Undirmeðvitundin

Undirmeðvitundin er sögð vera það sem gerist innra með okkur á sviði hugar eða hefur ómeðvituð áhrif á hugsun, líðan og hegðun okkar. Vísindin hafa sýnt okkur að vöðvar og vefir líkamans hafa minni þannig að líkamleg og andleg áföll, sterkar tilfinningar og hugsanir skilja eftir sig ómeðvitaða minningu í líkama okkar. Því er í raun ekki hægt að aðgreina líkamlega, huglæga- eða tilfinningalega þætti okkar hvorn frá öðrum. Það er fróðlegt að minnast þess að austræn heimspeki og viðhorf hafa vitað þetta frá örófi alda.

En skiptir þetta okkur einhverju máli í daglegu lífi?

Upplifanir okkar geta skilið eftir sig ómeðvitaða hræðslu, ranghugmyndir og ósjálfráð viðbrögð við annars saklausum atburðum. Skýr dæmi um þetta finnast meðal barna með lærdóms- og hegðunar vandamál (t.d. ADHD). Ef þeim gengur t.d. illa að lesa draga þau oft ómeðvitaðar ályktanir af þeirri reynslu. Dæmi um algengar ályktanir eru: „Ég get ekki lesið“, „ég er aumingi“, „ég veld öllum vonbrigðum því ég get ekki lesið“ o.fl. Ef þau reyna að lesa birtast oft neikvæð viðbrögð sem eru alveg ómeðvituð og geta auðveldlega þróast yfir í neikvæð hegðunarmynstur. Tilfinningar og hugmyndir okkar og þær ályktanir sem hugurinn dregur eru oft ekki rökréttar. Samt sitja þær pikkfastar í undirmeðvitund þessara barna og lita tilvist þeirra og líðan.

Reynsla mín af svona ómeðvituðum mynstrum hjá skjólstæðingum mínum hefur verið sláandi. Við erum öll bókstaflega stútfull af þessum ómeðvituðu hegðunarmynstrum og ályktunum sem stjórna mörgu í fari okkar og líðan. Ekki bara sem börn heldur alla ævi. Mörg eru ekki jákvæð viðbót í lífi okkar vegna þess að þau stjórna okkur og við vitum oftast ekkert af því.

En þessu má öllu breyta. Aðferðirnar sem við höfum lært og þróað finna og eyða eða breyta svona mynstrum í jákvæðar andhverfur sínar og gefa okkur meiri styrk og stjórn á lífi okkar. Það að geta höndlað reiði, kvíða, óöryggi eða erfiðar aðstæður á jákvæðan og uppbyggilegan hátt eða geta tjáð sig og verið samkvæmur sjálfum sér án ótta breytir lífi okkar á djúpstæðan hátt. Fyrir marga verður þetta andleg vakning.

Áhrif þessarar vinnu á líkamlega líðan geta einnig verið mikil. Flestallt sem hrjáir okkur líkamlega á sér endurspeglun í huga og tilfinningum. Líkamlegir verkir og veikindi versna þegar ómeðvitaðar ályktanir, tilfinningar og hugmyndir varðandi ástand okkar og umheiminn bætast við. Í þessu felst munurinn á verkjum og þjáningu. Austræn speki segir okkur að „verkir geta verið óhjákvæmilegir en þjáning er það ekki“.

Hvert sem vandamál okkar er þurfum við ekki að vera fórnarlömb aðstæðna eða fortíðarinnar ef við viljum það ekki. Í Ljósgarði erum við með einkatíma og námskeið í aðferðum okkar. Við bjóðum líka uppá alhliða meðferðir eins og austrænar náttúru- og orkulækningar, nálastungur og ýmislegt fleira.

Með kveðju,  Einar Gröndal, O.B.T., M.Sci., L.Ac.  og Guðrún Guðmundsdóttir, H.H.P.

Símar: 863-2302 og 552-2302  Netf.: einargudrun@gmail.com Heims: ljosgardur.com

Slóðir á tvær greinar áður birtar:

Tilfinningar og veikindi:  https://heilsuhringurinn.is/2015/10/17/tilfinningar-og-veikindi/

Hjartaveggurinn:  https://heilsuhringurinn.is/2015/11/17/hjartaveggurinn/Flokkar:Hugur og sál

Flokkar/Tögg, , ,

%d bloggers like this: