Erindi sem flutt var á haustfundi Heilsuhringsins árið 1998 á við enn í dag
Málefnið sem ég æla að fjalla lauslega um hér í kvöld – ykkur til umhugsunar – kann að hljóma eins og öfugmælavísa fyrir venjulegan akademískan borgara, sem trúir á það að tækniframfarir nútímans leiði ávallt og sjálfkrafa til bætts og betri heims. En því miður – eins og við öll vitum sem erum reynslunni ríkari – er raunin önnur þegar betur er að gáð Það þýðir þó ekki að tæknin sé slæm í sjálfu sér – aðeins að við sjálf og menning okkar erum ekki nógu siðferðislega þroskuð til þess að umgangast hana.
Framfarir
Eins og við öll vitum hafa á síðustu eitthundrað árum orðið stórstígar framfarir á flestum þeim sviðum mannlegs lífs sem unnt er að lagfæra með tækninni. Við sem erum yfir hálfrar aldar gömul höfum samanburðinn á tímunum tvennum. Til dæmis þeim tíma þegar Ísland var bæði langt í burtu frá Evrópu og Ameríku – sem sagt einangrað land – en er nú á hinn bóginn orðið næsti nágranni beggja landssvæða. Þetta byggist á hreinu tækniundri fjarskipta og æ hraðvirkari flutningum. Og það eru m.a. hlutir eins og þetta sem sannfæra okkur um það að við stefnum á öllum sviðum í rétta átt: Allt virðist vera að verða betra og betra í sífellt betri heimi.
Hinn vel upplýsti markaður?
Almennt séð erum það ávallt við sjálf sem höfum peningalegt eftirlit með þróun allrar nýrrar tækni. Og meðan svo er segjum við sem svo: Það þýðir ekkert að bjóða okkur neina vitleysu – alveg sama hversu mikið skrum sé lagt í það að gylla eitthvað nýtt fyrir okkur – sem er að okkar áliti tóm vitleysa. Með öðrum orðum höfum við tilhneigingu til þess að álíta að við séum hinn VEL UPPLÝSTI MARKADUR !
En það eru samt til nokkur svið tækninnar sem eru það flókin að við verðum að treysta öðrum fyrir þeim og þar með fyrir öllum nýjungunum í sambandi við þær! T.d. menntuðu fólki sem við göngum þá í trúnaðarsamband við – með hagsmuni okkar á viðkomandi sviði fyrir augum. Eitt slíkt svið er læknisfræðin. Á því sviði erum við EKKI lengur og í æ minna máli hinn upplýsti markaður – alveg sama hvað við annars reynum að telja okkur trú um.
Til skamms tíma var læknisfræðin einfaldlega mannleg viðhaldsþjónusta, án mikillar tækni eða flókinnar lyfjaframleiðslu. Satt er það að mörg mannslífin töpuðust fyrir læknisfræði fyrri tíma. Það átti auðvitað sérstaklega við um fæðingardauða barna sem lengi vel hélt meðalaldri fólks niðri. Tæknibyltingin hélt síðan innreið sína í læknisfræðina eins og á öðrum sviðum, einkum frá og með tímabilinu eftir fyrri heimsstyrjöldina. Margt í þeirri þróun varð til bóta, t.d. þegar læknar gátu loks upplýst fólk um kosti hreinlætis fyrir heilsuna – og jafnvel hollrar fæðu. En hin hliðin þróun læknisfræðinnar – akademísku læknisfræðinnar – er þó sú að sérfræðiþekking læknanna varð æ flóknari og ógegnsærri fyrir almenning.
Gróðasjónarmið
Böggull fylgdi þar skammrifi, því það fylgdi þessari þróun að nýja læknisfræðitæknin varð grunnurinn að risavöxnum hagsmuna- og viðskiptaþáttum fjársterkra aðila sem fóru að græða stórfé á henni á alþjóðamarkaði. Þetta gátu þeir þó ekki gert nema í samvinnu við læknana og eftir leiðum vísindanna. En þar sem gífurlega mikið fé þarf til rannsókna af þessu tagi þá varð niðurstaða þessarar samvinnu fljótlega sú að peningar fengust fyrst og fremst í þann geira læknistækninnar sem lyfjarisarnir högnuðust beint á.
Önnur svið sem ekki eru þó minna þýðingarmikil fyrir heilsu manna urðu hins vegar afskipt. Það er og rétt að allar vestrænar þjóðir komu sér upp eftirlitsstofnunum til þess að stjórna þessum risum, því að allir vissu að þeir störfuðu eingöngu eftir lögmálum gróðans. En a.m.k. í Bandaríkjunum er það ljóst að eftirlitsstofnun þeirra á þessu sviði er nú komin undir stjórn lyfjarisanna sem þar eiga að hafa eftirlit með. Um það liggur fyrir niðurstaða rannsóknarstofnunar um þróun vísindanna frá Bretlandi. Illu heilli þýddu hagsmunir þessara aðila einfaldlega það að því fleiri og illvígari sem sjúkdómar mannkynsins urðu – og það urðu þeir sannarlega þrátt fyrir nýja tækni – þeim mun meiri varð velta og gróði risafyrirtækjanna. Eftir þessu lögmáli er unnið enn í dag.
Einkennileg samblanda
En einhvers staðar fór sem sagt eitthvað verulega úrskeiðis í þessari þróun fyrir hagsmuni almennings, því hún er nú orðin einkennilegt sambland af hagsmunagæslu og heiðarlegri vísindamennsku. Enn er ekki fyrirsjáanlegt hvernig þessi þróun endar. En það má vera augljóst að slóð mannlegra mistaka á sviði meðhöndlunar sjúklinga er bein afleiðing af þessari óheillaþróun. Því miður verða menn enn að sætta sig við hana vegna viðurkenningar – eða gæðastimpils læknavísindanna á henni – þrátt fyrir alla annmarkana. Sem dæmi um það eru aukaverkanir lyfja sem eru taldar sjálfsagðar í dag, en eru í raun talandi dæmi um lánleysi þessara svokölluðu lyfjavísinda.
Ísland er afskipt
Erlendis eru þó sem betur fer til margir heiðarlegir og hugdjarfir læknar sem hafa skrifað fjölmörg ritverk um eðli þessarar slæmu þróunar. Því miður hafa aðeins fáar af þeim bókum verið þýddar á okkar tungumál og á meðan svo er erum við síst vestrænna þjóða til þess fallin að mynda okkur raunsanna mynd af þessum málum. Þessir læknar vara okkur við þróuninni af eftirfarandi ástæðum:
1. Peningahyggjan – í mynd risafyrirtækjanna
stjórnar í dag ekki aðeins þeim eftirlitsstofnunum sem voldug vestræn ríki settu á stofn og áttu að hafa eftirlit með risunum sjálfum, heldur fjármagna þau einnig hina sífellt dýrari kennslu við læknisfræðideildir háskólanna. Þar með stjórni peningahyggjan algerlega hvar og hvernig læknisfræðin leitar nú svara við meinum almennings, en þó með þeim mun að þeir gera þetta vegna sinna eigin hagsmuna en ekki hagsmuna sjúklinganna.
2. Úthreinsun læknismeðferða.
Ýmsum nýjum læknismeðferðum hefur verið komið fyrir kattarnef vegna hagsmuna fjölþjóðarisanna, en ekki vegna þess að þær virki ekki. Læknismeðferðum sem jafnvel benda á algerlega nýjan og nauðsynlegan grunnskilning á eðli mannslíkamans og innri starfsemi minnstu eininga hans.
Ævisögur læknisins Royal Rife og vísindamannsins Gaston Naessen eru nægileg áminning til okkar um það.
3. Allópatískar áherslur.
Áhersla hafi verið lögð á það að útrýma notkun allra annarra læknismeðferða en allópatískra meðferða – ekki vegna þess að þær dugi ekki til lækninga heldur eingöngu vegna samsulls hagsmuna: Samblandi af hreintrúarstefnu hreintrúarstefnu háskólanna og gróðrarhyggju lyfja- og læknistækni- fjölþjóðarisanna. Sú áhersla er ekki í hag hins almenna borgara sem er í góðri trú og jafnframt illa upplýstur um að öll þessi þróun stefni í rétta átt. Við þekkjum líka þuluna hér um kukl og skottulækningar.
4. Takmarkað aðgengi að fæðubótarefnum.
Auðhringirnir að baki læknisfræðinnar eru nú með áætlanir uppi um að gera aðgengi að eðlilegum og nauðsynlegum fæðubótar-og náttúruefnum mun erfiðara og jafnframt að telja fólki trú um að það þurfi ekki á þessum efnum að halda nema í mjög litlu mæli. Þetta er gert með aðstoð fjölþjóðasamninga og fjölþjóðastofnana sem fjármagnsrisarnir stjórna nú einnig ljóst eða leynt í krafti fjármagnsins.
Það er þess vegna full ástæða til þess að upplýsa íslenskan almenning mun betur um stöðu sina gagnvart þessari þróun, þannig að eðlileg lýðræðisþróun geti átt sér stað: þ.e. að almenningur þrýsti loks á stjórnvöld um umbætur á þessu sviði.
Hér á eftir mun ég greina frá nýlegu dæmi frá Þýskalandi sem tengist þessari þróun.
Hvað kemur í staðinn fyrir neytandann?
En hvað er það svo sem ætti að koma í staðinn fyrir þessa þróun innan læknisfræðinnar? Hvað er það sem dugar betur til lækninga á hinum ýmsu sjúkdómum nútímans en þessi óheppilega hagsmunaþróun sem lýst hefur verið? Hér á landi starfa samtökin Heilsuhringurinn sem hafa það að markmiði að kynna nýjar og gamlar leiðir til þess að lækna mannleg mein. Það yrði raunar of langt mál að telja þær upp allar hér.
Heilsuhringurinn hefur sannarlega ekki heldur hafnað öllum þáttum nútímalækninga allópatískra lækninga – heldur valið þær úr sem uppfinningamenn á sviði læknisfræði hafa getað komið á framfæri, en fæstar þeirra hafa raunar náð að festa sig í sessi vegna hagsmunahindrana og jafnvel hreinnar uppgjafar læknastéttarinnar. En slík uppgjöf lýsir sér helst í vélrænni meðhöndlun á sjúklingum á nokkrum sviðum hennar, sem allir vita þó að dugar skammt til lækninga og er aðeins framlenging á lífi fólks um nokkrar vikur en ekki lækning í raun.
Vafasamar krabbameinslækningar
Gott dæmi um þetta síðastnefnda eru svokallaðar krabbameinslækningar. Grunnur þeirra hérlendis byggist að mestu leyti á bandarískum aðferðum og aðstæðum. Innanlandshagsmunir Bandaríkjamanna hafa mótað þetta svið um of og þar hafa því miður ekkert lengur með læknisfræði eða björgun mannslífa að gera. Við Íslendingar ættum ekki að þurfa að beygja okkur undir þá ókunnu hagsmuni sem koma okkur ekkert við.
Ég skal skýra þetta nánar: Bandarísk lög banna t.d. notkun á krabbameinslækningum Gaston Naessens (hann starfar í Kanada), undir því yfirskyni að verið sé að vernda hagsmuni bandarískra borgara. Hvað gerist svo ef bandarískur borgari fer til Kanada og fær lækningu á krabbameini þar? Það hefur gerst að maður sem fylgdi sjúklingum frá Bandaríkjunum til Kanada (fólki sem fékk fulla lækningu) var dæmdur í margra ára fangelsi í Bandaríkjunum fyrir að koma þannig lækningu í kring. Er þetta kerfið sem við viljum nota hér á Íslandi?
Það má einnig spyrja: Hvers vegna er ekki unnt að gera einfalda læknisfræðilega tilraun og reyna krabbameins-læknismeðferð Naessens hér undir eftirliti lækna? Aðferð sem milli fjögur og sex hundruð kanadískir læknar nota árlega með mjög góðum árangri? Meðferð sem þar að auki er ódýr! Það er fullvissa mín að verði það gert hér vildi margur þá Lilju kveðið hafa.
Lækningar framtíðarinnar
Persónulega er ég þeirrar skoðunar – eftir nána skoðun allra þessara mála -að lækningar framtíðarinnar verði ekki framkvæmdar með aukaverkana-lyfjum (hinna myrku miðalda) nútímans á sviði þekkingarstjórnunar, heldur muni þær byggjast á þeim eðlisþáttum mannslíkamans sem geta með okkar eigin aðstoð hrint sjálflækningarkerfi líkamans af stað. Þetta getur átt sér stað með fyrirbyggjandi hætti: Með vali á réttu umhverfi og réttri fæðu; með fjölhliða hreinsun líkamskerfanna; inntöku á óskaðlegum efnum úr náttúrunni sem og með tíðnibreytingum fruma líkamans gegnum tækni á sviði rafsegulfræði og ljósfræði.
En þó að grunnurinn að þessum nýju kenningum hafi þegar verið lagður af vísindamönnum – þeim sem fá birtar þessar niðurstöður sínar í ritum frá ,,Frontiers of Science“ við Temple hráskólann í Fíladelfíu – þá erum við enn að taka fyrstu skrefin á nýrri braut. En mjór er mikils vísir.
Fréttir frá Þýskalandi
En nú vil ég að lokum snúa mér að nýjustu fréttum frá Þýskalandi á sviði læknisfræðinnar. Þær benda til þess að upplýsingastreymi til almennings á þessu nýja sviði læknisfræðinnar sem lyfjarisarnir hatast út í muni sannarlega ekki aukast á næstunni. Að þessi umrædda stöðnun heimsmyndar læknavísindanna sé ekki á undanhaldi. Maður að nafni Matthias Rath er starfandi læknir í Þýskalandi. Hann er mjög þekktur þar í landi fyrir klínískar rannsóknir sínar á vítamínum. Árið 1990 voru birtar niðurstöður rannsókna hans og dr. Linus Pauling, sem nú er láinn, eftir nokkurra ára samstarf þeirra. Í mjög stuttu máli voru niðurstöðurnar þær að hjarta- og æðasjúkdómar af hvaða tagi sem er, ættu í grunnatriðum rót sína að rekja til langtímaskorts á vítamínum þ.á.m. C-vítamíni. Þar er átt við áratuga skort. Þessu voru gerð mjög góð skil í fjölmiðlum í Þýskalandi á sínum tíma. Ekki síst vegna þess að þessir sjúkdómar eru ein algengasta dánarorsökin á Vesturlöndum og öðrum tæknimenningarsvæðum jarðarinnar í dag.
En nú brá svo við að aðeins fáum dögum eftir a uppgötvun Dr. Rath var gerð kunn í þýska sjónvarpinu og sagt frá þessum klínísku sönnunum um náttúrlega umbreytingu æðasjúkdóma til hins betra við vítamín inntöku, að einmitt þá var gerð fyrsta lagabreyting á þýsku læknisfræðilögunum frá upphafi setningar þeirra. Það var Helmut Kohl sjálfur sem kom þessum lögum í gegn. Um þetta geta menn lesið á heimasíðu þýsku ríkisstjórnarinnar á alnetinu. Lagabreytingin tók gildi stuttu eftir að milljónir Þjóðverja höfðu í fyrsta sinn heyrt að aukin og nauðsynleg inntaka á C-vítamíni getur að verulegu leyti komið í veg fyrir algengustu hjartasjúkdóma. Þetta voru lög sem hindra og banna að útfæra þetta framlag til heilbrigðismála.
Þrátt fyrir að gera sér fulla grein fyrir afleiðingunum tryggði Helmut Kohl þar með áframhald á hjarta- og æðasjúkdómunum fólks. Í Þýskalandi og raunar víðar og áframhaldandi sölu á gervilyfjum við hjartasjúkdómum. Með þessum gjörningi sínum setti hann af ásetningi og á illskeyttan hátt líf og heilsu milljóna manna í Þýskalandi og annars staðar í hættu. Segir dr. Rath.
Umræddur læknir hefur nú í hyggju að kæra þessa meðferð nýrrar vísindaniðurstöðu til Alþjóðadómstólsins í Haag eða annarra dómstóla sem málið varða, enda sé líf og heilsa almennings hér í veði. En svo vill þó til að aðeins ríki geta kært til dómstólsins í Haag. Hann hefur sent frá sér mikið plagg um þetta mál allt sem er nú búið að þýða á íslensku og hefur það verið á ferðinni á alnetinu milli ýmissa áhugamannahópa.
Hér er ekki allt með felldu!!
Niðurstaða þessa máls míns er sú að það sé ekki lengur allt með felldu í heimsmynd læknisfræðinnar. Á meðan geysimiklar framfarir hafa orðið á sviði skurðlækninga og í almennu viðhaldi á mannslíkamanum – t.d. eftir slys -þá hefur lyfja-iðnaðurinn slíkt kverkatak á þróunarleiðum almennrar allópatískrar læknisfræði að í algert óefni er komið.
Á næstu árum þarf því að upplýsa almenning mikið betur um öll þessi mál og það er raunar mikill blettur á íslenskri fréttamennsku hve lítið hefur verið fjallað um undirstöður og þróun læknavísindanna hér á landi. En aftur á móti er viðhaldið blindri trú á það að allt sé rétt og satt sem sérfræðingar á því sviði halda að almenningi. því miður er ekki svo lengur.
Íslenskur almenningur er því EKKI HINN UPPLÝSTI MARKADUR heldur er þvert móti mjög illa í stakk búinn til þess að geta fengið rétta yfirsýn yfir þessi mál. Það getur t.d. skýrt þá fjöldasefjun sem hefur riðið yfir þetta land undir kjörorðinu: Heimflutt þekking og íslensk erfðagreining. Á bak við margs konar fullyrðingar þar eru mjög litlar réttmætar staðreyndir en hins vegar mikill peningafnykur.
Höfundur: Einar Þorsteinn Ásgeirsson hönnuður erindið var birt í Heilsuhringnum árið 1998.