíums?
Í flestum tilfellum má reikna með að þörf hvers og eins sé tveir hlutar kalks og einn hluti magnesíums. En það er alls ekki einhlítt. Því er eins farið og með öll önnur bætiefni, þörf okkar er bundin upptöku og nýtingu efnanna í líkamanum. Það er mikið af magnesíum í heilum höfrum, en örlítið af kalki. Margt fólk vantar magnesíum. Skortur getur komið fram í mörgu, t.d. í veilum vöðvum. og streitu. Ég róa marga með því að gefa þeim stóra skammta af magnesíum, en það er gott að taka það inn á kvöldin, fólk sefur vel af því og slappar af. Einnig getur það komið í veg fyrir krampa og sinadrátt í fótum, hjartsláttartruflanir og gall- og nýrnasteinamyndun. Dagleg þörf af magnesíum getur farið í 400 til 500 mg á dag. Ef tekið er of mikið af magnesíum kemur það fram í linum hægðum eða niðurgangi.
Spurningar úr sal
Hvernig var fæði kvennanna í rannsókninni?
Það var ríkt af steinefnum, lítið af eggjahvítu, mjög lítið af kjöti, allar konurnar notuðu sojamjólk og allar tóku auka fæðubótarefni t.d.: kalk, magnesíum, bór og fitusýrur. Svo var sérstakt hreyfingar-prógram. Þó að rannsóknin og verkefnið væri smátt í sniðum, var stórkostlegt að sjá að það er hægt að byggja upp bein þó að beinþynning sé byrjuð. Ástæða þess hve hreyfing er mikilvæg varðandi beingæði er sú að það er blóðrás í beinvefnum sem fer í gegn um afar fínar æðar. Þess vegna þarf mikla hreyfingu hjartans til að koma því í gegn um þær. Í þessum æðum getur líka orðið of mikill þrýstingur (of hár blóðþrýstingur) og ef það gerist koma beinæturnar og éta sig í gegn, eins og ormar í gegnum við, til að hleypa blóðinu áfram.
Hvað eiga þeir að borða sem hafa óþol fyrir soja?
Þeir gætu lagt meiri áherslu á grænkál. Það er mikið af magnesíum í grænkáli. Í dökkgrænu káli er fólinsýra og B-6 vítamín sem auðveldar upptöku líkamans á magnesíum.
Hefur þú séð einhverja evrópska rannsókn sem sannar það að tvö glös af mjólk á dag fyrirbyggi beinþynningu?
Nei. En ég hef aftur á móti lesið um rannsókn sem segir frá því að 2000 mg af kalki teknu einu sér án magnesíums valdi beinþynningu.
Er eitthvað hæft í því að það megi þekkja úr þjóðir sem neyta mikillar mjólkur vegna lakari beina en þeirra sem ekki gera þaði?
Já. Það er vegna of mikils kalks og of mikils fosfór. Fyrir 10 til 20 árum fór fram rannsókn í Mexikó á beinbúskap hjá fjölda fólks. Annar hópurinn drakk aldrei mjólk hinn hópurinn notaði mikla mjólk. Rannsóknin leiddi í ljós að þeir höfðu betri bein sem aldrei neyttu mjólkur. Það er misskilningur og mikil fásinna þegar ráðlagt er að drekka kúamjólk eina sér til að auka kalkforða líkamans. Vissulega fáum við kalk inn í kroppinn við mjólkurneyslu en vandinn er sá að til þess að við nýtum kalkið þurfum við að hafa önnur steinefni líka í réttu hlutfalli við kalkið eins og áður er getið. En það er ekkert magnesíum í kúamjólk og vegna þess hve nútíma mataræði er snautt af magnesíum fáum við það ekki heldur úr matnum. Þessi áróður fyrir mjólkurdrykkju til að fyrirbyggja beinþynningu er afar röng.
Til viðbótar því að magnesíum vanti í mjólk inniheldur hún mikið af eggjahvítu, sem veldur því að blóðið í okkur verður of súrt og ph-gildi þess verður of hátt.
Líkaminn er snilldarlega útbúinn og hann hefur hæfileika til að bæta sér þetta upp með því að stela kalki úr beinunum. Þannig eykst beinþynningin við mjólkurneyslu vegna þess hve eggjahvítan er mikil og önnur steinefni vantar til að skapa jafnvægi.
Kynning á fyrirlesara:
Þorbjörg Hafsteinsdóttir er hjúkrunarfræðingur, heilsu og næringarráðgjafi menntuð í Danmörku og starfar í Danmörku við ráðgjöf um næringu, bætiefni, jurtir og hómeópatíu. Hún vinnur á stofu með fjórum öðrum er starfa að kjörlækningum þ.e. lækni, liðfræðingi (ostiopat), kínverskum grasa- og nálastungulækni, og svæðanuddara. Þau vinna saman að úrlausnum þeirra sem til þeirra koma og fá álit hvers annars um úrlausnir. Þorbjörg kennir einnig heilsufræði í fóstruskóla og er heilbrigðisfulltrúi í Kaupmannahöfn en í því starfi felst að fara á vinnustaði og veita fræðslu um heilbrigðismál.
Flokkar:Næring